Það er ágætis reikningsdæmi hjá vísi: http://www.visir.is/-misskipting-sem-eg-tholi-ekki-/article/2013131229750 … pínulítið gallað þar sem borin eru saman mánaðarhækkun og árshækkun, og þeir gleyma að reikna inn skattprósentu sem er mismunandi hjá þessum tveimur einstaklingum sem þeir taka dæmi um. Einnig gleyma þeir að reikna inn prósentuhækkunina fyrir þann launalægri.

Allavega, byrjun. En reiknum dæmið til enda (ég hefði valið annað dæmi en höldum áfram með þetta bara)

Einföldu tölurnar sem fylgdu undirritun kjarasamninga voru: “Samkvæmt honum hækka laun um 2,8 prósent. Lægstu laun hækka þar að auki um 9.750 krónur á mánuði og laun hærri en 230.000 krónur hækka um 8.000 krónur” (http://www.ruv.is/frett/kjarasamningar-undirritadir)

Það vantar því í ofangreint dæmi að bæta við prósentutöluhækkuninni (2,8%) sem þýðir að sá sem er með 246 þ. hækkar um 14.888 fyrir skatt — það þýðir líka að sá sem er með milljón hækkar um 36 þ.

Nú eru skattþrep þannig að sá sem er með hærri laun borgar meiri skatt, bæði í krónutölu og hlutfallslega. Skattprósentan miðað við þessa samninga er þá nú: 22,8% hjá þeim sem er með undir 290 þ. en 31,8% hjá þeim sem er með milljón á mánuði (http://www.rsk.is/media/baeklingar/rsk_1202_2013.is.pdf).

Báðir eru yfir skattleysismörgum og borga því fullan skatt af launahækkuninni:
14.888 kr. * 0.772 = 11.493 kr. í launahækkun
36.000 kr. * 0.682 = 24.552 kr. í launahækkun

Munurinn er semsagt tvöfaldur. Laun þess með milljón á mánuði hækka tvöfalt meira í krónutölum talið.  Niðurstaðan er dæmigerð misskipting þegar það er prósentuhækkun launa en ekki eingöngu föst krónutöluhækkun.

Til þess að hafa það alveg á hreinu, þegar það er hlutfallsleg hækkun launa þá helst hlutfallslega sama dreifing … en ekki sama krónutöludreifing. 10% hækkun á 100.000 = 10.000 … 10% hækkun á milljón = 100.000.  Það er sami hlutfallslegi munur á launum fyrir og eftir en allt annar krónutölumunur.

Þetta þýðir að ef það á að nálgast jöfnuð, en ekki auka á ójöfnuð … þá verða launahækkanir að vera í fastri krónutölu. Ef hækkunin er í krónutölum þá minnkar munur launa hlutfallslega. Það eru ekki til rök sem styðja aukinn ójöfnuð – það eru hins vegar til fullt af rökum fyrir því að viðhalda jöfnuði, til að mynda:

Jólagjöfin í ár er semsagt misskipting. Frá lægri auðlindagjaldi og eignaskatti til skuldaniðurfellinga og kjarasamninga … þá hlakka ég til áramótaskaupsins. Kannski verður þetta fyndið þar.