Prófkjörspistill nr. 1 – Menntamálin

Á þessari stundu eru kennarar að berjast fyrir því að fá mannsæmandi laun fyrir starf sitt. Samt eru það þeir sem bera hvað mesta ábyrgð í samfélaginu, ekki bankastjórar eða forstjórar einhverra stórfyrirtækja. Það er jú mikið ábyrgðarhlutverk að mennta æskuna, ég held að við getum öll verið sammála um það, og að margra mati mun mikilvægara en að passa peninga. Auk þess er kennarastarfið flókið og álagið mikið, hvað sem öllum sögusögnum um langt sumarfrí líður. Fyrsta skrefið í átt að því að lagfæra menntakerfið, sem er fyrir löngu orðið úrelt, er að leiðrétta laun kennara, þannig að þeir fái sömu laun og aðrir háskólamenntaðir starfsmenn hins opinbera, og minnka álagið. Það er ekki nema sanngjarnt.

Þegar það er í höfn getum við farið að lagfæra kerfið sjálft. Skoðum aðeins hvað er að menntakerfinu okkar. Það er reyndar einfalt: Það er gamaldags og úrelt að setja börnin niður við borð fyrir framan kennarann og segja þeim að sitja kyrr og hlusta, gera síðan verkefni sem fæstum þeirra þykir áhugavert og sitja kyrr og þegja að mestu á meðan. Kerfið sem flestir skólar fylgja enn þann dag í dag er byggt á aldagömlu fyrirkomulagi, sem hefur sjálfsagt virkað ágætlega þegar kennarinn var sá eini sem bjó yfir upplýsingum. Nú til dags verðum að sætta okkur við að við búum í gjörbreyttu samfélagi þar sem upplýsingar eru aðgengilegri en nokkru sinni fyrr. Börnin notfæra sér það heima, af hverju notfærir skólinn sér það ekki? Af því að tölvur eru dýrar, kann einhver að segja. Því er ekki að neita að það er dýrt að endurnýja tölvukostinn reglulega. En stundum þarf maður að setja upp framtíðargleraugun og hugsa lengra en næsta kjörtímabil. Má ekki líta á góðan tölvukost í skólum sem viturlega fjárfestingu til framtíðar? Svo ég vitni í blogg kennarans Ingva Hrannars Ómarssonar: „Það að flytja heilan bekk í skólastofu með úreltum tölvunum, sem taka oft 15 mínútur að ræsa sig, einu sinni í viku til þess að vinna verkefni í ritvinnslu og flytja svo börnin í röð aftur inn í skólastofu 40 mínútum seinna er úrelt. Upplýsingatækni á ekki að vera sér námsgrein heldur eiga tölvur og tækni að vera eðlilegur hluti af námi og kennslu rétt eins og blýanturinn.“ Sjá hér.

Þegar ég var barn naut ég þeirra forréttinda að fá að prófa ýmsa skóla. Í sex ára bekk, sem þá var forskóli, var ég í Æfingadeild Kennaraháskólans. Þá voru fimm, sex og sjö ára börn saman í tveimur skólastofum og ég man ekki eftir að hafa nokkurn tímann þurft að sitja kyrr og góna á kennarann eða að hann læsi yfir okkur. Þetta var dásamlegur tími. Strax í fyrsta bekk flutti ég í annað sveitarfélag og skipti um skóla. Það var afskaplega hefðbundinn skóli. Ég man sérstaklega eftir því hvað mér leiddist. Ég var fluglæs og látin læra stafina aftur. Þarna var ég í tvö ár en þá fluttum við aftur til Reykjavíkur og ég fór í Vesturbæjarskóla. Á þeim tíma var hann mjög óhefðbundinn og auk þessara venjulegu greina lærðum við sjálfstæði og ábyrgð á eigin námi. Mér skilst að þessi skóli sé orðinn hefðbundinn aftur, og sama má segja um fyrrum Æfingaskólann.

Hvers vegna skyldu allar þessar frábæru tilraunir í skólastarfi hafa liðið undir lok og skólarnir runnið aftur í sama, gamla farveginn? Þrátt fyrir að upplýsingatæknin sé mikilvægur þáttur af lífi okkar í nútímanum er ljóst að hún er ekki forsenda fyrir óhefðbundu skólastarfi. Vissulega væri fullkomið að nýta tölvur og tækni við alla kennslu en það þarf auðvitað meira til. Það að láta börn sitja lengi kyrr á sama stað er óeðlilegt. Það að segja börnum að þegja og hlusta og einbeita sér eftir kröfum hinna fullorðnu er óeðlilegt. Hver er undirrót tregðunnar til að stokka upp kerfið og laga það að þörfum nemenda, í stað þess að laga ætíð nemendur að þörfum kerfisins?

Byrjum á því að gefa kennurum mannsæmandi laun og minnka álagið á þá. Þá fyrst geta þeir kannski farið að huga að því að breyta kennsluháttum. Skólastjórnendur þurfa síðan að hlusta á hugmyndir kennaranna og móta stefnu í kennsluháttum fyrir sinn skóla. Stefnan þarf ekki að vera sú sama í öllum skólum, því börn hafa ólíkar þarfir og ættu að geta valið sér skóla ef hverfisskólinn hentar þeim ekki. Þannig tryggjum við upplýsinga- og tjáningarfrelsi barnanna og réttinn til gagnrýnnar hugsunar og vel upplýstra ákvarðana, því þau hafa rétt á því líka.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *