Monthly Archives: January 2014

Höfundarréttur og þrívíddarprentun

Umtalsverður misskilningur virðist ríkja um höfundarréttarstefnu Pírata, en þegar Píratar kalla eftir endurskoðun á höfundarrétti, þá óska þeir eftir styttum dreifirétti —og frjálsri dreifingu á efni, sé dreifingin ekki í ágóðaskyni. Það eru ekki mörg samfélög sem hafa dafnað þar sem er í lagi að stela og Píratar vilja alls ekki stuðla að slíku.

Þegar Píratar tala um endurskoðun á höfundarrétt er tilhneiging hjá mörgum að bregðast nokkuð harkalega við og segja gjarnan “finnst þér þá bara í lagi að stela?”. Það eru ekki mörg samfélög sem hafa dafnað þar sem er í lagi að stela og ekki vilja Píratar stuðla að slíku. Svo það sé alveg hreint og tært þá er stefna Pírata í höfundarréttarmálum svohljóðandi:

Með tilvísun til eftirfarandi grunngilda Pírata

1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.

2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.

4.3 Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.

5.1 Takmörkun á frelsi fólks til að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.

og með hliðsjón af norsku skýrslunni; ítarlegri rannsókn á áhrifum stafrænnar væðingar á tónlistar iðnaðinnum í Noregi frá 1999 til 2009 – http://www.scribd.com/doc/37406039/Thesis-Bjerkoe-Sorbo
og Hargrave review, skýrslu sem breska ríkisstjórnin lét taka saman http://www.ipo.gov.uk/ipreview-finalreport.pdf

álykta Píratar að eftirfarandi breytingar á höfundarréttarmálum sé nauðsynlegar:

Endurskoðun á sæmdarrétti.
Frjáls dreifing á efni sem er ekki í ágóðaskyni.
20 ár á efni sem er í ágóðaskyni.
Skráning eftir 5 ár til að nýta 20 ára rétt í ágoðaskyni að fullu.
Betri skilgreining á sanngjarnri notkun efnis.
Leyfa aflæsingu á afritunarvörn. Greinilegt skal vera fyrir kaupanda að vara sé læst með afritunarvörn og tálmanir á notkun fyrir löglega kaupendur afnumdar
Ríkisvaldið skuli ekki hafa höfundarrétt á sínu efni.

Höfundarréttur hefur ekki fylgt þeirri tækniþróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár og hefur það haft mjög heftandi áhrif á þróun internetsins sérstaklega. Stóra áskorunin sem internetið mun þurfa að glíma við árið 2014 er þrívíddarprentun. 3D prentun er ekki lengur bundin við litla og krúttlega plasthluti (sjá dæmi fyrir neðan, meðal annars bíla, hljóðfæri, hús, líkamsparta og jafnvel hluti í herþotur). Hefðbundin höfundarréttur gerði engan veginn ráð fyrir því að hægt væri að prenta nýjustu hönnun sem var að koma í búðirnar. Þessi tækni bíður upp á margvíslega möguleika hvað varðar framleiðslu á vörum. Því væri synd að leyfa einhverju á borð við úrelta mynd af höfundarrétt að hefta þá þróun.

Þrívíddarprentun bíður upp á það stórar breytingar í framleiðslu á vörum að horfa verður aftur til iðnbyltingarinnar til þess að finna jafn áhrifamiklar breytingar í framleiðslu. Það er rétt hægt að ímynda sér hvað það munar miklu að þurfa ekki lengur að flytja heilu vörurnar milli landa og þess í stað flytja aðeins hráefnin sem notuð eru í vöruna og svo skjal í tölvu um hvernig skal prenta vöruna út. Sparnaðurinn sem þessi tækni mun skila sér er rosalegur. Minni þörf verður fyrir flutningi á vörum milli landa sem mun spara gríðarlega mikla orku.

Ég bíð því spenntur eftir að sjá hvernig þróunin í þessari tækni verður og hvað verður svo Spotify eða Amazon þrívíddar prentunar.

3D prentaður bíll

http://www.popularmechanics.com/cars/news/industry/urbee-2-the-3d-printed-car-that-will-drive-across-the-country-16119485

3D prentaður gítar

http://cubify.com/products/guitars/index.aspx?tb_shop_guitars

3D prentað hús

http://www.ibtimes.com/3d-printers-build-entire-houses-contour-craftings-aims-print-2500-square-foot-homes-20-hours-video

3D prentaður kjálki

http://www.3dprinterworld.com/article/first-3d-printed-titanium-jaw-implant-sucessful”

3D prentaðir herþotu partar

http://rt.com/news/uk-raf-planes-3d-229/

Höfundarréttur og þungarokk

Ég hef síðan að ég var unglingur verið mikill þungarokksaðdáandi og get kallað mig sannan málmhaus. Það hefur verið mjög spennandi að fylgjast með þróun tónlistarinnar víðsvegar um heim. Þetta er tónlist sem heyrist ekki oft í útvarpinu og finnst sumum hún vera hin mestu óhljóð. Ég uppgötvaði þessa tegund tónlistar á svipuðum tíma og umræðan um ólöglegt niðurhal fór af stað. Ég rakst á Metallica rétt áður en þeir fóru í mál við Napster. Á þeim tíma var Napster aðalstaðurinn til þess að ná sér í tónlist á netinu. Ég gat skilið hlið listamannsins, og hefði glaður borgað smá pening fyrir lögin sem ég var að ná mér í en gallinn var að á þessum tíma voru engar slíkar leiðir til staðar. Í plötubúðum var takmarkað úrval af uppáhalds tónlistinni minni. Ég þurfti að panta sérstaklega og stundum var það ekki einu sinni hægt.

Aðstæður eru hins vegar allt aðrar í dag. Ég er með aðgang að Spotify og get pantað mér plötur á Amazon. Ég get meira að segja styrkt hljómsveitir beint með að kaupa lög í mp3 formi, boli og sérstakar útgáfur af plötunni beint frá hljómsveitinni. Allt án hefðbundinna milliliða sem stjórna hvaða vörum ég hef úr að velja. Ég er búinn að kynnast hljómsveitum frá Færeyjum, Brasilíu, Ísrael, Indlandi, Japan og Kína svo nokkur dæmi séu nefnd. Það er nóg af listamönnum sem hafa grætt á því að ég heyrði tónlistina þeirra frítt á netinu. Ég er þó nokkuð lánsamur miðað við marga þungarokksaðdáendur erlendis. Aðdáendur í Iran, Saudi Arabíu og fleiri einræðisríkjum fá einungis aðgang að þungarokki í gegnum ólöglegt niðurhal og smygli á plötum.

Höfundarréttur er í dag ein helsta ástæðan fyrir því að það virðist vera í lagi að brjóta á borgararéttindum fólks í hinum vestræna heimi. Ritskoðun á netinu virðist aðalega eiga sér stað gegn síðum á borð við thepiratebay.org. Það fer ekki á milli mála að ólögleg dreifing á sér stað í gegnum Pirate Bay en þar er svo sannarlega líka heilmikið af fullkomlega löglegu efni. Maður verður því að velta því fyrir sér hvort það sé í lagi að ritskoða allar þær síður þar sem ólöglegt niðurhal á sér stað. En þá er einnig hægt að færa rök fyrir því að það ætti að ritskoða Google og Dropbox enda bjóða þau fyrirtæki upp á dreifingu á höfundarréttarvörðu efni. Ekki þarf annað en að slá inn orðið torrent með nafn á kvikmynd hjá Google til þess að finna síðu sem bíður upp á ólöglega dreifingu höfundarvarins efnis.

Afleiðingin er sú að hlutleysi internetsins eins og við þekkjum það er í hættu. Stór hluti af umferðinni á netinu í dag er orðin svokölluð ,,peer to peer” umferð, sem er ein aðal leið fólks til að deila skrám sín á milli. Þar með talið er höfundarréttar varið efni. Umferðin í gegnum slíkar þjónustur er það mikil að sumir vilja leyfa þjónustuaðilum að ákveða hversu mikil bandvídd má fara í t.d. Pirate Bay eða Youtube. Ef hlutleysi netsins verður ekki virt myndi það gera að verkum að Síminn, Vodafone, 365 og fleiri ákveða fyrir þig í hvað þú mátt nota bandvíddina hvort það sé VOD eða Youtube.

Það sem þetta þýðir er að internetið mun líkjast útvarpi og sjónvarpi töluvert meira. Öll sú nýsköpun sem a sér stað á internetinu hverfur hægt og rólega og í staðinn munu fyrirtæki geta keypt sér meiri umferð á síðurnar sínar með því að bjóða upp á meiri bandvídd. Ég hef ekki séð né heyrt mikið þungarokki í útvarpi og sjónvarpi undanfarið og vil þess vegna fá að njóta þess að hafa þann fjölbreytileika sem internetið bíður upp á.