Höfundarréttur og þungarokk

Ég hef síðan að ég var unglingur verið mikill þungarokksaðdáandi og get kallað mig sannan málmhaus. Það hefur verið mjög spennandi að fylgjast með þróun tónlistarinnar víðsvegar um heim. Þetta er tónlist sem heyrist ekki oft í útvarpinu og finnst sumum hún vera hin mestu óhljóð. Ég uppgötvaði þessa tegund tónlistar á svipuðum tíma og umræðan um ólöglegt niðurhal fór af stað. Ég rakst á Metallica rétt áður en þeir fóru í mál við Napster. Á þeim tíma var Napster aðalstaðurinn til þess að ná sér í tónlist á netinu. Ég gat skilið hlið listamannsins, og hefði glaður borgað smá pening fyrir lögin sem ég var að ná mér í en gallinn var að á þessum tíma voru engar slíkar leiðir til staðar. Í plötubúðum var takmarkað úrval af uppáhalds tónlistinni minni. Ég þurfti að panta sérstaklega og stundum var það ekki einu sinni hægt.

Aðstæður eru hins vegar allt aðrar í dag. Ég er með aðgang að Spotify og get pantað mér plötur á Amazon. Ég get meira að segja styrkt hljómsveitir beint með að kaupa lög í mp3 formi, boli og sérstakar útgáfur af plötunni beint frá hljómsveitinni. Allt án hefðbundinna milliliða sem stjórna hvaða vörum ég hef úr að velja. Ég er búinn að kynnast hljómsveitum frá Færeyjum, Brasilíu, Ísrael, Indlandi, Japan og Kína svo nokkur dæmi séu nefnd. Það er nóg af listamönnum sem hafa grætt á því að ég heyrði tónlistina þeirra frítt á netinu. Ég er þó nokkuð lánsamur miðað við marga þungarokksaðdáendur erlendis. Aðdáendur í Iran, Saudi Arabíu og fleiri einræðisríkjum fá einungis aðgang að þungarokki í gegnum ólöglegt niðurhal og smygli á plötum.

Höfundarréttur er í dag ein helsta ástæðan fyrir því að það virðist vera í lagi að brjóta á borgararéttindum fólks í hinum vestræna heimi. Ritskoðun á netinu virðist aðalega eiga sér stað gegn síðum á borð við thepiratebay.org. Það fer ekki á milli mála að ólögleg dreifing á sér stað í gegnum Pirate Bay en þar er svo sannarlega líka heilmikið af fullkomlega löglegu efni. Maður verður því að velta því fyrir sér hvort það sé í lagi að ritskoða allar þær síður þar sem ólöglegt niðurhal á sér stað. En þá er einnig hægt að færa rök fyrir því að það ætti að ritskoða Google og Dropbox enda bjóða þau fyrirtæki upp á dreifingu á höfundarréttarvörðu efni. Ekki þarf annað en að slá inn orðið torrent með nafn á kvikmynd hjá Google til þess að finna síðu sem bíður upp á ólöglega dreifingu höfundarvarins efnis.

Afleiðingin er sú að hlutleysi internetsins eins og við þekkjum það er í hættu. Stór hluti af umferðinni á netinu í dag er orðin svokölluð ,,peer to peer” umferð, sem er ein aðal leið fólks til að deila skrám sín á milli. Þar með talið er höfundarréttar varið efni. Umferðin í gegnum slíkar þjónustur er það mikil að sumir vilja leyfa þjónustuaðilum að ákveða hversu mikil bandvídd má fara í t.d. Pirate Bay eða Youtube. Ef hlutleysi netsins verður ekki virt myndi það gera að verkum að Síminn, Vodafone, 365 og fleiri ákveða fyrir þig í hvað þú mátt nota bandvíddina hvort það sé VOD eða Youtube.

Það sem þetta þýðir er að internetið mun líkjast útvarpi og sjónvarpi töluvert meira. Öll sú nýsköpun sem a sér stað á internetinu hverfur hægt og rólega og í staðinn munu fyrirtæki geta keypt sér meiri umferð á síðurnar sínar með því að bjóða upp á meiri bandvídd. Ég hef ekki séð né heyrt mikið þungarokki í útvarpi og sjónvarpi undanfarið og vil þess vegna fá að njóta þess að hafa þann fjölbreytileika sem internetið bíður upp á.
Posted in Uncategorized

Mikilvægi Pírata

Þegar rætt er um málefni Pírata þá virðist oft vera skortur á skilningi á því af hverju við teljum Internetið svona mikilvægt. Oft beinist gagnrýnin að því að glíma verður við mikilvægari málefni sem eiga sér stað utan internetsins eins og t.d. skuldamál, gjaldeyrishöft og fleira. Pírötum er ánægja að segja fra því að þingmönnum Pírata hefur tekist að koma fyrsta kosningaloforði okkar í gegnum þingið – og það tengdist internetinu lítið sem ekkert. Lög um frestun á nauðungarsölu heimila hafa verið samþykkt, og það er stórsigur fyrir þá sem hafa orðið hvað verst fyrir afleiðingum hrunsins 2008. Píratar eru meira en netnördar, við erum flokkur með heildstæða og mannúðlega hugmyndafræði, og málefni eins og skuldamálið og fleiri mál frá þingmönnum okkar sýna að flokkurinn hefur sterkan grunn og er kominn til að vera.

Svo virðist sem að almennt séum við Íslendingar einstaklega duglegir að hunsa málefni sem hafa ekki snert okkur með beinum hætti, þar til eitthvað kemur upp á, og þá verða allir vitlausir og heimta skýringar. “Af hverju var ekki gert neitt í þessu máli fyrr?”. Gott dæmi um þetta er Vodafone lekinn sem kom upp fyrr i mánuðinum. Persónulegar upplýsingar fólks voru allt í einu opinberar og hver sem er gat sótt sér sms skilaboð og símanúmer fólks þar á meðal númer sem ég hætti að nota fyrir 3 árum síðan ásamt númerum fjölda fólk sem ég þekki.

Vodafone lekinn varð sem betur fer til þess að nú eru hugmyndir eins og gagnageymd, dulkóðun og öryggi persónuupplýsinga varð hluti af daglegri umræðu íslendinga. Öll þessi málefni komu fram í kosningabaráttu Pírata en fengu þó misgóð viðbrögð hjá almenningi. Það er ákveðið áhyggjuefni hvað það þarf oft svakalega öfgakennd dæmi til þess að almenningur bregðist við og krefjist réttar síns.

Ef tekin eru nokkur stefnumál Pírata sem dæmi þá er greinilegt að nokkrir mjög ljótir atburðir þurfa að eiga sér stað til að fólk átti sig á alvarleika þess sem Píratar berjast fyrir. Það þyrfti greinilega stórtækt ofbeldisfullt uppgjör í undirheimunum þar sem saklausir borgarar yrðu fórnarlömb til þess að almenningur áttaði sig á því að stríðið gegn fíkniefnum er tapað. Það þyrfti algjört hrun menntakerfisins til þess að almenningur áttaði sig á því að það þarf að gera róttæka endurskoðun á því hvernig menntun á Íslandi er háttað. Það þyrfti að senda nokkra á bakvið lás og slá fyrir helgispjöll til þess að almenningur áttaði sig á mikilvægi tjáningafrelsis. Það þarf líka greinilega annað banka- eða gjaldreyis-hrun til að almenningur átti sig á brenglaðri peningastefnu landsins. Píratar vilja grípa inn í þessi mál áður en þau magnast og verða að enn stærri vandamálum.

Ég vil ekki bíða slíkra hörmunga því nú þegar er ljóst hverju við þurfum að breyta. Ég vona, kæri lesandi, að þú getir verið sammála. Veldu Pírata í sveitarstjórnarkosningunum nú i vor. Við lofum að kjósendur munu ekki sjá eftir því.

Posted in Uncategorized

Ég elska netið

Í kosningabaráttu Pírata varð til myndband sem fékk mig til að hlæja meira en nokkuð annað kosningatengt myndband hefur nokkurn tíman gert. Þórgnýr Thoroddsen birtist þar með úfið hár og tár í augum, hljóðlátur og með nokkur spjöld í höndunum. Drungaleg tónlist heyrðist og hann lét hvert spjaldið á fætur öðru detta á gólfið. Á spjöldunum stóð „til eru öfl sem vilja fragga netið/ég elska netið/ Píratar/ XÞ”. Þetta kann að virka sem furðulegur talsmáti fyrir suma. En þetta myndband talar beint til þeirra sem lifa og hrærast á internetinu, en það geri ég einmitt svo sannarlega.

Internetið er í dag orðið ein algengasta aðferð landsmanna til að eiga samskipti sín á milli. Það er varla þáttur til í lífi okkar sem internetið snertir ekki. En svo virðist sem að margir hverjir skilji ekki internetið. Það er kannski ósköp eðlilegt miðað við hversu risastórt fyrirbæri það er orðið. Fólk reynir að benda á líkingar á borð við að tilkoma internetsins sé álíka mikil bylting fyrir samfélagið eins og tilkoma ritmálsins eða tilkoma prentunar. Ég held að netið sé hins vegar stærri og mikilvægari uppfinning en ritmálið og prentun samanlagt.

Ég fékk fyrst að kynnast internetinu þegar fjölskyldan mín fékk fyrstu tölvuna árið 1995. Það var svakalega nýtískulegt að sjá texta og jafnvel ljósmyndir hlaðast inn á heimili okkar hægt og rólega í gegnum háværa 33.6 kbit/s módemið okkar. Síðan þá hefur netið gjörbreytt heiminum. Við sendum öll tölvupóst í staðinn fyrir bréfpóst. Tónlistariðnaðurinn er varla þekkjanlegur í samanburð við það þegar risastór plötufyrirtæki voru allsráðandi og við höfum aldrei haft jafn greiðan aðgang að fjölbreyttri og góðri tónlist. Það sama má í raun segja um kvikmyndaiðnaðinn og brátt um bókaiðnaðinn.

Framtíð netsins

Nú er ég ekki sá eini sem heldur því fram að við séum rétt búin að sjá toppinn af hinum risastóra ísjaka sem internetið á eftir að verða í náinni framtíð. Ég finn mig þar af leiðandi knúinn til þess að benda á nokkra hluti sem eiga eftir að gjörbreytast, rétt eins og skemmtanaiðnaðurinn, á svo svakalegan hátt að þessi fyrirbæri verða gjörsamlega óþekkjanleg eftir nokkur ár.

Ég hef oft talað um það að menntunarstofnanir eins og við þekkjum þær séu bráðum að deyja út. Hlutir eins og bekkir, grunnskólar, framhaldsskólar og jafnvel háskólar verða varla til í orðaforða okkar. Þetta er þegar byrjað með tilkomu vendikennslu, net- og spjaldtölvuvæðingu skólanna og svokallaðra Massive Open Online Courses.

Oft hef ég tekið þátt í rökræðum um það hvaða gjaldeyri sé sniðugast að nota; krónuna, evru eða kanadadollarann. Með tilkomu rafræna gjaldmiðla á borð við Bitcoin og Litecoin verður allt tal um hefbundna miðstýrða gjaldmiðla tilgangslaus enda munu rafrænir gjaldmiðlar bregðast við þörfum fólks í rauntíma í stað svokallaðra sérfræðinga seðlabanka.

Ég gat varla hamið mig af gleði þegar ég einn dag síðasta vetur rataði inn á síðu um Pírata og hvernig þeir ætluðu að vinna út frá rafrænu lýðræði. Rafrænt lýðræði mun breyta því hvernig stjórnmálamenn vinna og bregðast við kröfum fólks. Í stað þess að fólk fái einungis að hafa áhrif í gegnum kosningar á fjögurra ára fresti og stökum undirskrifasöfnunum mun netið tengja fólk beint inn í stjórnsýsluna.

Það er mikilvægt að skilja netið

Við erum þegar farin að sjá byrjunarstigin af þessum breytingum í dag, spurningin er bara hvenær við munum sjá Youtube og Twitter þessara fyrirbæra. Það veldur mér verulegum áhyggjum að fólk sem skilur ekki netið skuli geta búið til og fylgt eftir lögum um það. Ég var t.d. á málþingi um daginn um dómsmál gegn Pirate Bay, þar sem ég hlustaði á mjög þurran og leiðinlegan fyrirlestur og mér leið eins og ég væri allt í einu kominn inn í dómssal. Talað var um hversu mikilvægt það væri að stöðva brot á höfundarréttarlögum líkt og eru stunduð á Pirate Bay. Ég spurði lögfræðinginn hvort honum þætti ekki óeðlilegt að bæði dómari og saksóknari í þessu máli hefðu verið tengdir hópum sem vinna að því að sporna gegn brotum á höfundarréttarlögum. Spurningunni var illa svarað og svo virtist sem að hann skildi mig ekki.

Mér er illa við tal um að setja lögbann á heimasíður og að loka þeim. Pirate Bay málið ætti að vera búið að sýna það að slíkt er ekki hægt. Ég er nú ekki jafn mikill nörd og margir Píratar en ég kemst auðveldlega framhjá slíkum lokunum, ég ferðast bara á netinu til Bandaríkjanna þar sem síðurnar eru allavega eins og stendur ennþá opnar. Hvort sem fólki líkar það betur eða verr þá eru síður á borð við Pirate Bay og deildu.net samskiptatól. Ef við ætlum að setja lögbann á allar síður þar sem hægt er að deila höfundarréttarvörðu efni sín á milli þá ætla ég að biðja SMÁÍS að setja lögbann á Google, enda er engin síða í heiminum sem hjálpar fólki jafn vel að stunda slík brot.

Ef þú skilur ekki netið, hættu þá að fragga netið!

Posted in Uncategorized

Hver tilbiður í raun Mammon?

Í sumar skapaðist þó nokkur umræða um könnun sem WIN-Gallup gerði í 57 löndum þar sem Ísland er í níunda sæti yfir trúlausustu þjóðir heims. Viðbrögð Agnesar M. Sigurðardóttur Biskups við könnuninni í viðtali við RÚV voru svohljóðandi:

„Kannski gleymum við Guði, við förum að tilbiðja Mammon, það kann að vera að það sé ein skýringin. Og svo er hin skýringin sú að fátæktin er ekki sjálfvalin. Hún er vegna aðstæðna í þessum löndum þar sem þetta fólk býr. Og þá leitar það að betra lífi og finnur betra líf í trúnni.“.

Biskup vísar hér til þess að Mammon er goðleg birtingarmynd auðs og græðgi í Nýja Testamentinu. Svo virðist sem biskup telji að því trúlausari sem þú ert, því ríkari og gráðugri ert þú. Flestir trúleysingjar sem ég rekst á eru reyndar bláfátækir námsmenn með takmarkaðan metnað í að verða auðkýfingar. Í ljósi birtingar fjárlagafrumvarps núverandi ríkisstjórnar í fyrradag fór ég að velta fyrir mér ýmsu í þessu samhengi.

Fjárlagafrumvarp næsta árs var birt klukkan 16:00 í fyrradag. Síðan þá hef ég verið að glugga í það við hvert tækifæri sem mér gefst, þ.e.a.s. þegar ég er ekki að læra fyrir skólann. Það er ýmislegt í þessu frumvarpi sem er neikvætt og ég gæti skrifað um það út í hið óendanlega, en í þessum pistli ætla ég að einbeita mér sérstaklega að lið sem nefnist ‚Kirkjumál‘ og má finna á blaðsíðu 361.

Ólíkt því sem birt hefur verið í fjölmiðlum, svo sem á vefmiðli Morgunblaðsins, þá eru framlög til þjóðkirkjunnar ekki takmörkuð við 1.474 milljónir króna, en í frumvarpinu er framlögum til þjóðkirkjunnar skipt niður í eftirfarandi flokka; þjóðkirkju, kirkjumálasjóð, kristnisjóð, kirkjugarða, sóknargjöld og jöfnunarsjóð sókna. Ef gert er ráð fyrir því að allir þessir liðir fari í að fjármagna starfsemi þjóðkirkjunnar og umsýslu eigna hennar, þá mun sú starfsemi kosta ríkiskassann 5.182,9 milljónir króna næsta árið.

Laun biskups árið 2012 voru 1,109 milljónir króna samkvæmt tekjublaði Frjálsar verslunar. Grunnlaun presta eru samkvæmt kjararáði 473.551 krónur. Það má leiða hugann að því hvort kirkjan þyrfti að fara í söfnunarátök fyrir tækjakaupum Landspítalans ef þessar sláandi tölur yrðu lækkaðar. Svo má velta því fyrir sér, kæri biskup, hver er það nú sem raunverulega tilbiður Mammon?

Þjóðkirkjan fær þessi auknu framlög þrátt fyrir að hlutfall Íslendinga sem eru skráðir meðlimir þjóðkirkjunnar hafi lækkað stöðugt undanfarin ár og sífellt færri nýta sér þjónustu kirkjunnar. Þó undantekningar séu vissulega til staðar sækja fæstir Íslendingar kirkju nema þegar um skírnir, brúðkaup eða jarðarfarir er að ræða.

Hinn almenni borgari getur sem betur fer gert eitthvað í þessum málum. Skrái fólk sig úr þjóðkirkjunni fara um 9.000 kr. á mann á ári beint í ríkiskassann. Þar með eflir það fólk mikilvægari verkefni ríksins. Hins vegar greiðir hver Íslendingur þjóðkirkjunni samt sem áður um 11.500 kr. á næsta ári algjörlega óháð sóknargjöldum. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gerði athugasemd við það að íslenska ríkið „setji kirkjuskatt á borgara, óháð því hvort þeir séu meðlimir í trúfélögum eða ekki.“.

Árið er 2013 og það er löngu kominn tími til þess að við setjum heilbrigði og menntun hærra á forgangslista en trúarstofnun sem einungis hluti af þjóðinni tilheyrir. Hvernig getur það mögulega verið réttlætanlegt að það þurfi að hækka framlög til þjóðkirkjunnar til að leiðrétta niðurskurð fyrri ára þegar heilbrigðis- og menntunarkerfin horfa upp á enn frekari niðurskurð?

Sjáið sóma ykkar, frú biskup og aðrir starfsmenn þjóðkirkjunnar, í að afþakka þessa hækkun. Látum peningana renna þangað sem þeirra er raunverulega þörf.

Posted in Uncategorized

Breyting á lyfjakostnaði

Breyting verður gerð á niðurgreiðslum ríkisins á lyfjum til einstaklinga þann fjórða maí næstkomandi. Þetta nýja fyrirkomulag mun reynast hagstætt fyrir marga sem þegar greiða háar fjárhæðir fyrir lyf. Þetta mun aftur á móti auka verulega kostnað hjá þeim sem borga minna fyrir lyf og mun þá fyrst og fremst byrjunarkostnaður aukast. Þetta hefur í för með sér að kostnaður lyfja við kvillum á borð við gláku, sykursýki og krabbameini eykst til muna. Mikilvægt er að fólk þurfi ekki að borga of mikið fyrir þessi lyf og veldur þessi kostnaðaraukning/niðurskurður þvi mörgum sjúklingum eðlilega áhyggjum.

Síðast þegar ég vissi var langt í frá ódýrt að fá krabbamein. Ég er meðlimur í Víkingafélaginu Einherjar og einn félagi okkar féll frá nýlega eftir langa, erfiða og kostnaðarsama meðferð við sjúkdómnum. Ekki eru allir sem lenda í slíkum veikindum það heppnir að hafa svo marga sem eru til í að styrkja þá og styðja í gegnum veikindin. Hvernig ætli öryrkjum og öldruðum gangi að bera aukinn lyfjakostnað? Fyrir þá sem minnst mega sín getur greiðsla upp á fimmþúsund krónur aukalega á mánuði verið munurinn á því að komast í gegnum mánuðinn og því að byrja að safna upp skuldum.

Heilbrigðiskerfið hefur átt undir högg að sækja vegna niðurskurðar undanfarin ár og ekki verður þetta til þess að bæta stöðu þess. Þessi niðurskurður gæti aukið enn frekar á kostnað samfélagsins eftir því sem sjúklingarnir hrannast upp. Aukinn kostnaður við að leita til læknis getur verið fráhrindandi fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna. Þessir einstaklingar neyðast því oftar en ekki til að harka af sér alvarleg veikindi, yfirleitt með afar slæmum afleiðingum.

Talað er um að niðurskurðaraðgerðir ríksins séu komnar langt yfir þolmörk og að heilbrigðiskerfið sé í molum. Mjög brýnt er að snúa þessari þróun við. Hún er orðin hættuleg og gæti kostað okkur margfalt meira en það sem þegar hefur sparast í heilbrigðiskerfinu.

Posted in Uncategorized

Ekkert almennilegt lýðræði án gagnsæis

Píratar eru mikið fyrir gagnsæi en nú spyrð þú þig kannski kæri lesandi, af hverju er gagnsæi svona mikilvægt í nútíma lýðræði? Lýðræðissamfélag ætti að virka þannig að almenningur sé eins upplýstur um hin ýmsu málefni og hægt er. Það eru til nokkrar leiðir til þess að ná því markmiði, meðal annars að hafa eins gott menntakerfi og kostur er á og að hafa frjálsa fjölmiðla sem eru að mestu leyti lausir við hlutdrægni.

Til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun í lýðræðissamfélagi þarf þægilegan og auðveldan aðgang að upplýsingum. Takmörkun á gagnsæi hefur oft verið við lýði í vestrænum lýðræðissamfélögum í nafni þjóðaröryggis eða til að tryggja stöðugleika stjórnvalda. Það er hins vegar nánast ómögulegt fyrir almenning að taka vel upplýstar ákvarðanir ef það eru takmarkanir á þeim uppýsingum sem almenningur hefur aðgang að.

Píratar vilja að það séu litlar sem engar takmarkanir á þeim gögnum sem almenningur hefur aðgang að. Undanþágur þeirrar reglu skuli einungis veittar þegar kemur að gögnum sem varða persónuvernd eða þegar það er vel rökstudd ástæða fyrir trúnaði. Það ætti að vera frjáls og auðveldur aðgangur að öllum gögnum á internetinu á borð við fyrirspurnir, skýrslur, bókhald o.s.frv.

Með því að veita almenningi greiðan aðgang að upplýsingum stjórnkerfisins opnum við það fyrir því að almenningur geti gagnrýnt ákvarðanir á vel upplýstan hátt. Þetta opnar fyrir þar sem almenningur telur að hægt sé að skera niður og gerir stjórnkerfið skilvirkara.

Skref eins og þessi ættu að hafa tvenns konar áhrif, annars vegar að bæta verulega þær upplýsingar sem almenningur hefur aðgang að og hins vegar að auka eftirlit með hinu opinbera. Með þessu eru hægt að draga úr spillingu innan stjórnkerfisins og fækka rannsóknum á slíkum málum með tilheyrandi rikisútgjöldum.

Posted in Uncategorized

Barnavernd þarf að virka

Ég fór um daginn á mjög áhugavert málþing með samtökunum Samstöðu Hópurinn STOP Vörn Fyrir Börn. Fulltrúar framboðana mættu og kynntu afstöðu flokkana til barnaverndar og ég mætti fyrir hönd Pírata. Sem leiðbeinandi á leikskóla hef ég ákveðna innsýn í þetta mál og mér leist mjög vel á það starf sem þessi samtök koma að. Farið var yfir stöðu mála í meðhöndlun á kynferðisbrotum. Sú staðreynd að 98% kynferðisbrotamála gegn börnum ná aldrei til dómstóla vegna niðurfellingu mála hjá Ríkissaksóknara eða vegna fyrningar er blöskrandi. Morð fyrnast ekki og það sama ætti að gilda um kynferðisbrot. Nú hafa Píratar ekki enn klárað að mynda stefnu um barnavernd en góður hópur af fólki er að vinna í því málefni. Ísland hefur því miður frekar skammarlega sögu þegar kemur að barnavernd og misnotkun barna hefur verið látin viðgangast allt of lengi. Afbrotamenn fá væga dóma og komast gjarnan upp með að fremja sama glæpinn aftur og aftur. Það er því mikið fagnaðarefni að umræðan um misnotkun barna hefur opnast töluvert undanfarin ár. Ég held að flestir, óháð pólítískri skoðun sinni, geti verið sammála því að verulega þarf að bæta þetta ástand.

Öfgarnar í þessari umræðu eru því miður fljótar að spretta upp. Starfsbræður mínir í leikskólum í Danmörku hafa átt undir miklu höggi að sækja vegna ásakanna um kynferðislegt ofbeldi (þetta hefur verið rætt mikið í dönskum fjölmiðlum http://politiken.dk/debat/profiler/larstriermogensen/ECE1862355/paedagogforfoelgelse-er-pervers-koensracisme-mod-maend/ ). Þar er staðan orðin það slæm að karlkyns starfsmenn mega ekki undir neinum kringumstæðum vera einir með börnunum, mega ekki skeina þeim og lenda gjarnan í því að athugasemdir séu gerðar við það að þeir huggi og knúsi börnin þegar þau detta og meiða sig. Einnig er farið að hanna leikskóla þar í landi þannig að glerveggir séu sem flestir til að hindra að kynferiðsofbeldi eigi sér stað innan leikskólanna. Ég stórefast um að slíkar aðgerðir minnki hávaðan innan leikskóla og þegar ég skrifa þetta sit ég hér með vægt suð í eyrunum eftir vinnudaginn. Sem betur fer var starfsfólk Vörn Fyrir Börn sammála mér í þessu. Ekki má gleyma að ekki eru öll kynferðisbrot framin af körlum. Sama hvernig fólkið snýr þessum málum í Danmörku þá mætti segja að þar sé um að ræða ákveðnna kynbundna mismunun.

Það sem vakti hinsvegar verulegar áhyggjur hjá mér varðandi það sem starfsfólkið hjá Vörn Fyrir Börn höfðu að segja var að það hafði pantað sér lygamæli og þá væntanlega í þeim tilgangi að nota það í viðtölum við mögulega kynferðisafbrotamenn. Hann átti víst að vera glænýr og svaka fínn. Það breytir ekki þeirri staðreynd að allar rannsóknir sem hafa verið gerðar á slíkum tækjum hafa hingað til sýnt fram á að slík tæki eru óáreiðanleg og létt er að plata slík tæki. Einnig er það stressandi fyrir suma einstaklinga að gangast undir slíkar mælingar og getur það villt fyrir niðurstöðum. Fjölmörg dæmi eru til um saklaust fólk sem hefur hlotið þunga fangelsisdóma í Bandaríkjunum sem byggðir voru að hluta til á lélegum niðurstöðum lygamælis. Við í Pírötum elskum nýja tækni en við reynum einnig að vera mjög meðvitaðir um að með allri tækni fylgja vissar takmarkanir. Ef það væri einhver möguleiki á að lygamælir gæti komið saklausum manni á bakvið lás og slá, sérstaklega þegar um jafn alvarlegt brot og kynferðisofbeldi gegn börnum er að ræða, þá ætti einfaldlega ekki að taka slíka tækni til greina.

Kynferðisofbeldi gegn börnum vekur upp mjög sterkar tilfinningar hjá stórum hópi fólks og er ég þar á meðal. En í þeirri umræðu verðum við að gæta varúðar og tryggja eins vel og hægt er að saklausir einstaklingar hljóti ekki þennan stimpil. Að saklaus einstaklingur hljóti slíkan stimpil getur haft afar slæmar afleiðingar fyrir viðkomandi. (Hérna er bara eitt dæmi um grein frá lögfræðingi í Bandaríkjunum um slík mál http://familyrightsassociation.com/bin/white_papers-articles/stuckle/false_sex.htm ). Afleiðingarnar geta verið að fólk missir aleigu sína, virðingu í samfélaginu og einangrast félagslega. Mikilvægt er að eyrnamerkja málin sem fara í gengum réttarkerfið til þess að tryggja að þessir einstaklingar týnist ekki í kerfinu og fremji sömu glæpina aftur. Þetta gæti verið mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir að fólk sé ekki dæmt áður en komið er til dómstóla fyrir slíka glæpi. Þó svo að allt of fáir dómar falla í svona hrikalegum málum meigum við ekki gleyma að maður er saklaus þangað til annað er sannað og svo virðist sem að fólk sé dæmt í svona málum af samfélaginu löngu áður en þau fara fyrir dóm.

Posted in Uncategorized

Endurhugsun á menntunarkerfinu

Menntun eins og við þekkjum hana er víðast hvar mjög svipuð í hinum vestræna heimi. Maður byrjar í leikskóla, fer svo í grunnskóla, framhaldsskóla og loks háskóla. Þessi mismunandi stig menntunar hafa öll svipaða uppbyggingu þar sem fögum er raðað niður eftir því hversu mikilvæg þau eru talin vera. Fyrst er móðurmálið, stærðfræði og raunvísindi, hugvísindi eru aftarlega og list- og verkgreinar reka lestina. Þessa uppröðun má rekja aftur til iðnbyltingarinnar.

Þessi uppbygging menntunar er hins vegar úreld í heimi internetsins. Heimurinn er að breytast mjög hratt og ný tækni er þróuð mun hraðar en áður. Tækniþróun mun brátt gera störf óþörf hraðar en hægt er að skapa þau en sumir sérfræðingar vilja meina að við séum nú þegar komin á það stig. Þannig virðist vera  með unga fólkið sem útskrifast úr háskóla en fer svo beint á bætur því erfitt reynist að finna starf á þeirra sviði. Nútímamenntun virkar eins og náma þar sem aðeins er grafið eftir ákveðinni auðlind vegna úreltra hugmynda um hvað er í raun og veru mikilvægt.

Í íslenska menntakerfinu er mun meira brottfall úr námi en á hinum Norðurlöndunum. Það er einnig áhyggjuefni hversu mikið fleiri drengir flosna úr námi en stúlkur samkvæmt skýrslu OECD sem kom út árið 2011. Þetta á sérstaklega við nemendur sem glíma við námserfiðleika eins og t.d. lesblindu eða ADD, sem eru líklegri til að flosna upp úr námi vegna þess að námið höfðar ekki til þeirra.

Ég, ásamt nokkrum meðframbjóðendum mínum í Píratapartýinu, erum að vinna að menntunarstefnu sem verður kosið um á kosningarvef Pírata á næstu dögum. Þetta mun vonandi skila sér í þingsályktunartillögu um aðlögun menntunar að breyttum raunveruleika internetsins. Þessi stefna mun draga verulega úr brotfalli nemenda úr námi og auka námsáhuga þeirra. Við  horfum til annara Evrópuþjóða þar sem breytingar á menntun hafa skilað góðum árangri.

Ef lögð er meiri áhersla á sköpun og listnám á öllum skólastigum, mun það snarauka möguleika nemenda til þess að efla þá fjölbreyttu hæfileika sem þeir búa yfir. Þegar sköpun er skilgreind þá á ég við hæfileikann til þess að eiga frumlega hugmynd sem er verðmæt. Kennsla á tölvuforritun í grunnskólum mun undirbúa nemendur fyrir framtíð sem er mjög háð netinu og mun þurfa mun fleiri tölvuforritara. Þar að auki eru allar starfsstéttir að verða tölvuvæddari og því mjög mikilvægt að vera tölvulæs. Á næsta kjörtímabili mun helmingur íbúa heimsins verða nettengdur og efnahagur internetsins mun tvöfaldast.

Innleiða þarf persónulegri menntun sem hentar hverjum nemanda og gefur honum betri tækifæri til þess að rækta hæfileika sína. Menntun á netinu á borð við Coursera og Khan Academy er þegar notuð sem viðurkenndur hluti af námi í nokkrum skólum í Bandaríkjunum. Það er aðeins spurning um hvenær menntun á internetinu fer í beina samkeppni við hefbundna menntun. Eigum við að halda okkur við iðnbyltingarmódelið og leyfa alvarlegri menntakrísu að eiga sér stað? Nú er tími fyrir menntakerfi upplýsingaraldarinnar.

Posted in Uncategorized

Vangaveltur um hugtök

Ég ætla að hefja fyrstu færslu mína á þessari síðu á vangaveltum mínum um hvaða merkingu fólk leggur í ýmis hugtök sem það notar til að lýsa sér. Ég heyri fólk gjarnan lýsa sér sem jafnréttissinna, femínista, anarkista, frjálshyggjumanni og endalaust mætti halda áfram. Mér finnst mjög erfitt að nota þessi hugtök til þess að lýsa sjálfum mér enda fer það algjörlega eftir því hvern maður er að tala við hvaða merkingu viðkomandi leggur í þessi hugtök.

Ég tel mig vera jafnréttissinna enda styð ég jafnrétti allra hvort sem þú ert karl, kona, svartur, hvítur, samkynhneigður, gagnkynhneigður eða gulur, rauður, grænn og blár. Það kom nú einn grænn maður til landsins fyrir ekki svo löngu síðan. Hann er kallaður eðlumaðurinn eða Lizzardman og á skilið jafnrétti þó hann kunni að virka furðulegur fyrir sumum. Gallinn hins vegar við að nota orðið jafnréttissinni er að sumir nota það hugtak til þess að aðskilja sig frá femínistum og sumir þeirra eru ósmekklegar karlrembur.

Ég tel mig vera femínista en ég er rosalega varkár að nota það hugtak enda eru til óteljandi margar stefnur innan femínisma. Rétt eins og femínistar vilja ekki láta dæma sig út frá skoðunum allra femínista vijla þeir sem kjósa að kalla sig jafnréttissina ekki láta dæma sig út frá sömu forsendum. Ef femínisti er sá sem telur að jafnrétti kynjanna sé ekki náð þá er ég vissulega femínisti. Ef femínisti er sá sem vill koma á netsíu til að stöðva dreifingu kláms eða sá sem vill segja konum hvað þær mega gera við eiginn líkama þá er ég alls enginn femínisti. Ýmsu er ábótavant þegar kemur að réttindum beggja kynja og stundum finnst ungum karlmönnum vanta smá umræðu um hverju er ábótavant þegar kemur að jafnrétti karla. Þeir lesa umræðu femínista á netinu og sjá kannski sumar mjög öfgafullar umræður og setja þann breiða skala sem femínismi er undir sama hatt.

Ef femínismi á að snúast um jafnrétti kynjanna ætti umræðan að snúast jafnt um hverju er ábótavant hjá báðum kynjum. Þar sem ég er karlmaður þá langar mig að koma inn á hvað mér finnst vanta þegar kemur að jafnrétti fyrir karla (Ásta Pírati skrifaði mjög fína grein um kvenlegu hliðina á þessu). Þegar ég er ekki að sinna málefnum Pírata er ég leiðbeinandi á leikskóla. Þetta er vinnustaður þar sem yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna er konur. Þetta er æðislegt starf en ég er einnig mjög meðvitaður og áhyggjufullur af stöðu starfsbræðra minna á leikskólum í Danmörku. Þar eru karlkyns starfsmönnum settar ýmsar ósanngjarnar takmarkanir sem er ætlað að koma í veg fyrir misnotkun á börnum.  Ég vona að ég þurfi aldrei að hugsa mig tvisvar um hvort ég sé að gera eitthvað rangt þegar ég faðma eða hugga litlu vini mína í vinnunni. Ég hef líka miklar áhyggjur af brotfalli drengja úr námi eftir grunnskóla. Ég er ekki fyrir kynjahlutföll í skólum frekar en annars staðar en það mætti nú prófa að láta eitthvað af náminu höfða meira til drengja. Tíðni brottfalls hjá drengjum úr námi er orðið algjörlega óásættanlegt. Það mætti í raun segja að það eigi sér stað kerfisbundin mismunun á drengjum innan menntunarkerfisins enda hefur Ísland hlotið þann leiðinlega titil sem sú þjóð sem skrifar út flesta lyfseðla fyrir lyfjum gegn athyglisbrest og ofvirkni miðað við höfuðtölu í heiminum í dag. Drengir eru í yfirgnæfandi meirihluta af þeim sem greinast með athyglisbrest og ofvirkni og það er ekkert sem bendir til þess að þessir kvillar séu algengari hér en annars staðar.

Ég pirra mig stundum yfir einföldum spurningum frá fólki og fjölmiðlum í dag eins og t.d.: ertu femínisti já eða nei? Mitt svar er að þetta er allt of einföld spurning. Femínisti er einfaldlega ekki nóg til að útskýra flókið fyrirbæri eins og jafnrétti kynjanna. Ég væri til í að vera spurður aðeins oftar: hvaða merkingu leggur þú í orðið femínisti?