Helgi Hrafn og Bubbi áttu áhugaverðar umræður í Sunnudagsmorgni RÚV (http://www.ruv.is/sarpurinn/sunnudagsmorgunn/03112013-2) þar sem meðal annars var talað um að gerræði á internetinu væri eina leiðin til þess að koma í veg fyrir afritun á höfundavörðu efni, sú staðhæfing kölluð sjónarmið og svo var stuttlega fjallað um rukkunaraðferð Þjóðverja sem lausn við afritun.

Til þess að hafa það algerlega á hreinu, það er ekki sjónarmið að gerræði sé eini möguleikinn – það er staðreynd. Það er tæknilega ómögulegt að koma í veg fyrir afritun nema að hlusta á alla netumferð, og þá einungis ef ekkert er dulkóðað. Þetta þarfnast ekki frekari útskýringa.

Stuttlega varðandi aðferð Þjóðverja. Svo er sagt að ef einhver hali niður höfundavörðu efni þá komi rukkun inn um póstlúguna. Segjum sem svo að þetta sé raunhæfur möguleiki. Hvað ef viðkomandi á raunverulega útgáfu af efninu? Hvernig er þessi aðgerð öðruvísi en að afrita á DVR (sem ekki er send rukkun fyrir)? Hvernig er þetta öðruvísi en að fá lánaðan DVD hjá vini? Er rukkunin á við að kaupa efnið út í búð? Ef ekki, af hverju ekki … og þá við hvaða verð í hvaða búð er verið að miða við? Var allt efnið halað niður eða bara hluti þess? Var þetta kannski vinur viðkomandi sem fékk lánaða nettenginu? Var þetta kannski einhver á kaffihúsi?

Semsagt, Gísli Marteinn og hver annar sem heldur að þetta séu í raun einhverjar rökræður frá mismunandi sjónarmiðum – nei, það er ómögulegt að koma í veg fyrir afritun á netinu án gerræðis … og jafnvel ekki þá ef tekið er tillit til dulkóðunar og ýmissa tengingarmöguleika til þess að haldast nafnlaus. Þetta er ekki sjónarmið, þetta er staðreynd.