Monthly Archives: February 2014

Sögunni er ekki eytt svona auðveldlega

Það hefur verið nokkuð áhugavert að fylgjast með ríkisstjórninni ræða um samningaviðræður Íslands við Evrópusambandið undanfarna daga. Sigmundur Davíð sakaði Samfylkinguna um að beita mælskubrögðum í anda Morfís í ræðu á Alþingi nýlega sem vakti upp hlátur nokkurra þingmanna. Vigdís Hauksdóttir hélt til að mynda því fram að Malta væri ekki sjálfstætt ríki. Það sem vakti mestu athygli var þó kannski sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn fjarlægði loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB á heimasíðu sjálfstæðisflokksins. Þetta minnti óþægilega mikið á svipað atvik sem átti sér stað í júní á síðasta ári. Það  varð að nokkuð stórri frétt þegar loforð um aukna vernd fyrir uppljóstrara hvarf af einni kosningasíðu Barrack Obama Bandaríkjaforseta. Barrack Obama og Sjálfstæðisflokkurinn virðast hafa þá hugmynd að þeir geti breytt sögunni með því að eyða loforðum af kosingasíðum sínum. Það væri hægðarleikur að kalla þetta „ritskoðun á sögunni“ rétt eins og í skáldsögum á borð við 1984 en þökk sé internetinu er slíkt ekki hægt. Þetta er afritað víðsvegar um netið og fólk er ekkert að fara að gleyma slíkum kosningasvikum auðveldlega.

Óháð allri umræðu um inngöngu Íslands í Evrópusambandið gæti þetta haft alvarlegar afleiðingar fyrir alþjóðasamskipti Íslands. Hvernig lítur það út þegar við reynum að semja við önnur lönd eða önnur alþjóðasamtök ef að Ísland getur verið líklegt til að hætta skyndilega við í miðju samningaferli? Það er ekki of stórt stökk að álykta að það verði litið á Ísland með ákveðinni tortryggni þegar við reynum að fara í alþjóðasamninga aftur, hvað þá samninga sem krefjast þess að Ísland eða erlendir aðilar eyði tíma og fjármagni í að gera þá að veruleika. Svo það sé alveg á hreinu hef ég lengi haft mínar efasemdir um Evrópusambandið en það er þegar búið að ausa milljöðrum í verkefnið og það væri fáránlegt að henda því fjármagni í ruslið án þess að fá fullunninn samning í hendurnar svo að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun með eða á móti honum.