About Björn Leví

Ég er Pírati sem eignaðist sína fyrstu tölvu tvítugur að aldri. Ég er tölvunarfræðingur en drekk ekki kaffi og langar að stofna kakóhús. Ég þoli ekki ranglæti og rökvillur en er annars mjög þolinmóður og rólegur í fasi. Ég er Pírati af því að ég hef ekki fundið neina aðra sem skilja hvernig og af hverju samfélagið er að breytast. Ég er Pírati af því að ég er þreyttur á valdbeitingu. Ég er Pírati af því að framtíð menntunar er í samspili við internetið. Ég er Pírati af því að ég sé þriggja ára son minn leika sér í spjaldtölvu og snallsíma eins og ég lék mér með brúður og bíla. Við getum ekki bara verið í eltingarleik við breytingar, við verðum að fylgja þeim. Ég er Pírati af því að ég vil sjá þátttökulýðræði, smáiðnað og menntakerfi í takt við samfélagið. Ég er fæddur í Reykjavík, ólst upp í Þorlákshöfn, á Grundarfirði, í Þorlákshöfn aftur, á Grundarfirði aftur, á Sauðárkróki og að lokum á Grundarfirði. Inn á milli var ég í sveit hér og þar á sumrin. Ég lærði svo loksins að vera fullorðinn í mínu fyrsta starfi eftir framhaldsskóla með krökkunum á leikskólanum Staðarborg og Jörfa. Ég hrökklaðist úr starfi vegna fáránlega lágra launa, prófaði grunnskólakennaranám en fannst það ekki vera í takti við nútímann. Ég lauk þess vegna B.S. gráðu í tölvunarfræði og stunda nú doktorsnám í greininni þar sem ég tek fyrir menntun á internetinu. Ég hef starfað við ýmislegt í gegnum árin. Ég hef verið strákur í sveit, fiskverkunarmaður, handlangari í múrvinnu, hef lagt hellur og kantsteina hingað og þangað um Reykjavík, verið starfsmaður á leikskóla, kennari í grunnskóla, umsjónarmaður tölvukerfis í ríkisstofnun, gæðafulltrúi hjá alþjóðlegu tölvuleikjafyrirtæki og aðstoðarkennari í háskóla á Íslandi og í Bandaríkjunum. Mikilvægasta og besta starfið var í leikskólanum; börnin þar ættu að vera á Alþingi -- þau eru heiðarlegasta fólk sem ég hef kynnst.

Lýðræðisþynning

3884922343_990dd907f0_oMeirihlutinn ræður sagði Bjarni og miðað við lýðræðissamfélag þá er það alveg rétt. Hvað þýðir annars “meirihluti” í íslensku stjórnkerfi? Jú, við erum með fulltrúalýðræði sem þýðir að kjósendur afsala sér atkvæði sínu til lista af fulltrúum með því að merkja x við ákveðinn listabókstaf í kosningum á fjögurra ára fresti. Möguleikar kjósenda á að hafa áhrif á uppröðun fulltrúa á þessum listum í sjálfum kosningunum er mjög lítill.

Á bak við hvern listabókstaf eru ýmis loforð og samþykktar stefnur félaga þeirra flokka sem merkja sig með viðkomandi bókstaf. Eftir að niðurstöður kosninga eru birtar fær einhver flokkur stjórnarmyndunarumboð og í kjölfarið er búinn til stjórnarsáttmáli sem inniheldur einhvers konar útgáfu af þeim loforðum og samþykktum sem birtust fyrir kosningar.

Lýsingin hér að ofan er skilgreiningin á “lýðræðisþynningu”: Hversu langt er kjósandi frá því að hafa áhrif með atkvæði sínu á ákvarðanatöku. Á Íslandi breytist atkvæði kjósanda í fulltrúa sem kjósandi hefur litla aðkomu að því að velja yfir í stjórnarsáttmála sem inniheldur mögulega ekki loforð og stefnur sem leiddu til þess að kjósandi merkti x við ákveðinn flokk.

Það eru fleiri atriði sem stuðla að lýðræðisþynningu á Íslandi, mismikið vægi atkvæða, fulltrúar sem vinna ekki að almannahag, flokkar sem svara kalli annarra en almennings, 5% þröskuldur (“108. gr. Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.”), … og svo mætti lengi telja.

En eins og Bjarni sagði, þá ræður [lýðræðislega útþynntur] meirihlutinn. En! Málið er ekki svona einfalt. Í alþingiskosningunum 2013 voru greidd 193.792 atkvæði*. Af þeim atkvæðum fengu núverandi stjórnarflokkar 96.627 atkvæði. Það eru 49,861191380449141347424042272127% atkvæða … 49,86% er ekki meirihluti atkvæða. Ég verð því að spyrja, hvernig getur núverandi stjórn látið sér detta það í hug að láta út úr sér orðin “meirihlutinn ræður”?

Vandamálið er nefnilega þetta; lýðræðisþynningin þar sem atkvæði teljast á flokka, mismikið vægi atkvæða, lýðræðisþröskuldar og meirihlutamyndun óháð atkvæðahlutfalli leiðir til þess að flokkar sem fá 49,86% greiddra atkvæða fá 60,3% þingsæta.

Bilað? Ekki satt?

En bíðið! Það er ekki allt búið. Kerfið er klikkaðra en þetta. Út af 5% lýðræðisþröskuldinum þá mættu 27.097 manns og greiddu atkvæði en fengu engan fulltrúa á alþingi. Þetta voru kjósendur sem kusu Dögun, Flokk heimilanna, Lýðræðisvaktina, Hægri græna, Regnbogann, Landsbyggðarflokkinn, Sturlu Jónsson, Húmanistaflokkinn og Alþýðufylkinguna – ásamt því að skila auðu eða ógildu. 27.097 manns væru stærra kjördæmi en NV-kjördæmi, pínulítið minna en NA-kjördæmi. Misskipting atkvæða, sem er nægilega mikið vandamál, er því smámál miðað við hversu margir kjósendur fengu ekki fulltrúa á alþingi þrátt fyrir að hafa tekið þátt í kosningunum.

Meirihlutinn ræður. Það er alveg hárrétt. Málið er hins vegar ekki svo einfalt – það er nefnilega ýmislegt sem gerist á milli þess sem kjósandi greinir frá skoðun sinni þangað til að ákvörðun er tekin. Eina leiðin til þess að laga það er að gera leiðina frá kjósanda að ákvörðun styttri; atkvæði leiðir til ákvörðunnar. Einungis þá er hægt að segja með réttu: “meirihlutinn ræður”.

* Inniheldur auð og ógild atkvæði. Þeir sem greiddu þau atkvæði höfðu fyrir því að mæta á kjörstað og greiða EKKI stjórnarflokkum atkvæði sitt. Tæknilega séð eru þau því í stjórnarandstöðuhóp sem situr alltaf hjá í öllumatkvæðagreiðslum. Atkvæði þeirra skipta máli, þetta voru 4.802 atkvæði.

Hugmyndafræðileg blinda

Í frétt Vísis (http://www.visir.is/-ekki-hvarflar-ad-mer-ad-gera-albaniu-ad-fyrirmyndarlandi-vardandi-heilbrigdisthjonustu-/article/2015150109563) kvartar Ásdís Halla undan því að orð hennar um flotta einkarekna heilbrigðiskerfið í Albaníu hafi verið misskilin, hún hafi bara verið að benda á mikilvægi valfrelsis. Hún gefur dæmi:

“Þá segist Ásdís Halla hafa verið að benda á mikilvægi valfrelsis á sviði velferðarmála. Í Garðabæ gætu foreldrar valið leik- og grunnskóla fyrir börn sín og þeim fylgi fjármagn, óháð því hvort skólinn væri einka- eða ríkisrekinn.”

Ég sé ekki betur en Ásdís Halla misskilji ‘einkarekstur’ all svakalega. Þarna er hún að segja að sveitafélagið borgi (úr sameiginlegum sjóðum) fyrir kostnað þeirrar menntunar sem foreldrar velji fyrir börnin sín. Ég endurtek, hið opinbera borgar. Það er ekki skilgreiningin á ‘einkarekstri’ …

Er til of mikils mælst að fólk skilji sjálft hvað það er að segja?

Bætum aðeins við það sem vantar þarna. Án þess að það sé sérstaklega tekið fram býst ég við því að ‘einkaskólarnir’ taki einhver gjöld aukalega fyrir þjónustu sína fram yfir það sem Ásdís kallar ‘ríkisrekna’ skóla. Ef maður samþykkir að það sé skilgreiningin á einkareknum skóla, að sveitafélagið hlaupi undir bagga með foreldrum sem velja einkaskóla – hvað varð þá um ‘valfrelsið’ sem hún talar um? Jú, það er háð tekjum foreldra. Almennt séð kallast það ekki ‘valfrelsi’ heldur efnahagslega þvingað val. Á yfirborðinu hafa allir sama val, en í raun og veru takmarkast það af efnahag foreldra – sem er mjög merkilegt því málið snýst um menntun barnanna sem get ómögulega aflað sér tekna til þess að standa undir kostnaði af eigin menntun.

Þessi blindni, sem er knúin af hugmyndafræði, á hvað raunverulega virkar endurspeglast í í orðum Ólafar Nordal:

“Engar sérstakar aðgerðir eða eftirlit hefur verið skipulagt til að fylgjast með því hvort afnám vörugjalda skili sér í lægra vöruverði. Markaðurinn mun hins vegar sjá um að veita fyrirtækjum aðhald og sjá til þess að þau lækki vöruverð til samræmis við breytingarnar. Þetta sagði Ólöf Nordal, ráðherra neytendamála, í kvöldfréttum stöðvar 2.” (http://www.vb.is/frettir/112864/)

og Styrmis Gunnarssonar í hringborðsumræðum Rúv:

“Þurfum við einhverjar sérstakar mælingar og einhverjar sérstakar rannsóknir til þess að vita að það er fátækt á Íslandi. Við erum svo fá, við lifum í þessu litla samfélagi hér. Er okkur ekki öllum ljóst að þessi fátækt er hér til staðar, við sjáum hana og er ekki meiri ástæða til þess að leggja áherslu á að grípa til einhverra aðgerða gegn henni – heldur en að eyða of miklum tíma í rannsóknir og mælingar?” (http://www.ruv.is/sarpurinn/hringbordid/05012015)

Fólki er semsagt boðið upp á efnahagslega þvingað val þar sem markaðurinn reddar öllu án þess að hann þurfi nokkuð eftirlit (rannsóknir og mælingar) og ef eitthvað fer úrskeiðis þá er það bara misskilningur. Skoðum nýlega frétt Rúv (http://www.ruv.is/frett/felagsleg-heilbrigdiskerfi-komi-best-ut):

“Rúnar Vilhjálmsson prófessor fór yfir fjölmargar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum og Evrópu um árangur ólíks reksturs heilbrigðisþjónustu. Niðurstöðurnar sýna að þegar mat er lagt á aðgengi að þjónustu þá koma félagsleg kerfi, eins og hér hefur verið, best út. Blönduð kerfi, eins og eru í Vestur-Evrópu, næst best en lakast er aðgengi að þjónustunni í kerfum sem eru í einkarekstri. Kostnaður er lægstur í félagslega kerfinu og lýðheilsa best. „Þannig að eftir því sem bæði fjármögnun og rekstur fer frá því opinbera og til einkaaðila þá verður stýring eða stjórnun þjónustnnar eða kerfisins erfiðari,“ segir Rúnar.”

Þarf einhver að rifja upp hvað eftirlitslaust bankakerfi gerði fyrir nokkrum árum síðan? Nei. Hvað er þá að? Er verið að misskilja eitthvað meira? Nei, þetta er einfaldlega afneitun á því að hugmyndafræði þessa fólks sé að hruni komin. Þetta er valkvæm blindni á staðreyndir málsins. Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er ekki að segja að hugmyndafræði hins frjálsa markaðar sé að hruni komin, ég er að segja að _eftirlitslaus_ markaður virki ekki, hafi aldrei virkað og geti ekki virkað. Hvorki sem kerfi til þess að búa til valfrelsi fyrir neytendur né til þess að verja neytendur og samfélagið fyrir einokun og öðru svindli. Markaðurinn virkar ekki ‘af því bara’.

Þess vegna þarf rannsóknir og mælingar. Við þurfum að þekkja núverandi aðstæður til þess að geta borið saman afleiðingar af ýmsum stjórnskipunarákvörðunum, svo sem afnáms vörugjalda eða lækkunar skatts, á markaðinn. Ef við vitum ekki hverjar afleiðingar aðgerða eru þá getum við ekki valið úr þeim aðgerðum sem eru í boði. Við getum ekki vitað hvort markmið sem við höfðum fyrirfram náðist út af stjórnskipunarákvörðunum eða einhverju öðru.

Tökum dæmi. Segjum sem svo að lækkun virðisaukaskatts um 1% leiði til 0,5% lækkunar vöruverðs og hækkun um 1% leiði til 2% hækkunar vöruverðs (uppskáldað dæmi og gerum ráð fyrir línulegri fylgni). Ef við vitum þetta fyrirfram, af því að við höfum skoðað afleiðingar þess að breyta skattprósentunni – að ef við viljum ná 1% lækkun á vöruverði þá þurfum við að lækka vsk um 2%.

Upplýst ákvörðun. Ekki hugmyndafræðileg blinda.

Standa kosningaloforð í vegi fyrir góðum lausnum?

“Forsendubrestur” var mikið notað orð í síðustu alþingiskosningum. Það voru ýmsar hugmyndir í gangi hvernig átti að glíma við þennan brest og það vandamál sem hann skapaði. Einn stjórnmálaflokkur gekk hvað lengst í að bjóða lausn á vandamálinu (xB) og það verður að viðurkenna að ef útfærslan þeirra hefði tekist þá væri hún algjör snilld.

Það getur vel verið að það sem ég kem til með að segja komi fólki á óvart að einhverju leiti – en ég ætla að hrósa útfærslunni dálítið. Hins vegar er það dálítið stórt ‘en’. Þannig er mál með vexti að í aðalatriðum þá uppfyllir xB kosningaloforðið mjög vel. Það eru ýmis smáatriði sem voru auðvitað ekki útskýrð í kosningabaráttunni, 4,8% verðbólguviðmiðið (sem varð að 4%), upphæðin sem leiðréttingin myndi kosta – þar læddist upphæðin 300 milljarðar inn í umræðuna á einhvern hátt sem frambjóðendum xB tókst nokkurn vegin alltaf að ‘skauta’ fram hjá að væri þeirra loforð með því að svara ekki beinni spurningu um þá upphæð. Þegar upp er staðið þá stendur upphæðin í 100 milljörðum, 80 í leiðréttingu og 20 í tapaðar skatttekjur (miðað við 30% skatthlutfall). Eftir standa að vísu 50 milljarðar sem fólk verður að taka sjálft að úthluta úr viðbótarlífeyrissparnaði.

Viðbótarlífeyrissparnaðurinn nýtist að vísu fleiri en þeim sem urðu fyrir forsendubresti. Þar er samt enginn sparnaður í raun nema út af skattaafslættinum, annars er bara verið að kaupa steypu fyrir lífeyri – ekkert rosalega áhættusöm fjárfesting í sjálfu sér þó það fari mjög mikið eftir aðstæðum (og staðsetningu).

Í heildina á litið þá er kosningaloforðið uppfyllt, forsendubresturinn (áranna 2008 og 2009) hefur verið leiðréttur. Rétt skal vera rétt.

En nú að hinu stóra ‘en’ … EN, það er pínulítið vandamál. Loforðið var vissulega um að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán, og það var uppfyllt. Eftir standa allir þeir sem urðu fyrir tjóni af sömu ástæðu og stökkbreytti húsnæðislánunum, möguleikinn að lausnin verði ekki samkvæmt loforði og aðrar (betri) lausnir. Skoðum það aðeins betur.

Allir urðu fyrir tjóni af verðbólguskotinu sem hefur verið kallaður forsendubrestur. Verðbólga jókst og kaupmáttur rýrnaði greinilega - mjög mikið meira að segja. Síðan þá hefur ýmislegt gerst, margir eru komnir aftur í plús (þó það megi auðvitað rökræða að þeir væru mögulega í meiri plús ef ekki hefði orðið hrun, við því er þó hægt að segja á móti að án bólumyndunarinnar þá væru þeir líklega á sama stað og núna)! Fullt af fólki varð fyrir miklu meira tjóni, lánið fór úr öllum böndum, það missti húsnæðið og allt það slæma sem fylgir því. Hvernig kemur leiðréttingin út fyrir það fólk? Leiðréttingin byrjar á því að greiða niður vanskilin, eftir stendur fólk mögulega enn með vanskil og án lækkunar höfuðstóls. Lán sem, án forsendubrestsins hefði líklega haldist í skilum. Forsendubresturinn hefur samt verið leiðréttur, en hvað með afleiðingar brestsins? Nei, leiðréttingin skiptist mjög misjafnlega og ójafnt til fólks sem varð fyrir þessu tjóni vegna þess sem hefur gerst síðan.

Fólk varð semsagt fyrir mismiklu tjóni _eftir_ forsendubrestinn, sem hefur gríðarlega mikil áhrif á hvað leiðréttingin gerir fyrir viðkomandi. SDG segir að það sé ekki hægt að mismuna fólki, það sé ekki hægt að ákveða að ‘þú færð leiðréttingu en ekki þú’. Það er alveg hárrétt, Tryggvi Þór skellir því hins vegar á samvisku fólks að þiggja ekki leiðréttinguna ef fólk þarf ekki á henni að halda. Í staðinn fyrir góða og sanngjarna lausn þá biður hann um að fólk sýni ríkinu þá sanngirni sem það getur ekki sýnt á móti. Eins og SDG segir, þá snýst þetta ekkert um hvort fólk ‘þurfi á peningunum að halda eða ekki’ – er ekki verið að taka þennan pening frá ‘hrægömmunum’ en ekki ríkinu? Er ekki verið að skila peningum sem þessir ‘hrægammar’ tóku frá fólki? Hvers vegna í ósköpunum ætti fólk að segja ‘nei takk, ég þarf ekki á þessu að halda’? Fólk var rænt! Ef ég ætti fullt af pening og einhver myndi keyra á bílinn minn þá myndi ég ekki bara segja: “Hey, ég borga!”

Ég var varamaður á þingi um daginn og varð þar vitni að samtali tveggja einstaklinga úr sitt hvorum flokki og sem sitja sitt hvoru megin við stjórnarlínuna. Hvor um sig veit mjög mikið um þetta mál og hafa glímt við það í langan tíma – og það var magnað að heyra, þeir voru sammála um hvernig ‘hefði’ átt að leysa þennan forsendubrest. Vandamálið var kannski, eins og ég benti þeim á að það var eitthvað ‘kosningaloforð’ að þvælast fyrir þessari ‘bestu lausn’ þeirra. Virkar lýðræðið í raun og veru svona? Er ekki hægt að segja svona eftir á, “nei, vitið þið … þetta var ágætis hugmynd en við erum með betri núna”? Erum við að líða fyrir að það _verður_ að uppfylla kosningaloforð þrátt fyrir að það sé til betri lausn? (Fyrir áhugasama þá snérist þetta útfærsluatriði um jöfnun forsendubrestsins með ‘ágóða’ af húsnæði umfram verðbólgu árin á undan brestinum – semsagt, reikna öfugan forsendubrest fyrri ára sem inneign inn í mínusinn fyrir árin 2008 og 2009).

Alvarlegra vandamál – allir hinir sem urðu fyrir tjóni en fá enga leiðréttingu. Námsmenn, leigjendur, búsetar, ríkissjóður  og allir sem urðu fyrir kjaraskerðingu. Nú spyr ég, það er fordæmi fyrir því að einn hópur fái leiðréttingu – hvers vegna ekki að hækka þennan bankaskatt af þrotabúunum (‘hrægömmunum’) og leiðrétta allt hitt líka? Ég meina, þetta er bara skattur – miðað við SDG. Af hverju ekki 15% eða eitthvað í staðinn fyrir þessi tæpu 3% til þess að borga fyrri allt hitt … 100%? Hver væri munurinn – lagalega séð? Ef skattlagningin er á annað borð lögleg og réttlát – samkvæmt xB, af hverju ekki að fara alla leið og leiðrétta forsendubrestinn fyrir alla hina? Vegna þess sko, það má ekki segja “þú færð leiðréttingu en ekki þú” – ha? Ef eitthvað er, þá ætti að vera miklu einfaldara að reikna og leiðrétta til dæmis námslánin. Hvað myndi kosta mikið að leiðrétta þau eftir sömu útreikningum og húsnæðislánin?

Sigmundur Davíð – af hverju má leiðrétta húsnæðislán en ekki námslán eða ríkissjóðslán eða leigu eða … ? Einfalda svarið er einfaldlega af því að því var lofað, ekki hinu. Svarið sem enginn vill gefa er af því að það gaf flest atkvæði.

Standa kosningaloforð í vegi fyrir góðum lausnum? Já. Af hverju? Af því að lýðræðið okkar er lélegt. Við fáum bara að kjósa um mál á fjögurra ára fresti. Af því að eitt kosningaloforð eða umræðuefni verður til þess að atkvæði dreifast óeðlilega á milli flokka en ekki málefna. Í krafti eins kosningaloforðs fær nú einn flokkur ákvörðunarvald í öllum málefnum – ekki bara þeim sem var kosið um. Afleiðingarnar af því koma niður á okkar arði af sameiginlegum auðlindum, rotnun grunnstoða samfélagsins svo sem heilbrigðiskerfisins, breytinga með rökunum “hér voru kosningar og við ráðum”.

Ég segi einn flokkur, en auðvitað eru tveir í stjórn. Hinn flokkurinn situr hins vegar og þegir þunnu hljóði um aðgerð sem fer eins gegn þeirra grunnstefnu og hægt er að hugsa sér – nauðsyn þeirra að sitja að völdum er mikilvægari en að standa með sínum gildum. Allt út af einu kosningaloforði sem er mikilvægara að uppfylla en að gera rétt og gera vel.

Í stuttu máli – kosningaloforðið um leiðréttinguna var uppfyllt á eins þröngan hátt og hægt var – í stað þess að velja betri lausnir. Vel gert (lesist með miklum kaldhæðnistón). Nú þegar kosningaloforðið er uppfyllt, er umboð flokksins ekki bara búið? Ég meina, man einhver eftir öðrum kosningaloforðum?

Hvernig tökum við ákvarðanir?

Ég og þú tökum ákvarðanir út frá persónulegum aðstæðum og ástæðum. Miðað við hvað ég hef um að velja þá get ég kannski haft eitthvað um það að segja hvar ég bý, við hvað ég vinn, hvernig ég eyði frítíma mínum, hvernig fjölskyldumynstur hentar mér, hvaða áhugamál ég stunda og hvort ég ‘snooza’ aldrei eða fimm sinnum.

Samfélagslegar ákvarðanir eru ekki teknar út frá persónulegum aðstæðum eða ástæðum. Ef svo er, þá þarf alvarlega að endurskoða hver tekur þær ákvarðanir og af hverju viðkomandi fær að gera það. Nýlega hefur verið bent á ýmsar undarlegar stjórnsýslulegar ákvarðanir varðandi MS, afskipti fyrri ráðherra, tengsl fyrirtækja inn í ráðuneyti og ný sem gömul samkeppnisbrot. Við megum spyrja okkur sérstaklega vel hvort allar þær ákvarðanir sem hafa verið teknar af stjórnsýslunni hafi verið neytendum og samfélaginu í heild sinni í hag?

Í þessari spurningu felst áhugavert orð, “hagur”. Hvernig mæli ég hvort eitthvað sé samfélaginu í hag eða óhag? Flestum dettur kannski í hug tengingar við hagkerfi og ýmsar mælieiningar sem fylgja því apparati. Verðbólga, neysluvísitala, hagvöxtur, … Einhverjum öðrum dettur kannski í hug: Lífsmatsstigi (well being index), væntingavísitala, sjálfbærni. Hver sem mælikvarðinn er þá fellur stikan ekki endilega alltaf í vel sniðnar skorður. Reglustika dugar illa til þess að mæla ummál hrings án þess að vita miðju hringsins (sem er skemmtileg æfing annars). Annað vandamál er að einhver ákvörðun er ekki endilega mælanleg á öllum mælitækjunum, afleiðingarnar geta meira að segja verið villandi vegna ýmissa ástæðna.

Ónákvæm mælitæki eru ekki einu sinni eina vandamálið í stjórnsýsluákvörðunum. Svo vill til, eins og MS dæmið bendir til, að það er að lokum einhver hópur fólks sem tekur ákvörðunina. Sjónarmið þeirra geta verið mjög skekkt, þau gögn sem tekið er tillit til og þær mælistikur sem eru teknar marktækar vegna hugmyndafræðilegra ástæðna geta verið verri en ef önnur gögn og aðrar mælistikur hefðu verið notaðar. Enn fremur er hægt að mistúlka niðurstöður út af hugmyndafræðilegri þröngsýni. Jaðaráhrif geta skekkt niðurstöðurnar verulega ef ekki er gætt að.

Hvernig eigum við þá að taka ákvarðanir? Áhugaverð grein frá OECD lýsir notkun hamingjugagna til þess að stýra stjórnsýslulegum ákvörðunum. Í greiningu þeirra á nokkrum samfélagsþáttum sést að Ísland er ágætlega fyrir neðan meðaltal í nokkrum flokkum, húsnæði, tekjum, lýðræðislegri þátttöku og jafnvægi lífs og vinnu. Þar eru nágrannar okkar Kórea fyrir neðan okkur og Slóvenía fyrir ofan okkur. Þegar tekið er tillit til þeirra þátta þar sem Ísland kemur best út (heilbrigðis, samfélags, umhverfi, öryggi og lífsánægju) þá erum við í efstu sætunum, fyrir ofan Sviss og neðan Kanada. Alls ekki leiðinlegir flokkar að standa sig vel í!

Auðvitað getum við klórað okkur pínulítið í hausnum varðandi heilbrigðisþáttinn miðað við landflótta lækna, nær stöðugra frétta um fjárhagsörðugleika heilbrigðiskerfisins og svoleiðis en kannski erum við bara samt best. Það eru svo auðvitað ekki allir sem eiga í húsnæðisvandræðum eða glíma við áhyggjur um að eiga fyrir mat um hver mánaðarmót. Við hljótum líka að vera svona ánægð af því að við eigum allar auðlindirnar okkar saman og nýtum þær okkur öllum í hag? Góðar tölur geta nefnilega falið slæmar tölur. Fáir einstaklingar með rosalega háar tekjur draga upp meðaltal, þegar talað er um kaupmáttaraukningu almennt en ekki útskýrt hvaða hópar fá hversu mikla kaupmáttaraukningu – þá er verið að fela eitthvað, það er eitthvað að.

Það má aldrei gleyma að skoða dreifinguna! Það má heldur aldrei gleyma því að spyrja fólkið, sem samfélagið samanstendur af, við hverju það býst við. Ef mælingin stemmir ekki við því sem fólk er að búast við að sjá, þá er líka eitthvað að.

Hvernig eigum við að taka ákvarðanir? Við þurfum að líta til mjög margra þátta en sérstaklega til þeirra sem við teljum sameiginlega að séu mikilvægir. Við verðum líka að heimta að framsetning gagna sé ekki blekkjandi. Það er lýðræðislegt, það er sanngjarnt.

Til hvers alþingi?

Jón Magnússon spyr vegna þess að Birgitta sagði að það væri tímasóun að eyða tíma í lagabreytingatillögur, þær væru hvort eð er ekki samþykktar.

Enn fremur segir Jón:

… það á hvorki við um Bjarta Framtíð eða Pírata. Ef til vill er það vegna þess að hvorugur þessara flokka hefur mótaða þjóðfélagssýn.

Ég svaraði þessari staðhæfingu á blogginu hans Jóns en þetta er nægilega alvarleg athugasemd hjá honum til þess að skrifa um það sérstaka grein hérna.

Til að byrja með þá er þetta rangt. Auðvitað eru Píratar með mótaða þjóðfélagssýn. Í öðru lagi þá skil ég vel að fólk haldi að svo sé ekki. Í síðustu alþingiskosningum og nýliðnum sveitastjórnarkosningum vorum við ekki með sérstaka stefnu í húsnæðismálum. Hvers vegna ekki? Einfaldlega vegna þess að það er bara mjög flókinn málaflokkur og við teljum að það þurfi að safna miklu fleiri upplýsingum um málið til þess að það sé hægt að leggja fram einhverjar góðar lausnir. Í kosningakerfi Pírata liggur samt fyrir ályktun um leigumál:

 • Styrkja skuli leigjendasamtök sem eru að aðstoða leigjendur við komast að réttarstöðu sinni og veita upplýsingar til almennings um samningagerð, lög og réttindi leigusala og leigjenda, hvaða áhrif verðtrygging hefur á leigusamninga, tímalengd samninga og önnur álíka atriði.

Þessu máli hefur Jón Þór mælt fyrir á alþingi, tíðarandans vegna þá hefur hann einbeitt sér að því að nauðungarsölum sé frestað. Ályktunin er í fleiri liðum en mikið af henni er framkvæmdarlegs eðlis sem er erfitt að koma að á alþingi, nema í þingsályktunartillögu. Þrír þingmenn, eins rosalega dugleg og þau eru, duga skammt – og hafa þurft að forgangsraða verkefnum sem þau telja líklegt að nái árangri í núverandi aðstæðum á þingi. Það sem skiptir máli er að ná árangri og ég held að það þurfi að leita langt til þess að finna þrjá aðra þingmenn sem hafa skilað störfum sínum betur af sér en þingmenn Pírata.

En aftur af þjóðfélagsýn Jóns Magnússonar.

Svarið mitt á blogginu hans var:

Þó að þú skiljir ekki þá þjóðfélagssýn sem Píratar hafa þá þýðir það ekki að hún sé til. Heyrðu, kannski hefur þú bara aldrei heyrt hugmyndir Pírata um þessa þjóðfélagsmynd. Grípum þá tækifærið og fræðumst smá.

Markmið Pírata er beint lýðræði, friðhelgi einkalífs, gagnsæi og ábyrgð í stjórnmálum og frelsi upplýsinga (þar sem það skarast ekki á við friðhelgi einkalífs).

Þessi markmið hafa ákveðnar afleiðingar hvað varðar þjóðfélagið. Almennt séð þá þýðir það að hver sú sem vill taka þátt í ákvörðunum sem hana varðar, getur það. Upplýsingarnar liggja fyrir og ferlið er augljóst og aðgengilegt. Þetta þýðir að hlutverk löggjafa og framkvæmda er þjónustuhlutverk, ekki valdahlutverk. Ákvarðanirnar eru teknar af kjósendum, þingmenn semja lög miðað við þær ákvarðanir og framkvæmdin sinnir sínu. Öfugt við núna þar sem flest lög koma frá ráðuneytum, þingmenn eru á launum við að ýta á bjöllu og kjósendur fá ekki einu sinni að kjósa þó að þeir æpi sig hása.

Semsagt, lýðræðislegt þjóðfélag. Alla daga ársins, alltaf, ekki bara á fjögurra ára fresti.

Aftur, ég skil það alveg að fólk hafi ekki haft tækifæri til þess að kynnast Pírötum betur. Það er bara okkur að kenna og þetta er ein tilraun til að bæta úr því. Píratar hafa ekki fullmótaða stefnu út um allt af því að samfélagið í heild sinni á að fá að koma að þeirri ákvarðanatöku. Ekki bara félagar og kjósendur Pírata, ekki bara flokkar og fylgismenn … allir. Allir sem vilja láta sig málið varða. Þannig virkar lýðræðislegt ferli. Atkvæðagreiðslan er ekki aðalatriðið, ferlið er aðalatriðið. Mjög margir misskilja lýðræði og halda að ef það er almenn atkvæðagreiðsla, þá er lýðræði. Kosningarnar á Krímskaga og mörgum einræðislöndum sýna annað. Þar eru ‘plat’ kosningar þar sem í raun er ekkert annað val og engin raunveruleg umræða um hvað valkostirnir þýða.

Á Íslandi kjósum við á þing á fjögurra ára fresti, án þess að vita í rauninni hvað valkostirnir þýða – eins og alþingiskosningarnar síðast hafa sýnt. Þjóðfélagssýn Pírata snýst einmitt um nákvæmlega þetta, að það sé eins skýrt og mögulegt er hvað valkostirnir þýða og að ferlið sem leiðir að þeim valkostum sé eins opið og aðgengilegt og hægt er. Áhrifin sem það getur haft á þjóðfélagið eru rosaleg.

Við viljum breyta því hvernig við stundum lýðræði, opna stjórnsýsluna, krefjast ábyrgð af þeim sem sinna löggjafa- og framkvæmdaþjónustu og standa vörð um borgaraleg réttindi og friðhelgi einkalífsins – þær breytingar koma til með að vera uppskriftin að því hvernig við leysum öll vandamál þjóðfélagsins. Mér finnst það bara vera ágætis þjóðfélagssýn.

Um verðtryggingardóminn

Sjá dóminn

“Verðtryggingin virðist þó ekki vera ófrávíkjanleg, í þeim skilningi að skylt sé að verðtryggja fasteignalán”

“Enn fremur getur lánveitanda verið skylt að láta neytanda í té tilteknar upplýsingar um þá samningsskilmála sem teljast bindand”

1. spurning: “… hvort tilskipunin leggi almennt bann við notkun samningsskilmála um verðtryggingu veðlána í samningum lánveitenda og neytenda.”
Svar: Nei, slíkir skilmálar geta verið löglegir en beitt á óréttmætan hátt – ef svo, þá eru þeir ólöglegir. Landsdómstóll kveður á um slíkt með tilliti til aðstæðna.

2. spurning: takmarkar tilskipunin “hvaða þættir geti valdið breytingum á fyrirfram ákveðinni vísitölu, á borð við vísitölu neysluverðs, og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar.”
Svar: Nei, ríki er frjálst að skilgreina hvaða reiknireglur eru notaðar til þess að ákvarða, til dæmis, vísitölu neysluverðs. Verðtryggingin er þannig ekki ólögleg hvað varðar tilskipunina vegna þess hvernig vísitalan er reiknuð.

3. spurning: Er samningsskilmáli sérstaklega umsaminn þegar; (a) verðtrygging er tilgreind og við hvaða vísitölu skuli miða, (b) áætlaðar greiðslur sýndar með athugasemd um að breytingar geti orðið miðað við verðbólgu, (c) báðir samningsaðilar undirrita greiðsluyfirlitið samtímis.
Svar: “ekkert í beiðni landsdómstólsins sem bendir til þess að sérstaklega
hafi verið samið um efni skuldabréfsins sem málið sem þar er rekið snýst um. Ef stefndi heldur öðru fram er það hans að færa sönnur á að svo sé”

Í færri orðum, ef ekki er sérstaklega samið um ákvæði samningsins þá er hann ekki löglegur. EFTA dómstóllinn sér engin gögn um að svo sé og nú verður stefndi (lánveitandinn) að sanna að sérstaklega hafi verið samið um verðtryggingarákvæðið. Það er ekki nóg að annar (óverðtryggður) möguleiki hafi verið til staðar til þess að sérstaklega hafi verið samið um verðtryggingarákvæðið.

Landsdómstóll verður að taka afstöðu um hvort það sé nóg að undirrita greiðsluyfirlit (sem er í raun ekki hægt að semja um því það er bara mat á stöðunni).

4. spurning: Var aðferðinni við útreikning verðbreytinga nægilega vel útskýrð fyrir neytenda?
Svar: Landsdómstóls að ákveða – miðað við svar við spurningu 3.

5. spurning: Ef samningsskilmáli telst óréttmætur, hvaða skyldur leiðast af því?
“slíkur skilmáli sé óskuldbindandi fyrir neytandann að því gefnu að samningurinn geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hins óréttmæta skilmála að því marki sem reglur landsréttar leyfa”
Semsagt, óréttmætur skilmáli fellur niður, afgangurinn af samningnum heldur.

————————

Matið um hvað telst umsaminn skilmáli er áhugaverður. Nú þegar maður veit að lán eru ekki endilega ‘vörur’ sem maður bara kaupir eða ekki – heldur er hver og einn hluti samningsins umsemjanlegur, þá kemur maður til með að bera sig öðruvísi að í slíkum aðstæðum.

Ég myndi allavega telja, að ef annar samningsaðilinn telur sig ekki geta breytt ákvæðum samnings, bara skrifað undir eða hafnað – þá séu samningsatriði ekki sérstaklega umsamin.

Lygarnar í lekanum

Á vef DV er mjög góð síða sem útskýrir röð atburða mjög vel. Þegar maður les greinarnar með svona stuttu millibili í réttri röð kemur ýmislegt áhugavert í ljós:

19. nóvember

 • 16:00 – 17:00 skjalið sent á HBK, aðstoðarmenn hennar og ráðuneytisstjóra rétt eftir að hefðbundnum vinnutíma lýkur.
 • 18:40: Gísli talar við starfsmann Vísis.

20. nóvember

 • 09:46: Gísli talar við starfmann mbl.

21. nóvember

 • Einhverjir óbreyttir starfsmenn gætu hafa lekið skjalinu samkvæmt Gísla, þau ummæli eru svo dregin til baka

22. nóvember

 • Innanríkisráðuneytið segir ekkert benda til þess að gögnunum hafi verið lekið úr ráðuneytinu

3. desember

 • HBK endurtekur yfirlýsingu innanríkisráðuneytis í pontu á alþingi og skammast út í fyrirspurn á sama tíma í þokkabót.

10. desember - Hérna dregur til tíðinda og lygarnar hefjast fyrir alvöru.

 • Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd segir HBK nefndarmönnum að skjalið sé ekki úr innanríkisráðuneytinu. Líklega vegna setningarinnar sem var bætt við skjalið. 

16. desember

 • Aftur í fyrirspurnartíma (sem reynt var að koma í veg fyrir), nú segir HBK að skalið hafi líka farið til rauða krossins. Þetta sama skjal sem var ekki úr innanríkisráðuneytinu … nú er þetta farið að verða ruglingslegt.

18. desember

 • Starfsmaður rauða krossins gagnrýnir HBK fyrir að bendla samtökin við lekann. Rauði krossinn biður ráðherra afsökunar seinna um daginn (? hræddir um að missa styrki samkvæmt starfsmanni RK ?)

12. janúar

 • Innanríkisráðuneyti staðfestir að skjalið hafi einungis farið þangað sem það átti að fara, lögum samkvæmt. Þetta er væntanlega skjalið sem var ekki úr innanríkisráðuneytinu samkvæmt orðum frá 10. des.

17. janúar

 • Þórey: „raunverulega búið að taka fyrir það að þessi gögn hafi farið, eða einhver gögn er varða þessa hælis­leitendur hafi farið úr gögnum ráðuneytisins.“ — Þetta er mjög athyglisvert. Það er búið að taka fram að skjalið hafi einungis verið sent á ‘rétta aðila’ en hérna er sérstaklega tekið fyrir að lekinn hafi komið úr ráðuneytinu.

27. janúar

 • HBK ítrekar á alþingi að engir aðrir en ‘réttir aðilar’ hafi fengið gögn frá ráðuneytinu, ennfremur að efni fjölmiðla sé „ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu“. Þetta er enn athyglisvert miðað við orð HBK frá 10. des og 16. des; orð ráðuneytis þann 12. jan; og orð Þóreyjar þann 17. jan. 

7. febrúar

 • HBK ætlar ekki að víkja úr starfi þrátt fyrir rannsókn. 

13. febrúar

 • BB og HBK neita bæði að ráðuneytis sæti sakamálarannsókn úr pontu alþingis. Það reyndist vera ósatt hjá þeim.

25. febrúar

 • DV greinir frá að aðeins örfáir hafi haft aðgang að skjalinu og nefnir í fyrsta sinn að setningu virðist hafa verið bætt við skjalið. Þetta er sérstaklega athyglisvert vegna þess að fram að þessu ætti fólk bara hafa vitað af einni útgáfu af skjalinu, þeirri sem ráðuneytið bjó upphaflega til. Ef HBK vísaði ávallt í breytta skjalið sem rök fyrir því að það kæmi ekki úr ráðuneytinu, hvernig vissi hún af breytingunum?

2. maí

 • Úrskurðir hæstaréttar og héraðsdóms birtir þar sem kemur fram að ráðherra og aðstoðarmenn hafi fullyrt gegn betri vitund að skjalið hafi ekki komið úr ráðuneyti þeirra.

6. maí

 • HBK segir á alþingi að hún hafi aldrei logið að þingheimi. Hún gerði það 3. des úr pontu alþingis (gögnum ekki lekið úr ráðuneyti), 10. des fyrir þingnefnd (skjalið ekki úr innanríkisráðuneytinu), 27. janúar (ekki sambærilegt við gögn úr ráðuneytinu) úr pontu á alþingi og 13. febrúar (ásamb BB, um rannsókn) – að minnsta kosti. Óbreytt skjal ráðuneytisins er nákvæmlega eins og skjalið sem var lekið ef frá er tekin ein setning. Skjalið er því að megninu til úr innanríkisráðuneytinu og mjög sambærilegt. Einnig staðfesti HBK sjálf að skjalið hefði bara farið til réttra aðila – utanaðkomandi leki er því samkvæmt henni sjálfri, ómögulegur.

3. ágúst

 • HBK fullyrðir að skjalið hafi ekki fundist fyrr en á seinni stigum málsins. Áður hefur komið fram að skjalið var sent HBK, aðstoðarmönnum hennar og ráðuneytisstjóra. Þetta eru ‘réttu aðilarnir’ samkvæmt HBK sjálfri. Gísli opnaði skjalið þann 19. nóv, daginn áður en frétt birtist.

Inn í þessa atburðarrás blandast ráðningar or brottrekstrar, afskipti af störfum fréttamanna og skammir um fyrirspurnir á alþingi.

Það athyglisverðasta í þessu ferli er:

 • Það er staðfest að skjalið sé til og hafi verið lesið af aðstoðarmanni HBK strax í upphafi.
 • HBK vísar mögulega í breytt skjal en það kemur ekki fram fyrr en nokkru seinna að skjalinu sem var lekið hafi verið breytt.
 • Einungis ‘réttir aðilar’ fengu skjalið samkvæmt HBK og ráðuneyti – þrátt fyrir það var rauða krossinum bætt í málið og vísað í opið aðgengi. Það bendir ekki til þess að einungis réttir aðilar hafi verið með aðgang.

Þessar staðreyndir stangast á við orð HBK í þingnefnd og úr pontu alþingis. Það er ómögulegt að segja hver vissi hvað hvenær út frá þessum gögnum en allar líkur eru á því að HBK hafi ekki sagt þingnefnd né alþingi allt sem hún vissi um málið. Réttara sagt er líklegt að hún hafi leynt upplýsingum með því að neita að upplýsingarnar hafi verið til. Sé svo, þá er það lygi.

Lykillinn hérna eru ummæli Gísla þann 21. nóvember. Þar nefnir hann að skjalinu hafi mögulega verið lekið af óbreyttum starfsmanni. Innanríkisráðuneyti og ráðherra staðhæfa svo seinna að einungis ‘réttir aðilar’ hafi fengið skjalið … en annarsstaðar að skjalið hafi verið á opnu drifi. HBK vissi því augljóslega af skjalinu fyrir 3. des og örugglega innihald þess fyrir 27. jan. Miðað við ummælin frá 21. nóvember er líklegt að ‘réttir aðilar’ hafi vitað allt um málið síðan þá. Misbrestirnir í málflutningnum eru augljósir og því augljóst að ekki var öll sagan sögð í þingnefnd og á alþingi.

 

Næsta ár Pírata

Kæru Píratar.

Eitt ár á þingi. Nýkomin í ráðhús.

Við erum komin af stað en það er löng leið eftir. Við erum enn að læra og þurfum að halda áfram að kenna hvað það er að vera Pírati. Markmiðið er lýðræðislegra samfélag – og við erum bara að stíga fyrstu skrefin.

Það má alveg færa fyrir því rök að lýðræðisleg vinnubrögð eru miklu tímafrekari og umfangsmeiri en miðstýrð vinnubrögð. Fljótlega leiðin er miðstýring. Skilvirka leiðin er miðstýring. En með miðstýringu kemur líka spilling. Þess vegna eru Píratar með framkvæmdaráð en ekki miðstjórn. Hóp fólks sem tryggir Pírötum aðgengi að aðstöðu til þess að stunda málefnastarf án þess að þurfa að pæla í öðru skipulagi en málefnalegu. Hóp fólks sem skipuleggur atburði sem kenna, miðla og efla samstarf Pírata, hvort sem þeir eru innan eða utan flokks.

Eitt af markmiðum framkvæmdaráðs síðastliðið ár var að koma upp betra samskiptakerfi fyrir Pírata. Upplýsinga- og miðlunarkerfi fyrir málefnahópa og vinnuhópa. Framan af skoðuðum við ýmis kerfi sem virtust standast kröfur okkar. Síðan biðum við eftir að fá netþjóna til þess að geta prófað kerfin, en þegar upp var staðið var ekkert af þeim nægilega gott. Ég tel það því vera eitt af mikilvægari málum næsta framkvæmdaráðs að halda áfram með þetta verkefni.

Annað mikilvægt verkefni er gæðahandbókarverkefnið. Það er mikilvægur liður í því að koma aðferðum og ferlum niður á blað. Hvernig á að boða fundi, hvernig á að skrá fundi, hvernig á að skila niðurstöðum funda áfram, hvernig vinnu- og verkefnahópar starfa, hvernig málefnahópar starfa … og svo mætti lengi telja.

Verkefni framkvæmdaráðs eru margvísleg og flókin, vegna þess að við erum enn að læra hvernig stuðning þarf utan um það lýðræðislega stjórnkerfi sem við viljum fá. Píratar eru félagasamtök sem hafa það að markmiði að breyta því hvernig við stundum stjórnmál. Það þýðir ekki endilega að við kunnum það öll sjálf. Þegar einhver skráir sig í Pírata þá þýðir það ekki að viðkomandi hafi hugmynd um hvernig við störfum eða hvernig hægt sé að taka þátt.

Mikilvægasta verkefni Pírata, að mínu mati, er að halda áfram að læra og kenna. Lýðræðið byrjar hjá einstaklingnum. Hugmynd þarf að komast á framfæri, fá lýðræðislega umfjöllun, það þarf að safna gögnum og reynslu og koma niðurstöðunum að lokum til framkvæmda. Lýðræðið byrjar líka í stjórnsýslunni. Þar koma upp ýmis vandamál sem þurfa líka lýðræðislega meðferð. Málefnastarf Pírata á að vera líkan sem allir nota. Nú þegar það eru Píratar í stjórnsýslunni þá þarf málefnastarfið að styðja vinnuna þar.

Vandamálið sem við glímum við er þreföld; samskiptafjarlægðin á milli einstaklinga í lýðræðislegri umræðu, fjarlægðin á milli einstaklinga og framkvæmdaraðila og að lokum fjarlægð á milli framkvæmdaraðila innan stjórnsýslu. Við þurfum vettvang til lýðræðislegs málefnastarfs; vettvang þar sem málefnum er komið áfram til kjörinna fulltrúa og frá fulltrúum aftur inn í málefnastarfið.

Pírötum vantar líka vettvang þar sem kjörnir fulltrúar geta samstillt aðgerðir. Hingað til höfum við haft málefnahópa sem halda málefnafundi. Við höfum haldið framfarafundi þar sem kjörnir fulltrúar kynna málefni sem þau eru að vinna. Nú þurfum við að bæta við samráðsfundum fulltrúa. Þar geta kjörnir fulltrúar skipulagt málefni næstu mánaða; tekið við nýjum málum úr málefnastarfi; og sent mál aftur, með athugasemdum, í málefnahópa. Hér á framkvæmdaráð að bera ábyrgð á því að öll skilaboð komist á rétta staði og ef það er ekki málefnahópur tilbúinn til þess að taka við nýjum málum, koma þeim af stað.

Framkvæmdaráð fæst við skipulagningu. Fyrir utan að bera ábyrgð á því að sinna því sem stjórnmálaflokkur þarf að skila af sér lögum samkvæmt – þá er skipulagning félagsstarfsins mikilvægasta starf framkvæmdaráðs. Nú erum við komin með styrk til framkvæmda, kosningum nýlokið og framundan eru mikilvæg ár þar sem þarf að sinna félagsstarfi mjög vel.

Hvað höfum við lært undanfarið ár í framkvæmdaráði? Það er erfitt að gera nokkuð án þess að hafa húsnæði til málefnafunda. Það er erfitt að gera nokkuð án þess að hafa pening til að skipuleggja atburði og skyldufundi. Það er erfitt að fá sjálfboðaliða til þess að skipuleggja starfið og það er aldrei hægt að gera ráð fyrir því að eitthvað gerist sjálfkrafa á réttan hátt. Það er erfitt að finna sjálfboðaliða í verkefni og erfitt að fylgja verkefninu eftir.

Almennt varðandi samskipti, þá er ekki hægt að komast hjá því að fólk skiptist ekki jafnt á skoðunum. Ég hef sagt það nokkrum sinnum áður, í bestu hjónaböndum þá verða árekstrar – því er barnaskapur að halda því fram að í stjórnmálasamtökum verði engir árekstrar. Við þurfum að iðka lýðræði í skoðanaskiptum okkar – heyra sjónarmið annara áður en við lokum okkur inni í tómu herbergi og dáumst að bergmálinu.

Kosningar hafa verið aðaldrifkraftur í félags- og málefnastarfi Pírata fram að þessu. Í kosningabaráttunni hefur okkur tekist að vekja athygli á þeim málefnum sem okkur mest varða, fengið í lið með okkur mjög öflugt fólk og síðast en ekki síst stuðning kjósenda. Nú þurfum við að læra að halda áfram að vekja athygli á málefnunum okkar, utan kosningabaráttu. Vekja áhuga fólks á virku lýðræði og halda áfram að finna öflugt fólk sem berst fyrir beinna lýðræði, gagnsæi í stjórnsýslu og borgararéttindum. Fólk sem er tilbúið til þess að takast á við stjórnmál í lýðræðisumhverfi á upplýsingaöld.

Að daðra við fordóma

Óttinn við hið óþekkta er góður eiginleiki hjá hinum ýmsu dýrategundum. Dýrategundir sem hafa ekki heilbrigðan skammt af vantrausti gagnvart mögulegri ógn lifa ekki mjög lengi í breytilegu umhverfi. Dódó fuglinn dó út mjög fljótlega eftir að maðurinn varð hans var. Margar dýrategundir í Ameríku eru taldar hafa dáið út af því að þær kunnu ekki að varast manninn á meðan dýrategundir í Afríku sem þróuðust með manninum lifðu af. Vantraust, óttinn við hið óþekkta, hefur líka annað nafn; fordómar. Í tilviki Dódó fuglsins og ýmissa annara dýrategunda þá hefðu aðeins meiri fordómar mögulega komið í veg fyrir að þær hefðu dáið út.

Af ofangreindum ástæðum dreg ég þá ályktun að fordómar geti bara verið mjög góðir.

En rétt eins og of litlir fordómar geta verið slæmir fyrir afkomu dýrategunda, þá geta of miklir fordómar verið álíka lamandi. Seinni heimsstyrjöldin er eitt nýlegasta dæmi þess hvernig fordómar geta farið með mannleg samfélög. Lög gegn samkynhneigðum í ýmsum löndum eru nýlegri dæmi. WWII og samkynheigð eru auðveld dæmi um fordóma, aðeins flóknara fordómadæmi er til dæmis einelti. Í einhverjum tilfellum er ástæða eineltis sú að gerendum er að einhverju leyti ‘ógnað’ af fórnarlömbunum – en út af sterkri félagslegri stöðu þá geta gerendur einangrað fórnarlömbin sín með andlegu eða jafnvel líkamlegu ofbeldi. Óttinn við að glata félagslegri stöðu, óttinn við að glata áliti, óttinn sem er knúinn af hinu óþekkta – skilningsleysi, fordómum.

Í nýliðnum kosningum í Evrópu (Ísland er í Evrópu ef einhverjir eru búnir að gleyma því) þá fékk ákveðinn stjórnmálaarmur byr undir báða. Stjórnmál sem eru kennd við ‘öfga-hægri’. Í skilningi ‘hægri’ sem markaðshyggju þá held ég að þetta sér gríðarlegt rangnefni því rétt eins og ‘öfga-vinstri’ þjóðernishyggja eins og hún varð með kommúnisma þá eiga öfgarnar ekkert skylt við hvorki markaðshyggju né kommúnisma. Öfgarnar réttara sagt skemmdu kommúnista hugmyndafræðina – það sama getur mögulega gerst með markaðshyggjuhugmyndafræðina. Öfgarnar, þrátt fyrir að eiga ekkert skylt með ‘hægri’, koma til með að koma óorði á þá hugmyndafræði. Þetta gerist út af rökvillu sem kallast: sök vegna tengsla (e. guild by association).

Í nýliðnum sveitastjórnarkosningum döðruðu Framsóknarmenn við fordóma. Áður en allt fer í háaloft þá ætla ég að taka það sérstaklega skýrt fram að ég geri ráð fyrir því að það hafi verið gert í hinu mesta sakleysi með góðum tilgangi. Engar ásakanir um að tilgangur skilaboðanna hafi verið að ala á fordómum – vandamálið er hins vegar að einhverjir skildu skilaboðin þannig. Það gerist bara mjög oft í mannlegum samskiptum að ætluð skilaboð komast ekki rétt á leiðarenda. Hver sem hefur leikið sér í ‘hvísla í hring’ leiknum sem krakki ætti að kannast við hvernig upprunalegu skilaboðin komast aldrei rétt til skila. Ég ætla því að gefa mér að tilgangur Framsóknarmanna rétt fyrir kosningar hafi ekki verið að ala á fordómum heldur hafi verið raunverulegar, uppbyggilegar, áhyggjur. Það getur verð rétt eða rangt hjá mér, hvort sem það er – þá er það ekki aðalatriðið. Rökvillurnar eru aðalatriðið og mögulegar afleiðingar þeirra.

Ég hef þegar lýst ‘sök vegna tengsla’. Önnur rökvilla sem er í hjarta þessa máls eru ógnarrökin (hræðslurök, snjóboltavilla, e. appeal to fear). Jafnvel þó að tilgangur skilaboðanna sé góður þá getur efni þeirra innihaldið atriði sem einhverjir eru fordómafullir gagnvart. Atriði sem einhverjir skilja ekki, tilvísun í menningu sem er framandi, eitthvað óþekkt sem er vert að huga að með varkárni – eitthvað sem við skiljum ekki og erum því ekki dómbær um. Þegar við skiljum ekki eitthvað þá dæmum við það án þekkingar. Við dæmum það fyrirfram … fordæmum.

Aftur, fordómar eru ekki endilega slæmir. Við búum hinsvegar í samfélagi manna og ýmis konar ‘tjáning’ á fordómum okkar getur verið mjög … mismunandi. Þess vegna eru ákvæði um mannréttindi  í stjórnarskrá (65. grein), til þess að minna okkur á. Út af ofangreindum rökvillum (og nokkrum öðrum) þá getur verið mjög erfitt að fjalla um þessi málefni án þess að misskiljast. Að ala á ótta er að biðla til vanþekkingar. Það er ekki til þess gert að ná upplýstri umræðu. Nákvæmlega þess vegna er slíkur málflutningur rökvilla. Umræða þar sem lausnir byggjast á ótta og fordómum endar aldrei í sameiginlegum skilningi á aðstæðunum og lausn sem allir eru sáttir við.  Því langar mér aðeins að fjalla um mögulega atburðarrás.

Gefum okkur að skilaboð Framsóknar fyrir kosningar hafi verið send í hinu mesta sakleysi. Staðreyndin er sú að skilaboðin komust ekki þannig til skila. Ábyrgðin á því liggur jafnt hjá þeim sem tók við skilaboðunum, og þeim sem sendi þau frá sér (að leiðrétta ekki). Ástæðurnar fyrir því að skilaboðin voru ekki leiðrétt geta líka verið fullkomlega saklausar en vegna þess, þá myndast hérna möguleiki á sök vegna tenglsa. Ekki hvað Framsókn varðar, heldur þá sem misskildu skilaboðin. Þar finna þeir hljómgrunn fyrir fordómafullar túlkanir á annars (mögulega) ágætri ábendingu. Ef ásetningur Framsóknar er saklaus, þá væntanlega komast ekki túlkanir viðkomandi hóps manna ekki í framkvæmd – en vegna þess að Framsókn er þá orðinn sameiginlegur vettvangur fyrir þessar ranghugmyndir (sök vegna tengsla) þá verður það þangað sem slíkar hugmyndir verða áfram sóttar. Eina leiðin til þess að koma svo þessum málum í framkvæmd verður að finna frambjóðendur sem standa fastar á þessum málum … hversu auðvelt verður það fyrir þá sem standa að fylgi Framsóknar að standa saman í að styðja frambjóðendur sem hafa það að markmiði að koma misskilningnum í framkvæmd?

Sama hvað, ef við bregðumst ekki við ótta og fordómum á uppbyggilegan og fræðandi máta – þá endum við sem fórnarlamb óttans. Ef tilgangur Framsóknar var í sakleysi sínu að vekja athygli á réttmætu vandamáli, þá misskildist það tvímælalaust og núverandi flokkur getur glatast í einfaldri yfirtöku. Ef tilgangur Framsóknar var að fiska atkvæði – þá getur núverandi flokkur glatast í einfaldri yfirtöku. Ef tilgangur Framsóknar var óttaáróður og ætlunin er að framfylgja því sem var sagt – þá er yfirtakan hafin. Hvað segja framsóknarfólk í sveitastjórnum út um allt land um það? Er samvinnufélagshugmyndin alveg horfin? Samræmist það gildum xb um mannréttindi og stjórnmál?

Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika.

Ég vil taka það sérstaklega fram að það er engin ‘árás’ fólgin í þessari grein. Ég hef í alvöru áhyggjur af því að fordómar hasli sér völl í íslenskum stjórnmálum. Tilgangur greinarinnar er að útskýra hvernig það getur gerst í kjölfar nýliðinna sveitastjórnakosninga – ef ekki er hætt að ala á ótta í umræðu um mjög alvarleg og mikilvæg mál. Það er mjög erfitt að útskýra rökvillur og hversu hættulegar þær eru. Ef það væri auðvelt þá væru þær ekki rökvillur. Ákveðnir aðilar _verða_ að vera sérfræðingar í þeim og beita sér sérstaklega fyrir því að forðast þær. Rökvillur eiga ekki heima í stjórnmálum og fjölmiðlum. Ábyrgð þeirra sem notar rökvillur vísvitandi er mikil.

Loforðalýðræði á fjögurra ára fresti

Í nýlegri grein eftir Guðrúnu Bryndísi er áhugaverð tilvitnun:

Hann kenndi mér lausnina á því hvernig mætti ná manni inn – galdurinn væri að vera með einsmálsstefnu sem væri FLUGVÖLLURINN!

Í sjálfu sér er ekkert að kosningabaráttu sem snýst bara um eitt mál en þegar kjörtímabilið er fjögur ár þá þarf slíkt mál að vera ansi viðamikið og flókið til þess að vera full vinna í fjögur ár að klára. Þetta er eitt af vandamálum núverandi lýðræðiskerfis, við erum bara lýðræði á fjögurra ára fresti. Núverandi ríkisstjórn er til dæmis með 49,86% atkvæða, 60,3% þingsæta og 100% valds í fjögur ár – út af niðurstöðum einna kosninga.

Dæmið um flugvöllinn gæti valdið annari áhugaverðri niðurstöðu fyrir lýðræðið. Eitt mál sem skilar einhverjum fulltrúum. Segjum að það yrði strax drifið í kosningu um málið og niðurstaða fengin, hvað ætti þetta fólk að gera árin sem eru eftir? Segjum sem svo að það væri ekki farið í kosningu um málið fyrr en að loknu næsta kjörtímabili, hvað var þetta fólk þá að gera allan tímann?

Er ekki réttast að hvert og eitt mál fari bara í sinn farveg og klárist á eigin tíma – og þau sem keyra það mál áfram klári bara á sama tíma. Af hverju þurfum við að sitja uppi með fólk sem er kosið út á loforð allt kjörtímabilið þegar það er búið að klára loforðamálin? Hvað er það fólk að skipta sér að öðrum málum en þeim sem þau notuðu til þess að kaupa sér atkvæði til valda?

Hvað er þá rétt að gera? Kjörnir fulltrúar eiga að vera í þjónustu við lýðræðið. Eftirlit með því að lýðræðislegar niðurstöður komist í framkvæmd og skil á verkefnum séu eftir kröfum. Að vinna að lýðræðislegu samfélagi er stöðug vinna, það er aðalverkefni Pírata í þessum sveitastjórnarkosningum. Til þess þarf ýmislegt að breytast. Til þess að við getum tekið sameiginlegar ákvarðanir um forgangsröðun verkefna þá þurfum við að sjá hvernig bókhaldið er = opið bókhald. Með fullu aðgengi að öllum upplýsingum sem þarf til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir þá verður lýðræðið fyrir alla, ekki bara á fjögurra ára fresti.

xthlydraedi