Ég elska netið

Í kosningabaráttu Pírata varð til myndband sem fékk mig til að hlæja meira en nokkuð annað kosningatengt myndband hefur nokkurn tíman gert. Þórgnýr Thoroddsen birtist þar með úfið hár og tár í augum, hljóðlátur og með nokkur spjöld í höndunum. Drungaleg tónlist heyrðist og hann lét hvert spjaldið á fætur öðru detta á gólfið. Á spjöldunum stóð „til eru öfl sem vilja fragga netið/ég elska netið/ Píratar/ XÞ”. Þetta kann að virka sem furðulegur talsmáti fyrir suma. En þetta myndband talar beint til þeirra sem lifa og hrærast á internetinu, en það geri ég einmitt svo sannarlega.

Internetið er í dag orðið ein algengasta aðferð landsmanna til að eiga samskipti sín á milli. Það er varla þáttur til í lífi okkar sem internetið snertir ekki. En svo virðist sem að margir hverjir skilji ekki internetið. Það er kannski ósköp eðlilegt miðað við hversu risastórt fyrirbæri það er orðið. Fólk reynir að benda á líkingar á borð við að tilkoma internetsins sé álíka mikil bylting fyrir samfélagið eins og tilkoma ritmálsins eða tilkoma prentunar. Ég held að netið sé hins vegar stærri og mikilvægari uppfinning en ritmálið og prentun samanlagt.

Ég fékk fyrst að kynnast internetinu þegar fjölskyldan mín fékk fyrstu tölvuna árið 1995. Það var svakalega nýtískulegt að sjá texta og jafnvel ljósmyndir hlaðast inn á heimili okkar hægt og rólega í gegnum háværa 33.6 kbit/s módemið okkar. Síðan þá hefur netið gjörbreytt heiminum. Við sendum öll tölvupóst í staðinn fyrir bréfpóst. Tónlistariðnaðurinn er varla þekkjanlegur í samanburð við það þegar risastór plötufyrirtæki voru allsráðandi og við höfum aldrei haft jafn greiðan aðgang að fjölbreyttri og góðri tónlist. Það sama má í raun segja um kvikmyndaiðnaðinn og brátt um bókaiðnaðinn.

Framtíð netsins

Nú er ég ekki sá eini sem heldur því fram að við séum rétt búin að sjá toppinn af hinum risastóra ísjaka sem internetið á eftir að verða í náinni framtíð. Ég finn mig þar af leiðandi knúinn til þess að benda á nokkra hluti sem eiga eftir að gjörbreytast, rétt eins og skemmtanaiðnaðurinn, á svo svakalegan hátt að þessi fyrirbæri verða gjörsamlega óþekkjanleg eftir nokkur ár.

Ég hef oft talað um það að menntunarstofnanir eins og við þekkjum þær séu bráðum að deyja út. Hlutir eins og bekkir, grunnskólar, framhaldsskólar og jafnvel háskólar verða varla til í orðaforða okkar. Þetta er þegar byrjað með tilkomu vendikennslu, net- og spjaldtölvuvæðingu skólanna og svokallaðra Massive Open Online Courses.

Oft hef ég tekið þátt í rökræðum um það hvaða gjaldeyri sé sniðugast að nota; krónuna, evru eða kanadadollarann. Með tilkomu rafræna gjaldmiðla á borð við Bitcoin og Litecoin verður allt tal um hefbundna miðstýrða gjaldmiðla tilgangslaus enda munu rafrænir gjaldmiðlar bregðast við þörfum fólks í rauntíma í stað svokallaðra sérfræðinga seðlabanka.

Ég gat varla hamið mig af gleði þegar ég einn dag síðasta vetur rataði inn á síðu um Pírata og hvernig þeir ætluðu að vinna út frá rafrænu lýðræði. Rafrænt lýðræði mun breyta því hvernig stjórnmálamenn vinna og bregðast við kröfum fólks. Í stað þess að fólk fái einungis að hafa áhrif í gegnum kosningar á fjögurra ára fresti og stökum undirskrifasöfnunum mun netið tengja fólk beint inn í stjórnsýsluna.

Það er mikilvægt að skilja netið

Við erum þegar farin að sjá byrjunarstigin af þessum breytingum í dag, spurningin er bara hvenær við munum sjá Youtube og Twitter þessara fyrirbæra. Það veldur mér verulegum áhyggjum að fólk sem skilur ekki netið skuli geta búið til og fylgt eftir lögum um það. Ég var t.d. á málþingi um daginn um dómsmál gegn Pirate Bay, þar sem ég hlustaði á mjög þurran og leiðinlegan fyrirlestur og mér leið eins og ég væri allt í einu kominn inn í dómssal. Talað var um hversu mikilvægt það væri að stöðva brot á höfundarréttarlögum líkt og eru stunduð á Pirate Bay. Ég spurði lögfræðinginn hvort honum þætti ekki óeðlilegt að bæði dómari og saksóknari í þessu máli hefðu verið tengdir hópum sem vinna að því að sporna gegn brotum á höfundarréttarlögum. Spurningunni var illa svarað og svo virtist sem að hann skildi mig ekki.

Mér er illa við tal um að setja lögbann á heimasíður og að loka þeim. Pirate Bay málið ætti að vera búið að sýna það að slíkt er ekki hægt. Ég er nú ekki jafn mikill nörd og margir Píratar en ég kemst auðveldlega framhjá slíkum lokunum, ég ferðast bara á netinu til Bandaríkjanna þar sem síðurnar eru allavega eins og stendur ennþá opnar. Hvort sem fólki líkar það betur eða verr þá eru síður á borð við Pirate Bay og deildu.net samskiptatól. Ef við ætlum að setja lögbann á allar síður þar sem hægt er að deila höfundarréttarvörðu efni sín á milli þá ætla ég að biðja SMÁÍS að setja lögbann á Google, enda er engin síða í heiminum sem hjálpar fólki jafn vel að stunda slík brot.

Ef þú skilur ekki netið, hættu þá að fragga netið!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *