Örvænting gamla stjórnkerfisins og okkar mikilvægi…

Aldrei hefur mér þótt örvænting gamla stjórnkerfisins kristallast meira en í þessum kosningaslag sem ég hef horft upp á núna síðustu tvær vikur. Valdablokkir miðstýrða stjórnkerfisins iða nú í stólum sínum þar sem þær horfa upp á offramboð af nýjum stjórnmálaflokkum sem ætla að láta til sín taka, þar á meðal einu sem ætlar sér að innleiða beinna lýðræði, þær horfa upp á uppsprettu á fleiri og fleiri jaðarfjölmiðlum og uppljóstrurum sem draga ekki hagsmuni sína frá fjármálavaldinu eða hugmyndafræðilegu ofbeldi þeirra rótföstu stjórnmálaflokka sem ráðið hafa yfir Íslandi í um árabil. Allt er gert til þess að ríghalda í völdin, ekki bara þau efnislegu völd sem margir álíta sem toppinn á pýramída kerfisins, heldur einnig hið andlega vald sem fjölmiðlar og áróðursrit þeirra valdameiri hafa á sínum snærum.

Edward L. Bernays hálf bandaríski, hálf austurríski áróðursmeistarinn lýsti skoðunum sínum á þessu á þennann veg:

“Hin meðvitaða og rökfræðilega stjórnun á skipulögðum venjum og skoðunum almennings er mikilvægur liður í lýðræðislegu samfélagi. Þeir sem stjórna hinum óséðu áhrifum í okkar samfélagi eru þeir sem mynda hina óséðu ríkisstjórn sem er hin sanna hönd valdsins í okkar landi. Okkur er stjórnað, hugar okkar eru tálgaðir, skoðanir okkar og smekkur er mótaður, hugmyndir okkar lagðar til, að mestu leyti af mönnum sem við höfum aldrei heyrt um. Þetta er hin rökfræðilega niðurstaða á því hvernig samfélagið okkar er skipulagt. Flestar mannverur þurfa að vera samvinnuþýðar þessu fyrirkomulagi ef við ætlum að lifa í vel virku samfélagi, sama hvar á við, hvort sem það er í viðskiptalífinu eða stjórnmálum. Siðgæðum okkar og hið samfélagslega skipulag er stjórnað af hópi mjög fárra manna sem skilja hið hugræna ferli manna og hið sálfræðilega munstur sem mannveran byggist á. Það eru þessir menn sem tosa í spottana og stjórna huga almennings”

Ef við ætlum að sleppa undan þessum óséðu áhrifum þurfum við að setja okkar frjálsa val í forgang, réttinn til þess að ráða því hvað við hugsum, réttinn til þess að ráða því hvað við segjum, réttinn til þess að ákveða hvað okkur finnst, réttinn til þess að hafa aðgang að upplýsingum sem varðar okkar heilsu, líf og velferð, sama hvaðan þær koma… réttinn til þess að hafa áhrif á þá leið sem samfélagið okkar stefnir, réttinn til þess að koma í veg fyrir ofríki, ofbeldi og fasisma, réttinn til sjálfsákvarðana. Við stöndum frammi fyrir vali á þeim tímum sem mannkynið fer nú í gegn þar sem hið alþjóðlega “Orwellíska” bákn er á sveimi á alþjóðavísu. Hið óséða stríð er nú háð gegn mannkyninu í meiri mæli en við höfum séð áður. Tækniframfarir hafa fært okkur gríðarlega mikilvæg verkfæri sem við þurfum að læra að beita og meðhöndla ef við ætlum að takast á við þessa áskorun, því að á sama tíma færa þessar framfarir okkur líka neikvæð áhrif sem gæti kollvarpað frelsi okkar eins og við þekkjum það í dag.

Með opnum huga og opnu hjarta eru allir okkar vegir færir, við erum ekki valdalaus, aðeins í skynjun okkar og vantrú á okkur sjálfum upplifum við okkur sem valdalaus og áhrifalítil. Allar mannverur hafa hæfileikann til þess að læra, elska, hugsa og finna. Við þurfum að hafa trú á þessum verðleikum í okkur sjálfum, við sem einstaklingar getum haft áhrif, sama hver þú ert, sama hvaðan þú kemur, sama hvað þú kannt.

Þess vegna ákvað ég að vera í framboði fyrir flokk sem einbeitir sér að þessum réttindum…

Posted in Uncategorized

Hvað vilja vandræðagemsar upp á dekk?

Grein  sem birtist í Skarpi 24. apríl 2013

Ég heyri oft að við brottfluttir Húsvíkingar séum uppfull af átthagarómantík og viljum varðveita Húsavík nákvæmlega eins og hún var áður og gleymum því að fólk sem hér býr þurfi að hafa atvinnu og eiga í sig og á.  Kannski er eitthvað til í þessu.  Að ýmsu leyti vildi ég óska að tíminn stæði í stað; sá tími þegar við Dögg vinkona lékum okkur í mömmó garðinum bak við Sæberg og skimuðum út á flóann eftir Kolbeinsey og Júlíusi Hafstein því ‘eiginmenn okkar og barnsfeður’ voru á landleið. Ég geri mér samt fyllilega grein fyrir því að Húsvíkingar geta ekki lifað á æskuminningum einum saman.

Ég vona að unga fólkið á Húsavík geti nú og í framtíðinni látið drauma sína rætast heima. Sjálf flutti ég að heiman fyrir tíu árum af því að ég gat ekki fundið draumum mínum farveg hér á Húsavík. Ég er samt enn sama landsbyggðartúttan, enda bý ég á landsbyggðinni. Ég er líka enn sama Allan. Ennþá svolítið óþæg og óstíýrilát og geri allskonar mistök og vitleysur. Ég er hvatvís og segi hlutina án þess að ritskoða þá fyrst og á til að móðga fólk alveg óvart. Ég trúi því hins vegar að það geti falist mikill lærdómur í feilsporum og ef við lærum af reynslunni getum við orðið betri manneskjur fyrir vikið. Ég ætla ekkert að tala undir rós heldur segja það bara beint út: Ég á erindi á þing með mina reynslu og er sannfærð um mikilvægi þess að í þinghópi Pírata verði landsbyggarfólk.

Hvað ætla Píratar að gera fyrir landsbyggðina?

Það er eiginlega ekki hægt að svara þessari spurningu vegna þess að spurningin sjálf byggist á þeirri ranghugmynd að landsbyggðin þurfi á sérstakri aðstoð og sértækum aðgerðum að halda, svo hinar „dreifðu byggðir“ geti áfram haldist í byggð.

Málið er nefnilega að landsbyggðin þarf ekki á því að halda að peningum sé dælt frá Reykjavík til að niðurgreiða landsbyggðina, heldur þarf að hætta að ryksuga fé af landsbyggðinni til að auka fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu. Það er staðreynd að fólk eltir peningana. Þegar verðmæti sem verða til á landsbyggðinni eru flutt suður til að byggja stórar þjónustumiðstöðvar í Reykjavík, þá eltir fólkið. Fólksflótti af landsbyggðinni er því eðlileg afleiðing þess að fjármagnið stoppar ekki við þar sem þess er aflað.

Við þurfum líka að tala meira við unga fólkið af því það er unga fólkið sem kýs að fara. Hverjir eru draumar þess og framtíðarsýn? Er hægt að láta þá drauma rætast í heimabyggðinni? Við Píratar viljum að fólk geti leyft sér að dreyma og að það geti látið drauma sýna rætast þar sem því sýnist. Á sama tíma þarf að tryggja að fólk þurfi ekki að flytja búferlum til að eiga í sig og á og njóta þjónustu á borð við heilsugæslu, menntun o.fl.

Við Píratar trúum því að draumar geti ræst á landsbyggðinni. Við viljum hins vegar ekki lofa því að þetta og hitt verði gert, einfaldlega vegna þess að við viljum að fólkið ráði og geri hlutina sjálft. Það kann að kosta peninga, en við viljum frekar eyða peningum í að efla sjálfsákvörðunarrétt fólksins en fjarstýringu að sunnan.

Til hvers þurfum við landsbyggðarpírata?

Ein af helstu áherslum í grunnstefnu Pírata er hugmyndin um sjálfsákvörðunarrétt. Við viljum að fólk fái að taka meiri þátt í mótun ákvarðana sem snerta það. Píratar vilja af þessum sökum draga úr miðstýringu og auka upplýsingagjöf til almennings. Þessi stefna fellur mjög vel að þörfum landsbyggðarinnar því hún felur í sér að valdið til að taka ákvarðanir færist nær fólkinu sjálfu, þar sem áhrifin eiga að koma fram. Með öðrum orðum viljum við færa landsbyggðinni meiri sjálfstjórn. Og hér kemur að mikilvægi landsbyggðarpírata. Við sem búum eða höfum búið úti á landi höfum aðra innsýn í landsbyggðarmálin og skiljum að ef við ætlum að færa aukin völd á sveitastjórnarstigið þurfum við að vera meðvituð um að í minni samfélögum er meiri hætta á hagsmunaárekstrum. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að í litlum samfélögum safnast völdin oft á færri hendur og tengslin milli stjórnmála og atvinnureksturs eru oft sterkari. Fjölskyldutengsl hafa líka áhrif í litlum samfélögum og vinagreiðar geta haft mikið að segja. En hvað um þá sem ekki eru fæddir inn í ‘réttar’ fjölskyldur og eiga ekki valdamikla vini? Réttur þeirra til að hafa áhrif á samfélagið verður að vera jafn sterkur og annarra. Þess vegna bjóða Píratar fram. Við viljum efla áhrifamátt þeirra sem hafa fundið til vanmáttar, meðal annars með auknu gagnsæi og opnari umræðu. Þess vegna er ég í framboði.

Posted in Uncategorized

Ég er Tecnocrati, því að mér finnst að hlutir eiga að virka.

Hvernig lætur þú klukku virka? Ekki viss,  þetta er voðalega einfalt, ekkert vesen þannig, maður einfaldlega gerir það ekki. Klukkan tifar með eða án nokkurar afskipta, ef hún er hönnuð til þess. En ef þú ætlar að búa til klukku eða gera við klukku þá er það allt annað mál. Fyrst þarf að skilgreina; Vitum við hvernig við gerum klukku? Hvert er markmiðið með klukkunni? Við hvað miðast klukka? Getum við notað þekkingu og getu okkar til þess að uppfylla markmiðið? Ef að svarið við síðustu spurningunni er “já” þá er rökréttast að búa til eithvað sem er einfalt í notkun, sem virkar fyrir sem flesta og í sem lengstan tíma því að það er þemað sem þessi tiltekni hlutur einkennist af; það vill engin klukku sem virkar bara í stutta stund, eða af og til.
Þetta er það sem mér finnst vanta þegar það er verið að hanna samfélag, og já það er verið að því meira eða minna daglega, við köllum það bara öðru nafni, eða pólitík. Nema hvað pólitík er ekki miðuð út frá hagsmunum samfélagsins til lengri tíma, heldur snýst hún um að koma hagsmunum einstakra hópa á framfæri með það að markmiði að ná fram sértækum lausnum fyrir hvern hóp fyrir sig, oft á tíðum með málamyndunum sem gagnast þeim aðilum sem semja um slíkt. Oftar en ekki á kostnað þeirra sem standa utan samningana. Og svo þurfa allir að láta þetta virka einhvernveginn. Hin pólitíska klukka væri ef til vill illlæsileg og ópraktísk, en það er allt í lagi þar sem hún mundi standa í stað megnið af tímanum þar sem enginn (allavega sem fólk nennir að hlusta á) berst fyrir því að láta apparatið virka í heild sinni. En þá vantar lika eitt. Hvert er markmiðið? Humm hvernig væri best að samfélag virkaði, án þess að það sé sérstaklega krafist yfirsýnar eða sérsktaks átaks til þess að hlutir virki. Einfalt, þannig séð. Lífshamingja.
Lífshamingja gæti verið fjöður gangverks samfélagsins og markmið safélagsins gæti verið að búa til og viðhalda aðstæðum sem stuðla að lífshamingju. Allt í lagi. Þá er spurningin: Vitum við hvernig við getum gert haminngjumiðað samfélag? Svarið er já, í dag er aragrúi af upplýsingum og rannsóknum sem sýna fram á hvað eykur hamingju fólks. Við hvað miðast samfélagið að því gefnu að markmiðið sé lífshamingja? Það miðast við fólk, einfalt. Getum við notað okkar þekkingu og getu til þess að uppfylla markmiðið? Svarið er Já, Klárlega!
Ef þú hefur lesið svo langt þá hefur þú eflaust hugsað annað hvort  “þetta meikar sens” eða “hvaða útópíska kjaftæði er þetta?” “er ekki allt í lagi með þig?” eða eithvað álíka. Jæja þetta er kanski útópískt en ekkert meira útópískt en að eiga lazy boy hægindastól (nema hvað að sá stóll er hugarástand frekar en hlutur). Og nei, það er ekki alltí lagi með mig, mér finnst samfélagið klikkað, og mer finnst það klikkun að vera heill á geði í klikkuðu samfélagi. En nóg með það hvar var ég, já lausnir, þær koma alltaf í lokin ef þær koma yfirleitt, nota bene að ég er í framboði þannig að það er lúxus lesning ef það er lausn í lokin. Og þegar ég segi: Lausn, þá meina ég tillaga, það er víst ekki gott að segja lausn í pólitík.  En já, lausnin er einföld; lýðræði! Þá meina ég alvöru lýðræði ekki þetta sem er niðursoðið í dós og geymt í 4 ár sem fólk svo man ekki hvað er og hendir svo… Ég meina ferskt, lífrænt ræktað lýðræði með alvöru bragði, þú veist þessum keim af ákvörðunartökurétti og með þennan sterka gegnsæja lit. Mig langar í svoleiðis.
Því að ólíkt klukku þá er samfélag lifandi, það er sjálfdrifið, fólk er markmiðsleitandi verur sem reynir að uppfylla grunnþarfir til þess að öðlast lífshamingju. Þess vegna skiptir máli að við höfum lýðræði sem endurspeglar einstaklinga hverju sinni og þar að leiðandi samfélagið í heild og þess vegna er ég ekki bara tecnocrati heldur líka Pírati, því Píratar vilja láta samfélagið virka og þeir vita hvernig. Þeir gera það einfaldlega með því að hlusta á fólk vinna með fólki, gefa fólki það sem það þarf til að samfélagið starfi eðlilega án þess að krefjast séstakra afskipta. Því að þegar allt er á botninn hvolft þá snýst þetta ekki um meiri eða minni ríkisafskipti, heldur að búa til samfélag þar sem fólki líður vel.
Posted in Uncategorized

Bætum skólakerfið

Á Íslandi hafa menn lengi státað sig af góðu menntakerfi og að allir hafi jafnan rétt til náms. Þegar litið er hins vegar yfir menntakerfið sést að brottfall úr framhaldsskólum er umtalsvert eða rúmlega fjórðungur þeirra sem innrita sig. Brottfall á háskólastigi er einnig mikið eða um 15% samkvæmt Hagstofu Íslands. Samkvæmt þessu eru því um 40% nemenda sem heltast úr námi á meðan á skólagöngunni stendur og því er greinilegt að endurskoða þarf núverandi menntakerfi.

Leita þarf leiða við að gera námið áhugavert og aðstoða þarf nemendur við að finna þá leið sem hentar þeim í námi. Sú hugmyndafræði að sama kennsluaðferð nýtist öllum er orðin úrelt og við þurfum að horfast í augu við að einstaklingar eru mismunandi og mæta þarf þörfum hvers og eins. Nýja námskráin er góð byrjun en standa þarf betur á bak við kennara sem vilja leita nýrra leiða við kennslu og breyta þarf skólakerfinu svo það hvetji til náms frekar en letji.

Námsformið og brottfallið er hins vegar ekki það eina sem veldur vandræðum hjá námsfúsu ungu fólki en fjármögnun námsins getur komið í veg fyrir að námsmenn, þá sérstaklega á landsbyggðinni, hafi kost á að sækja skóla. Nú hefur verið hægt að sækja um svokallaðan dreifbýlisstyrk fyrir þá nemendur sem vilja stunda framhaldsskóla utan sinnar heimabyggðar en hann dugir skammt með hækkandi leigu- og matarverði. Þar að auki eru námslán á háskólastigi frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) ekki til þess fallin að hægt sé að lifa af þeim enda grunnframfærslan langt undir viðmiðunarmörkum Velferðarráðuneytisins.

Þessi uppsetning hlýtur að stangast á við hugmyndina um jafnan rétt til náms þegar einstaklingar utan þéttbýliskjarna landsins hafa ekki kost á að sækja skóla sökum kostnaðar. Hér er því um hreina og klára mismunun eftir byggðarlagi að ræða og landsbyggðin er að hluta til útilokuð frá námi ef fjölskyldan getur ekki staðið á bak við námsmanninn. Þetta ástand er ekki viðunandi og því þarf að endurskoða lánasjóðskerfið í heild og ekki einvörðungu hvað háskólann varðar heldur einnig framhaldsskólann.

Grunnframfærsluna þarf að hækka enda stangast upphæðin, 140.600, á við öll viðmiðunarmörk fyrir grunnframfærslu. Fella þarf niður tekjuskerðingu svo námsmaðurinn geti unnið á sumrin og meðfram skólanum eins og hann hefur getu og löngun til, enda eru lánin háð námsárangri. Greiða þarf lánið fyrirfram en ekki eftir á með tilheyrandi kostnaði við yfirdrátt, enda á LÍN ekki að stuðla að uppbyggingu bankakerfisins. Styrkja skal þá nemendur sem sækja skólann af kappi, óháð því hvort þeir taka námslán eða ekki, og klára á tilsettum tíma enda hljóta skólarnir sjálfir greiðslu við útskrift nemenda sem ættu að hluta að ganga til nemendanna sjálfra. Rannsaka þarf hvernig hægt er að koma til móts við nemendur í framhaldsskóla sem þurfa á fjárhagsstuðningi að halda.

Gæta þarf við þessar breytingar að engum sé mismunað á grundvelli búsetu, aldurs eða annarra forsenda. Við búum í Norrænu velferðarsamfélagi þar sem jafn réttur til náms er lykilatriði við uppbyggingu nýs og betra þjóðfélags. Píratar gefa engan afslátt á grundvallarréttindum fólks og munum við því beita okkur af krafti fyrir að eyða út allri mismunun í skólakerfinu.

Posted in Uncategorized

Nauðungarsölur og Gjaldþrot

ga2Það hefur verið í fréttum að nauðungaruppboð á íbúðarhúsnæði séu nú skipulega framkvæmd af prúðbúnum ríkisstarfsmönnum. Fyrir þá sem verða fyrir þessu er þetta endastöðin, baráttan er töpuð og fjölskyldan húsnæðislaus nema takist að semja um leigu við þann sem hreppir hnossið.

Yfirleitt er fólk búið að sökkva öllu sínu í að halda húsnæðinu og á erfitt um vik fjárhagslega, komið á svarta lista út um allt og eins og leigumarkaðurinn er í dag þá er hægara sagt en gert að finna húsnæði. Þetta vita allir sem eitthvað hafa fylgst með eftir hrunið.

Það sem færri tala um eru hin svokölluðu árangurslausu uppboð, þá er yfirleitt um að ræða eignir sem af einhverjum ástæðum teljast ekki vænlegar til endursölu. Lánastofnanir hafa þá farið þá leið að nýta sér þann mátt sem felst í hótunum um sviptingu á húsnæði í von um að kreista út meiri peninga frá skuldurum. Þegar á hólminn er komið þá bjóða þessar stofnanir svo lága upphæð að hún er ekki metin gild og uppboðið því árangurslaust.

Þetta er algengast þegar Íbúðalánasjóður er með fyrsta veðrétt og aðra lánastofnanir eru þar á eftir, þegar þessum skrípaleik er lokið hefst önnur umferð og á endanum er boðið upp og þá leysir Íbúðalánasjóður til sín eignina. Þannig geta bankar og aðrar lánastofnanir nánast handvalið þær eignir sem þeir telja góðar til endursölu eða leigu en hinar enda hjá Íbúðalánasjóði, sem er jú ríkisstofnun.

Það er líka merkilegt að þegar fólk hefur hreinlega gefist upp og vill bara losna úr snörunni þá á það á hættu að lenda í svona farsa og ferlið getur tekið allt að 2.5 árum, þrátt fyrir að skuldarinn reki jafnvel á eftir.

En hvað gerist síðan eftir nauðungarsölu, margir halda að með nauðgungarsölu þá falli niður allar skuldir tengdar húsnæðinu og jafnvel að nauðungarsala jafngildi gjaldþroti. En það er aldeils ekki þannig, bankarnir halda sínu til haga og rukka fólk fram yfir gröf og dauða nánast.

Íbúðalánasjóður hefur aðrar aðferðir, ef að fimm árum liðnum staða fólks er óbreytt þá getur það sótt um niðurfellingu skuldarinnar sem eftir stendur þegar húsnæðið var boðið upp og Íbúðalánasjóður búinn að reikna út hvert verðmæti er samkvæmt mati frá fasteignasala. Þarna geta nokkrar milljónir borið á milli en að minnsta kosti getur fólk huggað sig við að fá niðurfellingu eftir fimm ár standist það þær kröfur sem gerðar eru af hálfu Íbúðalánasjóðs um slíkt.

Ein leiðin til að losna undan öllum skuldum, er að fara fram á persónulegt gjaldþrot, og vera laus allra mála að tveimur árum liðnum. Eðli málsins samkvæmt er fólk á þessum punkti orðið nær eignalaust og lánastofnanir sjá sér engan hag í að fara fram á gjaldþrot. Gjaldþrota leiðin er ekki fær fyrir alla enda þarf að reiða fram á milli 200 og 300 þúsund til að slíkt sé framkvæmanlegt. Eitt af því sem fylgir gjaldþroti einstaklinga er að þeir missa yfirráð yfir restinni af eignum sínum hverjar svo sem þær eru í hendur skiptastjóra og öllum bankareikningum er lokað.

Þessu fylgir líka að öll lán eru gjaldfelld og þá kemur að vandanum við þessa aðferð. Margir eru t.d. með námslán og samkvæmt gamla kerfinu með ábyrgðarmenn, ef til gjaldþrots kemur þá eru þessi lán gjaldfelld líka og ef skuldin fæst ekki greidd úr þrotabúinu eru ábyrgaðarmennirnir krafðir um greiðslu. Sama gildir um önnur þau lán sem ábyrgðarmenn hafa skrifað uppá. Fáir treysta sér til að varpa slíku á þá sem skrifuðu uppá lán í góðri trú og sérstaklega á þetta við um námslánin þar sem oftar en ekki nánir ættingjar eiga í hlut.

Hvað þýðir þetta í rauninni fyrir þá sem missa eignir sínar á nauðgungaruppboð en treysta sér ekki af ofangreindum ástæðum til að fara fram á gjaldþrot? Jú þetta þýðir að næstu 5 til 10 árin eða svo getur fólk ekki gert neitt annað en að draga fram lífið hundelt af kröfuhöfum út af húsnæði sem er ekki lengur til staðar. Fólk má ekki eiga neitt, er með “svarta” kennitölu þannig að engin fyrirgreiðsla fæst og það kallar á endalaus vandræði í sambandi t.d við að fá leiguhúsnæði, eða ef eitthvað kemur uppá í lífinu sem þarfnast meiri peninga en til eru í augnarblikinu.

Ég vil að þessu kerfi verði breytt, uppboð séu ekki haldin nema eftir að öll vafamál eru afgreidd, fólk fái aðstoð til að reka slík mál fyrir dómi og síðast en ekki síst þá verði komið á svokölluðum lyklalögum.

Allt þetta samrýmist stefnu Pírata í skuldamálum heimilanna og ég vona svo sannarlega að þessi stefna verði höfð til hliðsjónar að kosningum loknum. Það gengur ekki að hópur fólks falli á milli skips og bryggju og eigi sér varla viðreisnar von, vegna þess að það gerði það sem flestir gera, nefnilega að reyna að eignast þak yfir höfðið fyrir sig og sína.

Posted in Uncategorized

Brotinn pottur

Barn er tekið af móður sinni nokkrum klukkustundum eftir fæðingu. Móðirin hafði áður verið svipt barni en eftir það sneri hún við blaðinu og kom lífi sínu í lag. Þrátt fyrir það er engin vægð sýnd. Ekkert annað tækifæri gefið.

Fimm lögreglumenn koma að heimili að ná í sjö ára barn til að koma því í hendur forsjárlauss föður. Telpan vill ekki fara. Lögreglan vill ekki taka hana. Þrátt fyrir það er engin vægð sýnd. Eftir heimsóknina til föður síns þarf telpan á læknishjálp að halda.

Tveir lögreglumenn koma að heimili þriggja barna til að fara með þau til föður síns. Þau vilja ekki fara. Sýslumaður metur stöðuna þannig að tvö elstu börnin þurfi ekki að fara vegna þess að þau séu nógu gömul til að segja skoðun sína en yngsta barnið þarf að fara. Það gengur erfiðlega að koma barninu út úr húsi og þrír lögreglumenn í viðbót eru kallaðir út. Engin vægð.

Móðir flýr til Íslands með börn sín til að bjarga þeim frá ofbeldisfullum föður. Þeim er dæmd sameiginleg forsjá með börnunum. Það eru til skýrslur lækna og sálfræðinga og vitnisburðir kennara og fleiri sem styðja það að faðirinn beiti þau ofbeldi. Þrátt fyrir það er engin vægð sýnd, börnin skulu búa hjá föður sínum erlendis. Lögreglan er send á staðinn.

Foreldrar reyna að bjarga fimmtán ára dóttur sinni frá dópneyslu. Barnaverndarnefnd tjáir þeim að hún sé ekki nógu langt leidd til að hægt sé að gera eitthvað fyrir hana. Stúlkan fer úr áfengisneyslu í kannabisneyslu í harða dópneyslu. Engin langtímaúrræði eru í boði. Barnaverndarnefnd aðhefst ekkert þrátt fyrir að foreldrarnir hafi margoft sinnt tilkynningarskyldu sinni.

Á ég að halda áfram?

Þetta eru bara nokkrar dæmisögur um það hvernig kerfið virkar ekki þegar kemur að verndun barna. Ég er viss um að í langflestum tilvikum virkar kerfið ágætlega, en þetta eru samt of mörg dæmi um hið gagnstæða. En það eru ekki bara barnaverndaryfirvöld sem hafa brugðist í fjölmörgum málum, réttarkerfið hefur líka brugðist. Samkvæmt rannsókn um áhrif heimilisofbeldis á ákvarðanir í umgengnis- og forsjármálum sem gerð var árið 2009, hefur heimilisofbeldi mjög takmörkuð áhrif á mat á forsjárhæfni foreldris og, svo ég vitni beint í útdrátt rannsóknarinnar: „virðist mikið þurfa að koma til svo að umgengnisréttur sé skertur á grundvelli slíks ofbeldis, jafnvel þótt sýnt sé fram á að samneyti við foreldri geti beinlínis verið barninu skaðlegt” (http://skemman.is/handle/1946/2474).

Þetta er náttúrlega ekki í lagi. Barnalögin segja: „Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.“ (2. mgr. 28. gr.). Foreldrunum í dæmunum hér að ofan var, vægast sagt, gert erfitt fyrir að sinna þessari skyldu. Og þeir sem sinntu tilkynningarskyldu sinni fengu enga hjálp. Til hvers eru lögin ef ekki er farið eftir þeim?

Á sama tíma er brotið á rétti sumra forsjárlausra feðra. Ég veit um dæmi þess að móðir gat ekki sinnt uppeldi barns síns tímabundið og var því þá komið fyrir hjá móðursystur sinni en ekki einu sinni talað við föðurinn. Og hvar er réttlætið í því að þegar foreldrar fara með sameiginlega forsjá fær einungis annað þeirra barnabætur en hitt þarf að borga meðlag, þrátt fyrir að barnið búi jafnt á báðum stöðum?

Einhvers staðar er pottur brotinn í kerfinu. Það þarf að stokka upp bæði í lögunum og framkvæmd þeirra. Hvar er eftirlitið með barnaverndarnefndum og Barnaverndarstofu? Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsaðilunum?

Posted in Uncategorized

Lýðræði

Ég legg til að þeir sem ætla sér að mæta á kjörstað til að merkja X við þann flokk sem þeir telja vera með besta stefnumálapakkann staldri við í andartak og spyrji sig nokkurra spurninga. Ef áherslan er lögð á aðferðarfræði í stað stefnumála, myndir þú kjósa eins? Á Alþingi að vera lokaður vinnustaður þar sem 63 starfsmenn taka allar ákvarðanir og þú færð, á fjögurra ára fresti að taka þátt í kjöri þeirra flokka sem velja þessa starfsmenn? Hvað gerist svo ef þeir svíkja kosningaloforðin? Færð þú þá atkvæðið þitt til baka? Missir einhver á Alþingi vinnuna sína?

Núverandi framkvæmdir á lýðræði eru frekar skrítnar og jafnvel órökréttar. Í raun er lýðræðið eins og við þekkjum það í dag frekar ólýðræðislegt. Fólk kýs flokka eftir stefnumálum þeirra sem væri gott og vel ef Alþingi væri rekið eins og fyrirtæki þar sem einn forstjóri ræður öllu. En svo er ekki og það sem gerist í staðinn er það að stefnumálin tínast í þvargi og rifrildi þingmanna, sem allir hafa ólíkar skoðanir og vilja. Vantar forstjóra á Alþingi? Ef svo er þá á almenningur á að fá það starf. Fólkið í landinu á að ráða.

Nálgun Pírata á lýðræði snýst um að einstaklingar séu upplýstir áhrifavaldar í eigin samfélagi. Almenningur á að geta komið að mótun og ákvarðanatöku um allt sem hann varðar. Til þess að gera þetta þarf að breyta því hvernig þingfólk vinnur, hvernig farið er að hlutunum. Það þarf að koma á auknu gagnsæi með því að „opna“ öll kerfin okkar og rýna í þau, betrumbæta og uppfæra. Stjórnmál í dag snúast um rifrildi, ræðumennsku og frekju. Eftir rifrildið spyr maður sig, hver hljómar eins og hann hafi réttast fyrir sér? Það dugar ekki að taka ákvarðanir á þessum forsendum, til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir þurfa staðreyndirnar að liggja fyrir og þær gera það ekki í dag. Þetta getum við lagað mjög einfaldlega með því að auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum. Þetta þarf að vera gert af fólki sem hefur skilning á þeim tækniframförum sem hafa orðið í samfélaginu síðustu áratugi.

Iðnbyltingin er liðin tíð og upplýsingabyltingin er bylting nútímans. Uppfærum kerfin okkar útfrá þessari nýju hugmyndafræði. Tökum valdið af þessum 63 þingmönnum og færum það í hendur almennings. Fulltrúalýðræðið tilheyrir úreltri hugmyndafræði. Internetið býður upp á nýjan möguleika, beint lýðræði. Uppfærum hugmyndafræðina okkar. Byltum samfélaginu. Þetta er framtíðin sem ég vil sjá. Þess vegna er ég Pírati.

Posted in Uncategorized

Hvolpar og kettlingar

Við kjósendur högum okkur svolítið eins og kisulórur og hvolpakrútt. Elskum að láta strjúka á okkur kviðinn og klóra okkur á bak við eyrun. Þetta höfum við enda verið vanin á. En nú er kominn tími til að bretta upp ermar.

Mér þykir leitt að vera boðberi slæmra frétta en við erum of lítið að tala um þau mál sem skipta heimsbyggðina og okkur sjálf mestu máli. Ekki bara sjálfbærni heldur sjálfsbjörg (hvernig á að komast af í heimi þar sem sífellt mun þrengja að þeim lífskjörum sem Íslendingar eiga að venjast), ekki bara samræða heldur samvinna.

Lífsstíllinn okkar er löngu hættur að ganga upp. Við þurfum að gerbylta samgöngum, neysluvenjum og reyndar hagkerfinu okkar í heild. Til þess höfum við nokkur tæki en það er ljóst að stjórnmálamenn í atkvæðaleit hvorki bjóða þau né beita þeim. Það þurfum við sjálf að gera, þótt það sé ekki auðvelt. Það gerum við með beinu lýðræði.

Posted in Uncategorized

Þegar tveir rökræða …

… þá er sjálfkrafa gert ráð fyrir að önnur skoðunin sé rétt og hin röng. Það er hins vegar alveg jafn líklegt að báðar skoðanirnar séu rangar eða jafnvel hvor tveggja rétt.

Tökum til dæmis fyrir nokkrar spurningar úr kosningakönnun DV, til dæmis :

#36 Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú núgildandi kvótakerfi?

kvoti

Hér sést svona í góðum lit hverjir eru hlynntir kvótakerfinu eins og það er og hverjir eru andvígir því. Þetta eru nokkurn vegin tvær andstæðar skoðanir en það er fátt sem gefur til kynna hvor hafi rétt fyrir sér. Útskýringar þeirra sem eru mjög andvíg(ir) er að finna hérna og þar á meðal er hægt að finna eitthvað eins og einfaldar útskýringar frá Arnaldi í Pírötum: “Núverandi kerfi leyfir örfáum aðilum að einoka of mikinn kvóta.” eða nákvæmari útskýringar frá Finnboga í lýðræðisvaktinni:

“Það á bjóða upp kvótann á opnum uppboðsmarkaði, skipt eftir svæðum, byggðum, báta-/skipaflokkum til lengri eða skemmri tíma. Þannig fæst markaðsverð fyrir aflaheimildir og fullt gjald er greitt fyrir notkun þeirra, samfélaginu til heilla. Hægt verður að nota peningana í lækkun skatta, velferðarmál og menntamál, nú eða greiða niður erlendar skuldir. Auka verður frelsi einstaklinga í byggðum landsins að skapa sína eigin framtíð með frjálsum handfæraveiðum og frelsi í línuveiðum.”

Flestir sem eru fylgjandi kvótakerfinu eru ‘frekar hlynnt(ir)’ og er þeirra rök að finna hér. Á meðal röksemda er að finna hjá Sigurði Erni:

“Held að það sé á margan hátt mjög gott, sér í lagi fiskveiðistjórnunarkerfið. En ég er líka á því að atvinnuvegurinn þoli skattlagningu í formi veiðileyfagjalds – en sá skattur má ekki hamla vexti eða framförum í greininni.”

og frá Páli Val:

“Skapa þarf sátt um sjávarútveginn og það strax það er með öllu ólíðandi að óvissa ríki um þessa mikilvægu grein í íslensku atvinnulífi. Sjávarútvegurinn er að skila arði og nú síðasta misseri auknum arði til þjóðarinnar. Það er ljóst að á næstu árum mun kvótinn verða aukinn um mörg þúsund tonn. Það mun skapa mikla möguleika á nýliðun í greininni.”

Hafa þeir sem eru frekar hlynnt(ir) rétt fyrir sér? Gott að hafa fiskveiðistjórnunarkerfi, veiðileyfagjald svo lengi sem það hamli ekki vexti, að allir séu sáttir við kerfið og nýliðun er góð. Þetta hljómar ekkert rangt allavega. Hvað með þá sem eru mjög andvíg(ir)? Einokun, opin svæðaskiptur markaður, aukið frelsi einstaklinga til þess að nálgast auðlindina í gegnum frjálsar línuveiðar. Hljómar ekkert svo rangt heldur. Fiskveiðistjórnunarkerfi er gott en einokun er slæm, veiðileyfagjald en samt frelsi til þess að nálgast auðlindina … nýliðun.

Það er erfitt að segja að einhverjir hafi rétt eða rangt fyrir sér í þessu máli. Vegna þess þá verðum við að vita meira. Píratar leggja þess vegna fram að til að byrja með þá fari allur afli á markað og kvótaeign verði gerð opinber, sem og öll verslun með afla. Allt í einu vitum við svo miklu miklu meira án þess að hafa breytt mjög miklu. Þegar við vitum meira þá er auðveldara að sjá hver hefur rétt fyrir sér. Upplýsingar eru forsenda góðrar ákvarðanatöku. Í stað þess að hengja sig á ‘þú hefur rétt/rangt fyrir þér” þá viljum við að gögnin segi okkur hvað sé rétt eða rangt.

Ég er Pírati og ég var að blogga um kvótakerfið, það kom mér dálítið á óvart.

Píratar á góðri siglingu

alda-skipHér er yfirlit yfir hvernig fylgi Pírata mælist í könnunum alveg frá fyrstu mælingu 28. febrúar 2013 en þá mældist fylgið 1,5%. Núna 24. mars mælist fylgið 6,3%.

 

 • 2013-02-28;Fréttablaðið / Stöð 2;Píratar;1,5
 • 2013-03-05;Capacent-Gallup;Píratar;2,3
 • 2013-03-13;MMR;Píratar;3,6
 • 2013-03-15;Capacent-Gallup;Píratar;3,8
 • 2013-03-16;Fréttablaðið / Stöð 2;Píratar;1,8
 • 2013-03-26;MMR;Píratar;3,9
 • 2013-03-28;Félagsvísindast. f. Morgunblaðið;Píratar;3,3
 • 2013-04-03;Capacent-Gallup;Píratar;4,4
 • 2013-04-05;Fréttablaðið / Stöð 2;Píratar;5,6
 • 2013-04-09;MMR;Píratar;7,8
 • 2013-10;Félagsvísindast. f. Morgunblaðið;Píratar;5,6
 • 2013-04-11;Capacent-Gallup;Píratar;6,8
 • 2013-04-15;MMR;Píratar;9
 • 2013-04-17;Fréttablaðið / Stöð 2;Píratar;5,6
 • 2013-04-18;Capacent-Gallup;Píratar;8,4
 • 2013-04-18;MMR;Píratar;6,7
 • 2013-04-19;Félagsvísindast. f. Morgunblaðið;Píratar;6,3
 • 2013-04-24;Fréttablaðið / Stöð 2;Píratar;6,3
Posted in Uncategorized