Prófkjörspistill nr. 2 – Velferðarmálin

„Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.“

Svo hljóðar 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Sá sem ekki getur uppfyllt þessa skyldu þarf augljóslega aðstoð við það og sá aðili sem best er til þess fallinn er hið opinbera. Enda segir í 1. gr. sömu reglna: „Skylt er að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar…“ Því miður uppfyllir hið opinbera ekki alltaf þá skyldu, sem sést best á nauðsyn þess að ýmis góðgerðarsamtök séu starfandi, eins og Rauði krossinn, Hjálparstofnun kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Þessi samtök, og fleiri, starfa við að gefa mat, föt og þess háttar þeim sem á því þurfa að halda hér á landi. Og full þörf er á þeirri þjónustu, þrátt fyrir að við séum í hópi ríkustu þjóða heims.

En hvað kemur í veg fyrir að Reykjavíkurborg sjái um þegna sína eins og henni er skylt samkvæmt lögum? Erfitt er að fullyrða nokkuð um það án þess að skoða öll lög og reglur nákvæmlega og sjálfsagt er hvert mál sérstakt og ólíkar ástæður að baki. En svo virðist sem skilyrðin sem sett eru fyrir fjárhagsaðstoð séu oft á tíðum íþyngjandi fyrir borgarana og stundum er eina leiðin að fá framfærslulán í banka. Það getur því verið ansi flókið að krefjast réttar síns.

Tökum dæmi. Námsmaður í lánshæfu námi veikist alvarlega á miðri haustönn. Vegna veikindanna tekst honum ekki að ljúka tilskildum einingafjölda á önninni og fær því ekki námslánið sem hann treysti á, sér til framfærslu. Hann nær sér þó fyrir jólin og ákveður að halda áfram námi. En þá eru góð ráð dýr. Þar sem hann fékk ekki námslán fyrir haustönnina er hann í skuld við bankann sinn, sem hann getur augljóslega ekki borgað. Og þar sem hann ákveður að halda áfram lánshæfu námi fær hann ekki framfærslustyrk frá sveitarfélaginu. Hann á heldur ekki rétt á vaxtalausu láni sem sveitarfélagið býður upp á vegna óteljandi skilyrða, m.a. þess að „umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur“ (24. gr.). Hann verður með öðrum orðum að hafa fengið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu í a.m.k. sex mánuði á undan til að eiga rétt á láni. Eina leiðin fyrir hann til að halda áfram námi er að fá meira lán á okurvöxtum frá bankanum (12,1-12,8% hjá Landsbankanum). Nú ef hann ákveður að hann hafi ekki efni á áframhaldandi námi getur vel verið að hann fái einhverja aðstoð. Nema auðvitað ef hann á tvær íbúðir eða tvo bíla því hann má bara eiga eitt af hvoru. Eins og alþjóð veit getur það tekið marga mánuði að selja íbúð og á hverju á hann að lifa á meðan?

Þetta er bara eitt dæmi um hve flókið það getur verið að fá fjárhagsaðstoð, þrátt fyrir að sveitarfélaginu sé skylt að veita hana þeim sem þurfa á henni að halda. Það virðist vera spurning um að borgarinn þurfi alltaf að sanna, svo ekki verði um villst, að hann þurfi sannarlega á henni að halda. Og það er ekki nóg að sanna að maður geti ekki séð sér farborða, heldur er viðtekin venja í velferðarkerfinu almennt að skoða fjárhagsstöðu fólks í fortíðinni líka, allt upp í tvö ár aftur í tímann. Sem segir auðvitað ekki endilega neitt um fjárhagsstöðu fólks í nútíðinni.

Undanfarið hefur verið nokkur umræða um svindl á kerfinu. Er einhver hissa á því að fólk skuli láta sér detta það í hug þegar svo erfitt er að uppfylla öll skilyrði? Ég er ekki að mæla því bót, mér finnst bara eðlilegt að fólk skuli reyna að bjarga sér þegar það á erfitt með að láta enda ná saman án aðstoðar frá hinu opinbera.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *