Fyrir síðustu alþingiskosningar fengu frambjóðendur könnun frá kosningavitanum. Spurningunum var ætlað að staðsetja frambjóðendur, og þar af leiðandi flokk, á hnitakerfi frjálslyndis-/forræðishyggju og félags-/markaðshyggju. Niðurstöðurnar voru birtar í myndinni hér fyrir neðan og kjósendum boðið að taka sömu könnun til þess að komast að því hvaða flokkum þeir komust næst í skoðunum.

 

kosningavitinn

Eins og kemur skýrt fram á myndinni þá má teikna línu frá vinstri til hægri, þar sem flestir flokkar eru félags-/forsjárhyggjusinnaðir eða frjáls-/markaðssinnaðir.  Það er mikilvægt að átta sig á því að hver spurning býður upp á val milli félags- og markaðshyggju annars vegar og svo frjálslyndis og forsjár hins vegar. Ef flokkar falla mitt á milli þá þýðir það ekki endilega að allir frambjóðendur séu sammála um þá staðsetningu _flokksins_. Það er alveg jafn líklegt að dreifingin falli jafnt í sitt hvora áttina og meðaltalið geri flokkinn að ‘miðjuflokki’ í á þeim ás. Miðjan er einfaldlega engin skoðun í neina átt eða sitt hvor skoðunin í sína áttina.

Píratar, til dæmis, eru tiltölulega nálægt miðju hvað varðar félags- og frjálshyggju ásinn. Enda er okkur nokk sama um hvaða hugmyndafræði er notuð til þess að leysa vandamál ef aðferðin til þess að velja lausnina er góð og vel rökstudd með gögnum. Píratar eru hins vegar ekki nálægt miðju á frjálslyndis-/forsjárhyggju ásnum. Einir flokka standa Píratar vel út úr þessari mynd sem skýr valkostur frjálslyndis. Hvað þýðir það samt? Frjálslyndi (e. liberty) er skilgreint á mismundandi vegu, eins og svo margt annað. Ein skilgreiningin er frelsi frá kúgun valdhafa á lífsstíl, hegðun eða skoðanir. Önnur skilgreining segir “frelsi til þess að gera það sem manni sýnist”. Sitt sýnist hverjum auðvitað en flestir bæta yfirleitt við seinni skilgreininguna … ” á meðan það skaðar engan annan”.

Skilgreiningin á ágætlega við Pírata en er samt ekki mjög nákvæm þegar kemur að málefnum eða almennri stefnu. Það er betur útskýrt í grunnstefnu Pírata. Frelsið sem Píratar standa fyrir fjallar um borgararéttindi og upplýsingu, samkvæmt grunnstefnu (afsakið hástafina – copy/paste):

  1. GAGNRÝNIN HUGSUN OG UPPLÝST STEFNA
  2. BORGARARÉTTINDI
  3. FRIÐHELGI EINKALÍFSINS
  4. GEGNSÆI OG ÁBYRGÐ
  5. UPPLÝSINGA- OG TJÁNINGARFRELSI
  6. BEINT LÝÐRÆÐI OG SJÁLFSÁKVÖRÐUNARRÉTTUR

= Frelsi til þess að velja um bestu valkostina á lýðræðislegan hátt með áherslu á “Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.”

Hvers vegna? Af því að heimurinn er breytilegur. Ef heimurinn breytist þá breytast vandamálin, ef vandamálin breytast þá þurfa lausnirnar að breytast líka. Einnig, þó vandamálin breytist ekki neitt þá erum við stöðugt að læra meira – og búum til betri lausnir. Píratar hafa engan áhuga á því að skella því fram að einhver félags- eða markaðsleg hugmyndafræði sé alltaf með bestu lausnina í öllum aðstæðum. Píratar hafa heldur engan áhuga á því að segja samfélaginu hvað sé besta lausnin, Píratar vilja leyfa fólki að velja lausnirnar sjálft. Pírataaðferðin er að bjóða upp á góðar lausnir – lausnir studdar með rannsóknum, reynslu og/eða gögnum. Lausnir sem krefjast þess ekki að samfélagið þurfi að aðlagast aðferðinni nema lýðræðislegur vilji sé til staðar.

Við einfaldlega höldum því fram að samfélagið viti, lýðræðislega, hvað samfélagið vill. Þar er upplýsing grunnskilyrði og opin gagnrýni velkomin vegna þess að forsendur ákvarðanna liggja fyrir.