Titillinn á greininni er með öllu óskiljanlegur. Það er allt í lagi því að ég ætla einmitt að fjalla um nokkur óskiljanleg mál.

Til að byrja með er með öllu óskiljanlegt af hverju eigendur gömlu bankanna (íslenska ríkið — og þar af leiðandi íslenska þjóðin) fær ekki að vita hverjir eru kröfuhafar þeirra. Ég tel mig eiga ágætan rétt á því að vita hverjum ég er að borga. Ég nefni þetta bara út af því sem ég las hérna: http://www.pressan.is/pressupennar/LesaOlafArnarson/thetta-eru-eigendur-bankanna—listi þar sem segir meðl annars:

… aðeins þeir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta aðgang að skjölum þrotabús …

Ástæðan fyrir því er að ég hef heyrt að hluti kröfuhafa gömlu bankanna séu í raun íslenskir aðilar. Mér var ekki sagt hverjir nákvæmlega en orðið ‘víkingar’ var notað til þess að lýsa þeim. Hvort þetta eru nákvæmlega sömu menn og átu bankakerfið innan frá og í gegnum núverandi ferli þá ætli þeir sér að éta bankana utan frá get ég ekki sagt með fullri vissu. Ég get bara leitt að því rök hvaða Íslendingar eiga mikinn pening erlendis til þess að geta keypt upp kröfur gömlu bankanna … og látið þar við sitja.

Þess vegna finnst mér mjög eðlileg spurning að spyrja, við hverja er ég að semja? Hverjir koma til með að fá pening frá mér? Af hverju? Mér finnst einmitt með öllu óskiljanlegt að það sé ekki hægt að svara þessum spurningum.