Vanhæf þjóð?

gaFyrir örfáum árum vorum við með Búsáhaldabyltingu þar sem íslensk þjóð, sem seinþreytt er til vandræða, barði potta og pönnur af því að henni fannst nóg komið. Aðalslagorð þeirrar byltingar var “Vanhæf ríkisstjórn!” Hrökklaðist sú stjórn frá þegar ekki var lengur vært í þinghúsinu og stólarnir orðnir óþægilega heitir.

Í kjölfar þessa fengum við aðra fjórflokksstjórn, sú hneygðist til vinstri sem þótti ávísun á að nú yrði hugsað um almenning í landinu og hann settur í forgang. Ekki varð landanum að þeirri ósk sinni þar og skjaldborgin sem boðuð var um heimilin lét á sér standa. Á meðan missti almenningur eignir sínar í hendur bankanna og gerðist í stórum stíl í kjölfarið efnahagslegir flóttamenn í Skandinavíu.

Endurreisnin svokallaða gekk heldur hægt og þar sem Íslendingar eru ekki með þolinmóðari þjóðum var megn óánægja með þessa stjórn líka. Endaði vinstristjórnin á að verða síst hæfari í augum almennings en sú sem hann hafði losað sig við áður. Til að bíta höfuðið af skömminni guggnaði hún svo á að koma nýrri stjórnarskrá í gegn. En hafði hún verið unnin með aðkomu hins almenna borgara í bland við sérfræðinga, og var þjóðin þar með svikin um langþráðar lýðræðisumbætur.

Víkur þá sögunni að síðustu kosningum. Fram á sjónarsviðið steig Framsóknarflokkurinn með nýjan formann í fararbroddi. Sá sagðist skilja vanda almennings og hafði þungar áhyggjur af þeim byrðum sem honum hefði verið gert að axla. Boðaði formaðurinn að nú skyldi haldið í víking á hendur vondum útlendingum sem kallaðir væru hrægammar. Með því að láta þeim blæða skyldi gert myndarlega við heimilin með svokallaðri skuldaleiðréttingu. Einnig myndu finnast peningar til að endurreisa heilbrigðiskerfið og annað sem hafði verið látið dánkast.

Almenningur að sjálfsögðu tók þessu fagnandi og taldi að þarna væri fram kominn leiðtoginn mikli sem væri treystandi fyrir hag sínum. Einnig hafði Sjálfstæðisflokkurinn fundið sér Engeyjing til að halda um stjórnvölinn þar á bæ, og voru loforð þeirra síst minna heillandi.

Einhverjir voru samt svo óskammfeilnir að kokgleypa þetta ekki og spruttu nú upp allskonar flokkar ósáttra kjósenda. Einn slíkur flokkur nefndist Píratar og höfðu “húsmæður í Vesturbænum” fyrir satt að þeir vildu helst stela menningarefni af internetinu á meðan þeir reyktu hass.

Ekki voru þó allir sammála þessu og þó að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur ynnu sætan sigur. Aðallega sökum þess að aðþrengdur almenningur var orðin langeygur eftir betri tíð, þá voru nokkrir sem greiddu Pírötum atkvæði sitt. Fengu þeir þrjá þingmenn kjörna, sem hafa verið hinu vanheilaga bandalagi helmingaskiptaflokkanna til óþurftar alla tíð síðan.

Eftir að hafa gætt sér á ýmsu góðmeti uppi í sveit gengu helmingaskiptaflokkarnir enn eina ferðina í eina sæng og mynduðu stjórn. Eitthvað stóð nú á efndum loforðanna, enda pizzupantanir meira mál en formaður Framsóknarflokksins hafði haldið, og leiðréttingin mikla varð heldur aum í flestum tilfellum – fyrir utan að ekki er séð fyrir endann á því hver borgar fyrir hana. Endurreisn heilbrigðiskerfisins gengur nú svona og svona, en kostnaðarvitund almennings er allavega í lagi þar sem hann borgar nútildags himinháar upphæðir fyrir að greinast með alvarlega sjúkdóma, og er því steinhættur að leika sér að slíku á kostnað ríkisins.

Nú erum við komin í seinni hálfleik kjörtímabilsins – og hér gerast undur og stórmerki!
Kári Stefánsson sem er áhugamaður um heilsufar almennings, hafði þungar áhyggjur af því að þrátt fyrir allan fagurgalann væri heilbrigðiskerfið samt sem áður ekki alveg að gera sig. Blés hann því til undirskriftasöfnunar til að fá úr því bætt og virðist hinn almenni borgari vera á sama máli og Kári, eða rétt um 85 þúsund þeirra.Telst það saga til næsta bæjar að svo margir Íslendingar séu sammála um nokkurn hlut!

Víkur nú sögunni til suðurhafa og þá sér í lagi eyjunnar Tortóla – ku sú eyja vera algjör paradís – en ótrúlegt en satt þá er það ekki sökum góðviðris né landgæða heldur skattalaga.

Alræmd kona nokkur, kölluð Gróa á Leiti hafði verið þar í heimsókn og rekist á svokallað aflandsfélag, sem við nánari eftirgrennslan reyndist tilheyra Framsóknarformanninum og hans ektakvinnu, sem þegar hér er komið sögu eru orðin bændur austur á landi í hjáverkum.
Formaðurinn varðist vasklega og benti á að hér væri allt í sómanum og engin undanbrögð á ferðinni, en kjósendur fóru að hugsa sinn gang. Sumir jafnvel gengu svo langt að vilja hrekja formanninn frá völdum og hafa nú yfir tæplega 14.000 manns lýst sig sammála því.

Gróa á nokkrar frænkur jafn forvitnar og þegar þetta spurðist út fóru þær á stjá og fundu slík félög út um allar koppagrundir bæði í Evrópu og í Indlandshafi. Þessi félög eru sögð í eigu ráðherra og annarra fyrirmanna sem að eigin sögn kannast bara ekki við neitt. Sannast hér hið fornkveðna að hægri hendin veit ekki hvað sú vinstri gerir. Milljónirnar virðast bara hafa tekið sig upp og lagst í útrás upp á sitt eindæmi án vitneskju eigendanna. Það er í það minnsta alveg greinilegt að þessu fé vantar hirði, það er allavega ekki á færi ráðherra sem sýsla með fjármál og dómsmál fyrir hönd almennings að hafa yfirlit yfir svona.

Þó að Jóhannes “útskýrari” hafir verið í yfirvinnu við að leiðrétta misskiling amennings á orðum formannsins, þá hefur sami almenningur farið að líta í kringum sig. Hafa sjónir hans í æ ríkari mæli beinst að Pírötunum þremur á þingi og félögum þeirra. Píratar hafa lagst í standhögg og herjað á hylli almennra kjósenda með góðum árangri. Þeir hafa líka reynst hafa stefnur í ýmsum málum öðrum en hassreykingum þegar vel var að gáð.

Nú er svo komið að hið virðulega Alþingi kemur aftur saman 4. Apríl, eftir að hafa eytt páskafríinu í súkkulaðiát og annað sukk. Þá fer að reyna á blessaða þjóðina enn og aftur. Boðað hefur verið til mótmæla og standa vonir til að almenningur sé búin að fá nóg af siðleysi og hreinum lygum. Til dæmis því að þrátt fyrir að vegsama krónuna við hvert tækifæri, hefur ráðherrum og öðrum fyrirmennum þó ekki fundist hún þess verð að standa á bak við heimilisfjármálin og því flýtt sér að koma mjólkurpeningunum fyrir í suðrænum sjóðum.

Þó að það sé náttúrulega hressandi að láta ljúga að sér, svíkja sig og láta svindla á sér reglulega, þá segi ég fyrir mína parta að ef Íslendingar gera ekki eitthvaða róttækt núna, þá erum við kannski ekki eingöngu með vanhæfa stjórnmálamenn heldur ættum við að gangast við því að vera vanhæf þjóð.