Guaido á að fara með vald forseta Venesúela

Á Íslandi gerist það reglulega að þingforseti, forsætisráðherra og forseti hæstaréttar fara tímabundið með vald forseta, til dæmis meðan Guðni Thorlacius er erlendis. Væri ekki frekar skrýtið ef erlend ríki gerðu sér far um að neita að viðurkenna Katrínu Jakobsdóttur, Steingrím J. og Þorgeir Örlygsson sem tímabundna handhafa valds forseta Íslands, ef Guðni neitaði, mætti ekki eða gæti ekki rækt skyldur forseta? Jú.

Það er líka fáránlegt að fara að hunsa það að kjörtímabil Maduro sé út runnið. Í samræmi við stjórnarskrá hefur þing Venesúela lýst því yfir að hann hafi fyrirgert forsetastólnum með því að láta líðast að halda lýðræðislegar forsetakosningar fyrir lok kjörtímabilsins (og þá teljast ekki ólöglegu flýtikosningarnar í maí í fyrra, sem þingið samþykkti aldrei, þar sem mörgum forsetaefnum var bannað að bjóða sig fram og andstæðingar forsetans greiddu ekki einu sinni atkvæði). Þingforseti hefur tímabundið tekið við valdi forseta, í umboði þingsins.

Guaido kjörinn þingmaður í seinustu lýðræðislegu þingkosningum Venesúela. Meirihluti þingsins kom sér saman um að formenn flokka meirihluta þingmanna skyldu skiptast á að vera þingforsetar. Guaido er þingforseti. Þing Venesúela, National Assembly, hefur lýst því yfir að þingforseti verði starfandi forseti til bráðabirgða. Að því sögðu, þá er ómögulegt að honum takist að halda lýðræðislegar forsetakosningar fyrir mánudag, eins og stjórnarskráin fyrirskipar. Skásta leiðin úr stjórnarkreppunni er að leyfa þingforseta, í umboði þingsins, að náða stjórnmálamenn sem Maduro lét ranglega fangelsa og skipuleggja forsetakosningar.

Úr stjórnarskrá Bólivarska lýðsveldisins Venesúela:

Article 233: The President of the Republic shall become permanently unavailable to serve by reason of any of the following events: death; resignation; removal from office by decision of the Supreme Tribunal of Justice; permanent physical or mental disability certified by a medical board designated by the Supreme Tribunal of Justice with the approval of the National Assembly; abandonment of his position, duly declared by the National Assembly; and recall by popular vote.

When an elected President becomes permanently unavailable to serve prior to his inauguration, a new election by universal suffrage and direct ballot shall be held within 30 consecutive days. Pending election and inauguration of the new President, the President of the National Assembly shall take charge of the Presidency of the Republic.

(Wikisource)

Vinnum fyrir okkur sjálf

Ég hef aldrei skilið hvers vegna skattar eru notaðir til að niðurgreiða fjárfestingar. Það væri frábært ef það myndi skila samskonar ávöxtun og við hefðum keypt okkur, landsmönnum eins hús og tæki og þeir hefðu annars byggt og smíðað sér og verkafólki svipaða vinnu og það hefði annars kosið sér.

En ef eitthvað ber útaf, þá gæti hið opinbera óvart skattlagt eða útrýmt skemmtilegri störfum til að ráða fólk í hættulega byggingavinnu við að reisa sovétblokkir sem enginn vill síðan sjá, hvað þá búa nálægt.

Misskipting eigna

Eignamestu 10% Íslendinga eiga 64% framtalsskyldra eigna, en eignast ekki nema 40% nýrra eigna. Ávöxtun þeirra er lægri en hinna 90%. Enda er lífeyrir aldraðra yfirleitt kominn í örugg og innleysanleg skuldabréf þegar eignin nær hámarki, og annar sparnaður bundinn í verðstöðugu húsi. Þeir sem í dag eru ungir, eignalitlir og áhættusamir munu margir verða enn eignameiri gamalmenni en eldri kynslóðin sem á nánast ekkert nema lífeyri og kannski hús.

Ungmenni og konur forgangsraða menntun æ meir fram yfir hús. Þó menntun og hús séu ámóta varanleg, þá telur skattstjóri menntun ekki til eignar.

Skattfrjáls yfirvinna

Tekjur á milli 300 og 700 þ/mán ættu að vera nánast skattfrjálsar. Þá væru menn búnir að borga sinn skerf þegar þeir ná 300þ/mán. Eftir það gætu menn unnið eins og þá lystir áhyggjulaust.

Þorra skatts ætti annað hvort að dreifa á sem flest bök, enda gerir margt smátt eitt stórt, eða leggja á sérfræðinga sem taka varla eftir því þó þeir fái bara næstum öll launin sín.

Það myndi auðvelda mörgum að ná endum saman að geta unnið ögn meira og fengið allt andvirðið í vasann.

Breyting

Ég hef verið að velta fyrir mér framfarahvetjandi ferlum. Afmarkaðar breytingar ættu að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Sem flestir geta prófað nýjungar í smáum stíl.
  2. Öllum sem málið varðar leyft að meta hvaða breytingar eru til hins betra.
  3. Þeim sem kunna er leyft að skipta yfir í nýjungina hvar sem hún hentar án þess að trufla þá sem vilja halda sig við hið gamla.

Breytingar eiga aldrei að ganga yfir alla samtímis. Nýr valkostur er oftast af hinu góða.
Afdrifaríkari breytingar (eins og að færa flugvöll eða spítala) krefjast viðbótarskilyrða:

  1. Þeir sem finna nýjungar sem sanna oft gildi sitt fái aukið svigrúm til að prófa og mistakast inn á milli.
  2. Úrelt kerfi sé ekki lagt niður nema kerfinu sé sjálfhætt (notkun þess standi ekki undir því) eða kerfið brjóti á réttindum.

Tannlækning

Tvær algengustu aðferðirnar til að skammta læknisþjónustu eru há verð og langir biðlistar. Ef þú værir með tannpínu, hvort hentaði þér betur að borga mikið eða bíða lengi?

Há verð virka sjálfkrafa sem fjáröflun fyrir lækna. Ef marga vantar samskonar þjónustu þá hækkar bæði verðið, og þar með laun lækna, tímabundið þar til fleiri læknar hafa flutt til landsins til að mæta eftirspurninni. Langir biðlistar gera hvorki læknum né sjúklingum neitt gagn. Það eina sem takmarkar lengd (stundum sársaukafullra) biðlista er ef sjúklingar læknast sjálfir eða deyja.

Ef eitthvað er, þá þarf að fjölga tannlæknum, nota tannþráð og gera venjulegt fólk nógu ríkt til að geta farið til tannlæknis. Ekki þvinga niður laun tannlækna með valdi og skattleggja fólk til fátæktar.


Tölfræði

Félagar

Stærstu félög í heimi eru þjóðfélög og fyrirtæki. Ásamt fjölskylduböndum og vinskap, þá eru sameiginlegur þegnskapur og viðskiptasambönd algengustu tengsl manna.

Ríkið ætti að víkja fyrir fjölskyldum, vinum og viðskiptum. Fjölskyldu, vini og viðskipti viljum við og samþykkjum. Ríkið gengur hinsvegar á okkur samþykkislaust. Nú sýna t.d. skoðanakannanir að ríkisstjórnin er óvinsæl, Alþingi nýtur lítils trausts og álit almennings á stjórnmálamönnum er almennt lítið. Hvað gerist? Kollvarpast ríkisvaldið? Nei. Ríkið heldur áfram, þrátt fyrir óvinsældir, að fara sínu fram.

Þessu er ólíkt farið með vinskap. Vinátta er gagnkvæm. Oftast bæði skemmtileg og gagnleg. En ef svo leiðinlega vildi til að vinur yrði yfirgangssamur, ókurteis og frekur, þá má alltaf slíta vináttunni. Við höldum áfram að vera vinir vegna þess að við viljum öll vera vinir.

Viðskipti eru oftast meira gagnleg og minna skemmtileg. En þau eru val. Við verslum mest við þá sem koma vel fram og veita okkur þjónustu. Ef almenningur snérist gegn Bónus í dag þá eru allar verslanir þess farnar á hausinn innan viku. Þetta aðhald er gott. Allir njóta þessa aðhalds—nema ríkið.

Fjölskyldubönd eru yfirleitt sterkari en flest önnur. Börn fæðast í fjölskyldu áður en þau kynnast nokkrum vinum. Við umgöngumst fjölskyldu á hverjum degi. Við treystum á fjölskylduna þegar erfiðleikar steðja að, jafnvel þegar allir aðrir snúa við okkur baki. Oft kunna vinir okkar betur að hjálpa okkur, en þá er fjölskyldan samt til þrautavara. En þó dramatískt sé, þá er hægt að slíta fjölskyldum. Fjölsyldum er ætlað að endast sem lengst. En ávallt verður að leyfa meðlimum að flýja óásættanlegt framferði, þá sjaldan sem fjölskyldan skemmir meðlimi sína í stað þess að vera þeim ómetanleg. Til dæmis unglingi að strjúka undan glæpsamlegum foreldrum sem bera enga virðingu fyrir börnum sínum. Fjölskyldur byggja nefnilega og þrífast ekki bara á venju og praktík, heldur mest á virðingu og kærleik.

Þessi frábæru, siðvæddu tengsl—fjölskyldubönd, vinskap og viðskipti—notum við daglega til að útvega okkur ekki bara húsaskjól, atvinnu og mat, heldur einnig félagsskap og tilgang. Umhyggju og ást. Við hlið þeirra er sorglegt að fjórðu tengslin, þegnskapur, eru þvinguð, ógagnkvæm og yfirvaldið beinlínis óvinsælt. Ríkisstjórnin á nóg af vinum. En hvers vegna eru hinir, sem ekki eru vinir hennar, látnir þjóna henni til jafns? Væri ekki öllum til framdráttar að tengjast frekar af gagnkvæmri vináttu sem jafningjar, ættingjar, kunningjar eða vinir?


Geir Agustsson skrifaði helming þessa pistils.

Landbúnaður Nýja-Sjálandi

Bændasamtökum Nýja-Sjálands og kjósendum tókst að fá landbúnaðarstyrki afnumda uppúr 1984. Kosningar þurfti til. Markmið Bændasamtakanna var að draga úr verðbólgunni sem fylgdi hallarekstri ríkissjóðs. Næstu sjö árin voru strembin skipulagning. Án niðurgreiðslu keyptu bændur minna af áburði, en fjárfestu þess í stað í litlu hlutunum sem ríkið hafði aldrei niðurgreitt, t.d. girðingum. Fyrsta kastið fækkaði bændum um 1%. Frá 1992 hefur bændum farið fjölgandi, laun bænda hafa farið hækkandi og útflutningsverðmæti kjöts og víns margfaldast. Dýrum, óþörfum en niðurgreiddum aðföngum hefur verið skipt út fyrir ódýrari og gagnlegri aðföng. Bændafjölskyldur hafa tekið að sér fjölbreyttari aukastörf; víngerð, verslun í kaupstöðum, bændagistingu og leiðsögn ferðamanna. Íbúum landsbyggðarinnar fjölgar því enn meira en sem nemur fjölgun bænda.

Nýsjálenskir bændur rækta helst sauðfé og kýr og brugga vín. Vínrækt varð til samtímis endurskipulagningunni 1984.

Útflutningur víns heldur áfram að skila auknum tekjum árlega.

Nýsjálenskt lambakjöt er enn frægara en vínið.

Skýrsla Bændasamtak Nýja-Sjálands

Auk minni áburðarnotkunar, þá dró bæði úr beit á viðkvæmu og illa grónu landi og allri niðurgreiddi sóun. Í staðinn kom fjölbreyttari landbúnaður. Bændur fengu sjálfir að velja skynsamlegustu fjárfestingarnar og uppskáru fyrir vikið hærri laun og fjölbreyttari vinnu.

Skýrum lögum framfylgt heiðarlega

Hvers vegna er velmegun meiri í sumum löndum en öðrum? Velmegun er mest öflugum réttarríkjum þar sem stærstur hluti eigna er í einkaeigu. Flest velmegunarríki, t.d. Svíþjóð, leyfa sér háa tekjuskatta og há opinber útgjöld. Hvernig vegnar mismunandi löndum?

Nýja-Sjáland er dæmi um friðsælt land með sterkan eignarrétt. Þar er mikil velmegun. Ástralía er með jafn sterkan eignarrétt (þó gjaldþrot smáfyrirtækja komi þeim óþægilega oft undan skuldbindingum), en hlutfallslega lægri ríkisútgjöld. Þar er enn meiri velmegun, og auðvelt fyrir ólærða Nýsjálendinga að finna vinnu.

Mongólia er dæmi um land með litla virðingu fyrir eignarrétti að frátöldum lágum sköttum, há opinber útgjöld, himinháar ríkisskuldir, slappa og spillta dómstóla og flókin og ófyrirsjáanleg lög. Velmegun þar er sáralítil.

Ghana og Suður-Afríka eru með næstum ásættanlega dómstóla og lög, en arfaslaka og rammspillta opinbera starfsmenn. Í Ghana þarf oft að múta opinberum starfsmönnum með þjórféi til að fá ýmis leyfi. Í Suður-Afríku er gróft ofbeldi daglegt brauð. Rúmt prósent Suður-Afrískra lögreglumanna eru með dóm á bakinu. Fréttir af ránum, nauðgunum og morðum bæði lögreglumanna og almennra borgara eru tíðar. Suður-Afríka er auðug en ofbeldisfull. Í Ghana er eignarhald á landi iðulega óljóst (svipað og í Vatnsenda). Ghana er fátæk, en með morðtíðni í meðallagi eða þriðjungi lægri en Rússland. Botswana er auðug en með þrefalda morðtíðni Ghana eða á við Mexíkó. Suður-Afríka er auðug, en með fimmfalda morðtíðni Ghana eða hundraðfalda morðtíðni Íslands.

Hong Kong, Singapúr og Botswana eru dæmi um lönd með fyrirsjáanlegan eignarrétt, öfluga dómstóla og skýr og sáraeinföld lög. Velmegun í Botswana er yfir meðallagi. Velmegun í asísku borgríkjunum er stórkostleg.

Heiðarleiki og friðsemi eru markmið í sjálfu sér. Ásamt skýrum lögum og stöðugum eignarrétti leiðir heiðarleiki að auki til velsældar. Ríkjum er meira að segja óhætt að taka allt að þriðjung tekna í skatt, svo lengi sem lög, löggæsla og dómar eru nægilega fyrirsjáanlegir til að áætlanir geti tekið mið af slíkum kvöðum.


Index of Economic Freedom Heritage metur heiðarleika, fyrirsjáanleika, hömlur (t.d. tolla og flækjustig regluverks) flestra ríkja.

Morðtíðni þjóða fengin frá Fíkniefna- og glæpastofa Sameinuðu Þjóðanna í gegnum Wikipediu.

Þjóðartekjur á mann samkvæmt Alþjóðabankanum World Bank