… er ekki mjög góð hugmynd.

Það væri kannski ágætt að útskýra af hverju. Ástæðurnar fyrir því að staðfesta breytingarnar eru nokkrar en ástæðurnar til þess að hafna þeim eru fleiri. Aðalástæðan fyrir breytingarákvæðinu er að gefa þingi tækifæri á að breyta stjórnarskránni án þess að það þurfi að rjúfa þing. Það út af fyrir sig er mjög góð ástæða en lausnin sem boðið er upp á (40% já) gerir það að verkum að þangað til það er 80% kosningaþátttaka þá er hver sá sem situr heima að segja ‘nei’. Það eitt og sér brýtur kosningaleynd því það eru yfirgnæfandi líkur á því að hver sem mætir á kjörstað sé þar til þess að segja ‘já’.

Þetta ‘vandamál’ er lagað með því að tilgreina að ef stjórnarskrárkosning fer fram meðfram öðrum kosningum, svo sem sveitastjórna- eða forsetakosningum, þá ‘felur’ sú kosning hvað sem fólk væri að kjósa um í stjórnarskrárkosningunni. Það er alveg rétt, en vandamálið er samt 40% ákvæðið. Ef kosningaþátttaka er á milli 40 – 80% þá er hlutfall þeirra sem þurfa að samþykkja frá 100 – 50% þeirra sem taka þátt. Semsagt, það fer eftir þátttöku hversu mikill stuðningur þarf að vera til þess að breytingarnar nái í gegn. Af því að við getum ekki vitað þátttöku fyrr en eftir að kosningu er lokið þá á ‘situr heima’ vandamálið enn við.

Næsta vandamál breytingarákvæðisins er að 2/3 þingmanna þurfa að samþykkja hvaða breytingar sem á að gera á stjórnarskrá. Miðað við núverandi ástand á þingi þá eru tveir flokkar nokkurn vegin með neitunarvald. Engin tillaga sem þeir eru ekki sammála fer í gegn. Miðað við ýmsar tillögur sem flugu manna á milli í lok síðasta kjörtímabils voru ekki beint vænlegar, hví ætti fólk því að trúa að 2/3 þings geti sammælst um góðar tillögur?

Þingmenn kvarta undan því að allar stjórnarskrárbreytingar eru afgreiddar í flýti í lok kjörtímabils og því þurfi að gefa færi á því að breyta stjórnarskrá án þess að rjúfa þing. Þessi tillaga hins vegar býður upp á tvær nýjar dagsetningar (deadline) sem þingmenn þurfa að huga að. Hvers vegna ætti þingið að geta lokið stjórnarskrárvinnu fyrir aðra tilbúna dagsetningu en þinglok?

Ef tillagan fer í gegn og á einhvern ótrúlegan hátt það tekst að breyta stjórnarskránni til hins betra þá er það ekki ákvæðinu að þakka heldur vinnunni sem fer í breytingarnar á stjórnarskránni. Þing getur hvernær sem er (með núverandi ákvæðum) ákveðið að breyta stjórnarskránni og halda þjóðaratkvæðagreiðslu, eða halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu og nota núverandi ákvæði eftirá til þess að breyta stjórnarskránni.

Það er ákveðið fordæmisgildi í því að setja lágmarks samþykkisþröskuld. Ég get ekki ímyndað mér meiri móðgun við lýðræðið ef tillögur eru samþykktar (jafnvel með miklum meirihluta) en þátttaka væri of lág til staðfestingar. Segjum sem svo að 39% samþykkja og 30% segja nei. 69% kosningaþátttaka er tiltölulega hærri en í nokkrum undanförnum svipuðum kosningum á undanförnum áratugum (http://data.is/16OTXAs).

Vandamálið er að slæm lausn (skítamix) knýr engann til þess að laga vinnuferlið. Þessi breyting býður bara upp á að sama ferlið, oftar. ‘Frábært’. Eina lausnin er í raun að gefa beinu lýðræði aðgang að forgangsröðun mála á alþingi. Ef allir fá að ráða því hvort og hvenær ýmis mál eru rædd, til dæmis væri hægt að biðja um ákveðna breytingu sem fær stuðning til framgangs. Síðan væri hægt að biðja um að það mál fái forgang. Segjum sem svo að þetta sé stjórnarskrárbreyting … þá er engin ‘í lok kjörtímabils’ redding ástæða.

Varðandi stjórnarskrárbreytingar almennt, af hverju ætti alþingi að fá að semja eigin vinnureglur yfirleitt? Var það ekki tilgangur stjórnlagaþingsins? Ég hefði ekkert á móti því að breytingarákvæði stjórnarskrárinnar sé endurskoðað, finnst það einmitt sérstaklega lélegt að kjósendur taki ekki afstöðu til breytinganna í kosningunum á milli þinga. Ferlið má alveg vera langt og það má alveg vera erfitt að breyta stjórnarskránni. Það má hins vegar ekki móðga lýðræðið á þennan hátt … að það sé möguleiki á því að þeir sem kjósa að taka ekki þátt hafi áhrif. Ákvörðun þeirra á að vera hlutleysi, traust til þeirra sem ákveða að taka þátt. Lýðræði er þátttaka í samfélaginu, ekki andstæðan.