Prófkjörspistill nr. 3 – Samgöngumálin

Árið 1931 stofnuðu bræðurnir Ólafur og Pétur Þorgrímssynir hlutafélagið Strætisvagna Reykjavíkur. Tilkoma vagnanna breytti högum fólks í úthverfunum verulega til batnaðar, þó að kostnaðurinn við fargjöldin hafi reynst þeim verst settu ofviða. Það endaði með því að fargjöld skólabarna voru lækkuð, enda engin sanngirni í öðru. Í kjölfarið fylgdi svo krafa kennara um að fá ókeypis í vagnana, því þeir voru orðnir þreyttir á að ganga eða hjóla daglega alla þessa leið. Þess má geta að „úthverfin“ voru í þá daga hverfi á borð við Sogamýri og Laugarnes.

Árið 1944 tók Reykjavíkurkaupstaður síðan við rekstrinum og um tveimur áratugum síðar var tekin sú örlagaríka ákvörðun að miða skipulag bæjarins við þarfir einkabílsins. Það má segja að síðan þá hafi mun meiri áhersla verið lögð á að breikka vegi, byggja brýr og malbika bílastæði en að byggja upp einhvers konar samgöngukerfi í þágu almennings. Afleiðing þeirrar stefnu í borgum almennt er sú að þær þenjast út, sem er einmitt það sem hefur gerst í Reykjavík og nú er verið að berjast við að þétta þar byggðina á ný. Forsendan fyrir þéttingu byggðar hlýtur að vera minni notkun einkabíla og meiri notkun annarra samgöngumáta.

Töluverð framför hefur orðið hvað varðar aðbúnað hjólreiðafólks í borginni undanfarin ár, sem er virðingarvert því hjólreiðar verða sífellt vinsælli ferðamáti. Viðhorfið til hjólreiðamanna hefur vissulega breyst hjá borgaryfirvöldum og nú er meiri áhersla en áður lögð á að leggja hjólreiðastíga sem miðast við að hjólreiðar séu samgöngumáti, á sama hátt og einkabíllinn, en ekki aðeins tómstundaiðkun, eins og viðhorfið var fyrir nokkrum árum. En betur má ef duga skal og nú væri til dæmis gott að fá hjólreiðastíga meðfram stórum umferðargötum eins og Miklubrautinni, svo menn þurfi ekki að leggja sig í lífshættu á leið til og frá vinnu.

En ekki geta allir hugsað sér að hjóla allra sinna ferða allt árið og margir geta það einfaldlega ekki af líkamlegum ástæðum eða treysta sér ekki til að hjóla í snjó og hálku. Því þarf að hlúa vel að almenningssamgöngukerfinu sem þarf að þjóna öllu höfuðborgarsvæðinu, sama hvort notendur þess búa í miðbænum eða útjaðri ysta úthverfisins. Nú eru að verða miklar breytingar á leiðarkerfinu, ekki síst vegna þess að búið er að kaupa BSÍ og ekkert að vanbúnaði að flytja þangað aðalskiptistöð bæjarins. Það verður vissulega mikil bót að því að hafa eina alhliða samgöngumiðstöð nálægt miðbænum, þar sem ekki verða eingöngu strætisvagnar heldur líka leigubílar og bíla- og hjólaleigur og endastöð fyrir samgöngur við Leifsstöð og aðra hluta landsins verður þar áfram.

Það sem ég hef örlitlar áhyggjur af er leiðakerfið sjálft. Mun það þjóna öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins eða verða áfram gloppur í netinu þar sem sumir þurfa að ganga langar leiðir til að komast í hentugan vagn? Verða sumar leiðirnar innan hverfa áfram svo langar að það er fljótlegra að ganga? Verður tíðni allra leiða aukin? Verða fargjöldin lækkuð, a.m.k. fyrir skólabörn og aðra sem hafa ekki mikið á milli handanna? Fyrir nokkrum árum fengu námsmenn frítt í strætó, síðan kostaði lítið að kaupa fyrir heila önn eða heilan vetur, en nú er svo komið að eina tilboðið fyrir námsmenn er tólf mánaða kort fyrir 42.500 krónur. Það er ekki á allra færi að punga út með slíka fjárhæð á einu bretti, sérstaklega ekki þegar fólk er nýbúið að borga 75.000 krónur í innritunargjöld.

Það er alveg ljóst að það er ódýrara að nota strætó en að eiga bíl en farþegarnir þurfa samt alltaf að hafa á tilfinningunni að strætó sé þægilegasti og ódýrasti kosturinn. Þegar stakt fargjald er dýrara en bensínkostnaðurinn á sömu leið finna menn ekki fyrir þeirri tilfinningu.

Það verða kosingar í vor, eins og allir vita, og von á nýjum meirihluta. Það verður að fylgja strætómálinu eftir svo að það verði örugglega leitt til lykta en dagi ekki uppi vegna áhugaleysis yfirvalda. Svo verðum við að fá að vita bráðlega hvenær von er á að breytingarnar verði innleiddar. Ég er að minnsta kosti orðin langeyg eftir bættum almenningssamgöngum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *