Umsögn um stóra hagstofumálið

Allsherjar- og menntamálanefnd

Reykjavík, 25. júní 2013

Kallað hefur verið eftir umsögnum um frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Ætlun ráðherra virðist vera að fá breytingarnar samþykktar strax á skammvinnu sumarþingi sem sést best á því að allsherjarnefnd ætlaði umsagnaraðilum heila tvo daga til þess að veita umsagnir um málið. Hér er þó ekki um einfalt eða óumdeilt mál að ræða og því ekki ráðlegt að ætla því þá flýtimeðferð sem virðist stefna í.

Vankantar þessa frumvarps falla að mínu mati í þrjá flokka sem hver um sig veitir nægjanlega ástæðu til þess að hafna frumvarpinu í þeim búningi sem það er nú. Þeir eru eftirtaldir:

A) Verulegt órökstutt inngrip í friðhelgi einkalífs.

Fyrirhuguð söfnun fjarhagsupplýsinga um alla Íslendinga í miðlægan grunn er í eðli sínu verulegt inngrip í friðhelgi einkalífs sem nýtur verndar samkvæmt ákvæði 71. gr. stjórnarskrár Íslands og efnislega hliðstæðum ákvæðum alþjóðlegra mannréttindasáttmála og yfirlýsinga sem Ísland er aðili að. Slíkt inngrip verður aðeins réttlætt með því að verulegir aðrir hagsmunir vegi þyngra. Í frumvarpi forsætisráðherra er það órökstutt með öllu að markmiðið með lagabreytingunum réttlæti inngripið.

B) Illa afmarkaðar og varanlegar heimildir Hagstofu Íslands til upplýsingasöfnunar.

Heimildir Hagstofu Íslands til upplýsingasöfnunar eru illa afmarkaðar varðandi þær upplýsingar sem sækja á. Taldir eru til nokkrir flokkar fjárhagsupplýsinga en sú talning er ekki tæmandi og í raun er það háð mati Hagstofu á hverjum tíma hvaða gagna stofnunin mun afla. Heimildirnar virðast jafnframt vera ótímabundnar þrátt fyrir að yfirlýst markmið frumvarpsins sé að afla gagna fyrir hagskýrslugerð til að varpa ljósi á umfang núverandi skuldavanda einstaklinga. T.a.m. felur frumvarpið í sér breytingar á þeim greinum Hagstofulaganna sem skilgreina hlutverk stofnunarinnar, slíkri breytingu er augljóslega ætlað að standa varanlega.

C) Öryggi gagnanna er ekki tryggt.

Tæknileg útfærsla á söfnun og geymslu upplýsinganna er alfarið á forræði þeirrar stofnunar sem mun afla gagnanna, varðveita þau og vinna með þau. Frumvarpið felur ekki í sér nein fyrirmæli um hvernig öryggi gagnanna skuli tryggt við öflun þeirra, varðveislu og úrvinnslu en í greinargerð er væntanlegu verklagi Hagstofu lýst á mjög almennum nótum. Kjarni málsins er þó sá að þrátt fyrir góðan ásetning allra sem að málinu koma þá mun ekki verða mögulegt að tryggja öryggi upplýsinganna. Fyrirhuguð er samkeyrsla víðtækra upplýsinga úr mörgum áttum sem tengdar verða við einkvæm persónueinkenni. Ljóst má vera að í fámennu samfélagi verður með lítilli fyrirhöfn unnt að tengja gögn við tilgreinda einstaklinga hvað sem allri dulkóðun persónueinkenna líður.

Niðurlag

Það væri óskandi að meiri tími gæfist til umsagna um frumvarp þetta þar sem það snertir gríðarlega stóra hagsmuni sem fá merkilega litla umfjöllun í samfélaginu. Rétturinn til friðhelgi einkalífs er ekki léttvægur og það hefur aldrei verið mikilvægara að standa vörð um þann rétt en nú á tímum nýrrar upplýsingatækni sem hefur auðveldað verulega söfnun upplýsinga og samkeyrslu þeirra. Hér verður að staldra við og meta það hvaða hættur fylgja tilvist gagnagrunns af því tagi sem frumvarpið heimilar og þá ekki síður hvers konar fordæmi er gefið til framtíðar með því að feta þessa braut.

Virðingarfyllst,

Bjarki Sigursveinsson hdl.