Í nýlegri grein eftir Guðrúnu Bryndísi er áhugaverð tilvitnun:

Hann kenndi mér lausnina á því hvernig mætti ná manni inn – galdurinn væri að vera með einsmálsstefnu sem væri FLUGVÖLLURINN!

Í sjálfu sér er ekkert að kosningabaráttu sem snýst bara um eitt mál en þegar kjörtímabilið er fjögur ár þá þarf slíkt mál að vera ansi viðamikið og flókið til þess að vera full vinna í fjögur ár að klára. Þetta er eitt af vandamálum núverandi lýðræðiskerfis, við erum bara lýðræði á fjögurra ára fresti. Núverandi ríkisstjórn er til dæmis með 49,86% atkvæða, 60,3% þingsæta og 100% valds í fjögur ár – út af niðurstöðum einna kosninga.

Dæmið um flugvöllinn gæti valdið annari áhugaverðri niðurstöðu fyrir lýðræðið. Eitt mál sem skilar einhverjum fulltrúum. Segjum að það yrði strax drifið í kosningu um málið og niðurstaða fengin, hvað ætti þetta fólk að gera árin sem eru eftir? Segjum sem svo að það væri ekki farið í kosningu um málið fyrr en að loknu næsta kjörtímabili, hvað var þetta fólk þá að gera allan tímann?

Er ekki réttast að hvert og eitt mál fari bara í sinn farveg og klárist á eigin tíma – og þau sem keyra það mál áfram klári bara á sama tíma. Af hverju þurfum við að sitja uppi með fólk sem er kosið út á loforð allt kjörtímabilið þegar það er búið að klára loforðamálin? Hvað er það fólk að skipta sér að öðrum málum en þeim sem þau notuðu til þess að kaupa sér atkvæði til valda?

Hvað er þá rétt að gera? Kjörnir fulltrúar eiga að vera í þjónustu við lýðræðið. Eftirlit með því að lýðræðislegar niðurstöður komist í framkvæmd og skil á verkefnum séu eftir kröfum. Að vinna að lýðræðislegu samfélagi er stöðug vinna, það er aðalverkefni Pírata í þessum sveitastjórnarkosningum. Til þess þarf ýmislegt að breytast. Til þess að við getum tekið sameiginlegar ákvarðanir um forgangsröðun verkefna þá þurfum við að sjá hvernig bókhaldið er = opið bókhald. Með fullu aðgengi að öllum upplýsingum sem þarf til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir þá verður lýðræðið fyrir alla, ekki bara á fjögurra ára fresti.

xthlydraedi