Brotinn pottur

Barn er tekið af móður sinni nokkrum klukkustundum eftir fæðingu. Móðirin hafði áður verið svipt barni en eftir það sneri hún við blaðinu og kom lífi sínu í lag. Þrátt fyrir það er engin vægð sýnd. Ekkert annað tækifæri gefið.

Fimm lögreglumenn koma að heimili að ná í sjö ára barn til að koma því í hendur forsjárlauss föður. Telpan vill ekki fara. Lögreglan vill ekki taka hana. Þrátt fyrir það er engin vægð sýnd. Eftir heimsóknina til föður síns þarf telpan á læknishjálp að halda.

Tveir lögreglumenn koma að heimili þriggja barna til að fara með þau til föður síns. Þau vilja ekki fara. Sýslumaður metur stöðuna þannig að tvö elstu börnin þurfi ekki að fara vegna þess að þau séu nógu gömul til að segja skoðun sína en yngsta barnið þarf að fara. Það gengur erfiðlega að koma barninu út úr húsi og þrír lögreglumenn í viðbót eru kallaðir út. Engin vægð.

Móðir flýr til Íslands með börn sín til að bjarga þeim frá ofbeldisfullum föður. Þeim er dæmd sameiginleg forsjá með börnunum. Það eru til skýrslur lækna og sálfræðinga og vitnisburðir kennara og fleiri sem styðja það að faðirinn beiti þau ofbeldi. Þrátt fyrir það er engin vægð sýnd, börnin skulu búa hjá föður sínum erlendis. Lögreglan er send á staðinn.

Foreldrar reyna að bjarga fimmtán ára dóttur sinni frá dópneyslu. Barnaverndarnefnd tjáir þeim að hún sé ekki nógu langt leidd til að hægt sé að gera eitthvað fyrir hana. Stúlkan fer úr áfengisneyslu í kannabisneyslu í harða dópneyslu. Engin langtímaúrræði eru í boði. Barnaverndarnefnd aðhefst ekkert þrátt fyrir að foreldrarnir hafi margoft sinnt tilkynningarskyldu sinni.

Á ég að halda áfram?

Þetta eru bara nokkrar dæmisögur um það hvernig kerfið virkar ekki þegar kemur að verndun barna. Ég er viss um að í langflestum tilvikum virkar kerfið ágætlega, en þetta eru samt of mörg dæmi um hið gagnstæða. En það eru ekki bara barnaverndaryfirvöld sem hafa brugðist í fjölmörgum málum, réttarkerfið hefur líka brugðist. Samkvæmt rannsókn um áhrif heimilisofbeldis á ákvarðanir í umgengnis- og forsjármálum sem gerð var árið 2009, hefur heimilisofbeldi mjög takmörkuð áhrif á mat á forsjárhæfni foreldris og, svo ég vitni beint í útdrátt rannsóknarinnar: „virðist mikið þurfa að koma til svo að umgengnisréttur sé skertur á grundvelli slíks ofbeldis, jafnvel þótt sýnt sé fram á að samneyti við foreldri geti beinlínis verið barninu skaðlegt” (http://skemman.is/handle/1946/2474).

Þetta er náttúrlega ekki í lagi. Barnalögin segja: „Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.“ (2. mgr. 28. gr.). Foreldrunum í dæmunum hér að ofan var, vægast sagt, gert erfitt fyrir að sinna þessari skyldu. Og þeir sem sinntu tilkynningarskyldu sinni fengu enga hjálp. Til hvers eru lögin ef ekki er farið eftir þeim?

Á sama tíma er brotið á rétti sumra forsjárlausra feðra. Ég veit um dæmi þess að móðir gat ekki sinnt uppeldi barns síns tímabundið og var því þá komið fyrir hjá móðursystur sinni en ekki einu sinni talað við föðurinn. Og hvar er réttlætið í því að þegar foreldrar fara með sameiginlega forsjá fær einungis annað þeirra barnabætur en hitt þarf að borga meðlag, þrátt fyrir að barnið búi jafnt á báðum stöðum?

Einhvers staðar er pottur brotinn í kerfinu. Það þarf að stokka upp bæði í lögunum og framkvæmd þeirra. Hvar er eftirlitið með barnaverndarnefndum og Barnaverndarstofu? Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsaðilunum?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *