Glópagullskerfi Menntamálaráðherra: LÍN frumvarpið

Nýútkomið frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna virðist vera glópagull. Það er mín niðurstaða eftir að hafa skoðað þetta í dag með opnum hug og von um að það gæti eitthvað gott komið frá þessu ráðuneyti. Þó það sé boðið upp á 65.000 kr í styrk óháð því hvort viðkomandi taki sér framfærslulán eður ei, þá er margt annað sem þarf að athuga.

Það er komið hámark á því hversu mikið einstaklingur getur fengið í lán. 15 milljónir. Ofan á það leggst 65.000 kr styrkur í allt að 40 mánuði. Þetta 15 milljóna króna hámark er ákveðið án þess að taka tillit til fjölskylduaðstæðna, þ.e. fjölda barna á framfærslu námsmanns eða dýr skólagjöld. 

Til að setja þetta í samhengi þá eru skólagjöldin í Cambridge til þess að fara í efnaverkfræði eða tölvunarfræði £24,069 sem eru 4,4 milljónir íslenskra króna. Það þarf engan sérstaka hæfileika í stærðfræði til þess að sjá að íslenskir stúdentar muni eiga eftir að eiga erfitt með að fjármagna skólagjöld að fullu fyrir mikilsvirta skóla á borð við Harvard og Cambridge frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hvað kemur í staðinn? Einkareknir námslánasjóðir? Bankalán?

Verðtrygging og vextir

Lánin verða verðtryggð. Þar að auki  eru 2,5% vextir og 0,5% vaxtaálag. Eins og staðan er núna er 1% vextir á námslánum og skuldabréfið lokast þegar stúdentinn er búinn með nám. Með breytingunum þá mun verða til eitt skuldabréf á hverja útborgun, sem þýðir að við lok 180ECTS BA gráðu verður stúdent með 6 skuldabréf. Við lokun skuldabréfs þá byrjar það að safna vöxtum. Þannig, eftir fyrstu önnina í háskóla þá byrjar klukkan strax að tifa og fyrsta útborgunin upp á kannski hálfa milljón safnar vöxtum þangað til að stúdent hefur lokið námi og byrjar að borga af námslánunum sínum. Það eru þrjú og hálft ár á fyrsta skuldabréfið, þrjú ár á annað skuldabréfið og svo koll af kolli. 

Á fyrsta skuldabréfinu, gefum því þægilega tölu upp á hálfa milljón og vextir samtals upp á 3% þá er mánaðarleg vaxtasöfnun 1.250 kr.. Það þarf ekki að byrja að borga á fyrsta skuldabréfinu fyrr en eftir 42 mánuði og á þeim tíma safnast vextir ofan á höfuðstólinn, upp á samtals 52.500 kr. Næsta skuldabréf safnar vöxtum í 36 mánuði, eða 45.000 kr. og svo koll af kolli. Samkvæmt mínum frumstæðu útreikningum þá hefur bæst við höfuðstólana 202.500 kr í ógreidda vexti miðað við að á sex mánaða fresti í þrjú ár fái námsmaður 500.000 kr. í námslán og byrji að borga af láninu ári eftir útskrift. borgað er af skuldabréfunum samhliða, ekki þannig að það sé byrjað að borga af einu í einu heldur er einn reikningur sendur út þar sem þetta er allt saman: 6 lán upp á 500 þúsund sem bera 3% vexti, samtals upp á 3 milljónir og samtals uppsafnaðir vextir upp á 200 þúsund. Og svo er byrjað að borga af því. 

Afborgarnirnar eiga að vera jafngreiðslur. Það kemur ekki skýrt fram í frumvarpinu hversu háar afborganirnar eiga að vera — en reikni maður dæmið þá er hugsanlega verið að ræða um 30-40 þúsund krónur á mánuði fyrir fimm ára háskólanám. Fimm ára háskólanám er núna skilyrði fyrir ýmis störf í samfélaginu sem borga ekki hálfa milljón á mánuði eftir skatt í laun. Það er því há greiðslubyrði fyrir fólk sem er með útborgað 200-250 þúsund á mánuði eftir skatt eftir fimm ára háskólapróf að greiða 30 þúsund á mánuði eða um 15% af heildarútgjöldum. Verði þetta að veruleika þarf að semja um sérstakar hækkanir á launamarkaði sem tekur til greina það að stúdentar sem útskrifast með 3-5 ára háskólapróf og eru ekki með tekjutengdar afborganir á lánum sínum hafi meiri og dýrari greiðslubyrði heldur en áður. 

Það vekur að auki athygli að viðmiðun útreikninga á blaðsíðu 32 er reiknað með því að viðkomandi hafi hálfa milljón á mánuði ári eftir að hafa útskrifast með master í einhverju. Er það raunveruleikinn á Íslandi í dag?

Glópagull eða styrkur?

Styrkurinn virðist því vera glópagull. Það kemur út á sléttu þar sem vaxtagreiðslurnar hækka úr 1% upp í 3%, lánið byrjar að safna vöxtum um leið og lánið er greitt út og safnar vöxtum allan lánstímann og allan afborgunartímann. Fyrir fólk sem ætlar í langt nám þá er þetta allt að tíu ár af uppsöfnuðum vöxtum. Fimm ár fyrir þá sem ætla að taka bachelor og master. 

 Það sem þetta glópagull mun hugsanlega gera er að vera meiri hvati fyrir ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu til þess að búa lengur hjá foreldrum sínum. Þessi styrkur mun því helst gagnast fólki á höfuðborgarsvæðinu sem býr við öruggar heimilisaðstæður. Þannig mun þetta mismuna fólki út frá því hvar þar býr og hvernig fjölskyldu hagir þeirra eru. Þeir sem munu njóta mest góða af þessum styrkjum eru nefnilega stúdentar sem eiga gott bakland – efri og millistéttarfjölskyldur og á höfuðborgarsvæðinu eða Akureyri, finni stúdent þar nám við hæfi. Þessi styrkur verður góður vasapeningur fyrir þá sem þurfa ekki að taka lán til þess að sjá fyrir framfærslu.

Hinir, sem þurfa að sækja skólann um langan veg og/eða geta ekki búið í foreldrahúsum. Þeir sem þurfa að fullorðnast hratt, eru fullorðnir og eru sjálfstæðir munu þurfa að taka námslán – hinir ekki og þar af leiðandi munu ekki þurfa að fara út í lífið með námslánabyrðina. Ég hygg þetta muni koma verulega illa fyrir nýstúdenta sem koma utan að landi.

Leysir ekki helstu vandamál stúdenta

Stærsta vandamál stúdenta til þess að standa sjálfstæðum fótum í núrverandi kerfi er að námslánin eru greidd út eftir á. Á hinum Norðurlöndunum þá er styrkurinn eða lánið greitt út í hvejrum mánuði. Á bls. 28 í frumvarpinu er rakið hversu mikið ‘óhagræði’ það hafi verið af því að greiða út námslánin fyrirfram vegna þess að það var of erfitt að endurheimta ofgoldin námslán, hinsvegar þá hafa hin norðurlöndin tekist að gera það án þess að það hafi verið eitthvað þvílíkt vesen.

Eins og staðan er í dag þá eru nemendur að sækja í námsmannayfirdrætti með tilhlítandi kostnaði og lenda svo í útistöðum við bankann ef þeir falla í kúrs eða fá ekki námslánin eins og vera ber. Frumvarp þetta gerir hinsvegar ráð fyrir að “námenn [fái] greiddan vaxtastyrk vegna þessa óhagræðis sem það hefur í för með sér”. Það sem þetta er að búa til er tilgangslaus peningamyndum í formi útgáfu skuldabréfa hjá bönkunum. Það er alveg hægt að greiða þetta út jafnt og þétt – ég hugsa að það hefði jákvæð áhrif á námsframvindu hjá stúdentum þar sem það eykur fjármagnsöryggi stúdenta yfir námstímann. Ef tilgangurinn með námslánum er að gefa bönkum eitthvað rúm til þess að græða á þeim, þá er uppi einhver misskilningur með tilgang lánasjóð íslenskra námsmanna hjá ráðamönnum vor.

Einkavæðing námslánakerfisins?

Þetta frumvarp menntamálaráðherra er á heildina litið mjög slæmt. Þarna er verið að auka vaxtabyrði námsmanna, þarna er verið að gera frekari takmörk á hversu hátt lán námsmenn geti fengið yfir námstímann og þannig takmarka barnafjölskyldur eða einstæða foreldra með börn á framfærslu að stunda nám. Þarna er verið að takmarka möguleikana á því að geta farið í góða háskóla sem eru oftar en ekki dýrir. Þarna er verið að búa til glópagulls styrkjakerfi sem lántakandinn sjálfur borgar fyrir með vaxtafyrirkomulaginu.