Monthly Archives: May 2014

Steinsteypa

Stjórnmálamenn hafa litla tilfinningu fyrir öllum þeim vandamálum sem íbúar standa frammi fyrir. Stjórnmálamenn heyra ekkert nema allra háværustu köllin, og svo það sem stendur þeim næst. Þess vegna er mjög freistandi að bregðast við hæstu hrópum og laga það sem, í fljótu bragði, virðist vera stærsta vandamálið á hverjum tíma. Hættan er hinsvegar sú að með því komi þeir í veg fyrir lausnir við hundrað öðrum vandamálum, smærri vandamálum, sem saman skipta þó gjarnan enn meira máli en það eina sem stjórnmálamenn reyna að laga.

Það er mjög auðvelt fyrir stjórnmálemenn að heimta meiri steinsteypu, fleiri byggingar, fleiri blokkir á fleiri stöðum. En hvað með þá sem sætta sig við að búa saman? Er ekki ráð að nýta krafta þeirra í eitthvað sem nýtist þeim betur? Til dæmis í að endurnýja heimilistæki, kaupa bækur, senda börnin í laugardagsskóla, styrkja menningu og listir, greiða niður lán eða hækka ellilífeyrinn? Er það ekki einmitt sá, sem á bilaða þvottavél, sem veit best hvað hann vantar að kaupa? Eða sá sem vantar meiri kennslu meðfram skólanum?

Enginn háttsettur stjórnmálamaður þekkir allar sorgir og sigra, né allra vonir og þrár.  Þess vegna skal valdið fært til almúgans, þess sem betur þekkir til. Við getum ekki steypt öllum í sama mót, við viljum ekki öllum nákvæmlega hið sama. Sumir vilja eitt, aðrir vilja annað. Það er hið besta mál, vegna þess að það þurfa ekki allir að velja nákvæmlega eins. Hver og einn getur valið sér sjálfur.

  1. Tryggja þarf að allir hafi aðgang að íbúðarhúsnæði í takt við fjárhagsgetu, heilsufar og fjölskyldustærð. Gera þarf sértækar ráðstafanir fyrir einstaklinga með sérþarfir.

Mig vantar námsbækur og klæði. Annan vantar ódýrari íbúð, skilvirkari atvinnu og meiri elliífeyrissparnað. Þann þriðja vantar sérkennslu og góða kvikmynd. Þann fjórða vantar meiri tíma með börnunum. Hvað vantar þig?

ÁLYKTUN FÉLAGSFUNDAR PÍRATA Í KÓPAVOGI 18. MAÍ 2014

Píratar í Kópavogi byggja öll stefnumál sín á tveimur grunnstoðum, gegnsæi og sjálfsákvörðunarrétti.

Gegnsæi þýðir að Kópavogsbær miðli ítarlegum upplýsingum um allan rekstur bæjarfélagsins til bæjarbúa, að virtum lögbundnum persónuverndarsjónarmiðum. Fjárhagsupplýsingar skulu bæði vera birtar sundurliðaðar og einnig samandregnar á einstakar rekstrareiningar bæjarins. Þær skýrslur, minnisblöð og önnur gögn sem liggja fyrir við ákvörðunartöku í nefndum bæjarins, bæjarráði og bæjarstjórn skulu einnig birtar gangi birting þeirra ekki gegn hagsmunum bæjarins.

Með auknu gegnsæi eykst aðhald bæjarbúa og fjölmiðla að rekstri bæjarins sem mun leiða til sparnaðar í rekstri bæjarins og draga úr hættu á umboðsvanda í rekstri bæjarins. Spilling þrífst illa fyrir opnum tjöldum og aukið gegnsæi mun auka traust bæjarbúa á störfum bæjarstjórnar.

Sjálfsákvörðunarréttur íbúa þýðir ekki einungis að beint lýðræði í formi íbúakosninga sé notað við stærri ákvörðunartökur í bæjarfélaginu heldur er einnig mikilvægt að íbúarnir fái aukið val um þá þjónustu sem almenn samstaða er um að bærinn veiti m.a. með fjölbreyttum rekstrarformum.

ÁLYKTUN UM FJÁRMÁL KÓPAVOGSBÆJAR

Mikilvægt er að hafa í huga í allri ákvörðunartöku um rekstur og fjárfestingar bæjarins að fjármunir bæjarsjóðs koma beint úr vasa bæjarbúa.

Allar verulegar fjárfestingar bæjarins skal bera undir bæjarbúa í íbúakosningu.

Forgangsatriði er að lækka skuldir bæjarsjóðs undir lögbundið skuldahámark. Söluandvirði lóða skal nýta til lækkunar skulda bæjarins og útgjaldaaukningu skal stillt í hóf þar til skuldir komast niður fyrir lögbundið skuldahámark.

ÁLYKTUN UM HÚSNÆÐISMÁL

Öllum lóðum skal úthlutað í gegnsæju úthlutunarferli sem byggist á uppboðsferli með fyrirfram skilgreindu lágmarksverði.

Ef upp kemur frekari þörf á félagslegu húsnæði skal skoða að bærinn leigi húsnæði til slíkra nota frekar en að eiga og reka sitt eigið félagslega húsnæði.

Kópavogsbær beiti áhrifum sínum á ríkisvaldið til að breyta byggingareglugerðum á þann hátt að þær hindri ekki byggingu ódýrara íbúðarhúsnæðis.

ÁLYKTUN UM FRÆÐSLU- OG UPPELDISMÁL

Auka skal val nemenda um nám í skólum bæjarins. Framboð valfaga skal aukið m.a. á sviði lista, verknáms og tölvutækni.

Æskilegt er að stuðla að framboði á leik- og grunnskólaþjónustu með mismunandi áherslur og rekstrarform.

Bæta skal upplýsingagjöf til bæjarbúa um rekstrarárangur grunn- og leikskóla bæjarins og taka upp og birta ítarlegar og fjölbreyttar mælingar á gæði skólastarfsins.

ANNAÐ

Félagsfundur Pírata í Kópavogi dregur til baka ályktun um endurreisn Sparisjóðs Kópavogs: Ekki er talið raunhæft að bæjarsjóður beiti sér fyrir eða taki þátt í stofnun sparisjóðs að svo komnu máli.