Hvað vilja vandræðagemsar upp á dekk?

Grein  sem birtist í Skarpi 24. apríl 2013

Ég heyri oft að við brottfluttir Húsvíkingar séum uppfull af átthagarómantík og viljum varðveita Húsavík nákvæmlega eins og hún var áður og gleymum því að fólk sem hér býr þurfi að hafa atvinnu og eiga í sig og á.  Kannski er eitthvað til í þessu.  Að ýmsu leyti vildi ég óska að tíminn stæði í stað; sá tími þegar við Dögg vinkona lékum okkur í mömmó garðinum bak við Sæberg og skimuðum út á flóann eftir Kolbeinsey og Júlíusi Hafstein því ‘eiginmenn okkar og barnsfeður’ voru á landleið. Ég geri mér samt fyllilega grein fyrir því að Húsvíkingar geta ekki lifað á æskuminningum einum saman.

Ég vona að unga fólkið á Húsavík geti nú og í framtíðinni látið drauma sína rætast heima. Sjálf flutti ég að heiman fyrir tíu árum af því að ég gat ekki fundið draumum mínum farveg hér á Húsavík. Ég er samt enn sama landsbyggðartúttan, enda bý ég á landsbyggðinni. Ég er líka enn sama Allan. Ennþá svolítið óþæg og óstíýrilát og geri allskonar mistök og vitleysur. Ég er hvatvís og segi hlutina án þess að ritskoða þá fyrst og á til að móðga fólk alveg óvart. Ég trúi því hins vegar að það geti falist mikill lærdómur í feilsporum og ef við lærum af reynslunni getum við orðið betri manneskjur fyrir vikið. Ég ætla ekkert að tala undir rós heldur segja það bara beint út: Ég á erindi á þing með mina reynslu og er sannfærð um mikilvægi þess að í þinghópi Pírata verði landsbyggarfólk.

Hvað ætla Píratar að gera fyrir landsbyggðina?

Það er eiginlega ekki hægt að svara þessari spurningu vegna þess að spurningin sjálf byggist á þeirri ranghugmynd að landsbyggðin þurfi á sérstakri aðstoð og sértækum aðgerðum að halda, svo hinar „dreifðu byggðir“ geti áfram haldist í byggð.

Málið er nefnilega að landsbyggðin þarf ekki á því að halda að peningum sé dælt frá Reykjavík til að niðurgreiða landsbyggðina, heldur þarf að hætta að ryksuga fé af landsbyggðinni til að auka fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu. Það er staðreynd að fólk eltir peningana. Þegar verðmæti sem verða til á landsbyggðinni eru flutt suður til að byggja stórar þjónustumiðstöðvar í Reykjavík, þá eltir fólkið. Fólksflótti af landsbyggðinni er því eðlileg afleiðing þess að fjármagnið stoppar ekki við þar sem þess er aflað.

Við þurfum líka að tala meira við unga fólkið af því það er unga fólkið sem kýs að fara. Hverjir eru draumar þess og framtíðarsýn? Er hægt að láta þá drauma rætast í heimabyggðinni? Við Píratar viljum að fólk geti leyft sér að dreyma og að það geti látið drauma sýna rætast þar sem því sýnist. Á sama tíma þarf að tryggja að fólk þurfi ekki að flytja búferlum til að eiga í sig og á og njóta þjónustu á borð við heilsugæslu, menntun o.fl.

Við Píratar trúum því að draumar geti ræst á landsbyggðinni. Við viljum hins vegar ekki lofa því að þetta og hitt verði gert, einfaldlega vegna þess að við viljum að fólkið ráði og geri hlutina sjálft. Það kann að kosta peninga, en við viljum frekar eyða peningum í að efla sjálfsákvörðunarrétt fólksins en fjarstýringu að sunnan.

Til hvers þurfum við landsbyggðarpírata?

Ein af helstu áherslum í grunnstefnu Pírata er hugmyndin um sjálfsákvörðunarrétt. Við viljum að fólk fái að taka meiri þátt í mótun ákvarðana sem snerta það. Píratar vilja af þessum sökum draga úr miðstýringu og auka upplýsingagjöf til almennings. Þessi stefna fellur mjög vel að þörfum landsbyggðarinnar því hún felur í sér að valdið til að taka ákvarðanir færist nær fólkinu sjálfu, þar sem áhrifin eiga að koma fram. Með öðrum orðum viljum við færa landsbyggðinni meiri sjálfstjórn. Og hér kemur að mikilvægi landsbyggðarpírata. Við sem búum eða höfum búið úti á landi höfum aðra innsýn í landsbyggðarmálin og skiljum að ef við ætlum að færa aukin völd á sveitastjórnarstigið þurfum við að vera meðvituð um að í minni samfélögum er meiri hætta á hagsmunaárekstrum. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að í litlum samfélögum safnast völdin oft á færri hendur og tengslin milli stjórnmála og atvinnureksturs eru oft sterkari. Fjölskyldutengsl hafa líka áhrif í litlum samfélögum og vinagreiðar geta haft mikið að segja. En hvað um þá sem ekki eru fæddir inn í ‘réttar’ fjölskyldur og eiga ekki valdamikla vini? Réttur þeirra til að hafa áhrif á samfélagið verður að vera jafn sterkur og annarra. Þess vegna bjóða Píratar fram. Við viljum efla áhrifamátt þeirra sem hafa fundið til vanmáttar, meðal annars með auknu gagnsæi og opnari umræðu. Þess vegna er ég í framboði.

Um hina ósýnilegu vini Pírata

Ég er að reyna að haga mér kurteislega í þessari kosningabaráttu og fer ekki á vinnustaði nema fá sérstakt boð um slíkt. Menn segja að ég sé ekki nógu brútal að þessu leyti. Seinnipartinn í dag gerði ég undantekningu og hringdi á tiltekinn stað og bað um að fá að mæta. Því var vel tekið og mér boðið í kaffi. Hvergi hef ég fengið betri móttökur eða átt magnaðari fund. Kjósendum á svæðinu var mikið niðri fyrir og höfðu um margt að spyrja og vildu frá ýmsu segja. Það sem fram fór er hins vegar trúnaðarmál milli mín og gestgjafa minna.

Það er hins vegar ekkert trúnaðarmál að enginn annar frambjóðandi eða flokkur hefur séð ástæðu til að heimsækja þetta fólk. Það skil ég bara ekki. Frambjóðendur hafa farið á mis við mikið. Ekki endilega til að safna atkvæðum, enda held ég að við Píratar eigum hvert bein í þessu fólki, en heimsóknin var frábær í alla staði og það geislaði af mönnum þarna fyrir það eitt að einhver skyldi gefa sér tíma til að muna eftir þeim og láta sér velferð þeirra og rödd einhverju skipta.

Píratar eru mannréttindaflokkur. Mannréttindi spyrja ekki um stétt eða stöðu og eru ekki síst ætluð til að vernda  valdaminni, viðkvæmari og vanmáttugri einstaklinga samfélagsins.  Við Píratar viljum vernda og styrkja þessa einstaklinga með öllum ráðum. Við erum vinir fíkla, vændiskvenna, róna, refsifanga og annarra ósýnilegra borgara þessa lands. Og við erum stolt af þessum vinskap. Hann er okkur mikils virði. Við viljum hjálpa og styðja við fólk sem hefur lent undir í samfélaginu og við viljum líka læra af þessum einstaklingum því það felst oft mikill auður í fólki sem hefur stigið feilspor, brotið af sér, átt við veikindi að stríða og sérstaklega ef það nær að læra af mistökum sínum, og erfiðleikum.  Þess vegna er svo sorglegt að aðrir flokkar skuli ekki hafa sýnt áhuga á því að heimsækja fangelsið á Akureyri. 

Kosningabarátta er vinsældarkeppni og að mestu leyti keppni í vinsælum skoðunum (og loforðum). Ég passa frekar illa í þessa keppni vegna þess að ég hef, því miður, svo mikið af óvinsælum skoðunum.  Ég trúi á betrun í refsivist og vil að við leggjum okkur meira fram og látum okkur málefni fanga varða. Til þess að geta gert það þurfum við að tala við og kynnast föngunum sjálfum, enda er það stefna Pírata að ákvarðanir skuli teknar í samráði við þá sem ákvörðun hefur áhrif á.

Þurfum við virkilega á fleiri glæpamönnum að halda? Nei, hættum þá að framleiða þá, hvort heldur er innan eða utan fangelsana. Hættum þessu afskiptaleysi, virkjum fólk til bata og styðjum hvern og einn einstakling til að verða að betri manni. Sýnum meiri mannúð.

Ást og friður

Alla

Píratar læra af mistökum sínum

Grein sem birtist í Akureyrarblaðinu 18. apríl 2013

Við Píratar störfum eftir Píratakóða sem við höfum til hliðsjónar í starfi okkar og hinu daglega Píratalífi. Í  Píratakóðanum kemur meðal annars fram að Píratar eru gagnrýnir. Það gildir bæri útávið og innávið. Við erum gagnrýnin á samfélagið og skeytum ekki um pólitíska rétthugsun. Við hlýðum ekki í blindni. – við erum líka gagnrýnin á okkur sjálf og viljum læra af mistökum okkar.

Gerðum við Píratar mistök?

Eitt af sérkennum Pírata er áhersla á beint lýðræði og opin vinnubrögð. Frambjóðendur flokksins voru valdir í þessum anda. Prófkjör Pírata fór þannig fram að allir gátu skráð sig sem frambjóðendur á kosningakerfi Pírata á x.piratar.is. Skráðir meðlimir flokksins röðuðu síðan frambjóðendum í forgangsröð með svipuðum hætti og gert var í kosningum til Stjórnlagaráðs. Þetta prófkjör skilaði meðal annars þeirri ánægjulegu niðurstöðu að kynjahlutfall oddvita varð jafnt.

Við Píratar viljum varðveita lýðræðisást okkar. Við viljum áfram gefa öllum tækifæri til þátttöku, enda eru það mannréttindi að taka þátt í stjórnmálastarfi og gefa kost á sér til starfa fyrir land og þjóð. Það er ekki í anda okkar hugsjóna að kanna með kerfisbundnum hætti fortíð þeirra sem vilja gefa kost á sér til starfa fyrir Pírata. Við viljum ekki setja upp girðingar sem geta fælt frá okkur gott fólk, jafnvel þótt það eigi fortíð, því mörg okkar læra dýrmæta lexíu í gegnum erfiða reynslu og feilspor í lífinu og verðum betri manneskjur fyrir vikið. Þá er mikilvægt að fá annað tækifæri. En svo eru auðvitað líka þeir sem aldrei taka sönsum. Píratar vilja láta félagsmönnum sínum eftir að ákveða hverjum þeir treysta til að taka sæti á framboðslistum. Því fylgir ábyrgð sem hvert og eitt okkar verður að axla og við höfum mikið lært undanfarna sólarhringa.

Áhrif umræðunnar á framboðið

Mun umræðan undanfarna sólarhringa hafa áhrif á framboð Pírata? Því get ég ekki svarað fyrr en eftir lokun kjörstaða á kjördag. Hafi traust til mín og annarra Píratakapteina beðið slíka hnekki, að ekkert okkar nær kjöri, mun það vissulega hafa áhrif á framgang okkar helstu hugsjónamála og það yrði mér og okkur öllum mjög þungbært. Við njótum nokkurar sérstöðu þegar kemur að stefnumálum og því ólíklegt að helstu hugsjónamál okkar komist á dagskrá nema okkar sjálfra njóti við.

Píratar eru ekki sérlega valdasækið fólk. Við bjóðum ekki fram til höfuðs öðrum stjórnmálaflokkum og við viljum starfa með öllum sem eru reiðubúnir að hlusta á okkar sjónarmið. Við viljum vinna með fólki en ekki á móti því. Það er okkur í rauninni ekki sérstakt kappsmál að komast í ríkisstjórn. Við viljum aðeins að rödd okkar fái að heyrast.

Af hverju erum við að þessu?

Píratar hafa siðferðilegt hugrekki til að ræða opinskátt um mál sem brenna á mörgum undir niðri en komast sjaldan upp á yfirborðið; viðkvæm mál. Þeir sem búa, eða hafa alist upp í litlum plássum á landsbyggðinni kannast margir við þá tilfinningu að veigra sér við að viðra ‘rangar’ skoðanir. Umhverfissinnar í stóriðjuplássi eiga undir högg að sækja og velja oft þögnina frekar af ótta við atvinnumissi, fordæmingu eða jafnvel útskúfun úr samfélagi sínu. Mér virðast til dæmis fáir frambjóðendur þora að taka harða afstöðu gegn stóriðju ef þeir eru í framboði í kjördæmum þar sem stóriðja er á dagskrá, jafnvel þótt þeir séu í framboði fyrir yfirlýstan umhverfisverndarflokk.

Ég er sjálf alin upp í sjávarplássi og veit hve erfitt það getur verið að synda á móti straumnum með ‚rangar‘ skoðanir. Píratar hika hins vegar ekki við að synda á móti straumnum ef þeir trúa á málstað sinn. Við þorum að vera andvíg stóriðju, líka þar sem það er óvinsælt. Við viljum ræða opinskátt um fátækt á Íslandi, vandamál sem hefur að miklu leyti fallið í skuggann af alvarlegum fjárhagsvanda millistéttarinnar. Við viljum ræða af mannúð um aðstæður fíkla á Íslandi og teljum að heilbrigðiskerfið sé betur fallið en refsivörslukerfið til að takast á við fíkniefnavanda þeirra. Nei, Píratar eru ekki bara internetflokkur, Þótt við höfum vissulega marga tækni- og internetnörda innanborðs og séum partur af alþjóðlegri hreyfingu sem spratt uppúr upplýsingabyltingunni, þá brenna líka mörg annarskonar mál á okkur. Ég vona að storminn fari að lægja og við fáum tækifæri til að kynna þau betur.