Draumurinn um lýðræðið

Ein af mínum uppáhalds minningum er þegar ég horfði á sólarupprásina, borðandi banana á Immam square í Esfahan. Þetta var sumarið 2011, þegar ég fór í langferð um Tyrkland, Íran og Georgíu.

immam

Það var einhver undursamleg friðsæld á torginu. Ekki sálu að sjá, en eftir því sem sólin steig hærra á loft, komu konur og menn á stjá, til að stunda morgunleikfimi eða fá sér göngutúr við bakka gosbrunnsins. Borgin var að vakna, sólin hitaði þurrt eyðimerkurloftið eftir því sem leið á og lyktin af mengun og grasi barst fyrir vitum okkar.

Á þeim tíma hafði ég aðeins verið tvær nætur í Íran. Þetta var fyrsti dagurinn sem ég sá renna upp sem var eðlilegur. Fólk sem var að lifa lífinu og ræða um mál líðandi stundar. Það var einhvernveginn allt svo eðlilegt. Afslappað miðað við hasarinn á strætum Tehran.

Green RevolutionNúna, fyrir skömmu sendi vinur minn mér þessa mynd. Þetta er torgið þar sem ég sá Esfahan vakna árla morguns, þar sem sólin byrjaði hægt og rólega að kyssa vanga bæjarbúa þar sem þeir fóru í morgungönguna. Þessi mynd er tekin 2009, þegar græna byltingin svokallaða átti sér stað í kringum kosningarnar í Íran þar sem fólk flykktist út á götu og reyndi að breyta einhverju. Það reyndi að fá það lýðræði sem það á skilið, sem því var lofað með byltingunni 1979.

Fólk þarna átti drauma og átti von, eitthvað sem er erfitt að finna nú til dags í Íran. Þarna tóku milljónir manns sig saman um það að standa saman og flykkjast út á götu í nafni máttar lýðsins. Það var ekki nóg.

Sumarið 2011 var ég á ferðinni í Íran í fyrsta skiptið. Fólk spurði okkur hvað væri að frétta af ástandinu í Egyptalandi, hvernig málum væri háttað eftir Arabavorið. Það eygði að það væri ekki svo langt í land með að þau, líka, gætu orðið eins og Evrópa eða Ameríka, með lýðræðislega stjórn og ríkisstjórn sem þau þyrfti ekki að hræðast. Það var von.

Nú í sumar var stemningin önnur meðal Írana. Vonleysisleg depurð ríkti þegar heimsmálin voru rædd. Arabavorið hafði bara skilað af sér annarri ógnarstjórn á borð við Khomeini. Öfgar í nafni trúar voru stöðugleiki miðað við borgarastyrjöld.

Sættum okkur ekki við öfgar í nafni trúar til þess að fá ímyndaðan stöðugleika. Nýtum atkvæði okkar, það kerfi sem við búum við og sjáum til þess, í sameiningu, öll sem eitt að uppgjör hrunsins er ekki búið. Við þurfum breytingu. Við þurfum að nýta okkur lýðræðið, mæta á kjörstað, kjósa og ekki velja öfgar í nafni trúar um að töfralausnir séu mögulegar. Það eru ekki til neinar töfralausnir.

Ég ætlaði aldrei að taka þátt í stjórnmálum. Ég ætlaði aldrei að láta hafa mig út í þessa dellu, vitleysu og málefnaleysi sem stjórnmál eru, sér í lagi á Íslandi, að mér fannst. En ég hef skipt um skoðun.

Það eru forréttindi að búa í samfélagi eins og á Íslandi. Þegar við tölum um kúgun, mismunun eða ójafnrétti þá get ég ekki annað en hugsað um það hversu mikið vesen það var að passa að hárið værið hulið með hijab fyrstu dagana áður en það komst upp í vana. Það að missa sjálfstæðið vegna þess að ég var allt í einu kona, en ekki manneskja.

Það eru forréttindi að fá að búa í samfélag eins og á Íslandi. Það eru forréttindi að fá að hafa áhrif, fá að kjósa og fá kosningar sem eru heiðarlegar. Mér finnst vera heiður að fá að taka þátt í byggingu þess samfélags sem ég bý í.

Ég ætlaði aldrei að verða stjórnmálamaður. En hér er ég og ég mun gera mitt besta.

One thought on “Draumurinn um lýðræðið

  1. Tóti

    Það er svo skrítið að almenningur treystir sjálfum sér ekki. Ég hef orðað beint lýðræði nokkrum sinnum við fólk sem hefur áhuga á stjórnmálum, að það ætti að vera hægt að kjósa um allt í heimabankanum eða álíka en við mjög dræmar undirtektir. Ein rökin eru að almenningur sé svo íhaldssamur að það verði að kjósa leiðtoga sem í gegnum reynslu sína í stjórnun öðlist þroska til að taka skref til framfara. Ég vil ekki vera svo hrokafullur að þykjast vita betur en samt virðist mér þetta vera þrælslund tekin í arf eftir stjórnmálakerfi síðustu alda. En svona er þett samt, almenningur treystir almenningi illa svona almennt séð.

Leave a Reply