Ég og þú tökum ákvarðanir út frá persónulegum aðstæðum og ástæðum. Miðað við hvað ég hef um að velja þá get ég kannski haft eitthvað um það að segja hvar ég bý, við hvað ég vinn, hvernig ég eyði frítíma mínum, hvernig fjölskyldumynstur hentar mér, hvaða áhugamál ég stunda og hvort ég ‘snooza’ aldrei eða fimm sinnum.

Samfélagslegar ákvarðanir eru ekki teknar út frá persónulegum aðstæðum eða ástæðum. Ef svo er, þá þarf alvarlega að endurskoða hver tekur þær ákvarðanir og af hverju viðkomandi fær að gera það. Nýlega hefur verið bent á ýmsar undarlegar stjórnsýslulegar ákvarðanir varðandi MS, afskipti fyrri ráðherra, tengsl fyrirtækja inn í ráðuneyti og ný sem gömul samkeppnisbrot. Við megum spyrja okkur sérstaklega vel hvort allar þær ákvarðanir sem hafa verið teknar af stjórnsýslunni hafi verið neytendum og samfélaginu í heild sinni í hag?

Í þessari spurningu felst áhugavert orð, “hagur”. Hvernig mæli ég hvort eitthvað sé samfélaginu í hag eða óhag? Flestum dettur kannski í hug tengingar við hagkerfi og ýmsar mælieiningar sem fylgja því apparati. Verðbólga, neysluvísitala, hagvöxtur, … Einhverjum öðrum dettur kannski í hug: Lífsmatsstigi (well being index), væntingavísitala, sjálfbærni. Hver sem mælikvarðinn er þá fellur stikan ekki endilega alltaf í vel sniðnar skorður. Reglustika dugar illa til þess að mæla ummál hrings án þess að vita miðju hringsins (sem er skemmtileg æfing annars). Annað vandamál er að einhver ákvörðun er ekki endilega mælanleg á öllum mælitækjunum, afleiðingarnar geta meira að segja verið villandi vegna ýmissa ástæðna.

Ónákvæm mælitæki eru ekki einu sinni eina vandamálið í stjórnsýsluákvörðunum. Svo vill til, eins og MS dæmið bendir til, að það er að lokum einhver hópur fólks sem tekur ákvörðunina. Sjónarmið þeirra geta verið mjög skekkt, þau gögn sem tekið er tillit til og þær mælistikur sem eru teknar marktækar vegna hugmyndafræðilegra ástæðna geta verið verri en ef önnur gögn og aðrar mælistikur hefðu verið notaðar. Enn fremur er hægt að mistúlka niðurstöður út af hugmyndafræðilegri þröngsýni. Jaðaráhrif geta skekkt niðurstöðurnar verulega ef ekki er gætt að.

Hvernig eigum við þá að taka ákvarðanir? Áhugaverð grein frá OECD lýsir notkun hamingjugagna til þess að stýra stjórnsýslulegum ákvörðunum. Í greiningu þeirra á nokkrum samfélagsþáttum sést að Ísland er ágætlega fyrir neðan meðaltal í nokkrum flokkum, húsnæði, tekjum, lýðræðislegri þátttöku og jafnvægi lífs og vinnu. Þar eru nágrannar okkar Kórea fyrir neðan okkur og Slóvenía fyrir ofan okkur. Þegar tekið er tillit til þeirra þátta þar sem Ísland kemur best út (heilbrigðis, samfélags, umhverfi, öryggi og lífsánægju) þá erum við í efstu sætunum, fyrir ofan Sviss og neðan Kanada. Alls ekki leiðinlegir flokkar að standa sig vel í!

Auðvitað getum við klórað okkur pínulítið í hausnum varðandi heilbrigðisþáttinn miðað við landflótta lækna, nær stöðugra frétta um fjárhagsörðugleika heilbrigðiskerfisins og svoleiðis en kannski erum við bara samt best. Það eru svo auðvitað ekki allir sem eiga í húsnæðisvandræðum eða glíma við áhyggjur um að eiga fyrir mat um hver mánaðarmót. Við hljótum líka að vera svona ánægð af því að við eigum allar auðlindirnar okkar saman og nýtum þær okkur öllum í hag? Góðar tölur geta nefnilega falið slæmar tölur. Fáir einstaklingar með rosalega háar tekjur draga upp meðaltal, þegar talað er um kaupmáttaraukningu almennt en ekki útskýrt hvaða hópar fá hversu mikla kaupmáttaraukningu – þá er verið að fela eitthvað, það er eitthvað að.

Það má aldrei gleyma að skoða dreifinguna! Það má heldur aldrei gleyma því að spyrja fólkið, sem samfélagið samanstendur af, við hverju það býst við. Ef mælingin stemmir ekki við því sem fólk er að búast við að sjá, þá er líka eitthvað að.

Hvernig eigum við að taka ákvarðanir? Við þurfum að líta til mjög margra þátta en sérstaklega til þeirra sem við teljum sameiginlega að séu mikilvægir. Við verðum líka að heimta að framsetning gagna sé ekki blekkjandi. Það er lýðræðislegt, það er sanngjarnt.