Dagur 1 á Evrópuþingi

Evrópuþingið er eins og einn risastór teppalagður flugvöllur með hárgreiðslustofu og fatahreinsun. Það þarf að fara í gegnum tilgangslaust öryggiseftirlit þar sem ekki einu sinni verðirnir trúa því að þeir séu að gera eitthvað gagn. Þar er líka kaffitería sem er bara fyrir evróuþingmenn og þá sem eru með réttan passa. Allir aðrir þurfa að borða nestið sitt eða kaupa samlokur fyrir €2,40 af samlokubarnum uppi. Samt fínar samlokur sko. Bara lýsandi fyrir stéttaskiptinguna

Fyrir þá sem kannski ekki vita, þá var ég að hefja starfsnám hjá Amelia Andersdotter, Evrópuþingmanni fyrir sænska Pírata. Hún var kjörin á þing árið 2009 og var þá yngsti þingmaðurinn til þess að vera kosinn á Evrópuþing í sögunni, 22 ára gömul. Hún og teymið hennar eru alveg frekar kúl, svo þetta verður áhugaverðir þrír mánuðir í Brussel.

Þegar ég fer á nýja staði þá er eitt það fyrsta sem ég tek alltaf eftir því hvernig klósettin eru. Klósettin á Evrópuþingi eru alveg 4/10. Þau eru alveg hrein, en virðast ekki vera þrifin neitt sérstaklega oft. Klósettpappírinn er þunnur. Sápan lyktar illa. Ég bjóst við meira af miðstöð valdsins í Evrópu. Gráir veggirnir eru tacky.

Vinnulega séð var dagurinn ekkert sérstaklega afkastamikill fyrir mig, enda fyrsti vinnudagurinn. Hinsvegar fékk ég að vita hvað ég ætti að vinna við, að taka saman skriflegar spurningar annarra þingmanna. Hver Evrópuþingmaður má senda inn eina skriflega spurningu á dag til Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (European Commission) varðandi eitthvað málefni sem þeim finnst þeir þurfa betri útskýringu á. Eftir að framkvæmdastjórnin hefur fengið spurninguna þá hafa þeir sex vikur til þess að svara þessu. Þetta getur verið allt milli himins og jarðar en í rauninni þá er þetta einnig tækifæri fyrir þingmennina til þess að fá frekari útskýringu á því hvernig framkvæmdastjórnin virkar og hugsar. Ef þingmaðurinn hefur betri skilning á því þá er hægt annaðhvort að vinna með það eða reynt að vinna í kringum það. Þetta er mjög mikilvægt verkfæri ef það er notað rétt.

Í dag lærði ég líka að nota fax og skanna. Það var merkilegt. Heill þáttur tekinn upp um það sem verður settur á youtube svo ég ætla ekki að fara alltof mörgum orðum um það.

Hápunktur dagsins var samt án efa súkkulaðihúðuð vaffla úr gjafabúðinni niðri. Svona, fyrst ég er nú einu sinni í Belgíu!

So far so good!

Posted in Uncategorized