Í frétt Vísis (http://www.visir.is/-ekki-hvarflar-ad-mer-ad-gera-albaniu-ad-fyrirmyndarlandi-vardandi-heilbrigdisthjonustu-/article/2015150109563) kvartar Ásdís Halla undan því að orð hennar um flotta einkarekna heilbrigðiskerfið í Albaníu hafi verið misskilin, hún hafi bara verið að benda á mikilvægi valfrelsis. Hún gefur dæmi:

“Þá segist Ásdís Halla hafa verið að benda á mikilvægi valfrelsis á sviði velferðarmála. Í Garðabæ gætu foreldrar valið leik- og grunnskóla fyrir börn sín og þeim fylgi fjármagn, óháð því hvort skólinn væri einka- eða ríkisrekinn.”

Ég sé ekki betur en Ásdís Halla misskilji ‘einkarekstur’ all svakalega. Þarna er hún að segja að sveitafélagið borgi (úr sameiginlegum sjóðum) fyrir kostnað þeirrar menntunar sem foreldrar velji fyrir börnin sín. Ég endurtek, hið opinbera borgar. Það er ekki skilgreiningin á ‘einkarekstri’ …

Er til of mikils mælst að fólk skilji sjálft hvað það er að segja?

Bætum aðeins við það sem vantar þarna. Án þess að það sé sérstaklega tekið fram býst ég við því að ‘einkaskólarnir’ taki einhver gjöld aukalega fyrir þjónustu sína fram yfir það sem Ásdís kallar ‘ríkisrekna’ skóla. Ef maður samþykkir að það sé skilgreiningin á einkareknum skóla, að sveitafélagið hlaupi undir bagga með foreldrum sem velja einkaskóla – hvað varð þá um ‘valfrelsið’ sem hún talar um? Jú, það er háð tekjum foreldra. Almennt séð kallast það ekki ‘valfrelsi’ heldur efnahagslega þvingað val. Á yfirborðinu hafa allir sama val, en í raun og veru takmarkast það af efnahag foreldra – sem er mjög merkilegt því málið snýst um menntun barnanna sem get ómögulega aflað sér tekna til þess að standa undir kostnaði af eigin menntun.

Þessi blindni, sem er knúin af hugmyndafræði, á hvað raunverulega virkar endurspeglast í í orðum Ólafar Nordal:

“Engar sérstakar aðgerðir eða eftirlit hefur verið skipulagt til að fylgjast með því hvort afnám vörugjalda skili sér í lægra vöruverði. Markaðurinn mun hins vegar sjá um að veita fyrirtækjum aðhald og sjá til þess að þau lækki vöruverð til samræmis við breytingarnar. Þetta sagði Ólöf Nordal, ráðherra neytendamála, í kvöldfréttum stöðvar 2.” (http://www.vb.is/frettir/112864/)

og Styrmis Gunnarssonar í hringborðsumræðum Rúv:

“Þurfum við einhverjar sérstakar mælingar og einhverjar sérstakar rannsóknir til þess að vita að það er fátækt á Íslandi. Við erum svo fá, við lifum í þessu litla samfélagi hér. Er okkur ekki öllum ljóst að þessi fátækt er hér til staðar, við sjáum hana og er ekki meiri ástæða til þess að leggja áherslu á að grípa til einhverra aðgerða gegn henni – heldur en að eyða of miklum tíma í rannsóknir og mælingar?” (http://www.ruv.is/sarpurinn/hringbordid/05012015)

Fólki er semsagt boðið upp á efnahagslega þvingað val þar sem markaðurinn reddar öllu án þess að hann þurfi nokkuð eftirlit (rannsóknir og mælingar) og ef eitthvað fer úrskeiðis þá er það bara misskilningur. Skoðum nýlega frétt Rúv (http://www.ruv.is/frett/felagsleg-heilbrigdiskerfi-komi-best-ut):

“Rúnar Vilhjálmsson prófessor fór yfir fjölmargar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum og Evrópu um árangur ólíks reksturs heilbrigðisþjónustu. Niðurstöðurnar sýna að þegar mat er lagt á aðgengi að þjónustu þá koma félagsleg kerfi, eins og hér hefur verið, best út. Blönduð kerfi, eins og eru í Vestur-Evrópu, næst best en lakast er aðgengi að þjónustunni í kerfum sem eru í einkarekstri. Kostnaður er lægstur í félagslega kerfinu og lýðheilsa best. „Þannig að eftir því sem bæði fjármögnun og rekstur fer frá því opinbera og til einkaaðila þá verður stýring eða stjórnun þjónustnnar eða kerfisins erfiðari,“ segir Rúnar.”

Þarf einhver að rifja upp hvað eftirlitslaust bankakerfi gerði fyrir nokkrum árum síðan? Nei. Hvað er þá að? Er verið að misskilja eitthvað meira? Nei, þetta er einfaldlega afneitun á því að hugmyndafræði þessa fólks sé að hruni komin. Þetta er valkvæm blindni á staðreyndir málsins. Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er ekki að segja að hugmyndafræði hins frjálsa markaðar sé að hruni komin, ég er að segja að _eftirlitslaus_ markaður virki ekki, hafi aldrei virkað og geti ekki virkað. Hvorki sem kerfi til þess að búa til valfrelsi fyrir neytendur né til þess að verja neytendur og samfélagið fyrir einokun og öðru svindli. Markaðurinn virkar ekki ‘af því bara’.

Þess vegna þarf rannsóknir og mælingar. Við þurfum að þekkja núverandi aðstæður til þess að geta borið saman afleiðingar af ýmsum stjórnskipunarákvörðunum, svo sem afnáms vörugjalda eða lækkunar skatts, á markaðinn. Ef við vitum ekki hverjar afleiðingar aðgerða eru þá getum við ekki valið úr þeim aðgerðum sem eru í boði. Við getum ekki vitað hvort markmið sem við höfðum fyrirfram náðist út af stjórnskipunarákvörðunum eða einhverju öðru.

Tökum dæmi. Segjum sem svo að lækkun virðisaukaskatts um 1% leiði til 0,5% lækkunar vöruverðs og hækkun um 1% leiði til 2% hækkunar vöruverðs (uppskáldað dæmi og gerum ráð fyrir línulegri fylgni). Ef við vitum þetta fyrirfram, af því að við höfum skoðað afleiðingar þess að breyta skattprósentunni – að ef við viljum ná 1% lækkun á vöruverði þá þurfum við að lækka vsk um 2%.

Upplýst ákvörðun. Ekki hugmyndafræðileg blinda.