Umsögn um stóra hagstofumálið

Allsherjar- og menntamálanefnd

Reykjavík, 25. júní 2013

Kallað hefur verið eftir umsögnum um frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Ætlun ráðherra virðist vera að fá breytingarnar samþykktar strax á skammvinnu sumarþingi sem sést best á því að allsherjarnefnd ætlaði umsagnaraðilum heila tvo daga til þess að veita umsagnir um málið. Hér er þó ekki um einfalt eða óumdeilt mál að ræða og því ekki ráðlegt að ætla því þá flýtimeðferð sem virðist stefna í.

Vankantar þessa frumvarps falla að mínu mati í þrjá flokka sem hver um sig veitir nægjanlega ástæðu til þess að hafna frumvarpinu í þeim búningi sem það er nú. Þeir eru eftirtaldir:

A) Verulegt órökstutt inngrip í friðhelgi einkalífs.

Fyrirhuguð söfnun fjarhagsupplýsinga um alla Íslendinga í miðlægan grunn er í eðli sínu verulegt inngrip í friðhelgi einkalífs sem nýtur verndar samkvæmt ákvæði 71. gr. stjórnarskrár Íslands og efnislega hliðstæðum ákvæðum alþjóðlegra mannréttindasáttmála og yfirlýsinga sem Ísland er aðili að. Slíkt inngrip verður aðeins réttlætt með því að verulegir aðrir hagsmunir vegi þyngra. Í frumvarpi forsætisráðherra er það órökstutt með öllu að markmiðið með lagabreytingunum réttlæti inngripið.

B) Illa afmarkaðar og varanlegar heimildir Hagstofu Íslands til upplýsingasöfnunar.

Heimildir Hagstofu Íslands til upplýsingasöfnunar eru illa afmarkaðar varðandi þær upplýsingar sem sækja á. Taldir eru til nokkrir flokkar fjárhagsupplýsinga en sú talning er ekki tæmandi og í raun er það háð mati Hagstofu á hverjum tíma hvaða gagna stofnunin mun afla. Heimildirnar virðast jafnframt vera ótímabundnar þrátt fyrir að yfirlýst markmið frumvarpsins sé að afla gagna fyrir hagskýrslugerð til að varpa ljósi á umfang núverandi skuldavanda einstaklinga. T.a.m. felur frumvarpið í sér breytingar á þeim greinum Hagstofulaganna sem skilgreina hlutverk stofnunarinnar, slíkri breytingu er augljóslega ætlað að standa varanlega.

C) Öryggi gagnanna er ekki tryggt.

Tæknileg útfærsla á söfnun og geymslu upplýsinganna er alfarið á forræði þeirrar stofnunar sem mun afla gagnanna, varðveita þau og vinna með þau. Frumvarpið felur ekki í sér nein fyrirmæli um hvernig öryggi gagnanna skuli tryggt við öflun þeirra, varðveislu og úrvinnslu en í greinargerð er væntanlegu verklagi Hagstofu lýst á mjög almennum nótum. Kjarni málsins er þó sá að þrátt fyrir góðan ásetning allra sem að málinu koma þá mun ekki verða mögulegt að tryggja öryggi upplýsinganna. Fyrirhuguð er samkeyrsla víðtækra upplýsinga úr mörgum áttum sem tengdar verða við einkvæm persónueinkenni. Ljóst má vera að í fámennu samfélagi verður með lítilli fyrirhöfn unnt að tengja gögn við tilgreinda einstaklinga hvað sem allri dulkóðun persónueinkenna líður.

Niðurlag

Það væri óskandi að meiri tími gæfist til umsagna um frumvarp þetta þar sem það snertir gríðarlega stóra hagsmuni sem fá merkilega litla umfjöllun í samfélaginu. Rétturinn til friðhelgi einkalífs er ekki léttvægur og það hefur aldrei verið mikilvægara að standa vörð um þann rétt en nú á tímum nýrrar upplýsingatækni sem hefur auðveldað verulega söfnun upplýsinga og samkeyrslu þeirra. Hér verður að staldra við og meta það hvaða hættur fylgja tilvist gagnagrunns af því tagi sem frumvarpið heimilar og þá ekki síður hvers konar fordæmi er gefið til framtíðar með því að feta þessa braut.

Virðingarfyllst,

Bjarki Sigursveinsson hdl.

 

Posted in Uncategorized

Eiga Píratar erindi við landsbyggðina?

Efstu frambjóðendum á listum þeirra stjórnmálasamtaka sem bjóða fram til Alþingis var nýlega boðið að svara fjölmörgum spurningum fyrir kosningavef fjölmiðils. Framtakið er gott og hjálpar vonandi einhverjum að átta sig á því kraðaki lista og flokka sem í boði er. Ein spurninganna vakti sérstaka athygli mína: “Telur þú rétt að eyða skattfé ríkissjóðs til að berjast gegn fólksfækkun úti á landi?” Spurningin er skiljanleg í ljósi þeirrar landsbyggðarpólitíkur sem hefur tíðkast á Íslandi og gengur í grunninn út á það að ríkisvaldið í höfuðborginni útdeili gæðunum en landsbyggðin sé þiggjandi.

Kosningabarátta á þessum forsendum felst í því að stjórnmálamenn þeysast um hinar dreifðu byggðir og yfirbjóða hvern annan með loforðum um vegabætur, niðurgreiðslur af ýmsu tagi og ívilnunum fyrir orkufreka stóriðju. Hugmyndaflugið er ekki sérlega mikið og virðist lítið þróast á milli kosninga.

Ég hef heyrt þá gagnrýni á Pírata að þeir séu eins máls framboð með internetið á heilanum og enga stefnu í til dæmis byggðamálum. Það er rangt. Grunnstefna Pírata er einföld og hún byggir á auknu gagnsæi, valddreifingu, beinu lýðræði og sjálfsákvörðunarrétti borgaranna. Öll nánari útfærsla á stefnumálum Pírata byggir á þessum grunni.

Í raun eru Píratar í eðli sínu hinn eini sanni landsbyggðarflokkur. Við kjósum alltaf hið smáa og dreifða fram yfir hið stóra og miðstýrða. Við viljum sjá dreifðari stjórnsýslu og völdin færast heim í hérað til sveitarfélaganna sem eru þau stjórnvöld sem standa fólki næst. Við viljum auka beint lýðræði og þá sérstaklega í nærumhverfi almennings í sveitarfélögunum. Verðmætasköpunin í hagkerfinu á sér stað um allt land og það á að treysta almenningi til þess að ráðstafa þeim verðmætum að mestu milliliðalaust í sinni heimabyggð fremur en að treysta á bitlinga sem þingmenn kjördæmisins kreista úr ríkisvaldinu.

Í skýrslu McKinsey Global Institute 2011 kemur fram að í dag skapar internetið 20% af hagvexti þróaðra hagkerfa og því er spáð að þetta hagkerfi internetsins muni tvöfaldast yfir næsta kjörtímabil. Þetta á svo sannarlega erindi við landsbyggðina þar sem hér um að ræða fjölda starfa án staðsetningar sem hægt er að sinna jafn vel frá Neskaupstað eins og New York, að því gefnu að nettenging sé til staðar. Í þessu umhverfi verða flutningaleiðir gagna jafn mikilvægar og þjóðvegakerfið og tryggja þarf með sama hætti að allar byggðir landsins hafi aðgang að þessu flutningakerfi og að opið og frjálst internet sé verndað gegn tilraunum ýmissa hagsmunaaðila til þess að stýra ferðinni.

Í landbúnaði hefur netið gert æ fleiri bændum það kleift að komast í beint samband við neytendur og selja afurðir milliliðalaust. Það mun ekki standa á pírötum að liðka enn frekar fyrir slíkum viðskiptum. Píratar vilja einnig auka sjálfbærni íslensks landbúnaðar með því að auka notkun innlendra orkugjafa á borð við lífeldsneyti og við teljum nauðsynlegt að auðvelda nýliðun í landbúnaði með tiltækum ráðum, til dæmis með hagstæðum lánum til jarðakaupa. Styrkjakerfi landbúnaðarins þarf einnig að endurskoða með áherslu á að draga úr miðstýringu þess en hvetja um leið til nýsköpunar, sjálfbærni og ábyrgðar gagnvart umhverfinu og velferð dýra.

Möguleikar landsbyggðarinnar eru óteljandi að mati pírata en það krefst framsýni og skilnings á nútímanum að leysa þá möguleika úr læðingi.

Greinin birtist fyrst á vef Akureyrar vikublaðs.

Posted in Uncategorized