Forsætisráðherra sagði nýlega stjórnarandstöðuna  “vera bara á móti” (http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP22698) tillögum um leiðréttingu á forsendubresti. Einhverjir í stjórnarandstöðunni eru víst tilbúnir til þess að ljúga um hvað leiðréttingartillögunar þýða meira að segja.  Hvort sem það er rétt eða ekki þá er það mjög áhugaverð fullyrðing.

Sigmundur Davíð er einnig mjög viss um tillögur stjórnarinnar, er viss um réttmæti og þvíumlíkt. Ef satt skal segja þá vona ég að honum takist ætlunarverk sitt. Annað væri verulega leiðinlegt, ekki bara fyrir stjórnina – heldur fyrir vel flesta landsmenn. Þess vegna langar mig að segja, svona áður en þessar tillögur koma allar í ljós – að hvernig það er borgað fyrir þessa leiðréttingu skiptir öllu máli. Ef kröfuhafar gömlu bankanna borga fyrir brúsann, eins og kosningaloforðið kveður um – alvöru frábært. Ef peningarnir koma úr ríkiskassanum, af þínum og mínum skattpeningum – kaldhæðnislega frábært.

Þess vegna vona ég, fyrst Sigmundur er svona viss í sinni sök, að við fáum öll að sjá hvaðan peningarnir koma. Að við fáum að sjá öll þau gögn sem leiddu til þessarar ákvörðunar Sigmundar og félaga í stjórninni. Ekki vegna þess að ég efast um túlkun þeirra á gögnunum, heldur til þess að koma í veg fyrir að ég nýti röng gögn til þess að gagnrýna eða styðja ákvörðunina. Til þess að koma í veg fyrir að ég ljúgi (óvart) af því að ég hef einfaldlega ekki öll gögn málsins. Til þess að koma í veg fyrir að ég þurfi einfaldlega að giska á hvort þau hafi rétt fyrir sér eða ekki.

Semsagt, ég kem til með að gagnrýna leiðréttingartillögurnar ef þær:

  1. Eru ekki greiddar af kröfuhöfunum
  2. Ef ég fæ ekki aðgang að öllum gögnum málsins

Ef ég fæ aðgang að öllum gögnum málsins þá er hægt að skoða mjög vel hvort gagnrýni mín er á rökum/gögnum reist. Þá sést berlega hvort ég er að giska eða ljúga. Getur Sigmundur sannfært mig um að hann sé ekki að giska eða ljúga? Kemur í ljós.