Hvað vilja vandræðagemsar upp á dekk?

Grein  sem birtist í Skarpi 24. apríl 2013

Ég heyri oft að við brottfluttir Húsvíkingar séum uppfull af átthagarómantík og viljum varðveita Húsavík nákvæmlega eins og hún var áður og gleymum því að fólk sem hér býr þurfi að hafa atvinnu og eiga í sig og á.  Kannski er eitthvað til í þessu.  Að ýmsu leyti vildi ég óska að tíminn stæði í stað; sá tími þegar við Dögg vinkona lékum okkur í mömmó garðinum bak við Sæberg og skimuðum út á flóann eftir Kolbeinsey og Júlíusi Hafstein því ‘eiginmenn okkar og barnsfeður’ voru á landleið. Ég geri mér samt fyllilega grein fyrir því að Húsvíkingar geta ekki lifað á æskuminningum einum saman.

Ég vona að unga fólkið á Húsavík geti nú og í framtíðinni látið drauma sína rætast heima. Sjálf flutti ég að heiman fyrir tíu árum af því að ég gat ekki fundið draumum mínum farveg hér á Húsavík. Ég er samt enn sama landsbyggðartúttan, enda bý ég á landsbyggðinni. Ég er líka enn sama Allan. Ennþá svolítið óþæg og óstíýrilát og geri allskonar mistök og vitleysur. Ég er hvatvís og segi hlutina án þess að ritskoða þá fyrst og á til að móðga fólk alveg óvart. Ég trúi því hins vegar að það geti falist mikill lærdómur í feilsporum og ef við lærum af reynslunni getum við orðið betri manneskjur fyrir vikið. Ég ætla ekkert að tala undir rós heldur segja það bara beint út: Ég á erindi á þing með mina reynslu og er sannfærð um mikilvægi þess að í þinghópi Pírata verði landsbyggarfólk.

Hvað ætla Píratar að gera fyrir landsbyggðina?

Það er eiginlega ekki hægt að svara þessari spurningu vegna þess að spurningin sjálf byggist á þeirri ranghugmynd að landsbyggðin þurfi á sérstakri aðstoð og sértækum aðgerðum að halda, svo hinar „dreifðu byggðir“ geti áfram haldist í byggð.

Málið er nefnilega að landsbyggðin þarf ekki á því að halda að peningum sé dælt frá Reykjavík til að niðurgreiða landsbyggðina, heldur þarf að hætta að ryksuga fé af landsbyggðinni til að auka fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu. Það er staðreynd að fólk eltir peningana. Þegar verðmæti sem verða til á landsbyggðinni eru flutt suður til að byggja stórar þjónustumiðstöðvar í Reykjavík, þá eltir fólkið. Fólksflótti af landsbyggðinni er því eðlileg afleiðing þess að fjármagnið stoppar ekki við þar sem þess er aflað.

Við þurfum líka að tala meira við unga fólkið af því það er unga fólkið sem kýs að fara. Hverjir eru draumar þess og framtíðarsýn? Er hægt að láta þá drauma rætast í heimabyggðinni? Við Píratar viljum að fólk geti leyft sér að dreyma og að það geti látið drauma sýna rætast þar sem því sýnist. Á sama tíma þarf að tryggja að fólk þurfi ekki að flytja búferlum til að eiga í sig og á og njóta þjónustu á borð við heilsugæslu, menntun o.fl.

Við Píratar trúum því að draumar geti ræst á landsbyggðinni. Við viljum hins vegar ekki lofa því að þetta og hitt verði gert, einfaldlega vegna þess að við viljum að fólkið ráði og geri hlutina sjálft. Það kann að kosta peninga, en við viljum frekar eyða peningum í að efla sjálfsákvörðunarrétt fólksins en fjarstýringu að sunnan.

Til hvers þurfum við landsbyggðarpírata?

Ein af helstu áherslum í grunnstefnu Pírata er hugmyndin um sjálfsákvörðunarrétt. Við viljum að fólk fái að taka meiri þátt í mótun ákvarðana sem snerta það. Píratar vilja af þessum sökum draga úr miðstýringu og auka upplýsingagjöf til almennings. Þessi stefna fellur mjög vel að þörfum landsbyggðarinnar því hún felur í sér að valdið til að taka ákvarðanir færist nær fólkinu sjálfu, þar sem áhrifin eiga að koma fram. Með öðrum orðum viljum við færa landsbyggðinni meiri sjálfstjórn. Og hér kemur að mikilvægi landsbyggðarpírata. Við sem búum eða höfum búið úti á landi höfum aðra innsýn í landsbyggðarmálin og skiljum að ef við ætlum að færa aukin völd á sveitastjórnarstigið þurfum við að vera meðvituð um að í minni samfélögum er meiri hætta á hagsmunaárekstrum. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að í litlum samfélögum safnast völdin oft á færri hendur og tengslin milli stjórnmála og atvinnureksturs eru oft sterkari. Fjölskyldutengsl hafa líka áhrif í litlum samfélögum og vinagreiðar geta haft mikið að segja. En hvað um þá sem ekki eru fæddir inn í ‘réttar’ fjölskyldur og eiga ekki valdamikla vini? Réttur þeirra til að hafa áhrif á samfélagið verður að vera jafn sterkur og annarra. Þess vegna bjóða Píratar fram. Við viljum efla áhrifamátt þeirra sem hafa fundið til vanmáttar, meðal annars með auknu gagnsæi og opnari umræðu. Þess vegna er ég í framboði.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *