Skýrum lögum framfylgt heiðarlega

Hvers vegna er velmegun meiri í sumum löndum en öðrum? Velmegun er mest öflugum réttarríkjum þar sem stærstur hluti eigna er í einkaeigu. Flest velmegunarríki, t.d. Svíþjóð, leyfa sér háa tekjuskatta og há opinber útgjöld. Hvernig vegnar mismunandi löndum?

Nýja-Sjáland er dæmi um friðsælt land með sterkan eignarrétt. Þar er mikil velmegun. Ástralía er með jafn sterkan eignarrétt (þó gjaldþrot smáfyrirtækja komi þeim óþægilega oft undan skuldbindingum), en hlutfallslega lægri ríkisútgjöld. Þar er enn meiri velmegun, og auðvelt fyrir ólærða Nýsjálendinga að finna vinnu.

Mongólia er dæmi um land með litla virðingu fyrir eignarrétti að frátöldum lágum sköttum, há opinber útgjöld, himinháar ríkisskuldir, slappa og spillta dómstóla og flókin og ófyrirsjáanleg lög. Velmegun þar er sáralítil.

Ghana og Suður-Afríka eru með næstum ásættanlega dómstóla og lög, en arfaslaka og rammspillta opinbera starfsmenn. Í Ghana þarf oft að múta opinberum starfsmönnum með þjórféi til að fá ýmis leyfi. Í Suður-Afríku er gróft ofbeldi daglegt brauð. Rúmt prósent Suður-Afrískra lögreglumanna eru með dóm á bakinu. Fréttir af ránum, nauðgunum og morðum bæði lögreglumanna og almennra borgara eru tíðar. Suður-Afríka er auðug en ofbeldisfull. Í Ghana er eignarhald á landi iðulega óljóst (svipað og í Vatnsenda). Ghana er fátæk, en með morðtíðni í meðallagi eða þriðjungi lægri en Rússland. Botswana er auðug en með þrefalda morðtíðni Ghana eða á við Mexíkó. Suður-Afríka er auðug, en með fimmfalda morðtíðni Ghana eða hundraðfalda morðtíðni Íslands.

Hong Kong, Singapúr og Botswana eru dæmi um lönd með fyrirsjáanlegan eignarrétt, öfluga dómstóla og skýr og sáraeinföld lög. Velmegun í Botswana er yfir meðallagi. Velmegun í asísku borgríkjunum er stórkostleg.

Heiðarleiki og friðsemi eru markmið í sjálfu sér. Ásamt skýrum lögum og stöðugum eignarrétti leiðir heiðarleiki að auki til velsældar. Ríkjum er meira að segja óhætt að taka allt að þriðjung tekna í skatt, svo lengi sem lög, löggæsla og dómar eru nægilega fyrirsjáanlegir til að áætlanir geti tekið mið af slíkum kvöðum.


Index of Economic Freedom Heritage metur heiðarleika, fyrirsjáanleika, hömlur (t.d. tolla og flækjustig regluverks) flestra ríkja.

Morðtíðni þjóða fengin frá Fíkniefna- og glæpastofa Sameinuðu Þjóðanna í gegnum Wikipediu.

Þjóðartekjur á mann samkvæmt Alþjóðabankanum World Bank