Kæru Píratar.

Eitt ár á þingi. Nýkomin í ráðhús.

Við erum komin af stað en það er löng leið eftir. Við erum enn að læra og þurfum að halda áfram að kenna hvað það er að vera Pírati. Markmiðið er lýðræðislegra samfélag – og við erum bara að stíga fyrstu skrefin.

Það má alveg færa fyrir því rök að lýðræðisleg vinnubrögð eru miklu tímafrekari og umfangsmeiri en miðstýrð vinnubrögð. Fljótlega leiðin er miðstýring. Skilvirka leiðin er miðstýring. En með miðstýringu kemur líka spilling. Þess vegna eru Píratar með framkvæmdaráð en ekki miðstjórn. Hóp fólks sem tryggir Pírötum aðgengi að aðstöðu til þess að stunda málefnastarf án þess að þurfa að pæla í öðru skipulagi en málefnalegu. Hóp fólks sem skipuleggur atburði sem kenna, miðla og efla samstarf Pírata, hvort sem þeir eru innan eða utan flokks.

Eitt af markmiðum framkvæmdaráðs síðastliðið ár var að koma upp betra samskiptakerfi fyrir Pírata. Upplýsinga- og miðlunarkerfi fyrir málefnahópa og vinnuhópa. Framan af skoðuðum við ýmis kerfi sem virtust standast kröfur okkar. Síðan biðum við eftir að fá netþjóna til þess að geta prófað kerfin, en þegar upp var staðið var ekkert af þeim nægilega gott. Ég tel það því vera eitt af mikilvægari málum næsta framkvæmdaráðs að halda áfram með þetta verkefni.

Annað mikilvægt verkefni er gæðahandbókarverkefnið. Það er mikilvægur liður í því að koma aðferðum og ferlum niður á blað. Hvernig á að boða fundi, hvernig á að skrá fundi, hvernig á að skila niðurstöðum funda áfram, hvernig vinnu- og verkefnahópar starfa, hvernig málefnahópar starfa … og svo mætti lengi telja.

Verkefni framkvæmdaráðs eru margvísleg og flókin, vegna þess að við erum enn að læra hvernig stuðning þarf utan um það lýðræðislega stjórnkerfi sem við viljum fá. Píratar eru félagasamtök sem hafa það að markmiði að breyta því hvernig við stundum stjórnmál. Það þýðir ekki endilega að við kunnum það öll sjálf. Þegar einhver skráir sig í Pírata þá þýðir það ekki að viðkomandi hafi hugmynd um hvernig við störfum eða hvernig hægt sé að taka þátt.

Mikilvægasta verkefni Pírata, að mínu mati, er að halda áfram að læra og kenna. Lýðræðið byrjar hjá einstaklingnum. Hugmynd þarf að komast á framfæri, fá lýðræðislega umfjöllun, það þarf að safna gögnum og reynslu og koma niðurstöðunum að lokum til framkvæmda. Lýðræðið byrjar líka í stjórnsýslunni. Þar koma upp ýmis vandamál sem þurfa líka lýðræðislega meðferð. Málefnastarf Pírata á að vera líkan sem allir nota. Nú þegar það eru Píratar í stjórnsýslunni þá þarf málefnastarfið að styðja vinnuna þar.

Vandamálið sem við glímum við er þreföld; samskiptafjarlægðin á milli einstaklinga í lýðræðislegri umræðu, fjarlægðin á milli einstaklinga og framkvæmdaraðila og að lokum fjarlægð á milli framkvæmdaraðila innan stjórnsýslu. Við þurfum vettvang til lýðræðislegs málefnastarfs; vettvang þar sem málefnum er komið áfram til kjörinna fulltrúa og frá fulltrúum aftur inn í málefnastarfið.

Pírötum vantar líka vettvang þar sem kjörnir fulltrúar geta samstillt aðgerðir. Hingað til höfum við haft málefnahópa sem halda málefnafundi. Við höfum haldið framfarafundi þar sem kjörnir fulltrúar kynna málefni sem þau eru að vinna. Nú þurfum við að bæta við samráðsfundum fulltrúa. Þar geta kjörnir fulltrúar skipulagt málefni næstu mánaða; tekið við nýjum málum úr málefnastarfi; og sent mál aftur, með athugasemdum, í málefnahópa. Hér á framkvæmdaráð að bera ábyrgð á því að öll skilaboð komist á rétta staði og ef það er ekki málefnahópur tilbúinn til þess að taka við nýjum málum, koma þeim af stað.

Framkvæmdaráð fæst við skipulagningu. Fyrir utan að bera ábyrgð á því að sinna því sem stjórnmálaflokkur þarf að skila af sér lögum samkvæmt – þá er skipulagning félagsstarfsins mikilvægasta starf framkvæmdaráðs. Nú erum við komin með styrk til framkvæmda, kosningum nýlokið og framundan eru mikilvæg ár þar sem þarf að sinna félagsstarfi mjög vel.

Hvað höfum við lært undanfarið ár í framkvæmdaráði? Það er erfitt að gera nokkuð án þess að hafa húsnæði til málefnafunda. Það er erfitt að gera nokkuð án þess að hafa pening til að skipuleggja atburði og skyldufundi. Það er erfitt að fá sjálfboðaliða til þess að skipuleggja starfið og það er aldrei hægt að gera ráð fyrir því að eitthvað gerist sjálfkrafa á réttan hátt. Það er erfitt að finna sjálfboðaliða í verkefni og erfitt að fylgja verkefninu eftir.

Almennt varðandi samskipti, þá er ekki hægt að komast hjá því að fólk skiptist ekki jafnt á skoðunum. Ég hef sagt það nokkrum sinnum áður, í bestu hjónaböndum þá verða árekstrar – því er barnaskapur að halda því fram að í stjórnmálasamtökum verði engir árekstrar. Við þurfum að iðka lýðræði í skoðanaskiptum okkar – heyra sjónarmið annara áður en við lokum okkur inni í tómu herbergi og dáumst að bergmálinu.

Kosningar hafa verið aðaldrifkraftur í félags- og málefnastarfi Pírata fram að þessu. Í kosningabaráttunni hefur okkur tekist að vekja athygli á þeim málefnum sem okkur mest varða, fengið í lið með okkur mjög öflugt fólk og síðast en ekki síst stuðning kjósenda. Nú þurfum við að læra að halda áfram að vekja athygli á málefnunum okkar, utan kosningabaráttu. Vekja áhuga fólks á virku lýðræði og halda áfram að finna öflugt fólk sem berst fyrir beinna lýðræði, gagnsæi í stjórnsýslu og borgararéttindum. Fólk sem er tilbúið til þess að takast á við stjórnmál í lýðræðisumhverfi á upplýsingaöld.