Jón Magnússon spyr vegna þess að Birgitta sagði að það væri tímasóun að eyða tíma í lagabreytingatillögur, þær væru hvort eð er ekki samþykktar.

Enn fremur segir Jón:

… það á hvorki við um Bjarta Framtíð eða Pírata. Ef til vill er það vegna þess að hvorugur þessara flokka hefur mótaða þjóðfélagssýn.

Ég svaraði þessari staðhæfingu á blogginu hans Jóns en þetta er nægilega alvarleg athugasemd hjá honum til þess að skrifa um það sérstaka grein hérna.

Til að byrja með þá er þetta rangt. Auðvitað eru Píratar með mótaða þjóðfélagssýn. Í öðru lagi þá skil ég vel að fólk haldi að svo sé ekki. Í síðustu alþingiskosningum og nýliðnum sveitastjórnarkosningum vorum við ekki með sérstaka stefnu í húsnæðismálum. Hvers vegna ekki? Einfaldlega vegna þess að það er bara mjög flókinn málaflokkur og við teljum að það þurfi að safna miklu fleiri upplýsingum um málið til þess að það sé hægt að leggja fram einhverjar góðar lausnir. Í kosningakerfi Pírata liggur samt fyrir ályktun um leigumál:

  • Styrkja skuli leigjendasamtök sem eru að aðstoða leigjendur við komast að réttarstöðu sinni og veita upplýsingar til almennings um samningagerð, lög og réttindi leigusala og leigjenda, hvaða áhrif verðtrygging hefur á leigusamninga, tímalengd samninga og önnur álíka atriði.

Þessu máli hefur Jón Þór mælt fyrir á alþingi, tíðarandans vegna þá hefur hann einbeitt sér að því að nauðungarsölum sé frestað. Ályktunin er í fleiri liðum en mikið af henni er framkvæmdarlegs eðlis sem er erfitt að koma að á alþingi, nema í þingsályktunartillögu. Þrír þingmenn, eins rosalega dugleg og þau eru, duga skammt – og hafa þurft að forgangsraða verkefnum sem þau telja líklegt að nái árangri í núverandi aðstæðum á þingi. Það sem skiptir máli er að ná árangri og ég held að það þurfi að leita langt til þess að finna þrjá aðra þingmenn sem hafa skilað störfum sínum betur af sér en þingmenn Pírata.

En aftur af þjóðfélagsýn Jóns Magnússonar.

Svarið mitt á blogginu hans var:

Þó að þú skiljir ekki þá þjóðfélagssýn sem Píratar hafa þá þýðir það ekki að hún sé til. Heyrðu, kannski hefur þú bara aldrei heyrt hugmyndir Pírata um þessa þjóðfélagsmynd. Grípum þá tækifærið og fræðumst smá.

Markmið Pírata er beint lýðræði, friðhelgi einkalífs, gagnsæi og ábyrgð í stjórnmálum og frelsi upplýsinga (þar sem það skarast ekki á við friðhelgi einkalífs).

Þessi markmið hafa ákveðnar afleiðingar hvað varðar þjóðfélagið. Almennt séð þá þýðir það að hver sú sem vill taka þátt í ákvörðunum sem hana varðar, getur það. Upplýsingarnar liggja fyrir og ferlið er augljóst og aðgengilegt. Þetta þýðir að hlutverk löggjafa og framkvæmda er þjónustuhlutverk, ekki valdahlutverk. Ákvarðanirnar eru teknar af kjósendum, þingmenn semja lög miðað við þær ákvarðanir og framkvæmdin sinnir sínu. Öfugt við núna þar sem flest lög koma frá ráðuneytum, þingmenn eru á launum við að ýta á bjöllu og kjósendur fá ekki einu sinni að kjósa þó að þeir æpi sig hása.

Semsagt, lýðræðislegt þjóðfélag. Alla daga ársins, alltaf, ekki bara á fjögurra ára fresti.

Aftur, ég skil það alveg að fólk hafi ekki haft tækifæri til þess að kynnast Pírötum betur. Það er bara okkur að kenna og þetta er ein tilraun til að bæta úr því. Píratar hafa ekki fullmótaða stefnu út um allt af því að samfélagið í heild sinni á að fá að koma að þeirri ákvarðanatöku. Ekki bara félagar og kjósendur Pírata, ekki bara flokkar og fylgismenn … allir. Allir sem vilja láta sig málið varða. Þannig virkar lýðræðislegt ferli. Atkvæðagreiðslan er ekki aðalatriðið, ferlið er aðalatriðið. Mjög margir misskilja lýðræði og halda að ef það er almenn atkvæðagreiðsla, þá er lýðræði. Kosningarnar á Krímskaga og mörgum einræðislöndum sýna annað. Þar eru ‘plat’ kosningar þar sem í raun er ekkert annað val og engin raunveruleg umræða um hvað valkostirnir þýða.

Á Íslandi kjósum við á þing á fjögurra ára fresti, án þess að vita í rauninni hvað valkostirnir þýða – eins og alþingiskosningarnar síðast hafa sýnt. Þjóðfélagssýn Pírata snýst einmitt um nákvæmlega þetta, að það sé eins skýrt og mögulegt er hvað valkostirnir þýða og að ferlið sem leiðir að þeim valkostum sé eins opið og aðgengilegt og hægt er. Áhrifin sem það getur haft á þjóðfélagið eru rosaleg.

Við viljum breyta því hvernig við stundum lýðræði, opna stjórnsýsluna, krefjast ábyrgð af þeim sem sinna löggjafa- og framkvæmdaþjónustu og standa vörð um borgaraleg réttindi og friðhelgi einkalífsins – þær breytingar koma til með að vera uppskriftin að því hvernig við leysum öll vandamál þjóðfélagsins. Mér finnst það bara vera ágætis þjóðfélagssýn.