Um feminisma og Pírata

Ég er Pírati og ég er feministi. Ég er ung kona að stíga mín fyrstu skref í stjórnmálum og hef gert svo undir flaggi Pírata og líkað það vel. Ég hef komið málum mínum á framfæri, það hefur verið hlustað á mig og borin virðing fyrir því sem ég hef fram á að færa. Ekki út af því að ég er stelpa eða strákur, heldur út af því að þannig virka Píratar. Við hlustum á hvort annað og berum virðingu fyrir því.

Það er ekki alltaf auðvelt að vera ung kona. Það þarf ekki mikið til þess að fólk grípi frammí fyrir mér eða hlusti einfaldlega ekki á það sem ég hef fram á að færa. Kalli rök mín barnaleg þótt þau byggi á rannsóknum fræðimanna eða einfaldlega brosa vingjarnlega og kinka kolli og hugsa “En sætt, hún hefur skoðanir”.

Innan Pírata þá hefur þetta aldrei verið vandamál. Innan Pírata er hlustað og málin rædd, ýmsar hliðar skoðaðar. Píratar bera gagnkvæma virðingu fyrir hvert öðru algjörlega óháð kyni.

Ég er líka feministi. Hinsvegar þá finnst mér erfitt að eiga í heiðarlegri samræðu um feminisma, hvað er jafnrétti og hvað er það að krefjast forréttinda.

Þrátt fyrir ákveðin vandamál í íslensku samfélagi varðandi stöðu kvenna þá hafa íslenskar konur það mjög gott. Að mínum dómi þá mun ekki skila neinum umtalsverðum árangri að  stilla fólki uppi við vegg og niðurlægja það opinberlega fyrir ummæli sín. Vandamál þarf að leysa, það að draga vandann fram í dagsljósið er vissulega mikilvægt skref en það er spurning hvernig það er gert. Hvernig er hægt að bæta stöðu kvenna og orðræðuna um konur í samfélaginu? Með því að draga fólk fyrir dómstól facebookslýðsins og niðurlægja?

Ég hef einnig orðið vör við að ég er af annarri kynslóð heldur en þær konur sem hafa verið í stjórnmálum þá þegar í meira en áratug. Mér finnst mjög mikilvægt að þakka þessum konum, rauðsokkunum og kvennahreyfingunni fyrir það að hafa verið sem ísbrjótar í Norður-Atlantshafi til þess að sjá til þess að konur fengju og gætu tekið þátt í málefnalegum stjórnmálum í borgarstjórn og á þingi. Þessar konur unnu gífurlega mikilvægt verk og það er þeim að þakka að Ísland er eins og það er í dag.

Mismunandi kynslóðir búa við mismunandi reynsluheim. Ísinn sem þær brutu var þykkur, en núna er þetta ekki mikið meira en þunn ísskel ofan á polli sem ég þarf að brjóta. Mitt aðgengi að málefnalegri umræðu er mun betra heldur en það var fyrir þrjátíu árum. Þess vegna, einmitt þess vegna þurfum við að breyta orðræðunni um stöðu kvenna innan pólitík. Ég verð ekki fyrir þessum sömu árásum fyrir kyn mitt þegar ég á í málefnalegri umræðu. Ég þarf ekki að standa upp á stól og öskra í megafón til þess að einhver einu sinni íhugi það að hlusta. Það þarf ekki að gefa mér auka svigrúm til þess að athafna mig. Þess þurfti kannski fyrir tuttugu árum, en nú er öldin önnur.

Samfélagið er búið að breytast og það er kominn tími til þess að halda áfram á sömu braut. Við munum ekki komast neitt áfram ef það er ennþá einblínt á sama gamla farið, hvað konur eigi erfitt uppdráttar og þurfi að leggja margfalt harðar að sér til þess að komast jafnlangt og karlmaður í sömu stöðu.

Eins og staðan er í dag, þá finnst mörgum karlmönnum og konum eins og kvennabaráttan sé ekki lengur jafnréttisbarátta heldur forréttindabarátta kvenna. Karlmenn þora varla að tjá sig um málefni kvenna sem og klám, barnaklám, barnapössun, þeirra eiga erfitt uppdráttar í störfum eins og hjúkrun og kennslu. Ef þetta er það sem jafnrétti snýst um, það að konur eigi að fá forskot og forréttindi innan ákveðinna stétta, þá get ég ekki verið sammála því.

Ég er ung kona í stjórnmálum. Ég vinn fyrir aðra unga konu í stjórnmálum, Ameliu Andersdotter, sem kleif metorðastigann ótrúlega fljótt og varð Evrópuþingmaður Pírata 22 ára gömul. Við erum ekki á þeim stað í lífinu sem við erum núna út af því að okkur var gefið forskot. Við erum að vinna þá vinnu í dag út af því að samfélagið var tilbúið til að hlusta. Hlusta og sleppa því að pæla í því hvaða skálastærð við notuðum eða hvort buxurnar okkar væru aðeins og þröngar.

Ég bý við þau forréttindi að fá að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi. Ég er heppin að vera af þeirri kynslóð sem þarf ekki að standa í ströngu stríði við stjórnmálin til þess að það sé tekið mark á mér. Það eru ekki allir sem búa við þessi forréttindi, ekki á Íslandi né annarsstaðar í heiminum. Ég sé og finn af eigin reynslu að Píratar eru að byggja nýjar forsendur í stjórnmálum, stjórnmál sem snúast um staðreyndir, upplýsingar og málefnalega umræðu. Einmitt þessi grundvöllur hefur gert það að verkum að ég hef séð mig færa um að stíga fram á hið pólitíska svið og taka þátt.

Ég hef ekki áhuga á að taka þátt í pólitík sem einhver brúða í gamanleikhúsi spunameistara ríkisins. Við þurfum að draga íslensk stjórnmál upp á hærra plan og það gerist ekki án ykkar þátttöku.

14 thoughts on “Um feminisma og Pírata

 1. Elfa Jóns

  Góður pistill.

  Mér liggur samt forvitni á að vita á hvern hátt femínista eins og þér finnst jafnréttisbráttan farin að snúast um forréttindi kvenna.

  Þetta nefnir þú að mörgum körlum og konum finnist. Hvað áttu við?

 2. Hilmar

  Góður pistill Ásta og lýsing þín á því sem Píratar vilja standa fyrir rímar vel við mínar hugmyndir og væntingar til framboðsins.
  Gangi þér vel.

 3. Kári Emil Helgason

  Ég veit ekki hvaða forréttindi kvenna þú ert að tala um. Það eina sem mér dettur í hug eru meira frelsi í fatavali og persónulegum stíl, auknar líkur á að fá forræði yfir börnum og að eiga auðveldara með að vinna í hjúkrunastörfum án þess að vera dæmd fyrir það, eru þykjóforréttindi. Auðvitað hef ég sem femínisti áhuga á að eyða þessu ójafnræði líka, en rót vandans er sú að þrátt fyrir allt búum við enn í samfélagi þar sem „karlmennska“ er hærra sett en „kvenleiki“. Köfum dýpra.

  Það fyrsta stafar af þeirri hugmynd feðraveldisins að konur eigi að vera fallegar fyrir mennina sína. Til að bæta upp fyrir þá auknu pressu sem kerfið setur á konur varðandi útlit þeirra er þeim gefið aukið frelsi til að tjá sig í gegnum tísku svo það sé ólíklegra að þær kvarti. Að auki gefur þetta færi á að jaðarsetja karlmenn sem hafa áhuga á tjáningu í gegnum tísku sem kvenlega, og draga þannig úr valdi þeirra.

  Önnur forréttindin, að hafa auknar líkur á forræði, stafa af þeirri hugmynd að börn þurfi mæður sínar og að móðurhlutverkið sé föðurhlutverkinu æðra. Endanlegur tilgangur þessarar hugmyndar er að láta konum líða vel með að láta móðurhlutverk sitt standa öðrum verkefnum í lífinu ofar. Já, hliðaráhrif eru sem sagt að konur fá sjálfkrafa aukna samúð fólks og stjórnvalda í forræðisdeilum, en á móti kemur að karlar þurfa að axla minni ábyrgð á börnum og hafa þar með meiri tíma til að sinna starfsframa, félagsmálum og öðru sem færir þeim peninga og völd.

  Þriðju forréttindin, aðgangur að frama í hjúkrunar- og kennslustörfum, standa auðvitað í skugga þess að allar „kvennastéttir“ eru kerfisbundið lægra launaðar en „karlaséttir“. Þó svo að hjúkrunar- og kennslustörf krefjist langrar skólagöngu eru þau samt mun lægra launuð en störf sem krefjast sambærilegrar menntunar. Þú tekur líka kannski eftir tengslunum við forréttindi númer tvö: ummönnun og kennsla barna er eins konar framlenging á móðurhlutverkinu.

  Þau fáu forréttindi kvenna sem til eru í stærra samhengi engin forréttindi. Það þarf ekki að líta langt til að sjá að forréttindi karla eru hins vegar raunveruleg. Dæmi úr eigin lífi: Yfirmaður minn er kona, en þegar við sitjum fundi með yfirstjórn fyrirtækisins horfa allir á mig, ekki yfirmann minn.

  Margt smátt gerir eitt stórt. Það er það sem nútímafemínismi snýst um.

 4. Sigurður

  Góð grein og áhugavert að sjá frambjóðanda sem þorir að víkja að forréttindabaráttu þeirri sem hluti femínista stendur fyrir. Þessu þora ekki margir.

 5. Svala Georgsdóttir

  Það er ákveðinn áróður í gangi undir flagginu “öfgafemínismi” sem þessi pistill er nú að næra allsvakalega. Tek líka undir með Kára Emil hér ofar.

 6. Rannveig Fríða

  Í þessari grein, Ásta, þá talaru alveg útfrá sjálfri þér eins og að reynsla þín sé algild og sýnir hversu litla þekkingu þú hefur á þeim vandamálum sem að femínismin er að vinna gegn. Fyrirgefðu en er kynferðisofbeldi “þunnt lag af ís á polli”?

 7. Ingibjörg Benediktsdóttir

  Gat nú ekki orða bundist þegar ég las kommentið frá Rannveigu Fríðu. Hafa feministar einkaleyfi á að vinna gegn kynferðisofbeldi? Verður maður að vera meðlimur í Femínistafélagi Íslands til að hafa óbeit á slíku? Ég skil ekki alveg hver er tilgangurinn með þessu kommenti. Hér er ung kona að stíga sín fyrstu skref í pólitík og af því hún hefur aðra sýn á málefnin en virðist vera leyfilegt innan ákveðins hóps fólks þá er reynt með skrifum að gera lítið úr hennar kunnáttu og skoðunum. Það hafa allir leyfi til að hafa sínar skoðanir og þær ber að virða. Við getum verið ósammála því sem hún segir eða sammála en að gera lítið úr skrifum hennar og snúa út úr þeim finnst mér ómaklegt og væntanlega samrýmist það varla stefnu femínista sem hafna staðalímyndum og vilja virkja fjölbreytileikann í mannlífinu. http://is.wikipedia.org/wiki/Fem%C3%ADnistaf%C3%A9lag_%C3%8Dslands

 8. Eva Lind Þuríðardóttir

  Hvað áttu við Rannveig? Ég skil ekki alveg hvað þú ert að reyna að gefa í skyn. Ertu hér að reyna að segja að Ásta líti kynferðisofbeldi ekki alverlegum augum, ég skil ekki alveg tenginguna hjá þér.

  En það er mjög týpískt að nota hluti eins og t.d. kynferðisofbeldi og barnaklám til þess að kúga umræður og hertaka þær. Ég sem eftirlifandi kynferðisofbeldis og barnakláms, tek út fyrir það, mér finnst skömm að þessi málefni séu sífellt og endurtekið notuð til það að flagga feminisma og öðru.

 9. Anonymous

  Það er merkilegt að sumir talsmenn forréttindafeminista kannast aldrei við þá gagnrýni sem að þeim beinist.

  Hér er eitt dæmi um forréttindabaráttu sem enginn kannast við.

  Norræna Ráðherranefndin leggur til bann við andfemínisma. Já bann.

  http://forrettindafeminismi.com/2013/04/01/norraena-radherranefndin-leggur-til-bann-vid-andfeminisma/

  Þarna er verið að leggja til að skoðanir fólks sem vogar sér að spyrja gagnrýna spurninga er varða sannleiksboðun feminista verði skilgreindar sem andfeminiskar. Eva Hauksdóttir hefur einmitt verið dugleg að spyrja og er hún slilgreind sem kyndilberi andfeminista.

  Og skoðanir andfeminista skal banna með lögum! Þetta er orðið skuggalegt.

  Það á að skilgreina feminiska sýn sem sannleika sem ekki má véfengja. Kynjagleraugu kynjafræðinar verða skildueign. Og þaðan kemur hið heilaga orð. Efasemdamenn og þeir sem spyrja of mikið verða úthrópaðir sem hriðjuverkamenn.

  Frá Ráðherranefndinni.

  “Eftir hryðjuverkaárásirnar þann 22. júlí hefur fjöldi rannsóknarstofnana hrint í framkvæmd áætlunum um að safna saman upplýsingum um hægri öfgahópa og útlendingahatur. Einnig er unnið að rannsóknum á ógn og ofbeldi íslamista. Þrátt fyrir það er ekki í gangi nein rannsóknarvinna sem miðar að því að rannsaka andfemínisma eða andfemínsma sem hluta af annari öfgahugmyndafræði. Við leggjum til að Norræna Ráðherranefndin og norrænar ríkisstjórnir setji af stað slíka vinnu.”

  Semsagt andfeminismi skilgreindur sem öfga, haturs, og já pæliði í því hriðjuverkaógn.

  “Það er Velferðarráðherrann okkar, Guðbjartur Hannesson, sem situr fyrir Íslands hönd í Ráðherranefndinni en í skýrslunni eru þrír íslenskir forréttindafemínistar nefndir til sögunnar. Þær Gyða Margrét Pétursdóttir, Árdís Ingvarsdóttir og Ásta Jóhannsdóttir en Ásta skrifar einmitt lítinn kafla um Gillz málið og segir m.a. að fjömiðlar virðist vera að hvítþvo hann (e. cleaning him up) og að í gangi sé áætlun (væntanlega leynileg) um að koma honum aftur í sviðsljósið (e. Almost like a multi – small step plan is being followed preparing his return).”

  Annað sem mér dettur í hug í framhaldi af Gils,er að margir feministar ganga fyrir þeirri trú að félagsmótun sé það mikill partur af “sjálfinu” (gott uppeldi á ekki séns)Að fólk í samfélaginu sem ekki tileinkar sér “réttmótandi” hegðun (þá er ekki verið að ræða lögbrot) samkv. fræðunum má eiga skilið algert einelti og úthrópanir og mönnum er gert upp hatur á konum fyrir misgáfuleg ummmæli sem oft eru slitin úr samhengi. Ef við skilgreinum einelti sem m.a. andlegt ofbeldi sem beinist frá hóp fólks yfir á einn einstakling Þá fellur svona hegðun forréttindafeminista undir slíkt.

  Ráðherranefndin leggur m.a til að

  “Til að auka jafnrétti og minnka mismunun þarf að breyta karlmennskuímyndum”

  Karlmenn og þeirra sýn á heiminn er semsagt óæskileg fyrir okkar samfélag og stendur nú í vegi fyrir jafnrétti.

  Þetta stangast á við minn raunvöruleika þar sem allir sem ég þekki amk. fynnst jafnrétti kynjana vera sjálfsagt mál og varla til umræðu lengur. (en ég er bara karl sem skil ekki eigin forréttindastöðu með skoðanir sem sprotnar eru upp af einlægum vilja mínum til að viðhalda forréttindastöðu kyns míns yfir konum meðvitað eða ómeðvitað)

  Þetta stöðuga ofbeldi leiðir síðan til að nánast enginn þorir að fara á móti pólitiskum rétttrúnaði og kennivaldi sem þessar “mæður Íslands” boða.

  Get nefnt fleira, en bendi á heimildasafn um forréttindafeminisma, (ekki venjulegan feminisma eða jafnréttissinna)
  http://forrettindafeminismi.com/

  Skoðanir kyndilbera andfeminisma, Evu Hauks eru oft af sama meiði.
  http://blog.pressan.is/evahauks/

  Þessar skoðanir vilja forréttindafeministar BANNA og skilgreina sem hriðjuverkaógn.

  Báðar síðurnar eru með opin kommentakerfi fyrir gagnrýni. En þeim er nánast aldrei svarað málefnalega.

  Vinsamlega kynnið ykkur skrif þeirra á meðan það er enn löglegt.

  Ps.
  þetta er eingöngu sett fram sem mín upplifun og ekki ætlað til að hefja einhverjar samræður hér. (kanski er ég á villigötum útiloka ekki neitt ég les báðar hliðar málsins).

  Hægt er að skoða og ræða þessa hlið nútíma forréttindafeminista út frá áðurnefndum síðum sem bjóða upp á þessa sýn, og vilja, og biðja um rökræður um hlutina þar sem gagnrýnin er sett fram.

 10. Elfa Jóns

  Ég sé á DV kosningaprófinu að Ástu, meintum femínista, finnst fullu jafnrétti náð á Íslandi. Það er afar óvenjuleg skoðun hjá femínista verð ég að segja.

  Það er eiginlega skoðun þeirra sem ekki eru femínistar.

 11. Vallgeir

  Vel skrifað Ásta. Alltaf gott þegar konur og þá sérstaklega feminista konur sem aðhyllast ekki sömu forréttindastefnu og þeir/þær hávaðasömustu þora að tjá sig. Guð veit að það er varla hægt sem karlmaður , enda er maður málaður sem karlremba, stuðningsmaður nauðgana eða annað eins ef maður hættir sér inn á þann vígvöll…

 12. Tóti

  Þvílíkt bull hjá Kára.

  Konur hafa sig til já, en þær eru alveg eins að gera það til að líta vel út í augum kvenna eins og karla eða bara fyrir sig sjálfar. Að nefna fataval og stíl sem einhverskonar réttindi er annars svo mikil heimska að það er varla svaravert.

  Að mála það óréttlæti að mæðrum er nær undantekningalaust dæmt forræði yfir börnum sem samsæri feðraveldisins gegn konum er líka ótrúlega vitlaust því samkvæmt því er það konum fyrir bestu að karlar fái alltaf forræðið, eins og tíðkast í miðausturlöndum (ef konan lifir af skilnað frá eiginmanni).

  Aftur er ýjað að samsæri með orðunum “allar „kvennastéttir“ eru kerfisbundið lægra launaðar en „karlaséttir“.” Hvaða kerfi er þetta og hverjir standa að baki því, hverjir skipuleggja það og framfylgja því? Ég held að ástæðan sé miklu frekar sú að konur eru ekki með sömu pressuna á sér frá makanum til að vera skaffari, það er samfélagslega samþykkt skilnaðarsök ef karlinn skaffar ekki nóg og þegar konur velja sér maka taka þær tekjur eða auð karla rækilega með inn í myndina.

Leave a Reply