Monthly Archives: October 2014

Að hitta fólk sem er öðruvísi

Samræðupólitík gengur út á að stefna saman ósammála stjórnmálamönnum og skiptast á skoðunum. Sammælast um það sem má sammælast um, og reyna að sannfæra eða látast sannfærast um skiptar skoðanir.

Til þess þarf að skrifast á við, eða hitta aðra stjórnmálamenn. Þegar ég rekst á ógeðslegan áróðursvef bandarísks rasista fyrir íslenskri þjóðernishreinsun, þá er mitt fyrsta verk að útlista fyrir viðkomandi nokkrar ástæður gegn þjóðernishreinsun. Þannig á ég möguleika á að sannfæra hann um að virða frelsi annarra. Einungis þannig vinnum við gegn hættulegum skoðunum. Rasistar sem aldrei hitta neinn þeim ósammála heyra aldrei röksemdir gegn skoðunum sínum. Þeir heyra þá ekkert nema eigin hugsanir. Hverskonar framför er það?

Tjáningarfrelsi snýst einmitt um að ræða hvað er bannað, og hvers vegna. Slík umræða er marklaus nema allar hliðar geti komið fram. Það eru einmitt rasistar sem hafa þær skoðanir sem er mikilvægast að breyta. Einmitt þess vegna verðum við að ræða rasisma, meðal annarra við rasista.

Leyfum rasistum að tala við venjulegt fólk. Leyfum venjulegu fólki að tala við rasista. Leyfum fólki að spyrja spurninga, leita svara og móta sér víðsýnni og upplýstari skoðanir.

Leyfum fólki að hittast.