Vanhæf þjóð?

gaFyrir örfáum árum vorum við með Búsáhaldabyltingu þar sem íslensk þjóð, sem seinþreytt er til vandræða, barði potta og pönnur af því að henni fannst nóg komið. Aðalslagorð þeirrar byltingar var “Vanhæf ríkisstjórn!” Hrökklaðist sú stjórn frá þegar ekki var lengur vært í þinghúsinu og stólarnir orðnir óþægilega heitir.

Í kjölfar þessa fengum við aðra fjórflokksstjórn, sú hneygðist til vinstri sem þótti ávísun á að nú yrði hugsað um almenning í landinu og hann settur í forgang. Ekki varð landanum að þeirri ósk sinni þar og skjaldborgin sem boðuð var um heimilin lét á sér standa. Á meðan missti almenningur eignir sínar í hendur bankanna og gerðist í stórum stíl í kjölfarið efnahagslegir flóttamenn í Skandinavíu.

Endurreisnin svokallaða gekk heldur hægt og þar sem Íslendingar eru ekki með þolinmóðari þjóðum var megn óánægja með þessa stjórn líka. Endaði vinstristjórnin á að verða síst hæfari í augum almennings en sú sem hann hafði losað sig við áður. Til að bíta höfuðið af skömminni guggnaði hún svo á að koma nýrri stjórnarskrá í gegn. En hafði hún verið unnin með aðkomu hins almenna borgara í bland við sérfræðinga, og var þjóðin þar með svikin um langþráðar lýðræðisumbætur.

Víkur þá sögunni að síðustu kosningum. Fram á sjónarsviðið steig Framsóknarflokkurinn með nýjan formann í fararbroddi. Sá sagðist skilja vanda almennings og hafði þungar áhyggjur af þeim byrðum sem honum hefði verið gert að axla. Boðaði formaðurinn að nú skyldi haldið í víking á hendur vondum útlendingum sem kallaðir væru hrægammar. Með því að láta þeim blæða skyldi gert myndarlega við heimilin með svokallaðri skuldaleiðréttingu. Einnig myndu finnast peningar til að endurreisa heilbrigðiskerfið og annað sem hafði verið látið dánkast.

Almenningur að sjálfsögðu tók þessu fagnandi og taldi að þarna væri fram kominn leiðtoginn mikli sem væri treystandi fyrir hag sínum. Einnig hafði Sjálfstæðisflokkurinn fundið sér Engeyjing til að halda um stjórnvölinn þar á bæ, og voru loforð þeirra síst minna heillandi.

Einhverjir voru samt svo óskammfeilnir að kokgleypa þetta ekki og spruttu nú upp allskonar flokkar ósáttra kjósenda. Einn slíkur flokkur nefndist Píratar og höfðu “húsmæður í Vesturbænum” fyrir satt að þeir vildu helst stela menningarefni af internetinu á meðan þeir reyktu hass.

Ekki voru þó allir sammála þessu og þó að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur ynnu sætan sigur. Aðallega sökum þess að aðþrengdur almenningur var orðin langeygur eftir betri tíð, þá voru nokkrir sem greiddu Pírötum atkvæði sitt. Fengu þeir þrjá þingmenn kjörna, sem hafa verið hinu vanheilaga bandalagi helmingaskiptaflokkanna til óþurftar alla tíð síðan.

Eftir að hafa gætt sér á ýmsu góðmeti uppi í sveit gengu helmingaskiptaflokkarnir enn eina ferðina í eina sæng og mynduðu stjórn. Eitthvað stóð nú á efndum loforðanna, enda pizzupantanir meira mál en formaður Framsóknarflokksins hafði haldið, og leiðréttingin mikla varð heldur aum í flestum tilfellum – fyrir utan að ekki er séð fyrir endann á því hver borgar fyrir hana. Endurreisn heilbrigðiskerfisins gengur nú svona og svona, en kostnaðarvitund almennings er allavega í lagi þar sem hann borgar nútildags himinháar upphæðir fyrir að greinast með alvarlega sjúkdóma, og er því steinhættur að leika sér að slíku á kostnað ríkisins.

Nú erum við komin í seinni hálfleik kjörtímabilsins – og hér gerast undur og stórmerki!
Kári Stefánsson sem er áhugamaður um heilsufar almennings, hafði þungar áhyggjur af því að þrátt fyrir allan fagurgalann væri heilbrigðiskerfið samt sem áður ekki alveg að gera sig. Blés hann því til undirskriftasöfnunar til að fá úr því bætt og virðist hinn almenni borgari vera á sama máli og Kári, eða rétt um 85 þúsund þeirra.Telst það saga til næsta bæjar að svo margir Íslendingar séu sammála um nokkurn hlut!

Víkur nú sögunni til suðurhafa og þá sér í lagi eyjunnar Tortóla – ku sú eyja vera algjör paradís – en ótrúlegt en satt þá er það ekki sökum góðviðris né landgæða heldur skattalaga.

Alræmd kona nokkur, kölluð Gróa á Leiti hafði verið þar í heimsókn og rekist á svokallað aflandsfélag, sem við nánari eftirgrennslan reyndist tilheyra Framsóknarformanninum og hans ektakvinnu, sem þegar hér er komið sögu eru orðin bændur austur á landi í hjáverkum.
Formaðurinn varðist vasklega og benti á að hér væri allt í sómanum og engin undanbrögð á ferðinni, en kjósendur fóru að hugsa sinn gang. Sumir jafnvel gengu svo langt að vilja hrekja formanninn frá völdum og hafa nú yfir tæplega 14.000 manns lýst sig sammála því.

Gróa á nokkrar frænkur jafn forvitnar og þegar þetta spurðist út fóru þær á stjá og fundu slík félög út um allar koppagrundir bæði í Evrópu og í Indlandshafi. Þessi félög eru sögð í eigu ráðherra og annarra fyrirmanna sem að eigin sögn kannast bara ekki við neitt. Sannast hér hið fornkveðna að hægri hendin veit ekki hvað sú vinstri gerir. Milljónirnar virðast bara hafa tekið sig upp og lagst í útrás upp á sitt eindæmi án vitneskju eigendanna. Það er í það minnsta alveg greinilegt að þessu fé vantar hirði, það er allavega ekki á færi ráðherra sem sýsla með fjármál og dómsmál fyrir hönd almennings að hafa yfirlit yfir svona.

Þó að Jóhannes “útskýrari” hafir verið í yfirvinnu við að leiðrétta misskiling amennings á orðum formannsins, þá hefur sami almenningur farið að líta í kringum sig. Hafa sjónir hans í æ ríkari mæli beinst að Pírötunum þremur á þingi og félögum þeirra. Píratar hafa lagst í standhögg og herjað á hylli almennra kjósenda með góðum árangri. Þeir hafa líka reynst hafa stefnur í ýmsum málum öðrum en hassreykingum þegar vel var að gáð.

Nú er svo komið að hið virðulega Alþingi kemur aftur saman 4. Apríl, eftir að hafa eytt páskafríinu í súkkulaðiát og annað sukk. Þá fer að reyna á blessaða þjóðina enn og aftur. Boðað hefur verið til mótmæla og standa vonir til að almenningur sé búin að fá nóg af siðleysi og hreinum lygum. Til dæmis því að þrátt fyrir að vegsama krónuna við hvert tækifæri, hefur ráðherrum og öðrum fyrirmennum þó ekki fundist hún þess verð að standa á bak við heimilisfjármálin og því flýtt sér að koma mjólkurpeningunum fyrir í suðrænum sjóðum.

Þó að það sé náttúrulega hressandi að láta ljúga að sér, svíkja sig og láta svindla á sér reglulega, þá segi ég fyrir mína parta að ef Íslendingar gera ekki eitthvaða róttækt núna, þá erum við kannski ekki eingöngu með vanhæfa stjórnmálamenn heldur ættum við að gangast við því að vera vanhæf þjóð.

Posted in Uncategorized

Venjulega fólkið í Pírötum

gaUm daginn héldum við Píratar á Norðausturlandi aðalfund. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, heldur það að þarna komu saman yfir 40 manns úr 5 sveitarfélögum. Þetta var bara ósköp venjulegt fólk á öllum aldri, frá menntaskólafólki upp í eldri borgara. Það sem gerir þetta venjulega fólk óvenjulegt er að það var tilbúið til að koma saman og lýsa stuðningi við stjórnmálaafl sem í upphafi var frekar hlegið að heldur en tekið alvarlega.

Þetta er fólk sem þú sérð hvar sem er; kennarar, iðnaðarmenn, verkamenn, sjómenn, námsmenn, listamenn, öryrkjar, sem sagt bara fólk eins og þú og ég. Þetta er fólkið sem þarf að forgangsraða tekjunum, spáir í hvað maturinn kostar, hvað bensínið er dýrt og húsnæðið kostnaðarsamt.

Það sem þetta fólk á hins vegar sameiginlegt er að vera komið með nóg af spillingu, sviknum loforðum og siðleysi í samfélaginu og setur traust sitt á Pírata til að gera eitthvað í málunum.

Þrátt fyrir að vera ungur flokkur eru Píratar vel mannaðir. Við eru með hugsjónafólk og allskonar fagfólk og fólk sem er fullt af eldmóði til að breyta samfélaginu.

Okkur skortir sem betur fer svokallaða auðmenn og sjálfskipaðar Séð & Heyrt-stjörnur og ég vona að það breytist ekki. Við erum búin að sjá hvað gerist þegar svoleiðis fólk er við stjórnvölinn.

Posted in Uncategorized

Af veiku fólki og veiku kerfi

gaSuma daga fallast mér nánast hendur. Það er ekki hægt að opna netið, blað eða annan miðil án þess að lesa um hörmungar fólks sem á við veikindi að stríða. Það kaldhæðnislegasta er að það eru ekki veikindin sem eru að buga þetta fólk, heldurheilbrigðiskerfið og kostnaðurinn við veikindin.

Við eigum frábært heilbrigðis starfsfólk. Það vinnur hins vegar bæði undir alltof miklu álagi og oft við heilsuspillandi aðstæður samanber mygluna á LHS. Aðstaðan á LHS er líka ekki til fyrirmyndar fyrir neinn, sjúklingar liggja í geymslum, salernum og á göngum sem er náttúrulega ekki boðlegt. Síst af öllu fyrir veikt fólk.

Það er líka sérstakt að þessa dagana eru alltaf í gangi safnanir fyrir fólk sem er veikt eða er með veik börn, þetta er bara birtingarmynd þess hvernig ástandið er. Veikt fólk eða fólk með veik börn á ekki að þurfa að treysta á aðstoð fólks út í bæ til að standa undir kostnaði. Ég er nokkuð viss um að við erum flest sammála um það.

En þetta er ekki allt og sumt. Hvað með þá sem búa úti á landi? Þeir þurfa ekki bara að eiga við erfið veikindi heldur einnig mikinn kostnað vegna ferða og uppihalds fjarri heimabyggð. Sjúkratryggingar Íslands greiða eingöngu 2 ferðir á 12 mánuðum til sérfræðings sem ekki er í heimbyggð, nema um alvarlega króníska sjúkdóma sé að ræða.

Ef við skoðum þetta nánar þá er þetta ansi galið. Hvað með þá sem þurfa að fara til fleiri en eins læknis til dæmis? Það þarf nú ekki að vera neitt alvarlegt að svo sem, en flestir þurfa að leita lækninga utan heilsugæslunnar eftir því sem fólk eldist eða börn veikjast. Á fólk að þurfa að leggja fyrir til að geta farið til hjartalæknis, augnlæknis eða giktarlæknis eða á það að velja í hvað það vill eyða þessum ferðastyrk og láta hitt mæta afgangi? Að mínu mati ætti rökstuðningur heimilslæknis að vera næg forsenda fyrir endurgreiðslu ferðakostnar og ekki takmarkaður við ákveðið margar ferðir á ári. Það er líka hægt að ræða þetta útfrá réttindum sjúklinga til að velja sér lækni en það er önnur umræða.

Fólk á heldur ekki að þurfa að rífa sig upp með fjölskylduna til að vera nær læknishjálp af því að það er búið að hola að innan heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni. Það er ekki þannig sem við höldum landinu í byggð.

Gott dæmi um þá heilbrigðisþjónustu sem hefur verið færð á færri hendur eru fæðingar. Hér á árum áður gátu konur fætt á mörgum stöðum á landinu, þar voru ljósmæður til staðar og öll aðstaða. Í dag er þetta ekki hægt og þess vegna þurfa fæðandi konur og makar þeirra að leggja í ferðalög á öllum árstímum til að sækja þessa sjálfsögðu þjónustu.

Enduruppbygging heilbrigðiskerfisins er forgangsatriði, í þeirri uppbyggingu þarf að huga sérstaklega að landsbyggðinni og tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem næst heimabyggð.

Sumt er ekki mælt í peningum eins og stuðningur fjölskyldu og vina í gegnum erfið veikindi. Ein forsenda þess að geta nýtt þennan stuðning er að vera sem næst fólkinu sínu og það ættu að vera sjálfsögð mannréttindi sjúklinga. Það á ekki að flytja gamlar konur frá Patreksfirði til Ísafjarðar án þess að spyrja kóng eða prest svo við tökum nýlegt dæmi. Hvað þá að vísa fólki sem kemur á bráðadeild til rúms í bílageymslum.

Kerfið á vinna með okkur en ekki á móti!

Posted in Uncategorized

Nauðungarsölur og Gjaldþrot

ga2Það hefur verið í fréttum að nauðungaruppboð á íbúðarhúsnæði séu nú skipulega framkvæmd af prúðbúnum ríkisstarfsmönnum. Fyrir þá sem verða fyrir þessu er þetta endastöðin, baráttan er töpuð og fjölskyldan húsnæðislaus nema takist að semja um leigu við þann sem hreppir hnossið.

Yfirleitt er fólk búið að sökkva öllu sínu í að halda húsnæðinu og á erfitt um vik fjárhagslega, komið á svarta lista út um allt og eins og leigumarkaðurinn er í dag þá er hægara sagt en gert að finna húsnæði. Þetta vita allir sem eitthvað hafa fylgst með eftir hrunið.

Það sem færri tala um eru hin svokölluðu árangurslausu uppboð, þá er yfirleitt um að ræða eignir sem af einhverjum ástæðum teljast ekki vænlegar til endursölu. Lánastofnanir hafa þá farið þá leið að nýta sér þann mátt sem felst í hótunum um sviptingu á húsnæði í von um að kreista út meiri peninga frá skuldurum. Þegar á hólminn er komið þá bjóða þessar stofnanir svo lága upphæð að hún er ekki metin gild og uppboðið því árangurslaust.

Þetta er algengast þegar Íbúðalánasjóður er með fyrsta veðrétt og aðra lánastofnanir eru þar á eftir, þegar þessum skrípaleik er lokið hefst önnur umferð og á endanum er boðið upp og þá leysir Íbúðalánasjóður til sín eignina. Þannig geta bankar og aðrar lánastofnanir nánast handvalið þær eignir sem þeir telja góðar til endursölu eða leigu en hinar enda hjá Íbúðalánasjóði, sem er jú ríkisstofnun.

Það er líka merkilegt að þegar fólk hefur hreinlega gefist upp og vill bara losna úr snörunni þá á það á hættu að lenda í svona farsa og ferlið getur tekið allt að 2.5 árum, þrátt fyrir að skuldarinn reki jafnvel á eftir.

En hvað gerist síðan eftir nauðungarsölu, margir halda að með nauðgungarsölu þá falli niður allar skuldir tengdar húsnæðinu og jafnvel að nauðungarsala jafngildi gjaldþroti. En það er aldeils ekki þannig, bankarnir halda sínu til haga og rukka fólk fram yfir gröf og dauða nánast.

Íbúðalánasjóður hefur aðrar aðferðir, ef að fimm árum liðnum staða fólks er óbreytt þá getur það sótt um niðurfellingu skuldarinnar sem eftir stendur þegar húsnæðið var boðið upp og Íbúðalánasjóður búinn að reikna út hvert verðmæti er samkvæmt mati frá fasteignasala. Þarna geta nokkrar milljónir borið á milli en að minnsta kosti getur fólk huggað sig við að fá niðurfellingu eftir fimm ár standist það þær kröfur sem gerðar eru af hálfu Íbúðalánasjóðs um slíkt.

Ein leiðin til að losna undan öllum skuldum, er að fara fram á persónulegt gjaldþrot, og vera laus allra mála að tveimur árum liðnum. Eðli málsins samkvæmt er fólk á þessum punkti orðið nær eignalaust og lánastofnanir sjá sér engan hag í að fara fram á gjaldþrot. Gjaldþrota leiðin er ekki fær fyrir alla enda þarf að reiða fram á milli 200 og 300 þúsund til að slíkt sé framkvæmanlegt. Eitt af því sem fylgir gjaldþroti einstaklinga er að þeir missa yfirráð yfir restinni af eignum sínum hverjar svo sem þær eru í hendur skiptastjóra og öllum bankareikningum er lokað.

Þessu fylgir líka að öll lán eru gjaldfelld og þá kemur að vandanum við þessa aðferð. Margir eru t.d. með námslán og samkvæmt gamla kerfinu með ábyrgðarmenn, ef til gjaldþrots kemur þá eru þessi lán gjaldfelld líka og ef skuldin fæst ekki greidd úr þrotabúinu eru ábyrgaðarmennirnir krafðir um greiðslu. Sama gildir um önnur þau lán sem ábyrgðarmenn hafa skrifað uppá. Fáir treysta sér til að varpa slíku á þá sem skrifuðu uppá lán í góðri trú og sérstaklega á þetta við um námslánin þar sem oftar en ekki nánir ættingjar eiga í hlut.

Hvað þýðir þetta í rauninni fyrir þá sem missa eignir sínar á nauðgungaruppboð en treysta sér ekki af ofangreindum ástæðum til að fara fram á gjaldþrot? Jú þetta þýðir að næstu 5 til 10 árin eða svo getur fólk ekki gert neitt annað en að draga fram lífið hundelt af kröfuhöfum út af húsnæði sem er ekki lengur til staðar. Fólk má ekki eiga neitt, er með “svarta” kennitölu þannig að engin fyrirgreiðsla fæst og það kallar á endalaus vandræði í sambandi t.d við að fá leiguhúsnæði, eða ef eitthvað kemur uppá í lífinu sem þarfnast meiri peninga en til eru í augnarblikinu.

Ég vil að þessu kerfi verði breytt, uppboð séu ekki haldin nema eftir að öll vafamál eru afgreidd, fólk fái aðstoð til að reka slík mál fyrir dómi og síðast en ekki síst þá verði komið á svokölluðum lyklalögum.

Allt þetta samrýmist stefnu Pírata í skuldamálum heimilanna og ég vona svo sannarlega að þessi stefna verði höfð til hliðsjónar að kosningum loknum. Það gengur ekki að hópur fólks falli á milli skips og bryggju og eigi sér varla viðreisnar von, vegna þess að það gerði það sem flestir gera, nefnilega að reyna að eignast þak yfir höfðið fyrir sig og sína.

Posted in Uncategorized

Geðveikir öryrkjar

Mér blöskrar mjög oft þegar ég heyri fólk tala um öryrkja eins og afætur, það er eins og þetta sé fullfrískt fólk sem hafi valið það sem lífsstil að vera á bótum vegna leti.

Stundum eru tekin dæmi um þennan eða hinn nágrannann eða fjarskylda ættingja, þegar maður spyr nánar út í þetta þá kemur upp úr kafinu að viðkomandi veit nákvæmlega ekki neitt um af hverju þetta fólk er á örorku.

Það er nú svo að geðsjúkdómar, eins og svo margir aðrir sjúkdóma, sjást ekki utan á fólki og þeir sem ekki þekkja þeim mun betur til vita oft ekki að einstaklingurinn er haldinn slíkum sjúkdómi.

Fyrir fólk sem hefur verið virkt í námi og starfi þá er það ekki létt að þurfa að játa sig sigrað, að minnsta kosti tímabundið. Hvað þá að þurfa síðan að reka sig á endalausa fordóma frá fólki sem hefur lítinn skilning á þessum málum.

Ég vil minna á að örorkubætur eru skammarlega lágar og fæstir geta lifað mannsæmandi lífi á þeim, það er hreinlega blettur á okkar samfélagi. Að veikt fólk skuli þurfa að velja um að kaupa lyf eða mat er eitthvað sem á ekki að eiga sér stað. Bótaupphæðir valda því líka að oft þurfa öryrkjar að sætta sig við húsnæði sem flestum þætti óboðlegt.

Ég hef nokkrum sinnum aðstoðað fólk við að komast í gegnum þetta ferli, það er hvorki létt í vöfum eða einfalt og fólki geta hreinlega fallist hendur þegar það er á sama tíma að glíma við erfiða sjúkdóma.

Hættum að tala illa um öryrkja og þá sem eiga við geðsjúkdóma að stríða, sýnum öðru fólki virðingu og skilning og áttum okkur á það velur sér enginn að verða veikur, sama hvaða sjúkdómur á í hlut.

Mig langar að benda fólki á Mad Pride sem er frábært framtak geðveikra og annarra sem láta sig málin varða. Segjum fordómum stríð á hendur og tökum fagnandi framlagi geðveikra til að gera samfélagið betra ekki veitir af.

Posted in Uncategorized

Mín hugmynd um jafnrétti

ga2Hvað er jafnrétti? Ósjálfrátt tengja flestir það við jafnrétti kynjanna. Með því er ég alls ekki að gera lítið úr þeirri umræðu heldur vil ég nálgast hlutina á víðari hátt, því fyrir mér er jafnrétti réttur allra einstaklinga til að vera þeir sjálfir á sínum forsendum.

Ég vil lifa í samfélagi þar sem fólk er samþykkt á grundvelli þess sem það hefur fram að færa, sama hvernig það kýs að lifa sínu lífi, hvernig það er skapað eða hverjar aðstæður þess eru.

Kannski er það róttækt að vilja horfa á annað fólk sem einstaklinga eingöngu, en eftir áralanga veru á Internetinu þar sem ég hef deilt skoðunum og rökrætt við fólk án þess að vita yfir höfuð neitt um það nema hvaða notendanafn það hefur kosið sér, þá finnst mér þetta mikilvægt.

Ég hef nefnilega stundum rekið mig á mína eigin fordóma þegar ég hef verið búin að ákveða að þessi eða hinn sé svona eða hinsegin og það síðan reynst rangt. Að takast á við eigin fordóma er hollt og veitir manni aðhald og fær mann til að hugsa öðruvísi.

Búum til betri framtíð fyrir alls konar fólk, svo að við missum ekki af hæfileikum, sköpunarkrafti og hugviti einstaklingsins vegna þess að við erum svo upptekin af að láta hann passa inn í einhverjar skilgreiningar, box eða staðalímyndir.

Ölum börnin okkar upp þannig að þau meti einstaklinga út frá hæfileikum þeirra, ölum þau þannig upp að þau séu frjáls til að velja hvernig þau lifa sínu lífi án þrýstings frá samfélaginu.

Verum við sjálf, við erum góð eins og við erum, hvert á sinn hátt, og ef það sem við höfum fram að færa skiptir máli þá á það að fá að njóta sín í samfélagi þar sem ríkir alvöru jafnrétti.

Fyrir mér sýna Píratar í verki að það er hægt að skapa svona samfélag. Þar eru ólíkar skoðanir og ólíkar nálganir en þar er líka virðing og vilji til að hlusta á alla, án þess að dæma fólk úr leik fyrir að vera á einhvern hátt á skjön við eitthvað sem kallast norm. Það er ekki til nein staðalímynd fyrir hvernig Pírati á að vera og þess vegna er ég stolt af því að vera Pírati.

Posted in Uncategorized

Af hverju Píratar eru öðruvísi

ga2Ég hef verið að hugleiða svona eftir ýmsar umræður hvað fólk er fast í allskonar boxum. Mér finnst þetta úreltur hugsunarháttur, það er komin tími á nýjar áherslur og nýjar nálganir og að hugsa út fyrir rammann.

Margir eiga í erfiðleikum með Pírata af því að þeir falla ekki undir hefðbundnar skilgreiningar um hægri og vinstri, sömuleiðis eiga margir í erfiðleikum með að við aðhyllumst ekki þennan “ismann” eða hinn.

Við erum bara ekki hefðbundin, heldur ný og hugsum á annan hátt en fólk er vant, það er okkar styrkur og gefur okkur óendanlega möguleika á því að hugsa í lausnum í staðinn fyrir að vinna innan einhvers ramma sem heftir okkur.

Beint lýðræði þar sem allir geta tekið þátt eins og á kosningavefnum okkar er nýjung, eins og með flestar nýjungar þá fylgja þeim bæði kostir og gallar. Að allir hafi eina rödd og eitt atkvæði virkar, við erum búin að sýna það með t.d. hvernig raðast hefur á framboðslista hjá okkur án nokkurrar stýringar í átt að kynjaskiptingu eða einhverri annari skiptingu.

Píratar eru allskonar fólk, við metum frelsi einstaklingsins og réttindi hans mikils og það þýðir að þó að einhverjir Píratar hafi á einhverjum tímapunkti gert mistök þá eiga þeir samt sína rödd og sama rétt og aðrir Píratar.

Við eigum ekki að láta okkur bregða þó að einhver kjósi að viðra eitthvað sem þeir telja okkur til vansa, við eigum að segja okkar skoðun á því óhrædd og ræða málin og viðurkenna ef við höfum gert mistök.

Stundum kemur í ljós að einstaklingar hafa gert hluti í sinni fortíð sem eru umdeildir eða slæmir, en ég trúi því að fólk breytist og það eina sem fortíðin sýnir er fortíðin, dagurinn í dag og hvað þú segir og gerir í dag er það sem skiptir máli.

Með því að vera svona opin og að allir geti tekið þátt þá fáum við betri þverskurð af samfélaginu og það þýðir í mínum augum að við fáum að njóta þess að skiptast á skoðunum við fólk úr öllum áttum með mismunandi bakgrunn. Það gerir okkur hæfari til að skilja vandamál og vinna lausnamiðað, í staðinn fyrir að vera með frekar einsleitann hóp sem að mínu mati býður upp á minni sveigjanleika og þrengri sjónarhorn.

Þess vegna er ég Pírati. Ég vil fjölbreytni og ég vil að allir sama hvaðan þeir koma fái að njóta sín sem eins og þeir eru í dag.

Posted in Uncategorized

Hvað er ég að gera í Norðvestur kjördæmi

backandwhite

Ég hef svolítið orðið vör við að fólki finnist undarlegt að frambjóðandi í 3ja sæti í Norðvestur kjördæmi fyrir Pírata sé búsett í Reykjavík. Mig langar að svara þessu með nokkrum orðum, þó að ég búi á höfuðborgarsvæðinu eins og er þá hef ég eytt stórum hluta af mínu lífi á landsbyggðinni.
 
Þess vegna þekki ég vel hvernig er að búa úti á landi, hvernig er að þurfa að skrönglast yfir illfæra vegi eftir  nauðsynjum, til að leita læknishjálpar og annars þess sem maður þarf nauðsynlega á að halda.
 
Ég veit hvernig það er að eignast og ala upp börn úti á landi, það er ekki alltaf einfalt. Eitt af því sem margir standa frammi fyrir er að senda börnin sín að heiman 16 ára gömul til að þau geti haldið áfram að mennta sig. Margir gera sér ekki grein fyrir þeim gífurlega kostnaði sem fylgir þessu og hvað þetta er erfitt fyrir margar fjölskyldur.
 
Ég veit líka hvernig er að eiga hús úti á landi sem er varla seljanlegt, svona ef manni dytti í huga að flytja sig um set, þó ekki væri nema yfir í næsta bæ, og hvernig er að horfa uppá að vera atvinnulaus af því að það er enga vinnu að hafa í mínu bæjarfélagi.
 
Ég get ekki vitað nákvæmlega hvernig er að búa á hverjum stað fyrir sig í mínu kjördæmi, það getur enginn nema þeir sem búa á þeim stöðum. Þess vegna vil ég ekki koma fram og segja þessu frábæra fólki sem býr í þorpum og sveitum kjördæmissins hvernig ég vil leysa þeirra vandamál.
 
Það er komið nóg af því að sérfræðingar að sunnan, komi og tali fjálglega um hlutina og segi fólkinu sem býr úti á landi hvernig best er að lifa lífinu og hvað því sé fyrir bestu.
 
Ég vil hlusta ekki tala, ég vil fá að vita hvað fólkið í kjördæminu er að hugsa, hvaða vandamál eru stærst og hvernig þau sjá fyrir sér að best sé að leysa þau. Mig langar líka að fá að vita hvaða hugmyndir heimamenn sjá í atvinnumálum og hvað þarf til að koma nýjum fyrirtækjum af stað. Það er nefnilega þannig að heimafólk þekkir sitt heimasvæði best og veit oftast hvar tækifærin liggja og hvað þarfa gera svo hægt sé að hefjast handa.
 

Með þær upplýsingar að vopni get ég einbeitt mér að því að vinna að lausnum í samvinnu við heimamenn. Ég er langt í frá sérfræðingur í öllu, en ég hef vilja og getu til að gera vel og afla mér þeirra upplýsingar sem þarf til vinna þessa vinnu.

Með beinu lýðræði gefst fólki kostur á að taka þátt, í að móta stefnuna og að láta sína rödd heyrast sama hvar það býr, það er lykilatriði þess að við mótum samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Bara það eitt og sér er góð ástæða til að vera Pírati.

 

Posted in Uncategorized