Monthly Archives: April 2014

Notendastýrð persónuleg aðstoð við fatlaða

Við skulum hjálpa fötluðum að þrífa sig, komast í og úr vinnu og skemmtistöðum og að hafa í sig og á. Í Reykjavík kosta núverandi úrræði um 20 millur á ári á mann. Til samanburðar eru miðgildisárslaun opinbers starfsmanns 5 millur á ári. Beingreiðsla myndi leyfa fötluðum að nýta það fé mun betur sér í hag.

Nú kann að hljóma ósanngjarnt að greiðslur í þágu fatlaðra séu nokkrum sinnum hærri en meðallaun starfsmanns í fullri vinnu. Að 20 milljónir séu margar í ljósi þess að meira en 75% Íslendinga í fullri vinnu fái innan við 7 milljónir á ári í heildartekjur. En með sömu rökum væri langtum fáránlegra að tryggingafélög borgi klaufum margar milljónir fyrir að kveikja óvart í eigin húsi! Meira að segja eigin klaufaskapur og sekt kemur ekki alveg í veg fyrir að slíkt sé í lagi. Þetta eru ekkert nema tryggingar. Það er alveg eins með tryggingar og margt annað: ég held að flestum þykji betra að hafa þær heldur en að vera án þeirra.

Það væri lítið vit í því að ákveða það eftirá, þegar húsið er brunnið, hvort húseigandi hafi keypt brunatryggingu. Eða á ævikvöldi þess sem brenndi ekkert, að hann vilji fá alla trygginguna endurgreidda.

Opinber útgjöld og hjálparstarf í þágu fatlaðra er mjög líkt brunatryggingum. Flestir borga nokkra þúsundkalla, og þeir nokkru sem virkilega þurfa á peningnum að halda fá margar milljónir (beint eða óbeint). Það er apparat sem ég held að flestir ef ekki allir eru hæstánægðir með. Það græðir enginn á því að missa húsið sitt, en við getum alla vega reynt að leggja örlítið til hliðar. Bæði til að reka slökkvilið og til að reyna að bæta upp fyrir tapið.


Ég notaði tölur frá Rúnari Birni vegna þess að mér tókst ekki í fljótu bragði að finna reikninga um útgjöld sveitarfélaganna sjálfra í þágu fatlaðra. Styrki Jöfnunarsjóðs má þó skoða í reikningum Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlaða. Þar eru nefndar um 380 milljónir til Kópavogsbæjar.