Blauta meðferðartuskan

Ég er fulltrúi Pírata í Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, að vísu áheyrnarfulltrúi þar sem við fengum ekki nema 5,9% atkvæða, en þar sem við erum fullir þátttakendur í meirihlutanum hafa áheyrnarfulltrúar Pírata (og VG) jafnan rétt til að móta meirihlutaákvarðanir og þannig tryggja áheyrnarfulltrúarnir okkar að Pírataáherslurnar skili sér inn í ráð borgarinnar.

RáðhúspontanVið sem skipuðum 5 efstu sætin á lista Pírata skiptum setu í ráðum á milli okkar; borgarfulltrúinn Halldór er jafnframt formaður Stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, tómstundafræðingurinn Þórgnýr er formaður Íþrótta- og tómstundaráðs, og svo við áheyrnarfulltrúarnir, ég í Mannréttindaráði, Arnaldur í Skóla- og frístundaráði, Kristín Elfa í Velferðarráði og Sigurborg í skipulaginu, fyrir utan fulla (en allsgáða) fulltrúa okkar í hverfisráðum Miðbæjar og Breiðholts.

Fundir ráðanna eru mjög mismunandi eftir verksviði en öll eigum við það sameiginlegt að fá reglulega kynningar inn á fundi þar sem við, fulltrúar flokkanna, fáum nánari upplýsingar um þau mál sem okkur og ráðið varðar.

Síðustu tvo fundi Mannréttindaráðs höfum við fengið aðila í heimsókn sem hafa fært óvanalega sláandi fréttir og í gær bókstaflega leið mér eins og við hefðum fengið blauta upplýsingatusku í andlitið.

Fyrri heimsóknin var frá fulltrúum “Frú Ragnheiðar” sem fengu mannréttindaverðlaunin Reykjavíkur í ár en við Píratar tilnefndum verkefnið (nafnlaust) sem svo var valið og viljum styðja það með ráði og dáð, enda skaðaminnkunarnálgunin grunnatriði í okkar nálgun til félagslegra vandamála.
Frú Ragnheiður er unnin af sjálfboðaliðum undir merkjum Rauða krossis en á heimasíðu þeirra segir “Frú Ragnheiður er verkefni sem byggir á skaðaminnkun og hefur þann tilgang að ná til jaðarhópa samfélagsins, t.d. útigangsfólks, heimilislausra og fíkla, og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu og almenna heilsuvernd, án fordóma eða kvaða, í þeirra nærumhverfi.”

Í kynningu þeirra kom meðal annars fram hversu erfitt þjónustuþegarnir eiga með að treysta kerfinu og meðferðaraðilum almennt. Gagnrýni um skort á úrræðum er að finna víða og hún beinist að stórum hluta að SÁÁ (og AA) sem hefur setið undir ytri og innri gagnrýni meðal annars frá eigin kvenfélagi sem sagði sig úr samtökunum ekki síst vegna andstöðu SÁÁ við sérstök meðferðarúrræði fyrir konur. Á Vogi gerist það ítrekað að konur sem eru þolendur heimilisofbeldis eða kynferðisofbeldis lendi í meðferð með mönnum sem hafa beitt þær ofbeldi og þurfa jafnvel að verja sig þar fyrir áreiti og ágangi manna þegar þær þurfa öryggi og skjól. Á Vogi byrja líka of mörg ofbeldissambönd þegar orka sjúklinganna ætti að fara í eigin bata.

Sérstaklega var nefnt að ungar stúlkur sem eru heimilislausar og í fíkn leita sér síður aðstoðar og leggja ekki í að leita til meðferðaraðila, meðal annars vegna þess að meðferðarúrræðin gera jafnvel illt verra, ferlið niðurlægjandi og blandaðir hópar koma þeim í kynni við enn verri félagskap og skaðleg ástarsambönd.

Á fundi mannréttindaráðs í dag komu fulltrúar frá Rótinni, félagi kvenna með áfengis og vímuefnavanda og fluttu á ný sláandi fréttir um nákvæmlega sama vandamál og kynntu fyrir okkur nýútgefinn bækling fyrir þolendur ofbeldis “ef fjölmiðlar hafa samband“.

Í kjölfarið lagðist ég í rannsóknarvinnu til að leita að gögnum um margt af því sem þar kom fram en ástandið er þannig að ákveðnir menn virðast sitja um unglinga og berskjaldað fólk á þessum viðkvæma tíma, þegar þær eru að leita sér hjálpar, en í fyrra dó ung kona eftir að hafa verið táldregin af eldri manni sem vissi mætavel um aðstæður hennar en hélt engu að síður að henni áfengi í ’tilhugalífinu’.
Nokkrum mánuðum fyrr hafði birtist fréttin “Siðblindir menn sem sitja um berskjaldaðar konur” en við erum ekki bara að tala um konur sem er verið að táldraga heldur BÖRN. (já, blessuð BÖRNIN!)
13 ára stúlkubörn eru sett í áfengis og vímuefnameðferð á “jafningjagrundvelli” með fullorðnum sem þýðir að þarna sitja börn í veiku ástandi og deila sorgum sínum með dæmdum ofbeldismönnum (sumir fá að ljúka afplánun í meðferð), og þær eiga jafnvel að deila af sér og ræða erfið mál við slíka “sálusorgara”. Olnbogabörn, samtök aðstandenda ungmenna með áhættuhegðun hafa margsinnis bent á þetta ástand sem og skort á meðferðarúrræðum.
Þess má geta að Rótin var stofnuð eftir að SÁÁ “slátraði” sínu eigin kvenfélagi, sú saga er listuð annarstaðar á internetinu en þessar fréttir hafa borist lengi m.a. hér frá 2014 “Ofbeldismenn hafa aðgang að veikum konum í meðferð” og hér í skýrslu frá Dómsmálaráðuneytinu 2001 þar sem segir að vændissalar/dólgar útvegi sér vændiskonur í meðferð á Vogi. (skýrslan í heild, sjá bls. 42)

Nú hef ég talað við vini mína sem hafa farið í gegnum meðferðir og þeir segja allir sömu söguna. Hjá SÁÁ virðist lítill skilningur fyrir því að þetta ‘grooming’ sé vandamál og því að ungar stúlkur þurfi GRIÐARSTAÐ í fíknmeðferðinni í stað þess að vera bornar fram sem meðlæti í hópmeðferð fólks með allrahanda bakgrunn, vandamál og þarfir.
Sjá hér lokaverkefni um meðferðarúrræði og upplifun ungs fólks af þeim. þar sem krakkarnir segja meðal annars “Ég kom inn sem sprautufíkill og var í meðferð með tölvufíkli, það meikar ekki sens, hann á ekki að þurfa að kynnast því sem ég var í” og annar segir “það var geðveikt að heyra sögurnar af harðari efnum, ég kom út með það markmið að prófa öll efnin sem hafði verið að tala um.”

Meðferðarúrræðin miðast nær öll við miðaldra fólk/karlmenn og hvorki Innanríkisráðuneytið né SÁÁ hefur tekið ofbeldis- og áfallaúrvinnslu inn í meðferðarúrræðin sem er afleitt. Rannsóknir sýna aftur og aftur að það eru gríðarlega sterk tengsl á milli fíknar og þess að vera þolandi (og gerandi) ofbeldis.
Fíknin verður ekki tekin úr sambandi við manneskjuna sjálfa og aðstæður hennar, en samt nota menn enn sama gamla 12 spora kerfið og ætlast til þess að fólk leggi sálarheill sína í hendur æðri máttarvalda og það sé lausnin fyrir alla; krabbameinssjúklinga í niðurtröppun af verkjalyfjum, heimilislausar stelpur í dópsamböndum, unglingsstráka í kanabisþunglyndi, útigangsfólk og menn að ljúka afplánun.

Innanríkisráðuneytið hefur ekki viljað taka tillit til áfalla og ofbeldis í þeim meðferðarúrræðum sem ríkið býður uppá þrátt fyrir að 80% kvenna sem fara í meðferð hafi verið beittar ofbeldi. Það á semsagt að taka á fíkninni án þess að taka á sálarheill manneskjunnar sjálfrar – svona fyrst það er ekki hægt að láta bara einkasamtök og sértrúarsöfnuði um að sinna þessari samfélagsþjónustu eftir eigin aðferðum.
Umboðsmaður barna hefur ítrekað og árangurslaust sent Innanríkisráðuneytinu erindi og kvartað yfir skorti á úrræðum fyrir börn með andleg vandamál, ástand sem hann kallar mannréttindabrot gegn börnum. (sjá svar ráðuneytisins á síðunni – hah!)

Í ár var skorin niður aðstoð við gerendur kynferðisofbeldis á Litla-Hrauni og utan fangelsa fá kynferðisbrotamenn og barnaníðingar ekki lengur sérstaka meðferð. Þess má geta að íslenskir fangar eru “Evrópumeistarar í endurkomum í fangelsin með yfir 50% endurkomutíðni á meðan önnur Norðurlönd eru með um 16% endurkomutíðni”. Núverandi fyrirkomulag þessara mála er farið að smita út frá sér og búa til vítahring sem kostar mannslíf. Sjá hér samantekt á “þjónustu” fyrir áfengis og fíkniefnaneytendur, skýrsla frá 2005.

Það vantar sárlega betur menntað fólk og eru miklar vonir bundnar við nýtt diplomanám við HÍ sem byrjaði nú í haust, en flestir núverandi meðferðarfulltrúar hafa að baki einungis 300 kennslustundir í ‘meðferðarfræðum’ og er oft á tíðum fólk sem hefur sjálft náð að sigrast á fíkninni en hefur litla sem enga skólagöngu að baki eða faglega þekkingu á sálgæslu og ráðgjöf. Eins og gefur að skilja þurfa unglingar sérstaka nálgun og sérmenntað fólk, þó velviljaðir ‘sponsorar’ hjálpi mörgum og séu allir af vilja gerðir þá geta þeir aldrei komið í staðinn fyrir hjálp sem er sniðin að þörfum mismunandi hópa í stað nálgunarinnar “allir á sömu snúruna”.

Eftir að hafa kynnt mér ummæli framkvæmdastjóra SÁÁ um baráttu kvenna innan samtakanna til að fá sérstök meðferðarúrræði fyrir konur er ég farin að efast um heilindi samtakanna til að taka á vandamálinu. Afneitunin minnir meira á hagsmunagæslu en vanþekkingu.

Ástandið í þessum málaflokki er óboðlegt með öllu, en viðbjóðslegt* sinnuleysi ráðuneytis og SÁÁ gagnvart þessu manngerða vandamáli er farið að líkjast kerfisbundinni misnotkun. Ummæli formanns SÁÁ um úrbætur á aðstöðu kvenna á Vogi hafa sýnt furðulega harkaleg viðbrögð við réttmætum ábendingum og óskiljanlega mótstöðu við að taka á vandamálinu.

Sem Íslendingur hallast ég yfirleitt fyrst að því að ástæðan fyrir því að ekkert gerist sé vanhæfi en viðbrögð SÁÁ við umkvörtunum er farið að minna á viðbrögð SÞ við því að friðargæslan stundaði mansal (sem hún gerði) eða viðbrögð Kaþólsku kirkjunnar við orðrómi um óeðlileg sambönd presta og kórdrengja (sem var til staðar). Það er eitthvað stórkostlegt að þegar vandamál af þessari stærðargráðu fær ekki bara að líðast óáreitt heldur er varið með kjafti og klóm.

Mér líður eins og ég hafi verið slegin með blautri tusku, orðin drullufúl fyrir hönd krakkanna og farin að teikna upp aðgerðir til að nota pólitíkina til að gera eitthvað í málinu meira en veita þeim verðlaun og styrki -sem þó er gott fyrsta skref.

– svo við getum stutt ykkur sem vinnið að mannréttindamálum langar mig að hvetja ykkur að fylgjast með og sækja um styrki frá mannréttindaráði þegar þeir eru auglýstir, en þeir eru veittir tvisvar á ári og er tekið á móti umsóknum í Mars og September.

Markmiðið með styrkjum mannréttindaráðs er að styðja við hvers kyns sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga á sviði mannréttinda sem stuðlar að farsælli þróun borgarsamfélagsins, jafnræði borgarbúa og fjölbreytilegu mannlífi. Að sama skapi að styðja við hvers konar starf sem vekur athygli á eða stendur vörð um grundvallarréttindi borgarbúa.
Reglur um styrki mannréttindaráðs

*já, mér finnst þetta viðbjóðslegt sinnuleysi
** ég biðst velvirðingar á því að setja AA og SÁÁ frjálslega undir sama hatt, annað er 12 spora kerfið og hitt afeitrunarmeðferð/meðferðarstofnun en náin tengsl eru á milli þessara aðila og því erfitt fyrir utanaðkomandi að átta sig á mörkunum þar sem AA fundir eru m.a. haldnir á Vogi.
Hér er viðtal við  í Stephanie S. Covington meðferðarsérfræðing sem segir faglega nákvæmlega það sama og ég segi dónalega hér að ofan.

Stefna Pírata í vímuefnamálum:
– Velferðar og forvarnarmál
– Mannúðleg fíkniefnastefna
– Fíkni- og vímuefnastefna í innra kosningakerfi flokksmanna (allir flokksmenn koma að stefnumótun og kjósa um stefnuna)

14 thoughts on “Blauta meðferðartuskan

 1. Ég er mjög sammála megninu af þessari gagnrýni, ég er þó ekki sammála að löng skólaganga og diplómur þurfiu endilega að þýða hæfari einstaklinga. Ég er sammála því að það þarf tiltekt, en er frekar hlynnt teymisvinnu ólíkra einstaklinga með ólíkan bakgrunn þar sem gagnsæji er og mikil samvinna. Við megum ekki gleyma mannlega þættinum.

 2. Svona fréttir verður að leita álits þeirra sem um er deilt. SÁÁ. Ég þekki vel til innviða Vogs sem er afeitrunarstöðvar sem er 1. stig og er til þess að ná lámarksheilsu fyrir meðferð. Börn hef ég aldrei séð í hóp með fullornum (grúppum) og konur hafa verið á Vík (með undantekningum) enn karlar á Staðarfelli. Hvers konar samdráttur kynjanna hefur þitt brottrekstur af Vogi.Sérstakur hluti af Vogi er eingöngu fyrir krakka og mega engir fara þangað inn nema starfsmenn. Svona hefur þetta verið gegnum árin enn því hefur kannski verið breitt nýlega.
  Aðal tarfsmenn Vog hafa áratuga reynslu við þessi störf og mestu mögulegu þekkingu sem ég veit til. Sumir læknarnir hafa sérmenntun í aftröppun á lyfjum og fíkniefnum sem er fremur sjaldgæft í heiminum.
  Að hafa þekkingu úr bókum eingöngu en ekki reynslu er eins og að vita allt um appelsínu og hvernig hún bragðast enn hafa aldrei séð appelsínu né bragðað.

 3. Sæl Þórlaug.

  Ég ætla að byrja á því að segja þér að ég er fyrrverandi starfsmaður SÁÁ. ég er einn af fáum löggiltum áfengis- og vímuefnaráðgjöfum. Við börðumst mikið fyrir því að fá löggildingu á þessu starfsheiti því það er mikið af fólki sem vill titla sig og tjá sig um þessi mál án þess að hafa menntun eða leyfi til. Einn þeirra er í þínum flokki og ég sendi honum vinsamlegan póst um daginn og benti honum á þetta. Hann tók því vel. Ég varð mjög hissa þegar ég las pistilinn þinn og svo úrdrátt úr honum á DV.is. Þetta sem stendur þar er engan veginn rétt og í besta falli ýkjur og ófagleg umræða. Fyrir það fyrsta þá ættir þú sem opinber eða hálf-opinber persóna ekki að skrifa svona hluti nema að fá svör frá SÁÁ líka. Það er ekki hægt að nota munnmælasögur eða atvikssögur sem góð rök…það eru virkilega ófagleg vinnubrögð og bera alltaf vott um fordóma og tilfinningarök. Þú mundir ekki vilja heyra það um þig eða þinn flokk að “ég þekki fullt af pírötum sem eru siðlausir upp til hópa” eða ” ég talaði við pírata um daginn sem er hátt skrifaður hjá þeim…hann lemur konuna sína” ….þetta eru dæmi um munnmæla- og atvikssögur. Réttara væri að skoða tölfræði, fá álit hlutlausra aðila eða amk fá líka umsögn þess sem talað er um. Það sem kom mér mest á óvart þegar ég byrjaði að vinna hjá SÁÁ var hversu fagleg samtökin eru. Þá sérstaklega í meðferðargeiranum. Til dæmis er Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa eitt af fáum starfsstéttum sem setja siðareglur sínar í algjöran forgang. Mættu aðrar stéttir taka þá til fyrirmyndar, t.d. lögreglumenn, aðrir heilbrigðisstarfsmenn ofl. Læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar starfa að sjálfsögðu líka eftir stífum siðareglum og mikil áhersla er lögð á siðareglurnar. ….Verkalýðsfélögin eru auðvitað ekki hrifin af því en fólk með eðlilegt siðferði skilur auðvitað að hagur sjúklingsins er mikilvægari en starfsmannsins…Ég hvet þig eindregið til að kynna þér starf SÁÁ með gagnrýnum hætti og faglega.

  með bestu kveðju Sigurður R Guðmundsson

  • Takk fyrir svörin og ég tek því bara fagnandi þegar menn geta leiðrétt eitthvað með fullri vissu og vísað í gögn að ástandið sé ekki svona slæmt. Ég hef hinsvegar ekki fundið þau gögn eða lesið úttekt sem telur þessi mál vera í lagi fyrir ungmenni og ‘jaðarsettar’ konur. Það var hinsvegar lítið mál að finna gögn sem bökkuðu upp þær upplýsingar sem okkur hafa borist úr fjölmiðlum, frá meðferðaraðilum og þeim sem hafa notið þjónustunnar sjálfir.
   Menn mega vel ætla mér einhverjar ankanalegar skoðanir en ég tel þetta vera vandamál til þess að leysa og furða mig á varnarviðbrögðunum sem aðrir gagnrýnendur hafa fengið. Það virðist sem enginn geti sett þessa gagnrýni fram á máta sem skilar sér í aðgerðum en SÁÁ og aðrir meðferðaraðilar þurfa að fara að taka það alvarlega til sín ef þeir fá ítrekað gagnrýni um sömu atriðin og ef konur finna sig ekki traustar innan núverandi stofnana. Ég vona að hver svari fyrir sig en sá sem á að bera ábyrgð og svara um verklagsreglur og ástand mála er Innanríkisráðuneytið en undir það heyrir málaflokkurinn (en ekki heilbrigðisráðuneytið eins og mörgum þykir eðlilegra).

  • Ég held að kjarni málsins sé að hafa ekki ungar konur og menn saman með þeim eldri !! Það er þannig á Vogi og ég skil vel að konur séu skíthræddar og forðist vist þar inni af ótta við að hitta fyrrv. ofbeldismaka eða því um líkt. Þetta er hrein móðgun við sjúkdóm þeirra og fyrri aðstæður að bjóða þeim upp á meiri ótta !

   Og sorry….. að þið skylduð hafa barist fyrir því að hafa ´´einkarétt´´ á því að titla ykkur áfengis og vímuefna ráðgjafar … vá …. hvað verð ég þá þegar ég lýk mínu námi í Ráðgjafaskóla Íslands í desember ? úps… má ekki titla mig sem vímuefnaráðgjafa þar sem SÁÁ er búið að hertaka það !!

   Kannski ættum við að fara skoða betur hvaðan besta edrútíðnin er að koma ?? hefur einhver pælt í því ?? 🙂

 4. Kæra Þórlaug,

  Ef þú trúir þessu sem þú ritar hér sem þú hefur heyrt frá vinum þínum og fundið út við eigin rannsóknarvinnu, af hverju hefur þú ekki samband við lögregluyfirvöld og óskar eftir lögreglurannsókn á því að SÁÁ sé vísvitandi að sturta börnum í fangið á nauðgurum og ofbeldismönnum og stundi síðan yfirhylmingar og lygar til að hylma yfir óskundann? Vinr þínir hljóta að geta troðið upp sem vitni. Fyrir utan að þú virðist telja meðferð þá sem SÁÁ býður upp á valda frekar skaða en gera gagn! Greinilega er SÁÁ vandamálið; bölvað batterí sem stjórnað er af körlum og er notað sem instrúment til að skaffa nauðgurum fórnarlömb. Ég treysti því að þú standir þig í að fá þeirri glæpastofnun lokað sem fyrst.

  Ég hef fylgst með SÁÁ fra upphafi. Ég var 21 árs þegar ég kom í meðferð hjá SAÁ í fyrsta sinn og og á marga vini sem hafa farið í meðferð og þekki engan sem þekkir það sem þú lýsir.

  Ég þekki hins vegar marga sem ekki hafa læknast á því að fara í meðferð hjá SÁÁ og hafa endað illa. Þegar maður kemur úr meðferð hjá SÁÁ er meðferðinni lokið. Það sem bíður þin þegar þú kemur út er misjafnt og margir fara illa. Mér hefur ekki dottið í hug að að væri SÁÁ að kenna.

  Kveðja
  Þráinn Kristinsson

  • Ég vona að fæstir hafi fengið það út af skrifum mínum um kerfislegt vandamál að SÁÁ sé einhver sértrúarsamtök sem stundi skipulega vændisstarfsemi – það er kerfislegt vandamál þegar ákveðinn hópur lendir í ákveðnum málum innan kerfisins án þess að það sé gripið til aðgerða til að sinna þessum hóp. Það ber allt að sama brunni: meðferðarúrræðin miða ekki við þá einstaklingsmiðuðu nálgun sem þarf, það er lítið tillit tekið til þeirra áfalla og aðstæðna sem fólk í meðferð er að vinna sig úr á sama tíma. Ákveðinn hópur fólks finnur sig ekki öruggan á Vogi og hefur ríka ástæðu til að vera tortrygginn og þá eru unglingar, konur og þolendur ofbeldis sérstaklega viðkvæm.
   Þessi grein var ekki skrifuð til að kjöldraga SÁÁ heldur að segja umbúðalaust það sem við heyrum og lesum um málaflokkinn – og ef ég þarf að taka sterkt til orða til að fá viðbrögð þá verður svo að vera. Einkaaðilar sem stunda heilbrigðis og félagsþjónustu þurfa að skýra aðferðafræði sína mun betur og feisa það að í núverandi ástandi þá er ekki verið að veita viðkvæmum hóp þá þjónustu sem hann á skilið og það virðist sem þeir sem voga sér að kvarta þurfa að sitja undir ad hominem og harkalegum varnarviðbrögðum eins og sjá má á fréttaflutningi um umræðuna um sérúrræði innan SÁÁ þar sem viðkomandi voru ásakaðir um að vilja eyðileggja stofnunina eins og þú ert að ásaka mig hér að ofan. Ég hef ekki sagt orð um að loka SÁÁ heldur finnst mér að samtökin verði að horfast í augu við að þau geta greinilega ekki sinnt ákveðnum hópum og þurfa þá annaðhvort að bæta úr því eða gefa verkið frá sér. Mér finnst ekkert náttúrulögmál að áhugasamtök sinni þessu hlutverki ríkisins en hagsmunagæsla SÁÁ snýst einmitt um fjármuni til að sinna meðferðarúrræðum fyrir alla, án þess að geta sinnt þörfum ‘allra’ jafn vel. Ég tel eðlilegt að fá staðfestingu á því hvort núverandi fyrirkomulag sinni nægilega þörfum þeirra sem á þurfa að halda. Hagsmunagæsla á þessu sviði á ekki að snúast um peningaslagsmál þar sem allir þeir sem vilja sérsniðin úrræði fyrir konur eða börn eru taldir með sérþarfir sem muni eyðileggja meðferðina fyrir öllum. Karlmannsþarfirnar eru ekki default stilling sem hinir eiga að aðlaga sig að ellegar vera ásakaðir um sérþarfir. Tölvufíklar eiga ekki heima í herbergi með sprautufíklum, unglingar eiga ekki heima í hópvinnu með ‘Mature Audience’ og þolendur kynferðisofbeldis verða að fá meðferð sem tekur tillit til þess og það þýðir m.a. valmöguleikann á meðferð fyrir konur sér.

 5. Fannst þér engin ástæða til þess að ræða við stjórnendur SÁÁ áður en þú skrifaðir þennan pistil? Spyrja þá gagnrýnna spurninga hvort þær aðfinnslur og ásakanir sem á þau eru bornar eigi við rök að styðjast og ef svo er hvað þau hafi sér eiginlega til málsbóta? Hefði ekki verið “smart” að heyra í þeim áður en þú leyfir þér að draga þær stóru ályktanir sem þú dregur – kynna þér starf þeirra – heyra í þeim sjálfum í stað þess að draga ályktanir út frá því sem aðrir segja að þau séu að segja eða gera?

  • Já og Nei, já mér finnst rétt þegar maður skrifar fréttir eða greinar að leita til allra aðila en ekki þegar ég er blogga um hluti sem pirra mig, og þetta ástand virkilega pirrar mig. Nei, vegna þess að þá hefði ég aldrei skrifað þennan pistil heldur haldið áfram að býsnast yfir því hvernig ástandið er án þess að knýja á um þær úrbætur sem virkilega þarf.
   Fulltrúar SÁÁ hafa nú boðið okkur Halldóri að koma í heimsókn á Vog til að skoða og fá meiri upplýsingar, nokkuð sem þeir hefðu aldrei gert ef ég hefði pent muldrað mína óánægju í barminn og ég skal með glöðu geði koma með uppfært álit eftir þá heimsókn.

 6. Sæl og blessuð Þórlaug

  Ég er félagsráðgjafi sem hef undanfarin fimm ár starfað hjá Reykjavíkurborg en hef nú fundið mér stað á öðrum vetvangi. Mitt aðalstarf var að vinna með fólki sem átti við fíknsjúkdóma eða aðra geðsjúkdóma að stríða. Eitt af því sem brann á mér í starfi og gerir enn er hvernig fólk leyfir sér að tala um þessa sjúkdóma sem félagsleg vandamál. Ég er líka einn af þessum 5.9% sem þú nefnir í greininni þinni og þú ert þar af leiðandi fulltrúi minn í mannréttindaráði Reykjavíkurborgrar. Í krafti þess leyfi ég mér að hafa skoðun á framferði þínu á opinberum vetvangi.

  Vissulega geta afleiðingar ýmissa veikinda orðið félagsleg vandamál, s.s. fátækt og útskúfun, en þar sem þú hefur vandlætingarherferð þína á að nefna Frú Ragnheiði og frábært skaðaminnkandi starf þeirra, og hnýtir við það hugsjónarstarf stefnu Pírata, „enda skaðaminnkunarnálgunin grunnatriði í okkar nálgun til félagslegra vandamála“ þá samræmist það ekki mínum hugmyndum um veikindi að nefna þau félagsleg vandamál. Þú mundir væntanlega ekki segja að einstaklingur með sykursýki væri með félagsleg vandamál. Eða hvað?

  Mér finnst erfitt að átta mig á hvernig þú getur í sömu málsgreininni fjallað um gagnrýni á SÁÁ og AA, jafnvel þótt þú setjir AA innan sviga, þar sem um sitthvort fyrirbærið er að ræða. Annarsvegar erum við að tala um sjúkrastofnun sem lýtur ákveðnum lögum og eftirliti opinberra aðila og hins vegar frjáls félagasamtök sem eins og dæmin sanna hafa tekið ákveðnum breytingum í takt við strauma tímans og þar af leiðandi ekki einhver fasti, þótt svo margir álíti svo vera.

  Eðli málsins samkvæmt þá er veikt fólk á Vogi, þetta er afeitrunarstöð og ákveðið greiningarúrræði. Þarna er tekin ákvörðun um hvert einstaklingar fara að afeitrun lokinni og samkvæmt minni reynslu er það oftar en ekki gert í samstarfi sjúklings og starfsfólks. Varðandi kynjaskiptingu og hætturnar sem eru samfara því að eiga samskipti við fólk, hvort heldur sem er af sama kyni eða ekki þá er það reynsla mín eftir að hafa starfað að endurhæfingu vímuefnasjúklinga t.d. með þátttöku í Grettistaki, sem er eitt besta endurhæfingarúrræði fyrir vímusjúkt fólk og er rekið af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, að fyrra líferni kemur oft í veg fyrir það að einstaklingur geti nýtt sér úrræði, þar sem það getur verið ógnvekjandi að sitja í hóp með gömlum félögum úr neyslu eða afbrotaheimi, heimi sem viðkomandi er að kveðja. Þar af leiðir að upp koma tilvik þar sem viðkomandi treystir sér ekki til að taka þátt í úrræðinu og hverfur á braut. Stundum kemur hann aftur þegar ógnin er farin, stundum ekki. Hér er ég ekki eingöngu að vísa til samskipta fólks af sitthvoru kyni, heldur almennt til samskipta í þessum viðkvæmu aðstæðum og þeirrar sögu sem oft hindrar að einstaklingurinn geti tekið þátt í endurhæfingunni.

  Mér finnst orðanotkun þín sérlega óaðlaðandi, og ekki til þess fallin að leita lausna eða styrkja okkur sem viljum að fólk fái að lifa mannsæmandi lífi, hvort heldur það kýs að lifa í neyslu eða ekki.

  Því set ég spurningarmerki við veru þína í mannréttindaráði fyrir mína hönd sem Pírata.

  Ég ætla ekki að sökkva mér frekar ofan í pistil þinn þar sem rangfærslur og sleggjudómar eru allsráðandi og of langt mál yrði fyrir mig að rekja, en kveð þig með von um betri tíð þér til handa.

  Einar I. Einarsson

  • Takk fyrir svarið. Hvað skaðaminnkun varðar þá á hún bæði við um félagsleg mál og heilbrigðismál og ég tek mark á þeim rannsóknum sem telja fíkn vera sjúkdóm sem hafi bæði félagslegar afleiðingar og margvíslega ‘triggera’.
   Mér sýnist við vera sammála um mikilvægi þess að vera með mismunandi úrræði þar sem reynsla þín er í takt við það sem aðrir sérfræðingar hafa nefnt – að kynni fólks hvert af öðru geti orðið til þess að fólk hverfi frá úrræðunum.
   Mér þykir leiðinlegt að orðaval mitt skuli valda þeim særindum sem þau hafa gert en mér finnst þó leiðinlegra að gagnrýni mín og annarra skuli slegin út af borðinu af formgalla en ekki tekin efnislega fyrir – unglingar eiga ekki að vera í afvötnun þar sem þeir deila aðstöðu með fullorðnum og konur bæði kynin þurfa þann valkost að hafa aðskilda meðferð.
   Enn og aftur skal skjóta sendiboðann (sbr “viltu drepa barn einhvers” kommentið þar sem vandamálið er greinilega það að ég segi ljótan sannleikan en að sannleikurinn sé ljótur)

 7. Ég bloggaði svari við þessum pistli á sigrundora.blog.is annars læt ég fylgja með niðurlagið.

  Það sem stingur mig allra mest er að þessar fullyrðingar hennar leiða allar að því að vegna þessara svokölluðu upplifanna vina hennar, kunningja o.þh. leiti fólk sér ekki hjálpar. Hvað heldur hún að þessi pistill hafi hvatt marga alkahólista til þess að leita sér hjálpar!?!?!?! Í dag er EKKERT annað meðferðarúrræði í boði fyrir alkahólista en SÁÁ og AA…. ef ÞÚ skrifar pistil sem þennan og rakkar starfið og úrræðin niður hvert á fólk þá að leita eftir hjálp??? Það er ömurlegt líf að vera virkur alkahólisti, það ömurlegt að það er ekkert verra en að sitja fastur í neyslu og sjá enga leið til þess að hætta henni. Virkur alkahólisti er í lífshættu!! Ekki bara hættu með sitt eigið líf heldur líka annara! Ef það er smá snefill af aðstoð, smá möguleiki á hjálp (sama hvort þú trúir á aðferðarfræðina eða ekki) hvernig vogar manneskja sér það að SVERTA stofnunina / samtökin sem eru þau EINU í öllu LANDINU sem geta og HAFA bjargað lífum ótalmargra, bjargað fjölskyldum, hjónaböndum! Viltu hafa það á samviskunni að svipta börn foreldri? Viltu hafa það á samviskunni að svipta foreldri barninu sínu! Hver veit hversu margar ungar stúlkur hafa lesið pistilinn þinn og þora nú ekki fyrir sitt litla líf að leita hjálpar hjá SÁÁ?!?! Hversu mörg líf hefur þú skaðað með skrifum þínum.

  Það er SÁÁ að þakka að ég er á lífi í dag, það er þeim að þakka að börnin mín fjögur eiga mömmu sem er í lagi, það er þeim að þakka að ég á mann og þeim að þakka að mín eigin móðir sefur rólegri á nóttunni. Vegna þeirra fjölmörgu frásagna minna fjölmörgu meðferðarfélaga tók ég þá ákvörðun að skammast mín ekki fyrir sjúkdóminn minn og segi frá honum opinskátt. Með minni fyrstu „opinberun“ bara með stöðuuppfærslu á facebook fóru þrír einstaklingar sem ég veit um og leituðu sér hjálpar hjá SÁÁ bara af því að þau sáu að þau voru ekki ein og fyrst að ég var alkahólisti var bara ekki eins fráleitt og þau héldu að þau væru það líka! Ég vona að fleiri hafi gert það þó ég viti ekki til en ég VEIT að ENGINN hætti við að leita sér hjálpar. Ég fullyrði í lokin að allir alkahólistar og allir starfsmenn SÁÁ myndu glaðir taka upp annarskonar meðferðarúrræði ef sýnt væri fram á að þau virkuðu betur og fyrr en þau sem stuðst er við í dag. En það er einmitt málið, meðferðirnar sem og AA starfið er byggt á öllu því sem hefur sýnt sig og sannað í gegn um fjölda, fjölda mörg ár að virkar! Úrræðin og starfið er í stanslausri skoðun sem og endurskoðun með það eitt að markmiði að auka líkurnar á að alkahólisti haldist edrú. Ég persónulega sem alkahólisti lagði mig í hendurnar á SÁÁ og AA og þrátt fyrir efasemdir mínar um ótalmargt legg ég mig alla fram við að vera meðtækileg þar sem ég ber ómælda og endalausa virðingu fyrir öllum þeim sem sigrast á fíkn sinni. Þar sem ég vill gera ALLT til þess að haldast edrú verð ég að leggja mínar persónulegu efasemdir til hliðar og tileinka mér æðruleysi.

  • Róleg á að ætla mér að drepa fólk úr alkóhólisma, það er ekki ég sem býð ekki upp á önnur meðferðarúrræði en þessi.

   Mér finnst frábært að fólk fái lækningu við alkóhólisma hjá einu meðferðarúrræðum landsins en hvernig má ræða vandamálin við núverandi kerfi? Það hefur verið tekið illa í innlenda og erlenda fræðimenn og því velti ég fyrir mér þegar allt þetta glataða er bakkað upp með dæmum (sem sanna greinilega ekki að neitt hafi átt sér stað – eða hvað?) Hvernig má ræða og koma í veg fyrir það að stúlkur séu sóttar í vændi inn á Vog? Hvernig má ræða það að unglingar séu í afvötnun í sama húsi og fullorðnir og fái ekki tekið samtímis á fíkn og öðrum vandamálum? Hvernig má ræða það að konur og karlmenn séu saman í eftirmeðferð eða að margar konur veigra sér við meðferð nákvæmlega vegna þess að þær eiga að baki áföll sem er ekki tekið inn í myndina? Hvernig á að leysa þetta ef það er ekki hægt að ræða málin og hrista upp í þeim sem eiga að setja peninga og þekkingu í að móta málefnið?
   Ég vona að þér detti ekki í hug að markmiðið hafi verið að koma í veg fyrir að einhver fari í meðferð heldur nákvæmlega það að þeir sem eiga málaflokkinn geri margumbeðnar úrbætur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *