Félagar

Stærstu félög í heimi eru þjóðfélög og fyrirtæki. Ásamt fjölskylduböndum og vinskap, þá eru sameiginlegur þegnskapur og viðskiptasambönd algengustu tengsl manna.

Ríkið ætti að víkja fyrir fjölskyldum, vinum og viðskiptum. Fjölskyldu, vini og viðskipti viljum við og samþykkjum. Ríkið gengur hinsvegar á okkur samþykkislaust. Nú sýna t.d. skoðanakannanir að ríkisstjórnin er óvinsæl, Alþingi nýtur lítils trausts og álit almennings á stjórnmálamönnum er almennt lítið. Hvað gerist? Kollvarpast ríkisvaldið? Nei. Ríkið heldur áfram, þrátt fyrir óvinsældir, að fara sínu fram.

Þessu er ólíkt farið með vinskap. Vinátta er gagnkvæm. Oftast bæði skemmtileg og gagnleg. En ef svo leiðinlega vildi til að vinur yrði yfirgangssamur, ókurteis og frekur, þá má alltaf slíta vináttunni. Við höldum áfram að vera vinir vegna þess að við viljum öll vera vinir.

Viðskipti eru oftast meira gagnleg og minna skemmtileg. En þau eru val. Við verslum mest við þá sem koma vel fram og veita okkur þjónustu. Ef almenningur snérist gegn Bónus í dag þá eru allar verslanir þess farnar á hausinn innan viku. Þetta aðhald er gott. Allir njóta þessa aðhalds—nema ríkið.

Fjölskyldubönd eru yfirleitt sterkari en flest önnur. Börn fæðast í fjölskyldu áður en þau kynnast nokkrum vinum. Við umgöngumst fjölskyldu á hverjum degi. Við treystum á fjölskylduna þegar erfiðleikar steðja að, jafnvel þegar allir aðrir snúa við okkur baki. Oft kunna vinir okkar betur að hjálpa okkur, en þá er fjölskyldan samt til þrautavara. En þó dramatískt sé, þá er hægt að slíta fjölskyldum. Fjölsyldum er ætlað að endast sem lengst. En ávallt verður að leyfa meðlimum að flýja óásættanlegt framferði, þá sjaldan sem fjölskyldan skemmir meðlimi sína í stað þess að vera þeim ómetanleg. Til dæmis unglingi að strjúka undan glæpsamlegum foreldrum sem bera enga virðingu fyrir börnum sínum. Fjölskyldur byggja nefnilega og þrífast ekki bara á venju og praktík, heldur mest á virðingu og kærleik.

Þessi frábæru, siðvæddu tengsl—fjölskyldubönd, vinskap og viðskipti—notum við daglega til að útvega okkur ekki bara húsaskjól, atvinnu og mat, heldur einnig félagsskap og tilgang. Umhyggju og ást. Við hlið þeirra er sorglegt að fjórðu tengslin, þegnskapur, eru þvinguð, ógagnkvæm og yfirvaldið beinlínis óvinsælt. Ríkisstjórnin á nóg af vinum. En hvers vegna eru hinir, sem ekki eru vinir hennar, látnir þjóna henni til jafns? Væri ekki öllum til framdráttar að tengjast frekar af gagnkvæmri vináttu sem jafningjar, ættingjar, kunningjar eða vinir?


Geir Agustsson skrifaði helming þessa pistils.