Breyting á lyfjakostnaði

Breyting verður gerð á niðurgreiðslum ríkisins á lyfjum til einstaklinga þann fjórða maí næstkomandi. Þetta nýja fyrirkomulag mun reynast hagstætt fyrir marga sem þegar greiða háar fjárhæðir fyrir lyf. Þetta mun aftur á móti auka verulega kostnað hjá þeim sem borga minna fyrir lyf og mun þá fyrst og fremst byrjunarkostnaður aukast. Þetta hefur í för með sér að kostnaður lyfja við kvillum á borð við gláku, sykursýki og krabbameini eykst til muna. Mikilvægt er að fólk þurfi ekki að borga of mikið fyrir þessi lyf og veldur þessi kostnaðaraukning/niðurskurður þvi mörgum sjúklingum eðlilega áhyggjum.

Síðast þegar ég vissi var langt í frá ódýrt að fá krabbamein. Ég er meðlimur í Víkingafélaginu Einherjar og einn félagi okkar féll frá nýlega eftir langa, erfiða og kostnaðarsama meðferð við sjúkdómnum. Ekki eru allir sem lenda í slíkum veikindum það heppnir að hafa svo marga sem eru til í að styrkja þá og styðja í gegnum veikindin. Hvernig ætli öryrkjum og öldruðum gangi að bera aukinn lyfjakostnað? Fyrir þá sem minnst mega sín getur greiðsla upp á fimmþúsund krónur aukalega á mánuði verið munurinn á því að komast í gegnum mánuðinn og því að byrja að safna upp skuldum.

Heilbrigðiskerfið hefur átt undir högg að sækja vegna niðurskurðar undanfarin ár og ekki verður þetta til þess að bæta stöðu þess. Þessi niðurskurður gæti aukið enn frekar á kostnað samfélagsins eftir því sem sjúklingarnir hrannast upp. Aukinn kostnaður við að leita til læknis getur verið fráhrindandi fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna. Þessir einstaklingar neyðast því oftar en ekki til að harka af sér alvarleg veikindi, yfirleitt með afar slæmum afleiðingum.

Talað er um að niðurskurðaraðgerðir ríksins séu komnar langt yfir þolmörk og að heilbrigðiskerfið sé í molum. Mjög brýnt er að snúa þessari þróun við. Hún er orðin hættuleg og gæti kostað okkur margfalt meira en það sem þegar hefur sparast í heilbrigðiskerfinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *