Þekking er gríðarlega mikilvæg fyrir allt mannkyn. Á undanförnum áratugum og öldum hefur þekkingaröflunin aukist rosalega. Þessa aukningu má rekja að miklu leyti til prentvélarinnar og uppfærslum á þeirri tækni. Með tilkomu prentvélarinnar var afritun þekkingar ekki lengur bundin í handafli munka sem sátu við kertaljós og bjuggu til nýjar bækur, staf fyrir staf. Allt í einu varð til fjölföldun, sagan varð fjölfölduð, hugmyndir voru fjölfaldaðar, þekkingin margfaldaðist. Afrakstur þekkingarsamfélagsins voru vísindi og afrakstur vísinda var iðnaður, iðnvætt þekkingarsamfélag, iðnvætt menntakerfi.

Tilgangur iðnvædda menntakerfisins var að útvega staðsetningu fyrir aðgengi að þekkingu í formi bókasafna og lærðra manna ásamt auðvitað að kenna næstu kynslóðum á þekkingarsamfélagið. Menntun með þekkingu að markmiði. Þó að aukningin hafi verið mikil þá var dreifing þekkingar samt bundin takmörkum sem bókstafir í riti eða vitneskja í höfði. Flutningur þekkingar manna á milli var kostnaðarsamt, hægt og flókið ferli; og eftirspurnin var mikil.

Fyrir ekki svo löngu síðan rákust menn á að í flóknum verkefnum, þar sem svo mikil þekking var búin til, þá gat það gerst að flæði upplýsinga manna á milli einfaldlega hafði ekki við. Sem lausn við þessu vandamáli var veraldarvefurinn búinn til. Rafrænar bækur með lifandi tenglum leystu upplýsingaflæðisvandamálið og gerði frekari þróun mögulega. Síðan þá hefur orðið sprengja í aðgengi og nýsköpun þekkingar. Upplýsingaflæðið var allt í einu orðið einfalt og ódýrt.

Í dag er því öflun þekkingar mjög auðvelt fyrirbæri. Það er enn erfitt að búa til nýja þekkingu, en dreifingin er ekki lengur flókin. Hvað þýðir þetta fyrir skóla? Nú eru ekki lengur þörf á skólum til þess að dreifa þekkingu. Þeir eru ekki lengur sú miðstöð sem þeir voru áður, þar sem öll þekking er bundin í bækur og höfuð, þekkingin ‘slapp’. Að mínu mati er þetta ástæðan fyrir ýmsum erfiðleikum sem eru í menntakerfinu – skólinn hefur ekki sama tilgang og áður. Hinn nýji tilgangur skóla á að vera kunnátta.

Hvernig er kunnátta öðruvísi en þekking? Jú, það er ekkert mál að lesa eða finna myndband um það hvernig á að búa til blöðrusverð. Það er allt annað að búa það til í alvörunni. Kannski er þetta ekki besta dæmið, annað gott dæmi gæti verið tímareimadæmið sem bifvélavirki góður sagði mér frá  um daginn. Í skólanum hjá honum var verið að fara yfir hvernig á að skipta um tímareim í bíl. Verkefnið var eftirfarandi:

  1. Finna upplýsingar um hvernig á að skipta um tímareim á vefnum.
  2. Þýða upplýsingarnar yfir á íslensku.

Það var allt og sumt, ágætis enskuverkefni kannski en kenndi bifvélavirkjanum nákvæmlega ekkert um það hvernig hendurnar á honum kæmu til með að skipta  um tímareim í alvörunni. Þekkingin var góð, kunnáttan engin. Annað dæmi má sjá hér (http://www.flickmylife.com/archives/30440)

starfsumsokn

http://www.flickmylife.com/archives/30440

Píratar sjá fyrir sér miklar breytingar á menntakerfinu. Fyrst og fremst samt í samvinnu við kennara, nemendur og samfélagið í heild sinni. Það hjálpar engum að breyta ‘af því bara’ og þó að einhver aðalnámsskrá sé hönnuð þá þýðir það ekki að kennarar geti sjálfkrafa tekið upp nýjar aðferðir eða nemendur sem eru þegar búnir að vera í gamla kerfinu í langan tíma geti svo auðveldlega aðlagast.

Píratar vilja menntakerfi sem er samstíga samfélaginu og atvinnulífinu. Menntakerfi þar sem nemendur læra á samfélagið með því að taka þátt. Lýðræðislegt menntakerfi með mun meiri áherslu á verk- og listgreinar. Menntakerfi þar sem ekki er bara verið að miðla þekkingu heldur kunnáttu og hæfileikum til þess að geta tekið virkan þátt í samfélaginu. Opið umhverfi og opinn hugbúnaður þar sem nám fer ekki bara fram innan skólaveggjanna, enginn heimalærdómur vegna þess að fólk þarf líka tíma til þess að sinna tómstundum og fjölskyldu. Píratar lærðu ekki að hakka í skólanum, Píratar vilja læra, Píratar vilja kunna, Píratar vilja bæta sig, Píratar vilja bæta samfélagið.