Mikilvægi Pírata

Þegar rætt er um málefni Pírata þá virðist oft vera skortur á skilningi á því af hverju við teljum Internetið svona mikilvægt. Oft beinist gagnrýnin að því að glíma verður við mikilvægari málefni sem eiga sér stað utan internetsins eins og t.d. skuldamál, gjaldeyrishöft og fleira. Pírötum er ánægja að segja fra því að þingmönnum Pírata hefur tekist að koma fyrsta kosningaloforði okkar í gegnum þingið – og það tengdist internetinu lítið sem ekkert. Lög um frestun á nauðungarsölu heimila hafa verið samþykkt, og það er stórsigur fyrir þá sem hafa orðið hvað verst fyrir afleiðingum hrunsins 2008. Píratar eru meira en netnördar, við erum flokkur með heildstæða og mannúðlega hugmyndafræði, og málefni eins og skuldamálið og fleiri mál frá þingmönnum okkar sýna að flokkurinn hefur sterkan grunn og er kominn til að vera.

Svo virðist sem að almennt séum við Íslendingar einstaklega duglegir að hunsa málefni sem hafa ekki snert okkur með beinum hætti, þar til eitthvað kemur upp á, og þá verða allir vitlausir og heimta skýringar. “Af hverju var ekki gert neitt í þessu máli fyrr?”. Gott dæmi um þetta er Vodafone lekinn sem kom upp fyrr i mánuðinum. Persónulegar upplýsingar fólks voru allt í einu opinberar og hver sem er gat sótt sér sms skilaboð og símanúmer fólks þar á meðal númer sem ég hætti að nota fyrir 3 árum síðan ásamt númerum fjölda fólk sem ég þekki.

Vodafone lekinn varð sem betur fer til þess að nú eru hugmyndir eins og gagnageymd, dulkóðun og öryggi persónuupplýsinga varð hluti af daglegri umræðu íslendinga. Öll þessi málefni komu fram í kosningabaráttu Pírata en fengu þó misgóð viðbrögð hjá almenningi. Það er ákveðið áhyggjuefni hvað það þarf oft svakalega öfgakennd dæmi til þess að almenningur bregðist við og krefjist réttar síns.

Ef tekin eru nokkur stefnumál Pírata sem dæmi þá er greinilegt að nokkrir mjög ljótir atburðir þurfa að eiga sér stað til að fólk átti sig á alvarleika þess sem Píratar berjast fyrir. Það þyrfti greinilega stórtækt ofbeldisfullt uppgjör í undirheimunum þar sem saklausir borgarar yrðu fórnarlömb til þess að almenningur áttaði sig á því að stríðið gegn fíkniefnum er tapað. Það þyrfti algjört hrun menntakerfisins til þess að almenningur áttaði sig á því að það þarf að gera róttæka endurskoðun á því hvernig menntun á Íslandi er háttað. Það þyrfti að senda nokkra á bakvið lás og slá fyrir helgispjöll til þess að almenningur áttaði sig á mikilvægi tjáningafrelsis. Það þarf líka greinilega annað banka- eða gjaldreyis-hrun til að almenningur átti sig á brenglaðri peningastefnu landsins. Píratar vilja grípa inn í þessi mál áður en þau magnast og verða að enn stærri vandamálum.

Ég vil ekki bíða slíkra hörmunga því nú þegar er ljóst hverju við þurfum að breyta. Ég vona, kæri lesandi, að þú getir verið sammála. Veldu Pírata í sveitarstjórnarkosningunum nú i vor. Við lofum að kjósendur munu ekki sjá eftir því.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *