Hver tilbiður í raun Mammon?

Í sumar skapaðist þó nokkur umræða um könnun sem WIN-Gallup gerði í 57 löndum þar sem Ísland er í níunda sæti yfir trúlausustu þjóðir heims. Viðbrögð Agnesar M. Sigurðardóttur Biskups við könnuninni í viðtali við RÚV voru svohljóðandi:

„Kannski gleymum við Guði, við förum að tilbiðja Mammon, það kann að vera að það sé ein skýringin. Og svo er hin skýringin sú að fátæktin er ekki sjálfvalin. Hún er vegna aðstæðna í þessum löndum þar sem þetta fólk býr. Og þá leitar það að betra lífi og finnur betra líf í trúnni.“.

Biskup vísar hér til þess að Mammon er goðleg birtingarmynd auðs og græðgi í Nýja Testamentinu. Svo virðist sem biskup telji að því trúlausari sem þú ert, því ríkari og gráðugri ert þú. Flestir trúleysingjar sem ég rekst á eru reyndar bláfátækir námsmenn með takmarkaðan metnað í að verða auðkýfingar. Í ljósi birtingar fjárlagafrumvarps núverandi ríkisstjórnar í fyrradag fór ég að velta fyrir mér ýmsu í þessu samhengi.

Fjárlagafrumvarp næsta árs var birt klukkan 16:00 í fyrradag. Síðan þá hef ég verið að glugga í það við hvert tækifæri sem mér gefst, þ.e.a.s. þegar ég er ekki að læra fyrir skólann. Það er ýmislegt í þessu frumvarpi sem er neikvætt og ég gæti skrifað um það út í hið óendanlega, en í þessum pistli ætla ég að einbeita mér sérstaklega að lið sem nefnist ‚Kirkjumál‘ og má finna á blaðsíðu 361.

Ólíkt því sem birt hefur verið í fjölmiðlum, svo sem á vefmiðli Morgunblaðsins, þá eru framlög til þjóðkirkjunnar ekki takmörkuð við 1.474 milljónir króna, en í frumvarpinu er framlögum til þjóðkirkjunnar skipt niður í eftirfarandi flokka; þjóðkirkju, kirkjumálasjóð, kristnisjóð, kirkjugarða, sóknargjöld og jöfnunarsjóð sókna. Ef gert er ráð fyrir því að allir þessir liðir fari í að fjármagna starfsemi þjóðkirkjunnar og umsýslu eigna hennar, þá mun sú starfsemi kosta ríkiskassann 5.182,9 milljónir króna næsta árið.

Laun biskups árið 2012 voru 1,109 milljónir króna samkvæmt tekjublaði Frjálsar verslunar. Grunnlaun presta eru samkvæmt kjararáði 473.551 krónur. Það má leiða hugann að því hvort kirkjan þyrfti að fara í söfnunarátök fyrir tækjakaupum Landspítalans ef þessar sláandi tölur yrðu lækkaðar. Svo má velta því fyrir sér, kæri biskup, hver er það nú sem raunverulega tilbiður Mammon?

Þjóðkirkjan fær þessi auknu framlög þrátt fyrir að hlutfall Íslendinga sem eru skráðir meðlimir þjóðkirkjunnar hafi lækkað stöðugt undanfarin ár og sífellt færri nýta sér þjónustu kirkjunnar. Þó undantekningar séu vissulega til staðar sækja fæstir Íslendingar kirkju nema þegar um skírnir, brúðkaup eða jarðarfarir er að ræða.

Hinn almenni borgari getur sem betur fer gert eitthvað í þessum málum. Skrái fólk sig úr þjóðkirkjunni fara um 9.000 kr. á mann á ári beint í ríkiskassann. Þar með eflir það fólk mikilvægari verkefni ríksins. Hins vegar greiðir hver Íslendingur þjóðkirkjunni samt sem áður um 11.500 kr. á næsta ári algjörlega óháð sóknargjöldum. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gerði athugasemd við það að íslenska ríkið „setji kirkjuskatt á borgara, óháð því hvort þeir séu meðlimir í trúfélögum eða ekki.“.

Árið er 2013 og það er löngu kominn tími til þess að við setjum heilbrigði og menntun hærra á forgangslista en trúarstofnun sem einungis hluti af þjóðinni tilheyrir. Hvernig getur það mögulega verið réttlætanlegt að það þurfi að hækka framlög til þjóðkirkjunnar til að leiðrétta niðurskurð fyrri ára þegar heilbrigðis- og menntunarkerfin horfa upp á enn frekari niðurskurð?

Sjáið sóma ykkar, frú biskup og aðrir starfsmenn þjóðkirkjunnar, í að afþakka þessa hækkun. Látum peningana renna þangað sem þeirra er raunverulega þörf.

4 thoughts on “Hver tilbiður í raun Mammon?

 1. Hjalti Rúnar

  Góð grein.

  Reyndar eru grunnlaun presta eitthvað hærri. Þú hefur líklega litið á gömlu töfluna hérna, en hún er frá 2010. Í þeirri töflu sést reyndar að prestar eru í flokki 124, og samkvæmt nýju töflunni (hún er á sömu síðu, merkt nr. 502) eru laun presta, flokkur 124, 530 þúsund. Ofan á það bætast síðan “einingar”. Hver eining er ~6.900 krónur og samkvæmt eldri töflunni þarna eru prestar með 4-13 einingar, þannig að grunnlaunin eru á bilinu 558.000-621.000.

  Svo fá þeir auðvitað líka borgað sérstaklega fyrir að skíra, gifta, ferma og jarða.

  Reply
  1. Arnaldur Sigurðarson Post author

   Ég get vel trúað að þetta sé rétt hjá þér, ég fann bara ekkert nýrra en þetta. Annars vissi ég vel að þeir fá borgað aukalega fyrir ýmsar athafnir sem þeir standa fyrir.

   Reply
 2. Guðmundur Bernard Jóhannsson

  Góð grein sýnist mér að öllu leiti nema þetta. Laun biskups árið 2012 voru 1,109 milljónir það gera 92.5miljónir á mánuði fyrir biskup Ísland. Það meikar ekki sens að biskup sé með þessi mánaðarlaun og það sé ekkert um það rætt. Á þetta að vera sá peningur sem fer í biskupsembættið eða hvað?

  Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *