Freedom-of-choice-a22077920Fyrir kosningar heyrast yfirleitt loforð hingað og þangað. Ég veit að þegar ég kaus í fyrsta sinn þá skoðaði ég loforðalistana mjög vandlega og flokkaði út loforð sem mér fannst ýmist fáránlega eða ómöguleg. Eftir þetta hókus pókus taldi ég mig vera kominn með nokkuð góða niðurstöðu og jafnframt ástæðu fyrir því að gefa einum ákveðnum flokki atkvæðið mitt (ég hef ekkert á móti því að tjá mig um það hvaða flokkur það er en ég er að reyna að vera málefnalegur hérna þannig að ég sleppi því). Ég hafði þó í huga að atkvæðið mitt væri í raun gefið með þeim takmörkunum að flokkurinn sem ég kaus færi ekki í samstarf með öðrum ákveðnum flokk, ég giskaði á að það samstarf yrði ekki til. Því miður hafði ég enga stjórn á því og þegar nákvæmlega þeir tveir flokkar hófu saman stjórnarsamstarf fannst mér ég vera svikinn, ekki bara út af þessari ‘varúðarráðstöfun’ heldur líka af því að ýmis ‘loforð’ sem ég kaus fuku hingað og þangað eða umbreyttust í eitthvað sem ég hafði engan áhuga á í gegnum stjórnarsáttmálann. Ég hefði viljað taka atkvæðið mitt til baka … ég var ósáttur við niðurstöðu þessarar ágiskunar.

Í næstu kosningum hafði ég lært lexíu mína og kaus eftir æðri hugsjón en bara loforðum. Ég bar saman yfirlýsta ‘stefnu’ saman við loforð og flokkaði upp á nýtt. Engin loforð lifðu það af og ég var farinn að kjósa þá sem ég sá að voru bara ekki að ljúga að mér. Ég kaus fólk sem ég treysti á að gæti verið rödd skynseminnar á alþingi. Aftur, slæm ágiskun … skynsemin var ekki alveg sú sama og ég hafði ímyndað mér.

Nú er það einfaldlega þannig að vald spillir (http://bit.ly/11taWDP – fullt af greinum um þetta). Alþingi er, samkvæmt stjórnarskrá, valdhafi “2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið“. Nú hefur það einfaldlega þau áhrif að ef þingmaður starfar í því umhverfi að hann fari með löggjafavald þá samkvæmt skilgreiningunni að beita valdi. Ef hins vegar þingmannstarfið væri löggjafaþjónusta, þá væri fólk á þingi í þjónustuhlutverki. Þetta breytir einfaldlega því hvernig maður hugsar. Annars vegar hef ég ‘vald’ og hins vegar er ég í ‘þjónustu. Það fer enginn að segja mér að, almennt séð, þá myndi sami einstaklingur sem gegnir valdastöðu annars vegar og þjónustuhlutverki hins vegar myndi leysa vandamál á nákvæmlega sama hátt í báðum störfunum.

Hvernig er þá hægt að kjósa án þess að óhjákvæmilega hafa rangt fyrir sér eða treysta bara í blindni? Með því að kjósa aftur og aftur. Ekki framselja atkvæðið þitt til fjögurra ára í senn. Haltu atkvæðinu þínu og taktu þátt í kosningum um mál sem þig varða. Ef þú hefur ekki áhuga á einhverjum málum þá getur þú einfaldlega kosið eins og einhver sem þú treystir í því máli. Ef það lítur út fyrir að niðurstöður traustins séu ekki alveg eins og þú gerðir ráð fyrir þá getur þú einfaldlega tekið atkvæðið til baka, kosið sjálf(ur) eða gefið atkvæðið til einhvers annars aftur.

Hættu að treysta takmörkuðum hópi fólks til fjögurra ára í senn til þess að taka allar ákvarðanir fyrir þig. Taktu þátt í stefnumótuninni, ákvarðanatökunni og lýðræðinu almennt. Hættu að giska, taktu upplýstar ákvarðanir um öll málefni, bara þau sem þú hefur áhuga á eða skilaðu auðu aftur og aftur af því að þú getur það. Valmöguleikinn er skýr í þetta skipti, ég læt ekki plata mig aftur takk.