Femínismi vs. jafnrétti

Ég er femínisti. Það þýðir samt ekki að ég hati karlmenn. Það þýðir heldur ekki að ég hugsi ekki um jafnrétti á víðari grundvelli.

Orðið “femínismi” vísar til kvenkyns vegna þess að það er kynið sem á hallar. Áður fyrr var talað um “kvenréttindi”. Vissulega eru til svið þar sem hallar á karlmenn og það er ranglæti sem nauðsynlegt er að berjast gegn. En það vísar ekki til þess að konur vilji meiri réttindi en karlar, eins og sumir virðast halda fram. Femínisti er manneskja, karl eða kona, sem gerir sér grein fyrir því að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill að eitthvað sé gert í því. Svo einfalt er það.

Dálítið hefur borið á því að femínistar séu gagnrýndir fyrir að berjast sérstaklega fyrir jafnrétti kynjanna í stað þess að berjast fyrir jafnrétti allra. Það er óréttmæt gagnrýni af eftirtöldum ástæðum:

1. Það að berjast fyrir rétti ákveðins hóps samfélagsins útilokar ekki áhuga á rétti annars hóps samfélagsins. Sá eða sú sem berst fyrir réttindum fatlaðra er ekki sjálfkrafa á móti samkynhneigðum eða baráttu þeirra, svo dæmi sé tekið.

2. Að ná fram jafnrétti kynjanna er mjög mikilvægur þáttur í almennri jafnréttisbaráttu vegna þess að allir sem tilheyra minnihlutahópi eru af einhverju kyni. Um það bil helmingur mannkyns er kvenkyns og á meðal þeirra eru fatlaðar, samkynhneigðar og geðveikar konur af öllum kynþáttum, stéttum og trúarbrögðum. Þær hafa líka þörf fyrir femínisma.

Fjölmargar vísbendingar eru um að jafnrétti kynjanna sé ekki náð á Íslandi: Kynbundið ofbeldi er enn til. Óútskýrður launamunur kynjanna er enn til. Konur eru enn í miklum minnihluta í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Ný ríkisstjórn skipaði mun færri konur en karla í nefndir og setti nánast eingöngu karla í fjárlaganefnd en konur í velferðarnefnd. Þetta síðasta styrkir staðalmyndir kynjanna, sem alls ekki allir finna sig í og eiga þá jafnvel erfitt með að fóta sig í lífinu.

Það er nefnilega meiri munur milli einstaklinga en kynjanna. Ég persónulega hef til dæmis ekki umönnunargenið sem konum er eignað. Ekki hef ég tilfinningu fyrir skreytingum og léti ekki sjá mig grátandi á almannafæri þótt mér væri borgað fyrir það. Ég þekki líka marga karlmenn sem eru opnari um tilfinningar sínar en ég. Er ég þá ekki alvöru kona?

Kynjahlutverk eru úrelt. Kyn á ekki að skipta máli. En á meðan það gerir það verðum við að berjast fyrir jafnrétti kynja allra hópa samfélagsins.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *