Venjulega fólkið í Pírötum

gaUm daginn héldum við Píratar á Norðausturlandi aðalfund. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, heldur það að þarna komu saman yfir 40 manns úr 5 sveitarfélögum. Þetta var bara ósköp venjulegt fólk á öllum aldri, frá menntaskólafólki upp í eldri borgara. Það sem gerir þetta venjulega fólk óvenjulegt er að það var tilbúið til að koma saman og lýsa stuðningi við stjórnmálaafl sem í upphafi var frekar hlegið að heldur en tekið alvarlega.

Þetta er fólk sem þú sérð hvar sem er; kennarar, iðnaðarmenn, verkamenn, sjómenn, námsmenn, listamenn, öryrkjar, sem sagt bara fólk eins og þú og ég. Þetta er fólkið sem þarf að forgangsraða tekjunum, spáir í hvað maturinn kostar, hvað bensínið er dýrt og húsnæðið kostnaðarsamt.

Það sem þetta fólk á hins vegar sameiginlegt er að vera komið með nóg af spillingu, sviknum loforðum og siðleysi í samfélaginu og setur traust sitt á Pírata til að gera eitthvað í málunum.

Þrátt fyrir að vera ungur flokkur eru Píratar vel mannaðir. Við eru með hugsjónafólk og allskonar fagfólk og fólk sem er fullt af eldmóði til að breyta samfélaginu.

Okkur skortir sem betur fer svokallaða auðmenn og sjálfskipaðar Séð & Heyrt-stjörnur og ég vona að það breytist ekki. Við erum búin að sjá hvað gerist þegar svoleiðis fólk er við stjórnvölinn.