Í fréttum um stjórnarmyndunarviðræður undanfarið er að finna nokkrar áhugaverðar tilvitnanir.

 • Við ætlum að nota vikuna vel til þess að máta hugmyndir hvors annars að þeirri stöðu sem er uppi
 • Vel hafi gengið að flétta áherslur flokkanna saman
 • meta stöðuna hvor í sínum ranni
 • samstarf tveggja flokka sem að hafa ríflegan (þingmanna, ekki atkvæða – innskot mitt) meirihluta á þingi
 • útfæra nánar hugmyndir um í hverju stjórnarsáttmálinn felst efnislega
 • koma við ýmsa efnisþætti í því og setja niður á blað
 • ná saman um skuldamálin

Það er vert að benda á nokkur atriði. Varðandi meirihlutann þá voru 188.995 gild atkvæði greidd, B og D fengu 46.173 + 50.455 = 51,13% … í heildina voru hins vegar 193.822 atkvæði (gild og ógild) sem gerir 49,85% atkvæða til B og D. Það er meira bak við söguna um þennan ‘ríflega meirihluta’. Ef fjöldi þingmanna er skipt á öll atkvæði ( 100/63) þá fæst út að hver þingmaður þarf að hafa 1,587% atkvæða til þess að teljast kjörinn. Ef prósentunni sem B og D fengu samanlagt væri deilt með þessari tölu (51,13 / 1,1587) þá ættu þessir flokkar réttilega að hafa meirihluta í 32 þingmönnum. Minn skilningur á ‘ríflegum meirihluta’ er greinilega einhver annar en þeirra.

Jú, svona er kosningakerfið. 51,13% gildra atkvæða þýða víst 38 þingsæti (60,32% þingsæta) í þetta skiptið. Ég skal alveg viðurkenna að ég myndi kalla 60% ríflegan meirihluta.

Hinar tilvitnanirnar eru líka mjög áhugaverðar. Í kosningabaráttunni sem er nú nýlokið var mikið gert úr ýmsum loforðum hinna og þessara flokka. Þeir sem hafa gengið í gegnum það áður vita alveg að kosningaloforð verða sjaldnast að nákvæmri stefnu eftir kosningar. Stjórnarsáttmálinn sér til þess að flokkar geta samið sig út úr þeim loforðum sem þeir gerðu í kosningabaráttunni. Eftir stendur eitthvað plagg með einhverri bræðslu kosningaloforða sem kannski enginn kaus. Kannski ná heil loforð inn í skjalið, kannski ekki. Kannski nær einhver útfærsla af loforði inn í sáttmálann, kannski ekki. Ég veit allavega að í þau þrjú skipti sem ég hef kosið flokk sem endaði í stjórn þá varð lítið eftir af þeim loforðum sem ég kaus út af. Í fyrra skiptið varð ég frekar svekktur, í annað skiptið kom stjórnarmyndunin mér á óvart og í síðasta skiptið var mér sama því ég bjóst við því að grunnstefna flokksins myndi halda. Þess vegna varð ég Pírati, vegna þess að loforðin koma ekki frá flokknum, vegna þess að stjórnarmyndun er gamaldags þynning á lýðræðinu og vegna þess að kjósendur framfylgja grunnstefnunni.

Í dag horfi ég upp á söguna frá 1995 endurtaka sig (http://www.stjornarrad.is/Stefnuyfirlysing/nr/69) þar sem er meðal annars að finna gullmola eins og:

 • Stuðlað verður að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum.
 • Að endurskoða kosningalöggjöfina með það fyrir augum að hún verði einfaldari og tryggi jafnara vægi atkvæða milli kjördæma.
 • Að setja reglur er tryggi aðgang borgaranna að upplýsingum hjá stjórnvöldum
 • Að móta heildarstefnu í samvinnu við fulltrúa atvinnulífsins um upplýsingatækni og miðlun er miði að því að auka framleiðni og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Tengillinn á stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar frá 1999 er bilaður (http://www.stjornarrad.is/Rikisstjornartal/nr/30) og engar frekar stefnuyfirlýsingar finnast.

Semsagt; laga greiðsluerfiðleika, laga kosningalöggjöfina, aðgengi að upplýsingum og kenna íslenskum fyrirtækjum á internetið. Væri ekki frábært ef þeim hefði tekist þetta?

Vinsamlega ritið athugasemdir hér: https://www.facebook.com/BjornLeviGunnarsson/posts/193173547500354